ágú 04 2007

‘Atvinna í boði’ eftir Önnu Björk Einarsdóttur

auglysingVar uppspunnin auglýsing eftir atvinnumótmælendum heimildin á bak við frétt ríkissjónvarpsins um að atvinnumótmælendur fái greitt fyrir störf sín? Einn af höfundum auglýsingarinnar spyr í eftirfarandi grein og veltir fyrir sér viðhorfum til mótmælenda. 

 

Menningarblað/Lesbók
Laugardaginn 4. ágúst, 2007

Nennir þetta fólk ekki að vinna?! „Þegar umræðan um atvinnumótmælendur er skoðuð kemur fljótt í ljós þversögn því að á sama tíma og forskeytið atvinna er notað í niðrandi tón um mótmælendurna eru þeir sífellt sakaðir um að nenna ekki að leggja stund á atvinnu.“

Var uppspunnin auglýsing eftir atvinnumótmælendum heimildin á bak við frétt ríkissjónvarpsins um að atvinnumótmælendur fái greitt fyrir störf sín? Einn af höfundum auglýsingarinnar spyr í eftirfarandi grein og veltir fyrir sér viðhorfum til mótmælenda.

„Atvinnumótmælendur vantar núna. Reynsla æskileg en allir velkomnir. Borgað samkvæmt taxta, bónus fyrir kranaklifur. Sendið umsókn á atvinnumotmaelandi@gmail.com.“

Þessi smáauglýsing birtist í Fréttablaðinu og á Vísi.is fimmtudaginn 26. júlí. Sama kvöld var því slegið upp í kvöldfréttum RÚV að mótmælendur á vegum Saving Iceland fengju greitt fyrir þátttöku í aðgerðum og jafnvel aukalega fyrir handtökur. Ekki fylgdi sögunni hver stæði á bak við greiðslur til mótmælenda né hversu háar fjárhæðir væri um að ræða.

Í fréttinni var þess getið að talsmenn Saving Iceland hefðu hafnað því að greitt væri fyrir mótmæli og handtökur vegna þeirra. Það kom þó ekki í veg fyrir að orðrómur um að þeir væru á launaskrá kæmist á kreik. Moggabloggarar tóku til að mynda frétt RÚV strax upp á sína arma og tengdu við aðra á Morgunblaðsvefnum sem fjallaði um aðgerðir Saving Iceland þennan sama dag við Hellisheiðarvirkjun.

Um fréttina „Átta mótmælendur handteknir“ (mbl.is 26.7. 2007) skrifuðu ellefu manns á bloggvef Morgunblaðsins en mun fleiri tóku þátt í spjalli inni á bloggsíðunum sjálfum. Einn þeirra sem skrifaði um fréttina var Stefán Friðrik Stefánsson, nokkuð þekktur bloggari, hægrimaður og fastapenni á vef sus.is, Sambands ungra sjálfstæðismanna. Hann sagði að í frétt ríkissjónvarpsins um að mótmælendur „á vegum Saving Iceland“ fengju greitt fyrir aðgerðir sínar og þá sérstaklega „ef þeir væru handteknir af lögreglu“ væru „sláandi upplýsingar“ sem tækju „undir sögusagnir þess efnis að hér [væri] um atvinnumótmælendur að ræða að stærstum hluta.“ Stefán Friðrik vísar í frétt RÚV en þar segir orðrétt: „Mótmælendur á vegum samtakanna Saving Iceland fá peningagreiðslur ef þeir eru handteknir af lögreglu, samkvæmt heimildum fréttastofu Sjónvarps.“ Hvergi kemur fram hvaða heimildir fréttastofan hefur í höndunum en Stefán Friðrik svarar ábendingu annars bloggara um það með orðunum: „Sjónvarpið leggur ekki upp með þetta sem aðalfrétt nema hafa traustar heimildir fyrir sínum upplýsingum.“ Og þarna hafið þið það. Það hljóta að vera traustar heimildir fyrir því.

Játning

Atvinnuauglýsingin hér að ofan birtist sama dag og fréttin á RÚV og ekki þarf mikið hugarflug til að álykta sem svo að „heimildir“ RÚV fyrir því að mótmælendur fái greitt fyrir störf sín sé þessi auglýsing enda tengdu sumir Moggabloggarar hana við fréttina. Fyrir hönd RÚV vona ég þó að þeir hafi fleiri heimildir í höndunum því hér með upplýsi ég ykkur, lesendur góðir, um að þessi auglýsing er uppspuni. Ég játa að hafa ásamt fleirum skrifað og keypt auglýsinguna. Gjörningurinn átti að gera grín að og um leið varpa ljósi á og ef til vill afhjúpa hugtakið og skammaryrðið „atvinnumótmælandi“. Áhrifin af því að fjölmiðlar og álitsgjafar Moggabloggsins tóku málið í sínar hendur sáum við hins vegar ekki fyrir.

Írónían í auglýsingunni er augljós þeim sem á annað borð skilur slíkt en frasar á borð við að „borgað sé samkvæmt taxta“ og að „bónus fáist fyrir kranaklifur“ eru svo augljóslega út í hött að furðulegt er ef einhver tók það alvarlega. Að setja auglýsinguna fram í þessum tón, þ.e. eins og um raunverulegt atvinnutilboð væri að ræða, átti að sýna fram á að hugtakið „atvinnumótmælandi“ er í besta falli hlægilegt enda fengum við nokkur svör við auglýsingunni þar sem fólk hrósaði okkur fyrir fyndinn gjörning og spurði hvort greiddur væri bílastyrkur eða önnur hlunnindi. Við fengum hins vegar engar fyrirspurnir frá fjölmiðlum. Ef þessi auglýsing var heimild fréttastofu RÚV var ekki gerð nein tilraun til að grennslast fyrir um áreiðanleika hennar.

Heimildir fréttastofunnar, eða heimildaleysi, er þó ekki það sem vekur mesta athygli á þessu máli. Viðbrögð fólks við fréttinni eru mun áhugaverðari því þau lýsa vel þrá fólks eftir slíkum fréttum og um leið löngun fréttastofunnar til að færa fólki slíkar fréttir og uppfylla þá þrá. Þegar blogg, pistlar og umræða um málið er skoðuð nánar kemur nefnilega í ljós að viljinn til þess að „afhjúpa“ annarlegar hvatir á bak við aðgerðir mótmælendanna sem hafa látið til sín taka á höfuðborgarsvæðinu nú í sumar er ansi mikill eins og Illugi Jökulsson benti á í pistli síðastliðinn laugardag (Blaðið 28.7. 2007).

Moggablogg

Orðið atvinnumótmælandi kom fyrst fram, eftir því sem næst verður komist, í umfjöllun fjölmiðla vorið 2005 um væntanleg mótmæli samtakanna Saving Iceland þá um sumarið. Sem dæmi má nefna að þá birtist frétt um það að stjórnvöld væru á varðbergi vegna „fyrirhugaðrar komu atvinnumótmælenda“ til landsins (Fréttbl. 7.6. 2005). Hugtakið atvinnumótmælandi var ekki útskýrt í fréttinni en stuttu síðar birtist einskonar skilgreining á því í pistli eftir Jón Kaldal í Fréttablaðinu. Þar segir hann að atvinnumótmælendur séu fólk „sem ferðast um heiminn í leit að mótmælum, líkt og málaliði í leit að stríði. Hann á sér marga kollega sem hafa skilið eftir sig sviðna jörð í Davos, Genúa, Seattle og á fleiri stöðum þar sem þeir hafa komið saman og blásið til átaka við lögreglu undir yfirskini mótmælaaðgerða.“ (Fréttabl. 27.7. 2005). Þá var í Morgunblaðinu talað um að þessi hópur væri ekki „knúinn áfram af hugsjón, heldur fremur af ævintýramennsku og spennufíkn.“ (Mbl. 28.7. 2005).

Strax sumarið 2005 og einnig sumarið 2006 var tónninn í umfjöllun um aðgerðir róttæklinganna sleginn. Fjölmiðlar birtu stuttar fréttir og slógu upp allskyns fyrirsögnum um atvinnumótmælendur og aðgerðir þeirra. Til að mynda birtist frétt um það að einn mótmælenda hefði verið handtekinn við Kárahnjúka vegna gruns um að hafa fíkniefni undir höndum. Honum var sleppt stuttu síðar og sagt að málið væri í rannsókn (Mbl. 2.8. 2006). Það birtist aldrei nein ákæra og engar sögur fara af frekari rannsókn málsins en fréttirnar standa enn og myndin sem dregin er upp er sú að mótmælendur séu dópistar og hipparæflar sem nenni ekki að vinna, vilji bara reykja hass og slappa af í útilegu.

Fréttin af því að fólk fái greitt fyrir mótmæli er af þessum toga. Upphrópunum og fyrirsögnum er slegið fram í virtum fjölmiðlum á borð við Ríkissjónvarpið, Morgunblaðið og Fréttablaðið. Sjaldan fær almenningur að vita um niðurstöðu mála og aldrei draga fjölmiðlar til baka það sem áður hefur verið slegið upp. Fréttum er ekki fylgt eftir, hvorki í fíkniefnamálinu né þegar kemur að greiðslum fyrir handtökur, og svo eru upphrópanir og yfirlýsingar fjölmiðla teknar upp af misvitrum bloggurum og dúkka upp í máli ólíklegasta fólks. Ef RÚV hefur fjallað um málið hljóta nefnilega að vera „traustar heimildir“ fyrir hendi.

Atvinna

Þegar umræðan um atvinnumótmælendur er skoðuð kemur fljótt í ljós þversögn því að á sama tíma og forskeytið atvinna er notað í niðrandi tón um mótmælendurna eru þeir sífellt sakaðir um að nenna ekki að leggja stund á atvinnu. Oftar en ekki heyrist frasinn „þarf þetta fólk ekkert að vinna“ þegar róttækir mótmælendur eru til umræðu en þess má geta að eitt af Moggabloggunum ellefu sem var tengt við fréttina af aðgerðum mótmælenda við Hellisheiðavirkjun bar einmitt þá yfirskrift. Þótt flestir hafi bloggað um að nú væru komnar sannanir fyrir því að þetta væru atvinnumótmælendur því þeir fengju borgað fyrir aðgerðirnar voru samt sem áður nokkrir sem sáu ástæðu til að draga fram slagorðið gamalkunna. Atvinnumótmælendur fá greitt fyrir mótmælaaðgerðir í sömu mund og þeir nenna ekki að vinna.

Þegar notkunin á hugtakinu „atvinnumótmælandi“ er skoðuð kemur ennfremur í ljós að hægrimenn á borð við Stefán Friðrik nota það gjarnan til þess að draga úr trúverðugleika þeirra sem standa að mótmælunum. En þá mætti spyrja á móti hvort nokkuð sé athugavert við það að fá greitt fyrir mótmæli samkvæmt heimspeki frjálshyggjunnar. Ef til vill segir þessi tvískinnungur meira um þá heimspeki sem segir græðgi góða og gengur út frá því sem vissu að menn geri aldrei neitt nema til þess að skara eld að sinni köku heldur en um mótmælendurna. Því ef þessir menn tryðu í raun á eigin heimspeki myndu þeir varla halda því fram að neitt skammarlegt væri að fá borgað fyrir mótmæli, eða er það skammarlegt að Erna Indriðadóttir skuli tala máli Alcoa og fá borgað fyrir það? Það mætti að minnsta kosti rökstyðja það að Erna væri atvinnumeðmælandi þar sem hún fær vissulega borgað fyrir að vera talsmaður álrisans ameríska.

Í fréttum af mótmælum og í viðbrögðum fólks við þeim fréttum kemur fram kergja og pirringur í garð fólks sem trúir að það geti haft áhrif á samfélag sitt og mótað framtíð þess. Reynt er að sverta aðgerðir og heilindi fólks með dylgjum um barnaskap, og histeríska tilfinningasemi „gamalla ullarpeysuhippa sem hafa aldrei stigið fæti út fyrir 101 Reykjavík“ eins og það er orðað á Barnalandi.is. Og það eru ekki aðeins hægrisinnaðir bloggarar og geðvondir þátttakendur í spjallborði Barnalands sem taka yfirlýsingar fjölmiðlanna gagnrýnislaust upp. Hér í Lesbókinni birtust í ágúst á síðasta ári tvær greinar þar sem svipuðum skoðunum um mótmælendur var haldið fram. Rithöfundurinn Stefán Máni og bókmenntafræðingurinn Úlfhildur Dagsdóttir bergmáluðu nefnilega ýmis slagorð og fordóma gagnvart baráttufólki í greinum sínum.

Stefán Máni gagnrýndi þá sem mótmæltu uppi á Kárahnjúkum sumarið 2006 og talaði um að hann persónulega missti áhugann þegar „vinstrimenn, hippar, listamenn, grænmetisætur og erlendir stúdentar (með fullri virðingu fyrir þessum hópum) [hoppuðu] hæð sína, [skvettu] málningu (eða var það skyr?), [orguðu] á Austurvelli, [semdu] ljóð og [tjölduðu] uppi á fjalli…“ og Úlfhildur tók undir með honum, fagnaði skrifunum og sagði að með þeim væri „kominn umræðugrundvöllur fyrir þá sem eru með óþol fyrir lopapeysum, dramatík og málningarslettum.“ (Lesbók Mbl. 16.9. 2006.)

Í greininni „Bakkafullur lækur“ gagnrýndi Stefán Máni virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka en sagði jafnframt að mótmælendur hefðu grafið undan málstaðnum. Hann hélt því fram að þegar „sjónvarpsáhorfendur [horfðu] á lopapeysaða nýhippa kýta við löggur uppi á öræfum [væri] eins og [rynni] upp fyrir þeim ljós: Þessir vitleysingar geta ekki haft rétt fyrir sér. Það bara getur ekki verið! Svona getur velviljað og ástríðufullt hugsjónafólk grafið undan eigin trúverðugleika án þess að gera sér grein fyrir skaðanum fyrr en hann er skeður.“ (Lesbók 12.8. 2006.) Hér bendir Stefán Máni á áhugaverða staðreynd. Hann segir að þegar sjónvarpsáhorfendur sjái mótmælendur á skjánum líti þeir kjánalega út. En eins og dæmin úr umfjöllun fjölmiðla um mótmælendur, sem hér hafa verið rakin, sýna er oft og tíðum dregin upp ákveðin mynd af mótmælendum, oft án rökstuðnings eða heimilda. Gæti ekki verið að Stefán Máni sé að rugla saman mótmælendum og fréttaflutningi sjónvarpsstöðva af mótmælendum hér á landi?

Á nákvæmlega sama hátt og Stefán Friðrik grípur fyrirsagnir ríkissjónvarpsins á lofti gera Stefán Máni og Úlfhildur það einnig. Það eina sem skilur málflutning Stefáns Mána og Úlfhildar frá Moggabloggurum og barnalandspennum er að skrif þeirra einkennir jafnvel meiri pirringur og geðvonska út í fólk sem fer af stað til þess eins að hafa áhrif á heiminn sem það býr í. Það er eins og fólk vilji ekki trúa því að það séu til manneskjur sem geri hluti af hugsjóninni einni, án þess að það muni græða á því persónulega, það hljóti að búa annarlegar hvatir að baki. Af hverju þessi pirringur stafar er erfitt að svara en kannski er þetta samviskubit þeirra sem sitja heima og hafa allar réttu skoðanirnar en gera ekkert. Framtaksleysið verður nefnilega svo augljóst þegar unglingarnir einir standa upp í hárinu á auðvaldinu og þurfa að sitja í fangelsi fyrir.

Illugi Jökulsson: „Mótmælum mótmælt“. Blaðið 28.7. 2007.

Jón Kaldal: „Bjarnargreiði við náttúruvernd“. Fréttablaðið 27.7. 2005.

Stefán Friðrik Stefánsson: „Mótmælendum greitt fyrir handtöku sína“. http://stebbifr.blog.is 26.7. 2007.

Stefán Máni: „Bakkafullur lækur“. Lesbók Morgunblaðsins 12.8. 2006.

Úlfhildur Dagsdóttir: „Hnjúkar Kára og blóð úr bergi“. Lesbók Morgunblaðsins 16.9. 2006.

„Átta mótmælendur handteknir“, mbl.is 26.7. 2007.

„Fíkniefni fundust á mótmælanda“, Morgunblaðið 2.8. 2006.

„Mótmælendur við Kárahnjúka: Stjórnvöld á varðbergi“, Fréttablaðið 7.6. 2005.

„Virkjanir og vandræðapésar“, Morgunblaðið 28.7. 2005.

Náttúruvaktin