júl 15 2005

Athugasemdir við tillögu að matsáætlun vegna álvers Alcoa-Fjarðaráls í Reyðarfirði – Eftir Guðmund Beck

Beck 

Ég undirritaður, Guðmundur M. H. Beck (kt. 060450-2939) Kollaleiru Reyðarfirði, geri eftirfarandi athugasemdir við Tillögu að matsáætlun vegna álvers Alcoa-Fjarðaráls í Reyðarfirði.

I. Í byrjun er rétt að benda á nokkrar rangfærslur í skýrslunni. Á bls. 4 er talað um að ,, … nýta þannig hreinar orkulindir til að byggja upp hagkvæman orkufrekan iðnað á Íslandi.“ Kárhnjúkavirkjun verður aldrei hrein orkulind hversu oft sem þau ósannindi verða endurtekin á prenti. Jökulsá á Brú er aurugasta fljót landsins og ber fram í venjulegu árferði u.þ.b. 10 milljónir tonna af aur á hverju ári. Þessum aur ætlar Landsvirkjun að safna saman á bökkum Jökulsár og láta fjúka yfir gróður, menn og skepnur á Austurlandi um ókomin ár. Sökkva 35 km2 gróins lands undir jökulleir með tilheyrandi rotnun. Enginn hefur svarað því hvernig á að leysa þann vanda komandi kynslóða að taka við 57 km2 leirflagi undan Hálslóni sem getur fyllst í einu hamfarahlaupi. Allt tal um hreina orku er því hrein ósannindi sem menntuðum mönnum er ekki sæmandi að bera fyrir íslenzka þjóð. Að því er varðar hagkvæmni þá skuldið þið þjóðinni skýringar á því fyrir hverja sú hagkvæmni er, nú þegar höfuðatvinnuvegir landsins eru að sligast undan þessu fjárhættuspili.

Á bls. 8 er fullyrt að svæði það sem verksmiðjan er reist á sé í eigu ríkisins. Þetta er alrangt. Sómastaðir og Sómastaðagerði eru Kristfjárjarðir sem hvorki einstakir valdsmenn né ríkisstjórn hafa heimild til að ráðstafa. Þær eru Reyðarfjarðarhrepps ævarandi fátækraeign sem enginn hefur leyfi til að eyðileggja í þágu erlends auðvalds. Hólmar, Flateyri og Staðarhraun voru eign Hólmakirkju, en Danakóngur stal þeim af Hólmasöfnuði við siðaskipti og ekki hefur þeim enn verið skilað til safnaðarins (kirkjunnar). Öll hryðjuverk Alcoa-Fjarðaráls á þessu stolna landi eru því fullkomlega ólögleg og munu samkvæmt því fá þann endi sem þau verðskulda.
Á sömu blaðsíðu eru fullyrðingar um landbúnað, dýralíf og veiðar. Það eiga skýrsluhöfundar að vita, ef þeir vilja, að búendur voru reknir burt bæði frá Sómastöðum og Sómastaðagerði árið 1982. Alcoa-Fjarðarál er að reka burt af tveim heimilum til viðbótar auk þess sem sveitarfélagið er að reyna að koma undirrituðum í burtu líka með niðurrifi húsa og reglugerðarofsóknum. Þetta svarar til þess að 300 íbúar Akureyrar væru reknir burt til að koma fyrir erlendum atvinnurekstri. Undirritaður og hans forfeður hafa slegið og nytjað land á þessum slóðum og er honum jafn vel kunnugt um að dýralíf á þessum slóðum var ekkert fáskrúðugra en gerist og gengur á sambærilegum svæðum annars staðar í fjórðungnum. Þessi hryðjuverk Alcoa-Fjarðaráls ógna öllu dýrlífi við innanverðan fjörðinn, allt frá Hólmum og inn í fjarðarbotn. T.d. er búið að hrekja kríuna nær alveg úr firðinum og með henni fara þeir fuglar sem hafa notið verndar hennar, eins og sandlóan. Hvað skýrsluhöfundar eiga við með orðalaginu að veiðar séu ,,ekki umtalsverðar“ veit enginn, en hitt er víst að um miðja nítjándu öld þegar menn höfðu ekki annað en orfið og árabátinn þá brauðfæddi þessi fjörður fjögur hundruð manns og hann getur gert það enn og gott betur ef menn haga sér ekki eins og minkur í hænsnahúsi.

II. Um mengunarvarnir
Í tillögunni er að finna þessa endemissetningu. ,,Útblástur verður hreinsaður með nýjustu gerð af þurrhreinsivirkjum. Mismunandi lausnir til að standast kröfur um loftgæði verða ræddar í matsskýrslunni, bæði með og án vothreinsibúnaðar.“ Það eiga allir að vita, sem ekki hafa tileinkað sér hátterni strútsins, að vart er hægt að finna þann stað á landinu sem er jafn óheppilegur fyrir mengandi álbræðslu og Reyðarfjörður. Það staðfesta veðurfarsrannsóknir Veðurstofu Íslands og því er það umhverfishryðjuverk að hleypa út 4000 tonnum af brennisteinstvíoxíði auk flúorsambanda yfir byggðina í Reyðarfirði. Meira en tímabært er fyrir þá sem að slíkum áformum standa að gera sér grein fyrir því að slíkt verður ekki liðið. Hvernig ætla þeir sem að þessum áformum standa að samræma þau 1.grein laga nr. 44 frá 1999 um náttúruvernd? Hvernig ætla þeir að útskýra það að ekki mátti reka hér litla fiskmjölsverksmiðju að sumarlagi vegna mengunar en telja fullboðlegt að ausa út mengunarefnum frá 346.000 tonna álveri? Hver eru skilaboð skýrsluhöfunda til þeirra barna sem eiga eftir að tærast upp úr astma og krabbameini vegna loftmengunar í Reyðarfirði.
Mengun af völdum fjölhringa aromatískra kolefna (PAH) er algjörlega ólíðandi nú þegar íslenzkri matvælaframleiðslu stafar sífellt meiri ógn af mengun frá meginlandi Evrópu. Margskonar fiskmeti hefur verið nýtt úr firðinum s.s. þorskur, ýsa, ufsi, koli, lúða, hrognkelsi, síld, rækja, ígulker, kræklingur og svo frv. Skýrsluhöfundum ber skylda til að gera grein fyrir eituráhrifum álbræðslunnar á þessa nytjastofna.
Nú þegar hafa hin ólöglegu hryðjuverk Alcoa-Fjarðaráls spillt u.þ.b. 200 hekturum lands í Reyðarfirði og eiga eftir að spilla öðrum 200 með háspennulínum. Samt tala þeir sem að þessu standa sí og æ um að þessi hryðjuverk hafi ,,ekki umtalsverð áhrif“ sbr. bls. 4 og 16 í skýrslunni. Að baki liggja síðan hryðjuverkin við Kárahnjúka sem ekki eiga sér nokkra hliðstæðu í sögu þjóðarinnar.

III. Efnahagsleg áhrif
Kárahnjúkavirkjun og álverksmiðjan eru efnahagslegt hryðjuverk sem þegar veldur fyrirtæjum og fjölskyldum ómældum hörmungum. Höfuðatvinnuvegir þjóðarinnar ramba á barmi gjaldþrots vegna gengisskráningarinnar. Ástæðan er milljarða lántökur í erlendum gjaldmiðlum sem engar innsæður verða fyrir, en valda vaxtaokri, okri á húsnæði og innflutningi á þrælum til að kynda falsbréfabálið.
Í skýrslunni er talað um ,,núlllausn“ sem lýsir ráðaleysi íslenzkra valdsmanna. Einu úrræði þeirra eru að hverfa aftur til Stalínisma fyrir íslenzkt atvinnulíf þar sem veittur er 100 milljarða ríkisstyrkur handa einu erlendu hráefnisfyrirtæki sem byggja á upp með innfluttum þrælum. Skýrluhöfundar munu væntanlega lýsa því hvaða sambærilega styrki (100 milljarða) fyriritæi í öðrum landshlutum fá til að styrkja og stofna til rekstrar. Ef þeir ekki sýna þær áætlanir þá liggur ljóst fyrir að þessi ólöglegu hryðjuverk sem nú eru í gangi á Austurlandi séu einungis ófyrileitin hagsmunapólitík unnin til að tryggja atkvæði og falsbréfasölu. Skýrsluhöfundum ber skylda til að gera þjóðinni grein fyrir þeim verðmætum sem hér er fórnað fyrir skammtímagróða eins erlends fyritækis þ.e. 60 km2 af hálendinu auk u.þ.b. 600 ha undir verksmiðju og háspennulínur. Þetta land hefur hvergi verið metið sem einnar krónu virði og sýnir það bezt virðingarleysi þeirra sem að þessum hryðjuverkum standa fyrir landinu sem hefur verið trúað fyrir að skila til komandi kynslóða.

IV. Félagsleg áhrif
Nú þegar hafa hin félagslegu hryðjuverk litið dagsins ljós. Áður var nefndur brottrekstur fólks af svæðinu. Búið er að leggja það atvinnusamfélag í rúst sem hér var. Öllum fiskveiðiheimildum rænt burt af staðnum, fiskmjölsverksmiðju lokað, frystihúsi lokað bæði hér og á Stöðvarfirði, öllum einstaklingsrekstri útrýmt með skipulögðum aðgerðum. Þar er sama hvar borið er niður, í verzlun, iðnaði, handverki, ferðaþjónustu eða sjávarútvegi. Alcoa-Fjarðarál skal hinsvegar fá 100 milljarða ríkisstyrk í gegnum Landsvirkjun til mestu hryðjuverka Íslandssögunnar. Hvað bauð íslenzka ríkisstjórnin innlendum einstaklingsrekstri? Svar: Vaxtaokur og gengispíningu. Þeir póltíkusar sem að þessum hryðjuverkum standa hafa fullyrt að þau séu gerð fyrir atvinnulíf á Austurlandi. Matstillagan afhjúpar þessa fullyrðingu sbr. bls. 5 ,,byggð á hámarks sjálfvirkni“ sem sagt eins fá störf eins og hægt er. Bls. 9 er aðeins gert ráð fyrir eitthundrað manns af Austurlandi starfi við hryðjuverkin. Líklegt er að nú þegar sé búið að ryða út jafn mörgum störfum úr fjórðungnum og skýrluhöfundar reikna til þátttöku í hryðjuverkunum. Með öðrum orðum einn milljarður af opinberu fé fyrir hver Austfirðing sem leiðist út í hryðjuverkastarfssemi. Skýsluhöfundar eru beðnir að gera grein fyrir því hvort vænta megi þess að fíknefnasalar fá álíka ríkisstyrk til sinnar hryðjuverkastarfsemi.
Samkvæmt síðustu fréttum frá samtökum iðnaðarins hafa tapazt 4000 störf í iðnaði vegna hágengis íslenzku krónunnar sem rekja má beint til Kárhnjúkavandans. Þess er auðvitað vænzt að þetta verði reiknað með þegar þjóðinni verður birt hagkvæmnismatið af hryðuverkunum. Skýrluhöfundar eru ennfremur beðnir að gera grein fyrir því hverjir eiga að borga botnlausar skuldir austfirzkra sveitarfélaga sem orðið hafa til vegna þess að þeim hefur verið att út í ótímabærar fjárfestingar.

Kollaleiru 10. júli 2005
Guðmundur M. H. Beck

Berizt til Hauks Einarssonar
hjá Hönnun h.f.

Náttúruvaktin