maí 20 2010
1 Comment

Íslenska umræðuplanið

Rvk9Hvernig fjölmiðar og aðrir dómarar götunnar hafa dæmt nímenningana fyrirfram

Þann 8. desember 2008 fóru þrjátíu manns inn í Alþingishúsið. Tveir einstaklingar, af sitthvoru kyni, fóru upp á þingpalla og hvöttu þingmenn til að koma sér út úr húsi sem þjónaði ekki tilgangi sínum lengur. Aðrir voru stöðvaðir í stigaganginum, þeim var hótað piparúðun og lentu síðar meir sumir í stimpingum við lögreglu og þingverði. Nokkrir voru handteknir, yfirheyrðir og svo sleppt – þinghald tafðist um klukkustund. Rúmu ári seinna var níu einstaklingum – undirritaður þar með talinn – stefnt af Láru V. Júlíusdóttur, settum ríkissaksóknara, meðal annars fyrir árás gegn sjálfræði Alþingis. Refsiramminn sem héraðsdómaranum Pétri Guðgeirssyni er gert að dæma okkur eftir, er eins árs til lífstíðarfangelsi.

Mikil umræða hefur átt sér stað um ákærurnar; í dagblöðum, sjónvarpsstöðvum, fréttavefjum, spjall- og bloggsíðum, á götum úti og á Alþingi. Viðbrögð Héraðsdóms við þeim fjölda fólks sem vill fylgjast með málaferlunum hafa reynst sem olía á eld: að láta lögreglu vakta yfir og stjórna þannig réttarhöldunum – og ekki dregið úr umræðunni.

Umræðan um málaferlin – og sérstaklega um atburðinn í þinghúsinu þennan desemberdag 2008 – hefur verið miklum annmörkum háð. Ég sé mig tilneyddan til að hrekja eitthvað af þeim rangfærslum og lygum sem komið hafa fram, og benda um leið á það plan sem íslenska umræðan virðist vera föst á.

Áttundi desember tvöþúsund og átta!

Í greininni „Hvaða réttlæti?“, sem birtist í DV þann 14. maí sl., gagnrýnir Illugi Jökulsson dómsmálið, auk framgöngu dómsstjóra og dómara. Greinin er ágæt en þegar Illugi ætlar sér að útskýra atvikið sem við eru ákærð fyrir, segir hann að „í miðjum rústunum“ hafi átt „að bjóða þjóðinni upp á gælumál Heimdallar,“ það er umræðu um frumvarp um sölu á léttvíni í matvöruverslunum „Þá hófst búsáhaldabyltingin, og þá urðu þeir atburðir þegar fólkið braut sér leið inn í þinghúsið.“ Það er rangt. Og það er líka rangt að þúsundir manna hafi staðið á Austurvelli þegar við fórum inn á Alþingi, eins og kom ranglega fram í viðtali sem Catharine Fulton tók við okkur fyrir maí-tölublað The Reykjavík Grapevine.

Daginn eftir að grein Illuga kom út, birtist grein fyrrum framkvæmdastjóra Stúdentaráðs Háskóla Íslands, Jóhanns Más Helgasonar, á vefritinu Deiglunni, þar sem hann fer ítrekað með rangt mál um réttarhöldin og ástæður þeirra. Jóhann endar greinina á því „þegar nokkrir mótmælendur sem gengu um með appelsínugul bönd, gengu á milli og byrjuðu að verja lögreglumennina fyrir grjótkasti og öðrum aðskotahlutum“. Sá atburður átti sér stað aðfaranótt 22. janúar 2009 – einum og hálfum mánuði eftir að hin meinta árás okkar á Alþingi átti sér stað. En þar sem Jóhann virðist ekkert vita um efni greinar sinnar segir hann svo: „Fólkið sem mun þurfa að mæta örlögum sínum fyrir dómi eru þeir sem köstuðu grjótinu.“

Að því er ég best veit hefur enginn verið handtekinn eða ákærður fyrir grjótkast þetta umrædda janúarkvöld. Hitt veit ég með vissu, að ekkert okkar þrjátíu sem fórum inn í Alþingi í desember 2008, hafði grjót meðferðis.

Liggjandi slasað fólk

Höldum okkur við grein Jóhanns því af nógu er þar að taka. Hann segir okkur níu hafa farið „hvað mestu offari í mótmælunum sjálfum“ – og á þá við það tímabil sem oft er kallað búsáhaldabyltingin – og þess vegna séum við nú dregin fyrir dómsstóla. Hann segir frá slösuðum þingvörðum og bætir svo við: „Þá eru ótaldir þeir lögreglumenn sem meiddust illa í mótmælunum og hafa þurft að fara í aðgerðir eða leita læknishjálpar og eru ekki ennþá búnir að ná fullum bata.“ Ég hef ekki heyrt af lögreglumönnum sem slösuðust illa þann 8. desember þó í ákærunni á hendur okkur sé minnst á einstaka „eymsli“, „mar“ og „tognun“.

Þessar ýkjur eru þó engin nýmæli og Jóhann er síður en svo að finna upp hjólið. Í Fréttablaðinu, þann 22. janúar þessa árs – stuttu eftir að upphaflega var sagt frá ákærunni – sagði stórum stöfum við frétt um málið að ríkissaksóknari hafi ekki heimild til að fella niður mál „þar sem sjö liggja slasaðir vegna ofbeldis.“ Með þessu orðalagi – að fólk liggi slasað vegna ofbeldis – gaf Fréttablaðið tóninn fyrir þá fjölmiðlaumræðu sem ríkt hefur í kringum málið; umræðu sem byggist á óvissu og skorti á vitneskju um það sem raunverulega átti sér stað í þinghúsinu, en er fyllt upp í með ýkjum og alhæfingum.

Þannig hefur til að mynda ítrekað verið fullyrt að við höfum ruðst inn í þinghúsið en ekki gengið inn í það eins og annað fólk gerir (t.d. Fréttablaðið 21.01, 11.03., 13.05. og Morgunblaðið 22.01., allt 2010). Egill Helgason sagði á bloggsíðu sinni þann 30. apríl að honum finnist „ekki forsvaranlegt að ráðast með valdi inn í þinghúsið, slást við lögreglu og þingverði“ og í annað skipti minntist hann – eins og Jóhann – á það þegar hópur fólks kastaði grjóti að lögreglumönnum við Stjórnarráðið. „Daginn eftir klæddist fjöldi mótmælenda appelsínugulum lit til marks um að þeir kærðu sig ekki um ofbeldi. Þrátt fyrir að mikið hafi legið við, ríkti varla undanþága fyrir ofbeldi þessa daga“ sagði Egill, þó sá atburður sem hann skrifaði um – „árásin á Alþingi“ – hefði ekkert með uppruna appelsínugulu mótmælabylgjunnar að gera.

Í samtali við Hönnu G. Sigurðardóttur í útvarpsþættinum Vítt og breytt á Rás 2 þann 17. maí, sagði Jón Ólafsson, heimspekingur og kennari við Háskólann á Bifröst, að ekki væri hægt að leggja það að jöfnu að „slá mann í rot“ og „berja bumbur fyrir framan þinghúsið“. Þetta sagði hann í kjölfar umræðu um undirskriftalista sem hundruð manna hafa skráð nöfn sín á og lýst yfir samsekt varðandi „árás á Alþingi“ vegna mótmælaaðgerða, stundum lögbrota, við þinghúsið veturinn 2008 – 2009. Jón hefur þó engin orð um það hvaða umræddi maður var sleginn í rot, eða hvar og hvenær.

Íkveikjur, eignaspjöll og saurpokar

Svona heldur þetta áfram. Björn Bjarnason segir okkur hafa ráðist á Alþingi. Í umræðum á Alþingi 14. maí sl., var rædd þingsályktunartillaga þingmanns VG um að málið gegn okkur yrði fellt frá. Sama dag gaf Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins til kynna að hinn 8. desember hafi allt verið „brotið og bramlað“ í þinghúsinu. Sama tón kvað við í bloggfærslu annars Sjálfstæðismanns, Jóns Magnússonar,  þar sem segir að „óeirðarfólk“ hafi valdið eignaspjöllum í eða á þinghúsinu og þess vegna séu þau – við – sótt til saka. Ritstjórar Morgunblaðsins voru svo hrifnir af skrifum hins síðari Jóns að þeir birtu bloggfærslu hans í heild sinni undir yfirskrift Staksteina, þann sama dag og fyrri Jón fór með sínar lygar á Alþingi.

Hægrisinnaða vefritið AMX birtir reglulega nöldur undir nafninu Fuglahvísl og hefur það síðustu vikurnar oft á tíðum snúið að dómsmálinu. Smáfuglarnir sjálfstæðu fjalla undantekningarlaust um „árásina á Alþingi“, fólkið sem beit og beitti ofbeldi, slasaði þingverði og lögreglumenn og þar fram eftir götunum. Á frjálshyggjuritið Vefþjóðviljann er skrifað í sama stíl. Þann 13. maí fjallaði pistlahöfundur síðunnar um fyrrnefnda þingsályktunartillögu og setti svo upp uppskáldaða dæmisögu af manni sem mislíkar störf Vinstri grænna. Hún hljóðar svo:

„Hann fer niður á Suðurgötu og kastar grjóti inn um glugga á skrifstofu VG. Hann er með slíka háreysti tímunum saman að menn heyra ekki eigin hugsanir. Hann ryðst inn á skrifstofuna og slasar starfsmenn sem óska þess góðfúslega að hann hafi sig á brott. Á leiðinni út ber hann eld að útidyrum hússins. Hann er svo handtekinn síðar um daginn þegar hann er aftur á leið niður á Suðurgötu með sekk sem í er allt sem gengið hefur niður af honum þann daginn.“

Þarna er hvað lengst gengið í ýkjunum og lygunum. Með dæmisögunni – sem á að vera mótvægi við málflutning þeirra sem sjá fjarstæðuna í málaferlunum á hendur okkur níu – er framkomu okkar í þinghúsinu þann 8. desember 2008, líkt við rúðubrot, íkveikjur og (að því er virðist) áætlanir um að fleygja saur á fólk. Einnig er okkur gefið að hafa truflað þingstörf tímunum saman. Vissulega voru brotnar rúður í byggingum stofnana ríkisins í janúar 2009, eldur borinn að útidyrahurð Alþingis og þingstörf trufluð dögunum saman. Sögur gengu einnig um að lögreglumenn hafi handtekið einstaklinga í nánd við mótmælin í janúar, sem hafi haft saur í pokum. En ekkert af þessu hefur neitt með ákærurnar á hendur okkur að gera. Þann 8. desember voru engar rúður brotnar, enginn eldur kveiktur og enginn illa lyktandi saur borinn á borð – að undanskildum stjórnmálunum sem stunduð voru í þinghúsinu sem töfðust í rúma klukkustund. Ef menn ætla sér raunverulega að gagnrýna mótmælaaðferðir, málstað þeirra eða stuðning við hann – hvers vegna ekki að hafa staðreyndirnar á hreinu til að byrja með?

Meintir stuðningsmenn, alvarlegar sprengjur og alvald Álfheiðar

Margt annað umhugsunarvert hefur komið fram í umfjöllun af málinu. Blaðamaður Morgunblaðsins sá sig til að mynda knúinn til að gera stuðningsmenn að „stuðningsmönnum“ í gæsalöppum, þegar hann sagði frá því er hundruð manna komu saman í Héraðsdómi Reykjavíkur við fyrirtöku í dómsmálinu þann 12. maí. Ég hafði samband við hann til að spyrjast fyrir um gæsalappirnar – vitandi um þann raunverulega stuðnings sem fólkið sem þarna var viðstatt sýndi okkur, hinum ákærðu þennan dag – og fékk þau svör að þó augljóslega hafi einhverjir stuðningsmenn verið á svæðinu hafi þó verið þarna hópur fólks kominn til þess eins að knýja fram ólæti við lögregluna. Þetta veit blaðamaðurinn auðvitað ekkert um.

Ritstjórar sama blaðs lugu svo stórum stöfum, þann 1. maí, þegar leiðari blaðsins bar heitið „Sprengjur í héraðsdómi“ og fjallaði um atvik sem átti sér stað eftir fyrirtöku í dómsmálinu daginn áður. Þeir Davíð og Haraldur bentu reyndar á að „sprengjurnar“ hafi verið litlar, „sennilega svokallaðir kínverjar“, en að málið væri engu að síður alvarlegt. Í sömu grein erum við sögð hafa reynt að hafa áhrif á störf Alþingis með ofbeldi og gefið til kynna, að það eitt, að engin leið hafi verið að fullyrða um meinleysi „innrásinnar“ í Alþingi þegar hún átti sér stað, sé nógu góð ástæða til að rétta yfir okkur.

Í Morgunblaðinu þann 22. janúar, var því haldið fram að atvikið í þinghúsinu eigi sér enga hliðstæðu. Það er ekki alls kostar rétt. Eins og kemur fram í þingsályktunartillögunni fyrrnefndu hafa mótmæli oft átt sér stað á áhorfendapöllum þinghússins: „Þegar EES-samningurinn var formlega samþykktur á Alþingi mættu fulltrúar ungliðahreyfingar eins stjórnmálaflokksins meira að segja á þingpalla með eftirlíkingar af hríðskotabyssum og lýstu því yfir að um valdatöku væri að ræða án þess að nokkrum kæmi til hugar að kæra hópinn fyrir árás á þingið.“ Einnig segir þar að í einum af þeim fjölda mótmæla sem hafa verið á pöllunum hafi einn núverandi ráðherra tekið þátt. Sá heitir Össur Skarphéðinsson og lýsti hann því í sjónvarpsviðtali við vefsíðu Morgunblaðsins, hinn 9. desember 2008 – daginn eftir að meint árás okkar átti sér stað – hvernig hann hafi þrumað yfir þingheim, varinn af fjölda félaga sinna.

Til viðbótar við þetta hefur því markvisst verið haldið fram, meðal annars af hægri sinnuðu vefmiðlunum sem nefndir eru hér að ofan og Birni Bjarnasyni, að Álfheiður Ingadóttir, þingmaður og núverandi ráðherra, hafi haft eitthvað að gera með þessi mótmæli – jafnvel stjórnað þeim. Þetta á reyndar við um mótmæli umrædds vetrar almennt og er goðsögnin ekki einungis runnin undan rifjum vefmiðlanna heldur einnig frá lögreglunni, en akkúrat ári eftir atburðinn umrædda skrifaði lögreglumaðurinn Gylfi Guðjónsson grein í Morgunblaðið, þar sem hann sagði Álfheiði hafa hvatt „fólk þetta [mótmælendur] til dáða í stórhættulegum athöfnum og afbrotum.“ Einn okkar níu ákærðu hefur einnig verið spurður af lögreglunni hvort hann og Álfheiður hafi skipulagt „árásina“ saman. Smáfuglar AMX bættu um betur hinn 2. maí sl. og sögðu frá því þegar Álfheiður „fylgdist vel með árásinni á alþingishúsið og leiðbeindi mótmælendum úr síma, þar sem hún stóð við glugga í Kringlu þinghússins.“

Ég ætla ekki að fjölyrða um persónulegar skoðanir Álfheiðar á mótmælum, enda þekki ég hana ekki og man ekki eftir því að hafa átt orðaskipti við hana nokkurn tíma, í nokkurn síma. Það má vel vera að hún hafi stutt mótmælin og átt stuðningsmenn meðal mótmælenda, en dómarar götunnar ættu kannski að athuga hversu margir nímenninganna eru flokksbundnir VG eða yfirhöfuð stuðningsmenn þeirra – hvað þá að einhver eigi í persónulegum samskiptum við þingmenn flokksins. Ég tala ekki fyrir hönd annarra en ég tel ólíklegt að þeir finni einn slíkan meðal okkar. Og jafnvel þó svo væri, er ekkert sem bendir til þess að okkur hafi verið stjórnað eins og tuskudúkkum í andófi okkar, þó þeir sem haldi því fram þekki kannski ekki og vilji ekki sjá annars konar vinnubrögð en það þegar einn eða nokkrir aðilar stýra hegðun fjöldans.

Orð gegn orði

Sönnunargögnin sem nú þegar liggja fyrir í málinu sína ekki fram á meintar sakir okkar. Myndband úr eftirlitsmyndavél í bak-andyrri þinghússins, því sem við gengum inn um, sýnir stimpingar en ekkert ofbeldi. Það sýnir meira að segja þegar einn þingvarða togar í eitt okkar níu, með þeim afleiðingum að sá hinn sami lendir á öðrum þingverði sem svo lendir á ofni. Fyrri þingvörðurinn á ekki yfir höfði sér áralanga fangelsisvist og skaðabótagreiðslu upp á tæpa milljón króna vegna atviksins – heldur einn nímenninganna.

Í lýsingum þingvarða í þeim gögnum sem fylgja ákærunni kemur margoft fram að við höfum hvorki beitt ofbeldi og afli, né hótunum um ofbeldi – þvert á það sem segir í sjálfum ákærunum og er svo magnað upp í fjölmiðlaumfjölluninni. Minnst er á minniháttar pústra. Einhverjir þingverðir segja frá stimpingum og minnast á að hafa fengið hné í lærið. Eða reyndar fékk einn þeirra eitthvað, hugsanlega hné, í lærið. Armbandsúr eins þingvarðar brotnaði. Þumall tognaði. Nú er þumallinn sagður vera 8% öryrki en eigandi hans virðist ekki geta útskýrt tildrög slysins. Einn þingvörður átti erfitt með svefn. Sumir fóru til sálfræðings. Löggur segjast hafa verið bitnar en læknar sáu engin bitför. Hreyfigeta fingra er eðlileg. Lögreglumaður sá mótmælanda gera sig „líklegan til að bíta“ lögreglumann og annar „missti af því andartaki er hann náði að vinda sér fram og bíta“. Einn nímenninganna sagðist ekki mæla með því að þingvörður réðist á sig. Lögga fann fyrir verkjum í hné en var reyndar fyrir með eymsli í hné um árabil. Fáir þingverðir og lögreglumenn virðast muna eftir því að hafa gefið okkur nokkur fyrirmæli.

Þetta stendur allt í málsgögnum og kemur fram í myndbands- og hljóðupptökum sem málinu fylgja. Í viðtölum á vefsíðu Morgunblaðsins, stuttu eftir atburðinn, lýstu fjórir þingmenn sem voru í salnum, því hversu saklaus og minniháttar „árásin“ var. Það voru Einar K. Guðfinnsson, Grétar Mar Jónsson, Guðjón Arnar Kristjánsson og fyrrnefndur Össur. Enginn þeirra er Vinstri grænn, sem hefði annars verið svo auðveld ástæða til þess að hundsa orð þeirra. Hinn síðastnefndi sagðist meira að segja hafa haft gaman að. Ekkert af þessu virðist þó stöðva fjölmiðla og aðra dómara götunnar í því að gera ráð fyrir sekt okkar. Lögfræðingurinn og einn verjanda okkar, Ragnar Aðalsteinsson, hefur lýst yfir áhyggjum af því að vegna þeirrar hlutdrægni sem ríki í umfjölluninni sé ómögulegt fyrir okkur að fá réttláta málsmeðferð hér á landi.

Mismarktæk vísa réttarríkisins

Í kjölfar handtöku og gæsluvarðhalds nokkra bankamanna, vegna rannsóknar sérstaks saksóknara á hruni íslensks efnahags haustið 2008, spratt allt í einu upp umræða um réttarríkið. Hæstaréttarlögmaðurinn Heimir Örn Herbertsson skrifaði til dæmis grein í Morgunblaðið þann 12. maí sl. til að minna á að réttarríkið hvíli „á þeim grunni að sakborningar séu raunverulega álitnir saklausir þangað til sekt þeirra sannast.“ Reglur um réttindi sakborninga, segir Heimir, ber öllum íbúum samfélagsins lagalega og siðferðisleg skylda til að umgangast af virðingu – „sama hversu sterkar tilfinningar þau mál, sem til umfjöllunar eru, vekja hjá okkur.“

Ritstjórar Morgunblaðsins tóku í sama streng í leiðara og sögðu það þýðingarmikið „að ekki sé neinn réttur brotinn á þeim mönnum sem í hlut eiga.“ Ólafur Þ. Stephenssen, ritstjóri hins Morgunblaðsins, sá sömuleiðis ástæðu til að minna á þann grunn sem Heimir Örn sagði réttaríkið hvíla á, enda seint nógu oft ítrekað að mati Ólafs. „Handtaka, gæzluvarðhald eða ákæra er ekki endanlegur dómur.“ Það er umhugsunarvert hvers vegna öllum þessum mönnum finnst svo brýnt að tönnlast á þessu í tilfelli fyrrum þjóðhetjanna úr Kaupþing, en ekki þegar augljós kúgun á sér stað af hendi ríkisins, á þeim sem þorðu að segja satt um stjórnmála- og samfélagsástandið í desember 2008; og ákváðu að láta á það reyna að brjóta múrana á milli valdhafa og valdalausra – koma skýrum skilaboðum til þingheims, milliliðalaust.

Þvert á móti fullyrðir Ólafur í leiðara þann 3. maí, að við níu höfum truflað störf Alþingis með látum og slasað fólk og hvetur okkur til að líta í eigin barm áður en við gagnrýnum ofbeldisfullt ríkisvald. Tónn leiðarans og flest umfjöllun Fréttablaðsins um réttarhöldin yfir okkur, eru svo sannarlega ekki í takt við vísuna sem Ólafi finnst aldrei of oft kveðin. Við erum ofbeldismenn, en ekki meintir ofbeldismenn. Við framkvæmdum árás á Alþingi, en erum ekki grunuð um meinta árás á Alþingi. Við stefndum sjálfræði þings í hættu, en erum ekki talin hafa stefnt því í hættu. Við slösuðum þingverði – svo nokkrir „liggja slasaðir“ – en erum ekki talin hafa slasað þingverði. Svona er umfjöllunin og virðist ritstjórum fréttablaðanna, sem og öðrum þeim sem fullyrða sífellt um glæpsamlega hegðun okkar níu, standa á sama þann alvarleika sem felst í hótun um mögulegt lífstíðarfangelsi. Ég endurtek: Lífstíðarfangelsi!

Að lokum

Réttarhöldin yfir okkur níu eru varla hafin. Nokkrar fyrirtökur og kröfubeiðnir hafa farið fram, og loks höfum við öll lýst því yfir að sakargiftirnar séu rangar. Samt sem áður hefur ótrúleg umræða átt sér stað og bendir ekki til annars en að eftir því sem líður á málið, verði umræðan meiri. Að öllum líkindum verður hún líka skiptari – bilið milli andstæðra fylkinga kemur til með að breikka. Nú er af alvöru rætt um að sýna beint frá réttarhöldunum á vefsíðu héraðsdóms, sökum þess fjölda fólks sem krefst þess að réttarhöldin verði opin en ekki lokuð af með lögregluborðum.

Rétt eins og réttarríkið byggir á þeim grunni að fólk sé saklaust uns sekt er sönnuð, hlýtur almenn umfjöllun um dómsmálið að byggja á þeirri forsendu að staðreyndirnar séu á hreinu. Þá skiptir engu hvort um er að ræða stuðningsmenn okkar níu, andstæðinga, eða fólk einhvers staðar þar á milli. Kynnið ykkur málið. Leggið dagsetningar á minnið. Aðskiljið aðskildar uppákomur. Áttið ykkur á tímalínu búsáhaldauppreisnarinnar og heldur fátæklegri andófssögu hérlendis. Hættið að ljúga.

Þá færist umræðan vonandi á annað plan.

Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson,
listamaður og einn hinna ákærðu nímenninga.

One Response to “Íslenska umræðuplanið”

 1. Jón Sigurðsson skrifar:

  Það er ekki sjens að þetta fólk fái réttlát réttarhöld.

  Er ekki lengur til snefill af réttlætiskennd í fólki? Svei þeim sem halda að sér höndum í stuðningi við sakborninga!

  Þennann skrípaleik verður að stöðva tafarlaust og þeir sem að honum standa, stjórnmálamenn, býrókratar, fólk innan dómsmálabáknsins og fjölmiðlamafíunnar eiga að fá kenna á því.

  Það kann að vera að sum öfl sjái sér hag í því að halda þessu máli gangandi til þess að skapa óróa í samfélaginu. En ef við við gerum þessa sömu aðila PERSÓNULEGA að skotspænum þá fyrst skulum við sjá hver er hræddur við vald hvers!

  Hér mun eitthvað nýtt fæðast í íslensku þjóðfélagi. Já, segjum þessu fólki, þeim einstaklingum sem bera ábyrgð á þessum ofsóknum, alvöru stríð á hendur.

Náttúruvaktin