ágú 11 2008
1 Comment

Fjöll sprengd í loft upp, eiturlyf og bleikt klósett

Jaap Krater, Iceland ReviewSem einstaklingur sem hefur nú verið virkur með Saving Iceland í nokkur ár, las ég grein grein James Weston um umfjöllun fjölmiðla um baráttu okkar og hafði gaman af. Margt af því sem hann skrifar er ekki bara fyndið, heldur einnig satt.
Fyrir mér, bendir greinin þó einnig á nokkrar sorglegar staðreyndir. Fólk situr og horfir á sjónvarpið þar sem það sér annað fólk læsa sig við vinnuvélar (samkvæmt skoðanakönnunum lítur út fyrir að flestir séu jafn vel sammála okkur um stóriðjuvæðingu landsins) og leiðist.
Þau fóru kannski á Náttúrutónleikana, hafa eflaust séð einhverjar af myndum Ómars Ragnarssonar eða hafa jafnvel kíkt á heimasíðuna okkar. Kannski kusu þau Samfylkinguna og stóriðjustopp í síðustu kosningum, loforð sem nú eru svikin. Það getur verið að þau hafi verið mótfallin Kárahnjúkavirkjun eða þá álitið hana nauðsynlega fórn, ef þar með væri komið nóg.

Tveimur árum eftir sökkvun Kárahnjúka… hvað er að gerast núna? Álver Norðuráls í Hvalfirði var nýlega stækkað án þess að nokkur hafi tekið eftir. Stór hluti Hengilssvæðisins er sprengdur upp í þessum töluðu orðum til þess að búa til flatlendi fyrir jarðvarmavirkjanir og pípur, sem byggðar eru af láglaunuðum Austur Evrópskum verkamönnum, sem vinna 72 tíma á viku og búa í kringumstæðum sem láta hið ný opnaða fangelsi á Akureyri líta út eins og Hótel Nordica.

Framkvæmdir hafa nú hafist í Helguvík þar sem Norðurál ætlar að byggja álver, sem mun hafa sömu áhrif á einstök jarðhitasvæði á Reykjanesi. Tölum þá ekki um umhverfismatið sem hefur ekki einu sinni verið gert.

Við Kröflu bora Alcoa og Landsvirkjun tilraunaholur beint inn í eldfjallið Víti, stað sem er einn af 10 helstu ferðamannastöðum á landinu. Nýtt mengunarlón hefur svo ‘óvart’ skapast við Þeistareyki, þar sem djúpborunar verkefni eiga sér stað. Úps…!

Það lítur út fyrir að flest Reykvískt fjölmiðlafólk sé búið að fá of mikla leið á málefninu til að koma sér norður og taka myndir af þessu. Enginn hefur skrifað um þetta!

Á sama tíma getur hver sá sem lagt getur saman einn plús einn og fengið út tvo, séð að það verður ekki hægt að framleiða næga jarvarmaorku á Norðurlandi til að starfrækja annað Alcoa álver. Ef áætlunin um álversbyggingu á Bakka verður ekki stöðvuð, verður óumflýjanlegt að reisa vatnsaflsvirkjanir í Skjálfandafljóti og Jökulsá á Fjöllum. En allt lítur út fyrir að flest fjölmiðlafólk hafi gleymt grundvallar stærðfræðikunnáttu og kosið að líta framhjá þessari staðreynd.

Á síðasta ári héldum við tveggja daga alþjóðlega ráðstefnu þar sem við fórum í gegnum hvert og eitt einasta smáatriði sem tengist áliðnaðinum. Hingað til lands kom fólk frá Afríku, Trinidad, Brasilíu og Kanada til að segja sínar sögur. Ráðstefnan í heild sinni var hunsuð af íslenskum fjölmiðlum.
Þeir eru venjulega ekki áhugasamir um svoleiðis. Það er svo leiðinlegt.

En þegar við læsum okkur við eitthvað, hringja þeir alltaf í okkur til að spyrja hvort einhvers hafi slasast, hversu margir voru handteknir, hvort við höfum eyðilagt eitthvað eða stolið, og hvort eitthvert okkar sé á eiturlyfum eða hafi komið hingað til lands á ál-flugvélum.

Blöðin sýna ekki myndir af mengunarlónum eða uppsprengdum fjöllum, heldur stækkaðar myndir af klósettinu í búðunum okkar. Við verðum bara að vona að fólk skoði heimasíðuna okkar eða finni út aðra leið til þess að ná í upplýsingar og ákveði svo hvers konar aðgerðir sé best að framkvæma til að stöðva þetta stórslys.

Mér finnst það svolítið fyndið að vera sífellt spurður spurninga eins og ,,Notið þið ekki hnífapör til að borða?“ en á sama tíma gerir það mig ótrúlega leiðan. James, þú hefur rétt fyrir þér, en hvað eigum við að gera? Kannski ætti ég að byrja að hanna risastóra gæsabúninginn minn?
Það lítur út fyrir að fjögur ár af kranaklifri hafi ekki innblásið allt of marga til að beinlínis gera eitthvað til að koma í veg fyrir að það verði ekki reistar hér fleiri stíflur. Fólki einfaldlega leiðist.
Skrifið eitthvað, sendið inn kvörtunarbréf, reiðist stjórnmálafólki fyrir að svíkja kosningaloforð, hringið í fólk, hvað sem er til að stöðva þessa þróun. Ef enginn gerir nokkurn skapaðan hlut, munu engar breytingar eiga sér stað. Plís…

One Response to “Fjöll sprengd í loft upp, eiturlyf og bleikt klósett”

  1. Pétur Kr skrifar:

    Hæ! Ég er bara nýbúin að finna þessa heimasíðu var alltaf að bíða eftir að fá bulletin á myspace frá ykkur um hvar næstu fyrirhuguðu mótmæli yrðu, upplýsingum um starfsemina og fleira mér til mikillar undrunar kom aldrei svoleiðis bulletin. Og myspace síða samtakana er frekar hrá, hvað varðar tilkynningar. En núna er ég búin að finna þessa líka fínu heimasíðu samtakana, búin að vera meira og minna í allan morgun að fara yfir efnið á henni horfa á video og fleira og það bara virðist vera að við séum á sömu blaðsíðu hvað varðar þetta málefni og vona að ég geti orðið að liði og stutt málstaðinn.
    p.s það fyrsta sem að ég sá þegar ég fór inn á myspace saving iceland núna var FOR THE OFFICIAL SAVING ICELAND CAMPAIGN, VISIT http://WWW.SAVINGICELAND.ORG haha svona getur maður stundum verið glær =)

Náttúruvaktin