apr 21 2009

Saving Iceland fagnar táknrænum skellum á stóriðjuflokkana

Ólafur Páll Sigurðsson

Saving Iceland fagnar þeim táknrænu skellum sem stóriðjuflokkarnir þrír fengu í formi græns skyrs í gærdag.

Samkvæmt öruggum heimildum Saving Iceland voru aðgerðirnar gerðar af þremur mismunandi hópum, en ekki einum, eins og háðar fréttastofur hafa talið. Saving Iceland er einnig kunnugt um að aðgerðasinnarnir séu allir Íslendingar. Þetta gefur til kynna að um sé að ræða öflugan hóp aðgerðasinna sem beitir sér gegn stóriðjustefnunni hér á landi. Saving Iceland lýsir yfir fullum stuðningi við hópinn.

Þau öfl sem standa á bakvið Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna hafa gerst sek um alvarleg landráð með stóriðjustefnu sinni. Af kosningaáróðri þeirra er ekki að ráða að flokkarnir hafi á nokkurn hátt lært þær lexíur um áhrif stóriðjuþenslu sem þeir hefðu átt að geta lært af efnahagshruninu.

Um leið og gengdarlaus græðgisvæðing þessara flokka hefur haft í för með sér gríðarlegar og óafturkræfar skemmdir á einstæðri náttúru landsins hefur þessi stefna ekki síður skaðað íslenskt samfélag. Valdníðslan og þöggunin sem beitt var í Kárahnjúkamálinu hefur nú þegar dregið mikinn dilk á eftir sér. Þessir sömu stjórnmálaflokkar og standa að baki Kárahnjúkavirkjunar ætla nú að viðhalda sömu stefnu og óþokkabrögðum í því skini að klekja á upplýstu lýðræðislegu ákvarðanaferli um nýtingu auðlinda landsins.
Það er langt frá því að tekist hafi að kveða niður stóriðjugrýluna. Saving Iceland fer þó ekki í neinar grafgötur um það að barátta okkar undanfarin ár hefur haft mikil og varanleg áhrif á íslenskt þjóðfélag. Þessi áhrif hafa verið augljós í þeirri vitundarvakningu sem átti sér stað í vetur og þeirri baráttu sem m.a. steypti hinni gerspilltu stjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Án þeirra fordæma og reynslu sem Saving Iceland hefur sáð í íslenska grasrót, er ekki víst að þjóðin hefði losnað undan oki þessarar síðustu stjórnar. Það má því segja með vissu að Saving Iceland hafi endurnært íslenska grasrótarbaráttu.

Þó virðist hluti af íslenskri vinstrihreyfingu enn eiga bágt með að sjá fyllilega samhengið á milli baráttu gegn stóriðju og baráttu gegn auðvaldi og arðráni. Saving Iceland hefur algerlega hafnað umhverfisstefnu sem reist er á þjóðernishyggju og tilfinningasemi og hefur frá upphafi hreyfingarinnar rutt veginn fyrir sameiningu and-kapítalískrar baráttu og umhverfisverndar. Saving Iceland hefur greint hvernig stóriðjuvæðing felur í sér beina árás á eðlilegan metnað íslenskrar alþýðu til sannrar lífsfyllingar og betri kjara. Ef íslenskir vinstrisinnar láta ekki af Stalínískum verksmiðjuórum og standa sameinaðir gegn stóriðjustefnunni falla þeir í þá gryfju að styðja við kapítalíska hnattvæðingu og um leið þá síðnýlendustefnu íslensks og erlends auðvalds að hneppa íslenska alþýðu í þá ánauð sem fellst í láglaunaðri frumframleiðslu.

Saving Iceland hefur sífellt bent á hvernig þensla einstrengislegrar stóriðjustefnu stefndi hagkerfi landsins í voða. Þessar viðvaranir hafa reynst á rökum reistar. Þó stóriðjustefnan sé ekki ein um að hafa orsakað efnahagshrunið þá er enginn vafi á því að hún á stóran þátt í því.

Við bentum ávallt á umtalsverðan lýðræðishalla hér í íslensku þjóðfélagi, spillingu í opinbera geiranum, þá miklu þöggun sem hér viðgengst og hvernig háðir fjölmiðlar hafa algjörlega brugðist lýðræðislegu aðhaldshlutverki sínu. Í gegnum árin hefur þessi gagnrýni Saving Iceland verið nánast sem rödd í eyðimörkinni. En loksins eftir þá vitundarvakningu sem átti sér stað í kjölfar hrunsins eru öll atriði þessarar gagnrýni orðin veigamikil í almennri umræðu hér á landi.

Saving Iceland benti á náin tengsl áliðaðarins og hergagnaiðnaðarins: um þriðjungur alls framleidds áls fer í hergögn. Saving Iceland benti á mannréttindabrot sem ítrekað eru framin af sömu álframleiðendum og nú hafa hreiðrað um sig á Íslandi. Einnig á þær skelfilegu umhverfis- og félagslegu afleiðingar sem fylgja vinnslu báxíts víðsvegar um heiminn og hafa leitt af sér menningarleg þjóðarmorð í Indlandi, Afríku og víðar.

Að skella skollaeyrum við þessum staðreyndum um áliðnaðinn er merki um grófa siðblindu og hræsni sem þverbrýtur alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga sem og yfirlýst og títt tíunduð grundvallar mannúðargildi þessa þjóðfélags.

Að reyna að hylma yfir staðreyndir um hroðalegar umhverfis- og efnahagslegar afleiðingar stóriðjustefnunnar á íslenskt þjóðfélag er kaldrifjaðaður blekkingaleikur sem þjónar aðeins hagsmunum fárra vafasamra aðila.

Stóriðjustefna Sjálfstæðisflokksins, Framsóknar og Samfylkingar er gjaldþrota, hagfræðilega jafnt sem siðferðilega og málefnalega. Áframhald hennar sýnir fádæma ábyrgðarleysi þessara stjórnmálaflokka.

Tilraunir stóriðjuflokkana til að klóra í bakkann með kosningaáróðri sínum og reyna að sannfæra kjósendur um að Íslendingar hafi ekki lengur efni á að vernda auðlindir landsins gegn rányrkju, bera vott um kaldsvíraðann ásetning þeirra að staðnæmast ekki fyrr en þeir hafa náð að rúa þjóðina að öllum auðlindum hennar. Þetta sýnir skírt hvernig stóriðjan ber hvorki hag lands eða lýðs fyrir brjósti. Hér eru það einungis hagsmunir erlendra auðhringa og spilltra íslenskra skjaldsveina þeirra sem ráða förinni. Aðkoma Alþjóða Gjaldeyrissjóðsins að stjórnartaumunum hér á landi er liður í þessu samsæris kapphlaupi um auðlindir landsins.

Stóriðjuflokkarnir lifa í þeirri von að fólk hafi ekki lært neitt af þeirri reynslu sem Kárahnjúkavandinn, efnahagshrunið og eftirmálar þess færðu.

Þótt Samfylkingin hafi setið við völd í stystan tíma ber hún ekki síður ábyrgð en hinir flokkarnir. Hin svokallaða umhverfisstefna flokksins fyrir alþingiskosningar vorið 2007 – ,,Fagra Ísland” – reyndist fljótlega eintóm blekking, sett blygðunarlaust fram í þeim tilgangi að veiða atkvæði umhverfissinna. Nýliðin atkvæðagreiðsla á þingi um álver í Helguvík felur í sér ótrúlega þjónkun við erlenda auðhringi. Hún sýnir það og sannar að Samfylkingunni verður aldrei hægt að treysta í umhverfismálum, ekki frekar en hinum flokkunum.

Græna goðsögnin um sjálfbærni og endurnýjanlega orku sem íslensk stjórnvöld reyna að blekkja veröldina með er vísvitandi fölsun þegar hún er seld mengandi stóriðju.

Það er von Saving Iceland að íslenskir kjósendur sjái í gegnum þessar blekkingar stóriðjuflokkana og átti sig á því að stóriðjan er einn megin þáttur græðgisvæðingarinnar sem hefur komið okkur um koll. Verðmæti náttúrauðlinda gerast mest þegar raunveruleg umhverfsisjónarmið eru ekki sniðgengin kerfisbundið og hampað einungis í orði en ekki verki.

Náttúruvaktin