júl 29 2009

Hvers vegna ræðir Saving Iceland ekki við Iðnaðarráðherra?

Stuttu eftir að fréttir bárust um að á aðfararnótt þriðjudags hafi Saving Iceland lokað skrifstofum stofnanna og fyrirtækja tengdum stóriðjuframkvæmdum hér á landi, sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að hún hafi ekki getað kynnt sér skilaboð Saving Iceland. Hún hafi ekki fengið skriflegt erindi frá hópnum og ekki sett sig í samband við hann en sagðist skoða allar málefnalegar athugasemdir sem henni berast. (1)

Þetta svar er dæmigert fyrir stjórnmálamann eða starfsmann stórfyrirtækis þegar starf hans er gagnrýnt. Það er ómögulegt að halda utan um það hversu oft Saving Iceland hefur verið boðið að setjast niður og ræða málin við talsmenn fyrirtækja á borð við Landsvirkjun og fulltrúa stjórnmálaflokka. Tilgangurinn með þessum fundarboðum er auðvitað einungis að setja upp jákvæða mynd af fyrirtækinu eða stofnuninni og gefa þá hugmynd að samræður og upplýsing séu mikilvægur hluti starfseminnar. Þegar Saving Iceland hefur ekki þegið fundarboðin hefur hreyfingin verið stimpluð sem ómálefnaleg og þekkingarlaus, t.d. sl. sumar þegar forstjóri Landsvirkjunnar, Friðrik Sophusson sagði Saving Iceland eingöngu vera að leita eftir athygli með trúðslátum. (2)

Katrín Júlíusdóttir veit jafnvel og Friðrik Sophusson hver skilaboð og markmið Saving Iceland eru og þarf því ekki að spyrja sig hvers vegna hópurinn óskaði ekki eftir því að hitta hana. Umhverfissinnar á Íslandi – þ.m.t. Saving Iceland – hafa í áraraðir útskýrt andóf sitt gegn stóriðjuvæðingu Íslands með öflugum upplýsingaherferðum, útgáfu blaða og bæklinga, uppihaldi á vefsíðum og þar fram eftir götunum. Langflestum aðgerðum Saving Iceland hafa fylgt ítarlegar fréttatilkynningar með óþægilegum staðreyndum um fyrirtækin sem koma að stóriðjuvæðingunni og upplýsingar um alvarlegar afleiðingar álframleðislu. Þessar fréttatilkynningar hafa m.a. leitt til þess að umfjöllunin um málin hefur víkkað og því til stuðnings má nefna umfjallanir fjölmiðla um neikvæð áhrif báxítgraftar og samstarf álfyrirtækja við hergagnaframleiðendur og hernaðarstofnanir. (3)

Þær stofnanir og fyrirtæki sem urðu fyrir barðinu á Saving Iceland sl. þriðjudag hafa hins vegar markvisst haldið uppi ómálefnalegri herferð gegn náttúru landsins og samfélaginu, sem best er lýst sem valdníðslu. Iðnaðarráðuneytið, sem Katrín fer nú fyrir, ber til að mynda mesta ábyrgð á auglýsingabæklingnum ,,Lowest Energy Prices“ sem sendur var á fjölda alþjóðlegra stórfyrirtækja sem öll eiga það sameiginlegt að þarfnast gífurlegs magns orku og auðlinda. Meðal þeirra loforða sem ráðuneytið setti þar fram er ‘minimum of red tape’ sem þýðist á þann veg að fáar lagalegar hindranir komi til með að standa í vegi fyrir áætlunum fyrirtækjanna. Bæklingurinn er í heild sinni aumkunarvert ákall íslenskra stjórnvalda um innrás alþjóða kapítalisma inn í landið. (4) Einnig ber að minnast þess þegar vatnsréttindi Þjórsár voru sett upp í hendurnar á Landsvirkjun, nokkrum dögum fyrir alþingiskosningar vorið 2007, bakvið luktar dyr. Þetta eru aðeins tvö dæmi af mörgum. (5)

Saving Iceland gerir sér fullkomlega grein fyrir því að annar stjórnmálaflokkur situr nú í Iðnaðarráðuneytinu en þegar fyrrnefnd atvik áttu sér stað. En frá því að Samfylkingin tók við ráðuneytinu vorið 2007 hafa þeirra verk og ummæli ekki bent til nokkurs annars en að umhverfisstefna flokksins séu sú sama og ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Össur Skarphéðinsson stóð staðfastur á því að virkjun Þjórsár ætti sér stað og á allan heiðurinn af nýgerðum afsláttasamning ríkisins og Norðuráls vegna álvers í Helguvík. (6) Nýlega endurspeglaði Katrín vilja Össurs um virkjun Þjórsár þegar ASÍ og Samtök Iðnaðarins kröfðust þess að allar hindranir væru teknar úr vegi virkjun Þjórsár fyrir 1. nóvember, undir þeim formerkjum að virkjanirnar væru ein megin forsenda hins svonefnda stöðugleikasáttmála. (7) Nú síðast tók Katrín vel í þá hugmynd að endurnýja viljayfirlýsingu vegna fyrirhugaðs álvers Alcoa á Bakka. (8)

Það er alveg á hreinu að keyrt er áfram á sömu stefnu og áður – nú í nafni endurreisnar atvinnulífsins og uppbyggingar íslensks samfélags eftir bankahrunið. Þau rök hljóma svipað og þau sem voru notuð þegar framkvæmd Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa á Reyðarfirði var í krafti valdsins keyrð áfram þrátt fyrir mikla gagnrýni. Brotaviljinn gagnvart náttúru landsins var svo einbeittur að Valgerður Sverrisdóttir, þáverandi Iðnaðarráðherra, stækkaði kjördæmi sitt og ,,braut allar reglur“ (e. bend all the rules) fyrir framkvæmdirnar eins og Friðrik Sophusson komst svo skemmtilega að orði við Alan Belda, forstjóra Alcoa. (9)

Framkvæmdirnar áttu að blása fjármagni inn í íslenskt samfélag og lífi á Austfirðina. Nýlegar rannsóknir á efnahagslegum ávinningum álframleiðslu hér á landi gefa hins vegar til kynna að önnur sé raunin, líkt og fjölmargir umhverfissinnar og hagfræðingar bentu á fyrir og á meðan framkvæmdunum stóð. Sá málflutningur var markvisst barinn niður og stimplaður sem pólitískur áróður; umhverfissinnar sakaðir um að vinna gegn velferð fólks almennt. Kemur það þá Katrínu Júlíusdóttur á óvart að andstæðingar stóriðju og virkjanframkvæmda sjái ekki tilgang í því að óska eftir fundi með henni?

Í febrúar opinberaði Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur og fyrrum skattstjóri, skýrslu sína um efnahagsleg áhrif stóriðju hér á landi. Þar segir til að mynda: ,,Helsti efnahagslegi ávinningur landsins af starfsemi stóriðjuvera í eigu erlendra aðila eru þeir skattar sem þeir greiða. Ætla má að skattgreiðslur meðalálvers sé um 1,2 milljarðar króna á ári. Það er einungis um 0,1% af þjóðarframleiðslunni.“  (10)

Og nú síðast í gær, þriðjudaginn 28. júlí sagði fréttastofa RÚV frá útkomu skýrslu sem Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra lét gera um orkusölu til stóriðju, þar sem ein helsta niðurstaðan er að það verð sem álfyrirtækin greiða fyrir orku hér á landi sé svo lágt að enginn raunverulegur ávinningur sé af sölunni. (11) Hversu oft hafa umhverfissinnar bent á þessa staðreynd? Það er jú forsenda þess að álfyrirtækin færi framleiðslu sína hingað til lands.

Álverð er í lágmarki og forstjóri Norsk Hydro sagði nýlega að hann óttaðist að álkreppan væri rétt að byrja. (12) Álfyrirtækin sitja uppi með byrgðir af áli en samt eru í gangi framkvæmdir í Helguvík og rætt er um álver á Bakka í fullustu alvöru. Stefna ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri Grænna virðist vera að framleiða áfram gífurlegt magn af áli, burtséð frá umhverfis- og samfélagslegum áhrifum framleiðslunnar, bæði hér á landi og annars staðar í heiminum, t.d. þar sem báxítgröftur á sér stað. Framkvæmdirnar eru tilraun til að halda lífi í kapítalísku efnahagskerfi sem þjónar einungis hagsmunum þeirra sem eiga fjármagn.

Það er því ekkert skynsamlegra en að loka stofnunum og fyrirtækjum sem standa fyrir og koma að stóriðjuvæðingu Íslands.

Heimildir:

(1) Frétt á Vísi, http://visir.is/article/20090728/FRETTIR01/798661640
(2) Frétt á Mbl.is , http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/07/25/thadu_ekki_bod_um_fund/
(3) Sumarið 2008 hélt Saving Iceland ráðstefnuna Hreint ál? þar sem indverski rithöfundurinn og aktívistinn Samarendra Das fjallaði um áhrif báxítgraftar á náttúrulegt og félagslegt umhverfi frumbyggja í heimalandi sínu. Tveimur dögum seinna fjallaði ritstjórnarpistill Morgunblaðsins um fyrirlesturinn og efni hans. Á sömu opnu var stór grein um báxít en fyrir þetta var nánast ekkert fjallað um báxítgröft, sem er hreint ótrúlegt þar sem báxít er undirstöðuefni áls – fyrir hvert tonn af framleiddu áli þarf 4-6 tonn af báxít.
(4) An Agency of the Ministry of Industry and Energy and the National Power Company (1995). Lowest Energy Prices!! In Europe For New Contracts
(5) Frétt á Rúv.is, http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item167449/
(6) Frétt á Mbl.is, http://mbl.is/mm/frettir/kosningar/2009/04/17/log_um_helguvikuralver_samthykkt/
(7) Frétt á Mbl.is, http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/07/21/selur_landsvirkjun_orku_til_helguvikur/
(8) Frétt á Rúv.is, http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item289123/
(9) Draumalandið, kvikmynd eftir Andra Snæ Magnason og Þorfinn Guðnason
(10) Efnahagsleg áhrif stóriðju, skýrsla eftir Indriða H. Þorláksson, http://inhauth.blog.is/users/a7/inhauth/files/efnahagsleg_ahrif_erlendrar_stori_ju_0.doc
(11) Frétt á Rúv.is, http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item291814/
(12) Frétt á Smugunni, http://www.smugan.is/frettir/frettir/2009/03/06/nr/1195


Náttúruvaktin