okt 06 2009

Skemmdarverk eða sýruárás?

Prentmiðlar fluttu frétt þann 3.október sem bar titilinn „Sýra notuð í fleiri árásum“. Í greininni er svo sagt frá því að samskonar sýra var notuð við heimili Rannveigar Rist, forstjóra Alcan, og Hjörleifs Kvarans, forstjóra OR, þegar skemmdarverk voru unninn á bifreiðum þeirra í sumar. Í lok fréttarinnar kemur svo fram „að þegar Rannveig opnaði framdyr fjölskyldubílsins um morguninn skvettist sýra úr hurðarfalsinu í andlit hennar neðan við hægra augað og fær hún varanlegt ör“. Þessir atburðir gerðust þann 5.ágúst.

Þegar Svartsokka las titilinn „Sýra notuð í fleiri árásum“ á MBL brá henni því andstaða við stóriðju á Íslandi hefur verið friðsæl hingað til. Fólk hlekkjar sig við vinnuvélar til að stöðva vinnu á byggingarsvæðum álvera, skvettir skyri á Landsvirkjunarbás í Háskóla Íslands og á kosningaskrifstofum stjórnmálaflokkana, og svo í sumar skvetta lakkhreinsi á bíla forstjóra stóriðjufyrirtækjana.  Ef við lítum aftur framsetningu efnisins þá er mikilvægt að átta sig á því að ákveðnum lykilorðum hafa verið skipt út til að vekja tilfinningar hjá lesandanum um að skemmdarverkið í ofangreindri frétt hafi verið sýruárás á andlit Rannveigar.

Lakkeyðir -> Sýra
Bifreið -> Við heimili
Skemmdarverk -> árás

Hér fyrir neðan getur þú lesið textann að nýju eftir að rétt orð hafa verið sett inn:

Samskonar lakkeyðir var notaður á bifreið Rannveigar Rist, forstjóra Alcan, og Hjörleifs Kvarans, forstjóra OR, þegar skemmdarverk voru unninn á bifreiðum þeirra í sumar. Þegar Rannveig opnaði framdyr fjölskyldubílsins um morguninn skvettist lakkeyðir úr hurðarfalsinu í andlit hennar neðan við hægra augað og fær hún varanlegt ör.

Ef við skoðum orðin árás og skemmdarverk í orðabók þá er gríðarlegur munur á skilgreiningu þessara tveggja hugtaka.

Skemmdarverk #1: Verk unnið til að skemma eitthvað af ásettu ráði¹
Skemmdarverk #2: Vinna skemmdarverk (á <húsinu, bílnum>²

Árás #1: Atlaga (með vopnum) / veita einhverjum árás (1)
Árás #2: Árás á <hann, hana; liðið, herinn> (2)

Takið eftir hvernig vísað er til eitthvers þegar átt er við skemmdarverk og hann/hana eða hóp fólks þegar átt er við árás. Sér morgunblaðið engan mun á hlutum og fólki? Það annaðhvort sér engan mun á þessu tvennu eða er af ásetningi að breyta orðræðunni. Við skulum sjá:

Titill greinarinnar er einstök snilld því þar er 2/3 lykilorðum skipt út og við lestur greinarinnar sjálfar þá er strax búið að vekja upp reiði hjá lesandanum í garð þeirra sem stóðu að skemmdarverkunum. Kjarni greinarinnar, að lakkeyðir hafi slest úr falsi hurðarinnar á húð Rannveigar þegar hún opnaði hurðina, skiptir þar litlu máli því búið er að hafa áhrif á lesandann í titlinum alveg óháð því hvað hafi raunverulega gerst. Þegar Svartsokka les orðið sýra-árás-andlit í sömu setningu þá vekur það óhjákvæmilega hjá henni reiði því hún óskar engum þess að verða fyrir sýruárás hvar sem er á líkamanum. Sem dæmi má nefna sýruárásina sem Konstantina Kuneva, hreingerningarstarfsmaður OIKOMET, varð fyrir frá starfsmönnum fyrirtækisins eftir að hafa barist lengi fyrir bættari réttindum og kjörum fyrir starfsstéttina. Þar var sýru hellt yfir andlit hennar og hún einnig látin drekka hana (3).

Svartsokku blöskrar við hugsunina, hvort sem forstjóri Alcan, fyrirtæki sem sakað er um fjöldamorð og mannréttindabrot, yrði fyrir sýruárás eða einsaklingur í verkalýðsbaráttu. Það er hinsvegar ekki það sem gerðist í tilfelli Rannveigar. Hún varð ekki fyrir sýruárás heldur var lakkeyði (sem inniheldur sýrueyðandi efni) skvett á bílinn hennar. Svartsokka veit ekki hvort sömu einstaklingar skvettu lakkeyði á bifreiðarnar og þeir sem hlekkja sig við vinnuvélar en þrátt fyrir það þá er greinilega markvisst verið að stöðva skemmdarverk á náttúrunni með því að vinna skemmdarverk á eignum þeirra sem ábyrgðina bera eða reynt að stöðva vinnu með friðsamlegum hætti ÁN ÞESS að beita líkamlegu ofbeldi. Ef við skoðum sögu baráttu umhverfissinna á Íslandi síðust ár þá er það einkennandi þáttur í allri baráttunni. Ekkert líkamlegt ofbeldi.

Ásetningurinn var skemmdarverk á bíl Rannveigar en ekki árás. Rannveig gerir sér kannski grein fyrir því og þess vegna fór hún ekki með það í fjölmiðla? Þegar Morgunblaðið fréttir af slettunni þá reynir það að hafa samband við Rannveigu vegna málsins sem neitar að tjá sig. Ekki ætlar mogginn að stoppa og skrifar grein um málið engu að síður og breytir ásetningnum úr skemmdarverki á bifreið í sýruárás á andlit. Ef þessir einstaklingar ætluðu sér að skvetta sýru í andlit Rannveigar þá hefðu þeir varla komið að nóttu til og skvett lakkeyði yfir bílinn hennar.

En og aftur reynir Morgunblaðið að rægja málstað umhverfissinna með því að breyta orðræðunni til að gæta hagsmuna þeirrar stéttar sem stjórna miðlinum. Almenningsálitið er eitt mesta vald sem ríkir í landinu. Það sem ritstjórar Moggans vita að ef þú stjórnar almenningsálitinu þá hefurðu vald yfir fólkinu.

Heimildir
1. Íslensk Orðabók – Grundvallarrit um íslenska tungu.
Ritstj. Mörður Árnason. Edda : 2007

2. Jón Hilmar Jónsson. Stóra Orðabókin um íslenska málnotkun. JPV útgáfa : 2005

3. Aftaka.org

Þessi grein er tekin af anarkistavefnum svartsokka

Náttúruvaktin