jan 07 2008

‘Af grunngildum samfélagsins’ eftir Miriam Rose

miriam-roseHöfundur flutti erindið á umræðufundi um „grunngildi samfélagsins“ sem haldinn var í Reykjavíkur Akademíunni 20. nóvember árið 2007.

Fyrir ykkur sem ekki þekkið mig: Ég heit Miriam Rose, og er aðgerðasinni og umhverfisfræðingur frá Bretlandi. Ég var beðin um að tjá mig hér um reynslu mína af grunngildum íslensks samfélags, byggt á viðtali sem ég var í við Kastljós í október, eftir að mér var hótað með brottvísun úr landi vegna aðildar minnar að aðgerðum gegn stóriðjustefnu ríkisstjórnar ykkar. Í bréfinu sem ég fékk, þar sem farið var fram að mér yrði vísað úr landi, stóð að ég ætti á hættu að vera brottræk gerð frá Íslandi í þrjú ár, enda væri hegðun mín �ógnun við grunngildi samfélagsins�.

Í áðurnefndu viðtali nefndi ég hversu lýsandi mér þætti þetta orðaval, og bar fram spurninguna: Hver eru grunngildi íslensks samfélags? Svo virðist sem málfrelsi, jafnrétti og mótmælaréttur teljist ekki þar til, og hver er þá merking þessara orða? Þetta orðalag opinberaði mér einfaldan sannleik um eðli ákvörðunarinnar. Ég hafði sett spurningarmerki við rétt markaðarins og hagrænna gilda til þess að ráða samfélaginu og náttúrunni, með fulltingi stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar. Ásökunin gerði mér það dagljóst að þetta eru hin einu sönnu „grunngildi“ íslensks samfélags, og það á kostnað mannlegs frelsis, og þeir sem setja spurningarmerki við slík gildi eru ekki velkomnir hér. Ætlun mín hér er að útskýra tilgátu mína frekar.

Ísland er land sem á sér stolta sögu og þar sem trúin á lýðræði og mannréttindi er sterk. Utan frá virðist ríkja í landinu fágað lýðræði, og friðsamleg og mannleg gildi vera höfð í hávegum. En hver eru þessi grunngildi sem við erum svo stolt af að viðhalda í þessu háþróaða samfélagi? Það sem jafnan er nefnt grunngildi samfélags, byggir á tveimur stoðum grundvallarmannréttindum og undirstöðuatriðum lýðræðislegra gilda. Ætlun mín er að skoða þessi gildi í kjölinn, og sjá hvernig þau eru fram borin í íslensku samfélagi samtímans.

Þróuð lýðræðisríki virða, í orði kveðnu, framar öðrum grundvallarmannréttindum: málfrelsi, jafnrétti, ferðafrelsi o.s.frv. Réttindi þessi mótuðust í árhundruða baráttu gegn kúgandi ógnarstjórnum, réttindi til jafnréttis og frelsis, og nú er þau að finna jafnt í samþykktum Sameinuðu þjóðanna sem og stjórnarskrám ríkisstjórna, svo við megum sofa rótt um nætur.

Byrjum á jafnréttinu, en það er kannski grundvöllur annarra gilda, allir gera ráð fyrir því og það er ófrávíkjanlegur hluti orðræðu okkar um kosti vestrænna lýðræðisþjóðfélaga. En hvernig er jafnréttið vaktað, og hvernig er því framfylgt? Nú, ef við teljum okkur beitt ójafnrétti snúum við okkur fyrst til réttarkerfisins, sem á að fylgjast með framkvæmd slíkra réttinda og færa okkur réttlæti. Það er vel þekkt staðreynd að geta okkar til góðs gengis í réttarsal krefst og byggir á fjárráðum: góðir lögfræðingar, greiðsla málskostnaðar, frí frá vinnu o.s.frv. Því er kerfið óréttlátt og gallað frá grunni.

Í annan stað ber ríkisstjórnum og fyrirtækjum skylda til þess að leggja stund á og tryggja jafnrétti í stefnumálum sínum og aðgerðum. En hvað ef það kostar gríðarlegan hagnað? Stórfyrirtækin og hið opinbera efnahagslíf þrífst á láglaunafólki og vörum frá löndum þar sem mannréttindi eru í besta falli vafasamt hugtak, svo að neytendur geti fengið sínar ódýru, virðisauknu vörur. Gildi, í þessum skilningi, eiga einungis við hversu mikil áhrif þau hafa á peningaveskið, en ekki við réttindi þeirra sem þræla við framleiðsluna.

Til að flækja málin enn frekar er sömuleiðis nauðsynlegt að fylgjast með notkun þeirra hugtaka sem fylgja mannréttindaorðræðunni, en upprunaleg merking þeirra er oft misnotuð og henni misþyrmt í réttarsölum. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur oftsinnis veitt fyrirtækjum sömu mannréttindastöðu og einstaklingum. Hugmyndin er sú að ráðist maður að fyrirtæki, sé maður að ráðast að hluthöfum þess og grundvallarmannréttindum þeirra. (Sem dæmi: stöðvi maður ferð MacDonalds vöruflutningabíls er maður að hamla ferðafrelsi hluthafanna). Jafnvel þessir sáttmálar gegna nú því hlutverki að verja stórfyrirtækin og höfuðstólsvöxtinn, en eru ekki málsvarar hins mállausa meirihluta, eins og ætlunin var.

Töluverðar vísbendingar eru um það á Íslandi að útlendir verkamenn séu beittir alvarlegu misrétti á Kárahnjúkavirkjun. Ólöglega innflutt vinnuafl Impregilo var nánast réttlaust í íslensku samfélagi, og fréttir af dauðsföllum á vinnusvæðinu hafa verið sagðar gróflega vanáætlaðar. Þetta fólk naut ekki nokkurs réttlætis eða jafnréttis hér. Íslenska ríkið hunsaði illa meðferð þeirra til þess að missa ekki af gróðanum sem öflug fyrirtæki á borð við ALCOA höfðu lofað (og kannski einnig af ótta við að reita til reiði fyrirtæki sem búa yfir jafn víðtæku tengslaneti).

Sjálf hef ég verið meðhöndluð af töluverðu ójafnrétti hér á landi. Nú í sumar sem leið var mér stungið í fangelsi, eftir að mér hafði verið tilkynnt að ég ætti að borga sekt fyrir að óhlýðnast lögreglunni. Ólíkt því sem á að viðgangast var mér ekki gefinn neinn frestur til þess að greiða sektina, né var mér leyft að áfrýja, heldur var ég þess í stað send án frekari spursmála beint í fangelsi þar sem mér var haldið í einangrun í 8 daga, vegna þess að ekki fannst pláss í kvennafangelsinu fyrir mig. Í fangelsinu sögðu mér fangaverðirnir að þetta væri í hæsta máta óvenjulegt, þar sem konum er jafnan veitt sakaruppgjöf nokkrum sinnum áður en þeim er stungið inn á Íslandi, og því eru svo fáar konur í fangelsum. Þeir voru afar undrandi á því að konu sem hafði verið kærð í fyrsta sinn, og það ekki fyrir ofbeldisglæp, skyldi meðhöndluð á þennan hátt. Svo virðist sem þessi ósanngjarna meðferð hafi verið viljandi óblíð, og markmiðið að senda viðvörunarskilaboð til annarra mótmælenda, um að þeir væru ekki velkomnir hér.

Snúum okkur nú að málfrelsinu. Annað en gengur og gerist í einræðisríkjum og hjá kommunískum ógnarstjórnum, þar sem fjölmiðlum er stjórnað með harðri hendi, montum við okkur af hinni frjálsu og óháðu fjölmiðlun Vesturlanda. En hversu hlutlausir eru fjölmiðlar okkar í raun og veru? Íslenskum fjölmiðlum er stjórnað af fáum einkafyrirtækjum og litlum ríkisfjölmiðli, sem þiggur fé frá einkageiranum. Hvaða hagsmunum þjóna þeir? Getur fjölmiðill í eigu fyrirtækis, eða sem þiggur fé frá einkageiranum, raunverulega gagnrýnt sína eigin herra, eða þá sem tengjast eigendunum, flutt sannferðugar fréttir af efnahagsbrotum þeirra? Hvaða hagsmunum þjónaði það þegar lygarnar um að aðgerðasinnarnir í Saving Iceland þæðu laun fyrir störf sín voru birtar á RÚV, og aldrei dregnar til baka þrátt fyrir að að þeim væri fundið í gegnum opinberar boðleiðir?

Ég leyfi mér að spyrja eins og aðgerðasinnar á Indlandi, sem ég hef unnið með: Málfrelsi fyrir hvern? Og hvað má það kosta?

Í þriðja lagi, og þetta tengist sérstaklega minni eigin reynslu, hvað um réttinn til samkomu eða réttinn til kröfugerðar? Þegar möguleikar okkar til að tjá okkur í farvegi lýðræðissamfélagsins eða hinna frjálsu fjölmiðla bregðast, eru þetta þau grundvallarmannréttindi sem gefa okkur færi á að reyna lýðræðið sem við búum við, og þau grundvallarmannréttindi og �gildi sem við teljum okkur búa við. Í þessu sambandi vil ég lesa úr ritgerð eftir rithöfundinn og Booker-verðlaunahafann Arundhati Roy:

Eina leiðin til þess að raungera lýðræðið er að hefja ferli stöðugrar spurnar, viðvarandi ögrunar, og látlausrar opinberrar umræðu milli borgaranna og ríkisins. Slíkt samtal er gríðarlega ólíkt þeirri samræðu sem á sér stað á milli stjórnmálaflokka. (Fjölmiðlar telja að það að kynna skoðanir ólíkra stjórnmálaflokka sé �réttlát� umfjöllun).

Það er mikilvægt að muna að frelsi okkar, líkt og það er, var okkur ekki fengið af neinni ríkisstjórn, heldur náðum við því frá þeim með erfiðismunum. Ef við notum það ekki, ef við reynum það ekki af og til, visnar það upp. Ef við stöndum ekki vörð um það statt og stöðugt, verðum við svipt því. Ef við krefjumst ekki sífellt meira, stöndum við uppi með sífellt minna. (Roy, 2005)

Oftsinnis hefur íslenska ríkið sýnt fram á umburðarleysi sitt í garð samkomufrelsisins, og í garð aðferða borgaralegrar óhlýðni sem mótmælaforms. (Þrátt fyrir þá gríðarlegu aðdáun sem þessar aðferðir njóta þegar við skilgreinum borgaraleg réttindi okkar og frelsi). Árið 2002 voru allir þeir einstaklingar sem grunaðir voru um aðild að Falun Gong (sem eru fyllilega friðsamleg mannréttindasamtök) handteknir eða þeim neitað um inngöngu í landið, að tillögu spilltrar ríkisstjórnar sem velflest ríki heimsins líta niður á � Kína.

Ég get sagt sögu af minni persónulegu reynslu, og segi oft, frá því hvernig ég var meðhöndluð hér síðasta sumar. Eftir að ég var handtekin og færð á lögreglustöðina á Eskifirði, varð ég afar þyrst í litlum, funheitum klefanum. Þegar ég bankaði á hurðina og bað um vatnsglas (sem ég á rétt á, samkvæmt stjórnarskránni) var svarið: �Þú tapaðir réttindum þínum þegar þú braust lögin!�, og mér var neitað um vatnið. Þetta atvik undirstrikar, að mínu mati, þann hugsunarhátt sem liggur að baki því hvers vegna þetta mótmælaform nýtur engrar virðingar, hvers vegna þeir sem eiga að vernda mannréttindi fólks sýna þeim réttindum algert virðingarleysi � lögreglan.

Við þjáumst af þráhyggju í garð �heilagleika� laganna, og sú þráhyggja sviptir okkur réttinum til þess að rengja lögin, til þess að spyrja okkur hvern þau eiga að vernda, og leyfa samfélaginu að breytast og vaxa líkt og það hefur gert í um aldir alda, fyrir atbeina nákvæmlega þessara aðferða.

Nú þegar við höfum skoðað nokkur hinna helstu mannréttinda skulum við snúa okkur að grunngildum og stoðum lýðræðisins, sem Íslendingar eru stoltir af, verandi sannlega fyrsta lýðræðisþjóð heimsins. Lýðræði byggist á: þátttöku (fólksins í kerfinu), þjónustu (stjórnmálamenn eru fulltrúar fólksins), og ábyrgð (á ákvörðunum, gagnvart alþýðu manna). Með því að skoða þessi atriði ætla ég að setja fram þá tilgátu að raunverulegu lýðræði hafi verið skipt út fyrir �tálsýn um lýðræði�, sem framreidd er af almannatengslasérfræðingum og áróðursmeisturum, sem nú þjóna mikilvægu hlutverki í starfsemi ríkisstjórna okkar.

Í raun treysta margar ríkisstjórnir (Íslands þar á meðal) á þessa tálsýn til þess að tryggja að alþýðan haldist bærilega hljóðlát og áhugalaus, og setji ekki spurningarmerki við hið svonefnda lýðræðisfyrirkomulag sem hyglir stórfyrirtækjum og hagvexti á kostnað alls annars (umhverfisins, borgaralegra réttinda, o.s.frv.). Í orðagjálfrinu hefur �frjálsum markaði� verið ruglað saman við frelsi fólksins, og það gefið í skyn að opið efnahagskerfi jafngildi opnu samfélagi, á meðan það grímuklæðir hin borgaralegu réttindi sem við höfum misst og lýðræði sem við höfum misst, og þrammar hönd í hönd við skefjalausan efnahagsvöxtinn sem virðist eiga að vera yfir gagnrýni hafin.

Skoðum fyrst þátttökuna. Hér er að finna grundvallargalla á lýðræðinu. Í kosningunum árið 2003 kusu 33,7% Sjálfstæðisflokkinn, 31% kaus Samfylkinguna, og 17% kusu Framsóknarflokkinn. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu samsteypustjórn í framhaldinu. Ekki einungis kusu aðeins 34% sigurflokkinn, heldur hlaut flokkur sem naut aðeins 17% fylgis gríðarlega mikið vald í ríkisstjórn. Þetta var samsteypustjórnin sem neitaði ítrekað beiðnum um opna þjóðaratkvæðagreiðslu um Kárahnjúkavirkjun.

Í öðru lagi skulum við athuga þjónustuna og ábyrgðina. Eftir kosningar virðast ráðherrar hafa hreint borð til þess að framkvæma hvaðeina sem þeir (og hagsmunaaðilarnir að baki þeirra) geta látið sér detta í hug án þess að þurfa að svara fyrir það, og þeir virðast síður en svo starfa sem þjónar þess fólks sem kom þeim í embætti. Árið 2003 gerðu Davíð Oddsson, þá forsætisráðherra, og Halldór Ásgrímsson, þá utanríkisráðherra, Ísland að aðila í stríðinu í Írak án þess að bera það undir alþýðu manna, eða einu sinni ríkisstjórnina. Þessi ákvörðun var í gríðarlegri andstöðu við vilja meirihluta landsmanna. Hún var ekki tekin af þjónustulund, og auk þess var hún í andstöðu við lög þingsins og stjórnarskránna, sem tiltekur að mál af þessu tagi þurfi að fara fyrir utanríkisnefnd (sem það gerði ekki). Samkvæmt refsilöggjöfinni má hegna hverjum þeim sem storkar hlutleysi Íslands eins og það er skilgreint í stjórnarskránni með allt að 10 ára fangelsi. Var réttað yfir þeim fyrir þennan glæp? Nei. Þjónustan og ábyrgðin brugðust hér, eins og svo oft áður og eftir.

Enn er það svo að þegar réttarkerfinu og lýðræðinu hefur mistekist að gera ríkisstjórnina ábyrga, eru mótmæli eina færa leiðin til réttlætis. Árið 2006 þrömmuðu fimmtán þúsund manns í borgum og bæjum á Íslandi til að mótmæla því að Kárahnjúkum yrði drekkt, án árangurs. Það er engin furða að fólk finnist þessar mótmælaaðferðir máttleysislegar og snúi sér að beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni til þess að véfengja þær ákvarðanir sem hafa verið teknar í þeirra nafni.

Einhverjir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að fyrirtækin séu máttugri en fólkið, og jafnvel máttugri en stjórnmálamenn, á Íslandi. Nú þegar við gerum okkur grein fyrir því að peningar jafngilda mætti, er ljóst að gríðarstórir einokunaraðilar á borð við ALCOA, Baug, Rio Tinto og Kolkrabbann valda miklum mætti. Og hvernig eru þessi fyrirtæki gerð ábyrg? DECODE, fyrirtækið sem á nær allt íslenskt erfðaefni, selur þær upplýsingar öðrum fyrirtækjum fyrir 60 þúsund krónur stykkið, án leyfis frá almenningi. Á sama tíma fær ALCOA raforku á mörgum sinnum lægra verði en íslenskur almenningur, fyrir upphæð sem er svo smánarleg að Landsvirkjun vill ekki einu sinni gefa hana upp.

Enn spyrjum við: Þjónusta við hvern? Og hvað má hún kosta? Lýðræði fyrir hvern? Og hvað má það kosta?

Vestræn nútímaríki (eins og Ísland og Bretland) byggja á hljóðlátri og vonlausri alþýðu, sem leyfir vafasamri lagasetningu að ná í gegn án þess að æmta, enda erum við að flónum gerð með lýðræðis- og frelsisorðræðunni. Ólíkt því sem gerist í harðsvíruðum einræðisríkjum eða hrottalegum kommúnistaríkjum, erum við of efnuð og sátt til þess að setja spurningarmerki við kerfið sem framleiðir auð okkar.

Hvað viðkemur yfirvaldi og samþykkt, finnst mér hin fræga sálfræðitilraun Stanleys Milgram alltaf áhugaverð. Í þessari tilraun er venjulegur einstaklingur beðinn um að taka þátt í gervi rannsókn, og honum er gert að lesa upp spurningar fyrir annan þátttakanda (en hann er í raun leikari) sem situr í næsta herbergi. Þegar hann svarar vitlaust á sá fyrstnefndi að gefa þeim síðarnefnda raflost sem hækkar sífellt eftir því sem fleiri spurningum er svarað vitlaust, þar til það nær upp á rauða svæðið á mælinum (mjög hættulegt). Þátttakandinn getur heyrt ópin í þeim sem svarar verða sífellt háværari og hræðilegri með hverju losti. Í flestum tilfellum samþykkti þátttakandinn að gefa verulega kraftmikið raflost og setti ekki spurningarmerki við vald hins hvítklædda vísindamanns með möppuna í fanginu sem stjórnaði rannsókninni. Milgram komst að þeirri niðurstöðu að hið skynjaða vald vísindamannsins græfi að nokkru leyti undan persónulegum gildum þátttakandans.

Hann rannsakaði enn fremur hvernig hlýðni breyttist ef fiktað var í breytum rannsóknarinnar. Hlýðnin var töluvert minni ef að: a) Vísindamaðurinn var ekki í hvítum slopp eða hélt á möppu, b) Þriðji aðili, leikari, kom inn og hóf að spyrja út í réttmæti rannsóknarinnar. Ef við færum þetta yfir á lýðræðisþjóðfélagið og gildi samfélagsins, sýnir fyrra tilvikið okkur mikilvægi þess að við skynjum lögmæti yfirvaldsfígúra, og hversu nauðsynlegu hlutverki almannatengslafulltrúinn gegnir í að tryggja að tálsýnin raskist ekki svo að alþýðan haldist hljóðlát og sátt. Sjálfri þykir mér seinna atriðið áhugaverðara, þar sem það sýnir okkur hversu miklu róti hin ósátta rödd almennings getur valdið á tálsýn lýðræðisins. Það þarf bara eina áhyggjurödd til þess að svipta grímunni af valdinu, sem leiðir til þess að kerfinu er hafnað og persónuleg gildi eru endurreist. Það er engin furða að ríkisstjórnir geri sitt allra besta til þess að kæfa mótmæli við umdeildar áætlanir sínar.

Að síðustu, þegar ég hef spurt Íslendinga hvað þeir telja til grunngilda samfélagsins, kemur sjálfstæðismálið aftur og aftur upp. Svo virðist sem að ef frelsi er grunngildi Bandaríkjanna, þá er sjálfstæðið grunngildi Íslendinga. Íslendingar njóta virðingar um víða veröld fyrir þær sakir að hafa hafnað hugmyndinni um þjóðarher, um Evrópusambandið, um alþjóðavæðingu fiskveiðiréttar. Hér er að finna raunverulega og aðdáunarverða tilfinningu fyrir þörfinni til að vera sjálfum sér næg sem eyríki, jafnvel þótt það kosti dýrmæta vináttu við stórlaxana í Evrópu og víðar.

Þrátt fyrir þetta er að finna mikinn vilja hjá íslensku þjóðinni til að samþykkja hugmyndina um að landið verði gert að síð-nýlendu fáeinna álfyrirtækja, sem hrifsa til sín orkuna fyrir brot af því verði sem almenningur greiðir, sem leggja þungar byrðar á axlir skattgreiðenda og skapa efnahagsástand sem treystir að miklu leyti á fáein útlend fyrirtæki. (ALCOA viðurkenndi á fundi í Brasilíu að á Íslandi greiði þeir minna en helminginn af því verði sem þeir greiða fyrir orkuna þar). Og samt er það svo að þegar útlenskir aðgerðasinnar slást í hópinn með Íslendingum sem vilja mótmæla þessari brunaútsölu eru þeir hunsaðir og við þá sagt: Þetta kemur ykkur ekki við.

Þýðir alþjóðavæðingin að fólk geti ferðast um að vild?

Nei, ekki þegar um er að ræða Falun Gong, eða aðgerðasinna Saving Iceland sem ítrekað var hótað brottvísun úr landi.

Þýðir hún jafna virðingu fyrir öllu mannslífi?

Ekki þegar um er að ræða lymskulega meðferð starfsmanna við Kárahnjúkavirkjun.

Þýðir hún merkingarbæra alþjóðasáttmála um loftslagsmál, kynþáttamismunun eða kjarnorkuvopn?

Nei, enn og aftur þýðir hún ekki það. Geir H. Haarde er í þessum orðum töluðum að reyna að smokra sér út úr skuldbindingum Íslands samkvæmt Kyoto sáttmálanum, sem fyrir eru vel rúmar.

Og ef þetta eru gildi Íslands, eru þau raunverulega gildi Íslendinga? Eða einungis þeirra fáu sem sitja efst í ákvörðunarstiganum? Og ef þau eru ekki gildi fólksins, hvernig ætlar fólkið að andmæla þeim? Hvernig mun fólkið heimta á ný hin raunverulegu gildi samfélagsins, og endurskilgreina þau? Þetta er sú spurning sem Ísland, og flestar þjóðir heimsins, standa frammi fyrir. Í loftslagi þar sem markaðsguðinn er næstum óskorað yfirvald, sem grundvöllur lífs okkar og gilda, verðum við að taka ákvörðun um hvort það sé í raun og veru allt í lagi að gleypa bláu pilluna og halla sér aftur í vel bólstraða tálsýnina, eða láta okkur hafa rauðu pilluna, opna augun, og hefjast handa við að svipta grímunni af yfirvaldinu, og enn á ný að þvinga réttindi okkar úr höndum þess.

Eiríkur Örn Norðdahl þýddi úr ensku.

Tilvitnanir:

Roy, Arundhati, 2005. ‘An ordinary persons guide to empire’. Penguin Books, India.

Miriam Rose er einn af höfundum:

Aluminium Tyrants (The Ecologist)
/?p=1021

Tengdar greinar:

Sagan af Miriam Rose
http://www.nornabudin.is/sapuopera/2007/09/sagan_af_miriam_rose.html

The Directorate of Immigration Refuse to Deport Miriam Rose
/?p=1022

London Protest Against Iceland’s Deportation of Environmental Activists
/?p=998

Stop Iceland’s Persecution of Environmental Activists – London Demo 2 October
/?p=988

Saving Iceland Activists Threatened with Deportation
/?p=983

UK Greens Urge Icelandic Government to Stop Persecution of SI Activists
/?p=985

UK Greens Back British Environmental Activist Imprisoned in Iceland
/?p=917

‘Surprise, surprise!’
/?p=144

Tenglar á umfjöllun fjölmiðla á Íslandi um málið:

http://www.nornabudin.is/sapuopera/2007/09/tenglar_a_mal_miriam.html

Nokkrar bloggfærslur um málið:

http://vglilja.blog.is/blog/vglilja/entry/321762/

http://blogg.visir.is/politik/2007/09/27/kranapril-og-iraksstri%C3%B0/

http://blogg.visir.is/truth/?p=8

http://www.jonas.is/ (27.9)

http://kaninka.net/sverrirj/2007/09/26/broti%c3%b0-gegn-grunngildum-politiskar-ofsoknir-101/

http://hafstein.blog.is/blog/hafstein/entry/323907/

Náttúruvaktin