okt 16 2007

Slorið út um gluggann

Guðmundur Ármansson
30. mars 2007

SENN líður að kosningum í Hafnarfirði þann 31. mars næstkomandi. Í orði kveðnu fjalla þær um skipulagsmál en eins og öllum er ljóst snúast þær um stækkun á álverinu í Straumsvík eður ei.

Nú er ég sem þetta skrifa búsettur á Austurlandi og hef aldrei til Hafnarfjarðar komið og á því víst ekki að skipta mér af þessu máli að mati álunnenda. Að mínu mati er þetta þó ekki einkamál Hafnfirðinga frekar en að Kárahnjúkavirkjun sé einkamál íbúa á Austurlandi.

En því skyldu álrisar sækja svo fast að reisa álbræðslur á Íslandi? Því er til að svara að hvergi í heiminum hafa þeir komist yfir eins ódýra orku sem byggist á að við, hinir venjulegu íslensku neytendur, greiðum niður raforkuna til þeirra í okkar mánaðarlegu raforkureikningum og hvergi í heiminum eru jafn slakar mengunarkröfur gagnvart álverum og að auki enginn mengunarskattur. Verðið á raforkunni til álvera er 4,5 sinnum lægra en til íslenskra neytenda. Álverin borga um 2 krónur fyrir kvst. í dag, þegar við, hinir óbreyttu borgarar, þurfum að reiða fram rúmar 9 krónur á kvst. Jú, það er illt að vera annars flokks þegn í eigin landi. Það skal engan undra að álfurstar séu fljótir að taka slíku kostaboði sem þetta orkuverð er og auk þess eiga orkuna út samningstímann á þessu verði þótt álbræðslu verði hætt. Áhættan þeirra megin er því engin. Og ekki dregur það úr hagkvæmni rekstrarins hjá þeim að geta losað mengun út í umhverfið án nokkurra útgjalda og hún færist beint á losunarheimild Íslands þeim sjálfum að kostnaðarlausu.

Hagnaður Alcan af að reka verksmiðju eftir stækkun hér á landi miðað við annars staðar fer úr 7,5 milljörðum á ári upp í 15 milljarða og það skal því engan furða að þeir færi Hafnfirðingum geisladiska að gjöf.

Það er með ólíkindum að þjóðin skuli sætta sig við að afhenda orkuauðlindir á þessum kjörum til erlendra stórfyrirtækja sem við vitum að hafa á stefnuskrá sinni að komast yfir auðlindir jarðar. Það er enn dapurlegra fyrir okkar þjóð að það eru aðeins 50 ár síðan hún þurfti að berjast til að fá full yfirráð yfir fiskiauðlindinni. Við getum rétt ímyndað okkur viðbrögð í okkar landi ef við yfirfærðum orkusamningana við álverin yfir á auðlindir sjávar. Segjum sem svo að erlent stórfyrirtæki í fiskvinnslu fengi svipaða fyrirgreiðslu og álfyrirtæki fá í dag. Segjum að meðalverð á þorskkílóinu á markaði í dag sé 150 krónur kílóið og að alþingi Íslendinga setti í lög að þetta tiltekna fyrirtæki fengi fiskinn á 34 krónur kílóið og ætti jafnframt rétt á þessu verði næstu 50 árin. Þó svo að það hætti rekstri. Og að auki fengi það sérstaka heimild til að henda slorinu út um næsta glugga. Ég held að þeir þingmenn sem samþykktu slíkt þyrftu ekki að vonast eftir lengri þingsetu.

Að láta ræna sig dýrmætum auðlindum sem komandi kynslóðir eiga líka rétt á að njóta er skömm og algjör niðurlæging fyrir þessa þjóð.

Varðandi stækkun álversins í Straumsvík verða í búar Hafnarfjarðar að gera upp við sig hvernig þeir vilja sjá framtíðina og í þessu máli togast á jákvæðir og neikvæðir þættir. Nálægð verksmiðjunnar við íbúabyggð hlýtur að valda áhyggjum. Slík staðsetning eins og hún er tilheyrir fortíðinni og er algerlega óhæf í nútíma. Við viljum vera örugg á okkar heimilum, þau eru okkur það skjól sem við viljum hafa öruggt. Við viljum hafa hreint vatn og hreint loft, lífsgæði sem ekki er hægt að meta til fjár. Það versta er að mengun frá slíku iðjuveri er ósýnileg sem veldur því að við getum ekki varað okkur á henni. Og þótt sérfræðiálit segi þetta í besta lagi verðum við að átta okkur á því að þetta fólk sem gefur þau út er flest á mála hjá álverinu eða stjórnvöldum. Það er umhugsunarvert af hverju konur eru andvígari stækkun á verksmiðjunni en karlar. Skýring á því er ekki eingöngu að þær séu skynsamari heldur líka að þarna kemur móðurtilfinningin í ljós til varnar komandi kynslóðum.

Hér fyrr á öldum þurftum við Íslendingar að skaða okkar umhverfi með eyðingu skóga og nauðbeit. Þetta urðum við að gera einfaldlega til að halda lífi. Nú leggjum við til atlögu til að halda græðgi.

Vald nútímamannsins er mikið. Við getum eyðilagt umhverfi okkar eða hlúð að því. Okkar er valið. Þetta bið ég ykkur Hafnfirðinga að hafa í huga er þið gangið að kjörborði 31. mars næstkomandi.

Höfundur er bóndi á Vaði í Skriðdal.

Náttúruvaktin