maí 28 2010

Pólitísk íhlutun Magma og Norðuráls

Í fréttum Stöðvar 2 sl. laugardag var kostuleg frétt þess efnis að viðræður væru hafnar milli Magma Energy og Norður-áls um sölu á orku til álversins í Helguvík. Í viðtali við Árna Sigfússon, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, kom fram að hann fagnaði því að hlutur Geysis Green Energy væri nú í höndum aðila sem sé kominn að HS Orku til langs tíma. Það hafi greitt fyrir því að samningaviðræður milli Norðuráls og HS Orku hafi komist á skrið að nýju.

Með fréttinni var gefið í skyn að nú sé að rofa til í orkumálum álversins. En hvað skyldi í raun vera á bakvið þessar svokölluðu viðræður? Í fréttinni kom í raun ekkert fram um viðræðurnar því staðreyndin er sú að þar er ekkert að frétta. Hér var sett á svið ómerkileg leiksýning af hálfu Magma og Norðuráls, tveggja fyrirtækja í eigu erlendra aðila, sem með þessu eru að hlutast til um íslensk stjórnmál. Sýninguna setja þau á svið fyrir velgjörðarmann sinn, bæjarstjórann í Reykjanesbæ, viku fyrir kosningar til sveitarstjórnar. Samkvæmt fréttinni virðist sem hér séu á ferðinni stórtíðindi í atvinnumálum Suðurnesjamanna. Og eins og venjulega sá fréttamaðurinn ekkert athugavert.

Hið stóra plat í leiksýningunni er að HS Orka (Magma Energy) hefur enga orku til að selja Norðuráli. Til að þetta sé alveg skýrt er rétt að fara lauslega yfir þá kosti sem HS Orka hefur til orkuvinnslu:

Fyrirhuguð stækkun Reykjanesvirkjunar er í uppnámi þar sem Orkustofnun hefur ekki viljað samþykkja stækkunina. Ástæðan er nær örugglega sú að jarðhitasvæðið er nú þegar fullvirkjað og trúlega gott betur. Reyndar hef ég áður bent á að þetta hefði mátt ráða af umsögn Orkustofnunar strax þegar umhverfisáhrifin voru metin.

Hugmyndir um aukna orkuvinnslu í Svartsengi og Eldvörpum geta hugsanlega skilað fáeinum tugum af megavöttum en svæðið er mjög nálægt því að vera fullvirkjað.

Rannsóknarboranir við Trölladyngju hafa gefið neikvæða niðurstöðu.

HS Orka hefur rannsóknar-leyfi á litlu jarðhitasvæði við Sandfell í Grindavíkurbæ en takmarkaðir kærleikar hafa verið með HS Orku og Grindvíkingum hin síðari ár. Þetta sýnist ekki efnilegt.

HS Orka hefur rannsóknarleyfi í Krýsuvík og hefur náð samningum um rannsóknarholur við landeiganda, sem er Hafnarfjarðarbær, en síðan ekkert meir. Finnist yfirleitt nýtanleg orka í Krýsuvík er ekkert sem bendir til að Hafnfirðingar vilji að hún fari til Helguvíkur.

HS Orka leitar nú eftir orkuvinnslusvæðum í Hrunamannahreppi. Staða þess máls er óljós á sama hátt og sú orkulind sem málið snýst um en hún virðist vera einhvers konar aðfærsluæð jarðhitans á Flúðum innan af hálendinu.

HS Orka er eigandi að þriðjungi hlutafjár í Suðurorku sem hyggst einbeita sér að vatnsaflsvirkjun í Skaftá, Búlandsvirkjun. Það verkefni er á frumstigi og óljóst um vilja Sunnlendinga til að selja orkuna til Suðurnesja ef af verður.

Þar sem Magma hefur enga orku til að selja er augljóslega ekkert til að semja um. Hér er á ferðinni einfalt pólitískt sjónarspil. Ekki veit ég hvort fordæmi eru fyrir slíku framferði erlendra fyrirtækja á vettvangi íslenskra stjórnmála. Nú rær Árni Sigfússon lífróður til að framlengja veru sína á stóli bæjarstjóra í mínum gamla heimabæ. Þar hefur hann á undanförnum árum rekið bæjarfélagið með einhvers konar ponzi-tilbrigði þar sem eignir bæjarins hafa verið seldar og skuldum safnað í staðinn. En hví skyldu félög í eigu erlendra aðila tilbúin að taka þátt í svona ómerkilegri og siðlausri brellu í þeim tilgangi einum að halda vini sínum, bæjarstjóranum, áfram við völd? Ekki veit ég gjörla hvað hér liggur að baki en undanfarin ár hafa bæði stór og smá fyrirtæki verið að seilast til áhrifa í skipulagsmálum sveitarfélaga. Kunnustu dæmin eru af byggingaráformum í miðborg Reykjavíkur og virkjunaráformum í Flóahreppi. Flutningur skipulagsmála frá ríki til sveitarfélaga fyrir rúmum áratug hefur reynst mikið ógæfuskref og leitt til þess að skipulag sveitarfélaganna er orðið að söluvöru. Og nú virðist málið vera að færast á nýtt stig. Í hvaða sporum verðum við ef veiklundaðir sveitarstjórnarmenn selja skipulagsvaldið í hendur útlendingum? Jafnvel í nafni sjálfstæðis? Er ekki tímabært að draga úr skipulagsvaldi sveitarfélaga?

Svo er að sjá sem hinum útlendu herrum hafi bærilega tekist að tileinka sér það íslenska siðferði sem við helst gætum verið án.

Náttúruvaktin