mar 02 2007

Alvarlegar athugasemdir við fréttaflutning RÚV af skemmdarverkum í Hafnarfirði

Eggin.is
28 febrúar 2007
Höfundur: Ritstjórn

Saving Iceland hafa sent frá sér harðorða fréttatilkynningu vegna fréttaflutnings Ríkisútvarpsins þann 21. febrúar sl., af skemmdarverkum ELF, Earth Liberation Front, í Hafnarfirði í janúar. Skemmdarverkin voru unnin á þrem vinnuvélum á byggingarsvæði þar sem framkvæmdir við skólpdælustöð standa yfir, en munu hafa verið ætluð álveri Alcan í Straumsvík.

Saving Iceland gagnrýna RÚV harðlega fyrir að segja ELF bera ábyrgð á heimasíðunni SavingIceland.org, og benda á að ELF eiga sína eigin heimasíðu, EarthLiberationFront.com, auk þess sem Saving Iceland segjast ekki vita betur en að ELF hafi fram að þessu haldið sig einkum við Bandaríkin og ekki skipt sér sértaklega af umhverfismálum á Íslandi. Einnig benda þau á að frétt Saving Iceland af málinu hafi verið höfð eftir heimasíðu Earth First!, þar sem hver sem er geti greint frá aðgerðum. RÚV hafi hins vegar haldið áfram að vitna í Saving Iceland sem heimild, og þannig komið óbeinni sök á þau.

Saving Iceland líta það alvarlegum augum að vera bendluð við mál sem er rannsakað sem glæpur, og að RÚV skuli ekki kanna heimildir sínar betur. Netfang Saving Iceland sé auðfinnanlegt á heimasíðunni, en samt hafi RÚV ekki séð tilefni til að hafa samband og spyrjast fyrir um málavöxtu áður en fréttirnar voru fluttar.

Í hádegisfréttum 21. febrúar var Ólafur Páll Sigurðsson nefndur sem „talsmaður Saving Iceland“ og í því samhengi vilja samtökin koma eftirfarandi á framfæri: Ólafur er sannarlega einn af stofnendum Saving Iceland, og var einn af talsmönnum mótmælabúðanna sumarið 2005. Síðan þá hafa margir talað fyrir hönd samtakanna, sem hafi þá stefnu að láta þetta hlutverk ganga frá manni til manns, en festast ekki við neinn. Ólafur hafi þannig aldrei talað fyrir hönd samtakanna sumarið 2006, og hefur ekki verið auglýstur sem talsmaður þeirra síðan. Saving Iceland segjast telja vafasamt að draga hann sérstaklega út og nefna nafn hans án þess að hafa samband við hann sjálfan.

Saving Iceland vilja nota tækifærið til að taka fram að fréttin af skemmdarverkunum hafi verið á heimasíðu þeirra í tæpar fjórar vikur áður en íslenskir fjölmiðlar sáu ástæðu til að taka hana upp. Saving Iceland velta því fyrir sér hvort fréttaflutningurinn núna sé til þess ætlaður að vekja samúð með Alcan í aðdraganda kosninga um stækkun álversins í Straumsvík. Saving Iceland spyrja: Er Ríkisútvarpið að reyna að hafa áhrif á kjósendur í Hafnarfirði í komandi íbúakosningum, með því að flytja þessa gömlu frétt núna?

Ef sú er raunin, segja samtökin, hefur fréttastofa RÚV brugðist hlutleysisskyldu sinni og er sek um að sverta lögmæt samtök og einstakling sem ekkert af því hefur verið sannað á, sem greint er frá í fréttinni. Ef sú er raunin, þá tekur fréttastofa RÚV virkan þátt sem verkfæri fyrir öfgaöflin sem vilja rægja málstað náttúruverndar á Íslandi. Saving Iceland segjast treysta Hafnfirðingum til þess að sjá í gegn um grófan áróður þegar þeir ganga til atkvæða í mars.

Saving Iceland sjá sig knúin til að krefjast þess að fréttastofa RÚV biðjist opinberlega afsökunar á rangfærslum sínum og flytji fréttina leiðrétta.

SavingIceland.org er vefsíða sem flytur fréttir af umhverfismálum á Íslandi og bera ekki ábyrgð á því sem þau segja fréttir af, nema þau taki það fram í fréttinni. Samtökin segjast hafa flutt þessa frétt án þess að bera ábyrgð á skemmdarverkunum, og segjast hvorki leggja blessun sína né bölvun yfir þau, frekar en aðrar fréttaveitur sem hafa flutt fréttir af sama atburði.

——————————————————-
Þessi frétt er þýdd og endursögð upp úr fréttatilkynningu Saving Iceland frá 21. febrúar sl. Saving Iceland hafa áður sent frá sér fréttatilkynningu þar sem fréttastofa Ríkisútvarpsins er gagnrýnd fyrir óvandaðan fréttaflutning.
——————————————————-
Ritstjórn Eggjarinnar vill koma því á framfæri, að í frétt okkar af málinu þann 20. febrúar sl. var það heimasíða Saving Iceland sem við vitnuðum í sem heimild, en ekki heimasíða Earth First! Hér með er beðist velvirðingar á því.

http://www.eggin.is/content/view/459/40/

Náttúruvaktin