'Umhverfisvernd' Tag Archive

okt 16 2017

Glapræði í Ófeigsfirði


Viðar Hreinsson

1. Gróðamannaþáttur

Áform eru uppi um að virkja Hvalá í Ófeigsfirði og raska Ófeigsfjarðarheiði með uppistöðulónum. Virkjunarmenn láta sem þeir séu að leysa Vestfirði og sérstaklega Árneshrepp á Ströndum úr ánauð.

Sem betur fer er í vaxandi mæli farið að kalla hlutina réttum nöfnum. Hér er græðgi á ferð, hagnaðarvon fyrirtækis sem smíðar sér yfirskin eftir hentugleikum. Það ætti að vera löngu liðin tíð að hagnaður sé eini mælikvarðinn á það hvort lagt skuli í tilteknar framkvæmdir eða ekki. Einber hagnaðarvon knýr virkjunarfyrirtækið áfram og hræsni að segja að það beri umhyggju fyrir umhverfinu, Vestfjörðum eða Árneshreppi. Ekki er nóg að segja vatnsaflsvirkjanir grænar því það á ekki að fórna náttúruverðmætum fyrir orkuframleiðslu. Það á ekki að auka sífellt orkuframboð eins og stöðugur vöxtur sé sjálfsagt mál, heldur þarf að draga úr allri orku- og auðlindasóun, ekki síst þeirri sem felst í ofneyslu og græðgi. Það hlýtur að duga að virkja í þeim mæli að það gagnist einungis nærsamfélögum í gegnum eignarhald og tekjur.

Fyrirtækið Vesturverk er að meirihluta í eigu HS Orku, sem aftur er í meirihlutaeign Alterra (áður hið alræmda Magma Energy sem átti heima í skúffu í Svíþjóð), fyrirtækis Ross Beaty sem áður rak námuvinnslu en flaggar nú búddisma og grænum viðhorfum í orkuvinnslu. Vesturverk hefur séð sér leik á borði að nýta erfiða stöðu Árneshrepps og veifar gylliboðum um bættar samgöngur, þriggja fasa rafmagn og nettenginu. Skiljanlega eru forsvarsmenn hreppsins langþreyttir á að tala fyrir daufum eyrum stjórnvalda, en kjánalegt er að halda að þessi virkjun sé töfralausn. Hún færir mestan hagnað eigendum sem eru víðsfjarri og fáeinum heimamönnum uppgrip og hressilegt þenslufyllerí. Eigendur Ófeigsfjarðar fá ugglaust dável greitt fyrir vatnsréttindi. Ekkert við þessa framkvæmd mun auka lífsgæði svæðisins til langframa heldur þvert á móti. Hvalárvirkjun verður fyrst og fremst mikið rask, með stíflum, lónum, skurðum, vegum og raflínum.

Aðferð stórgróðamannanna er vel þekkt eftir að Naomi Klein gaf út bók sína The Shock Doctrine fyrir nokkrum árum, um það þegar stórkapítalið nýtir aðstæður í kjölfar hamfara til að koma árum sínum fyrir borð og græða á uppbyggingunni. Sjá má sömu aðferð víða, ójafnvægi og óvissuástand eru nýtt til að ryðja vafasömum framkvæmdum leið. Það er svipuð aðferð og þegar Donald Trump og félagar skapa vísvitandi óreiðu til að treysta völd sín meðan athyglin beinist að ruglinu. Á sama hátt nýta gróðamenn óttann við að byggðarlag fari í eyði og lofa gulli og grænum skógum svo þeir fái að virkja. Blásið er upp neyðarástand og sett fram fölsk lausn. Umræðan er leidd afvega og samhengi brenglað þegar látið er sem verið sé að leysa vanda sveitarfélagsins þegar markmiðið er gróði orkufyrirtækisins. Read More

Náttúruvaktin