ágú 31 2010

Fyrir og eftir Miðkvísl

Guðmundur Páll Ólafsson

… og svo sprakk dýnamítið og grjót og mold þyrlaðist yfir alla en áin söng á ný. Laxá var frjáls.

Einhvern veginn svona hljómaði lýsing af sprengingunni í Miðkvísl við Mývatnsósa þegar ólögleg stífla Laxárvirkjunar var rofin. Ég vildi að ég væri sekur og hefði átt virkan þátt í verknaðinum. En jafnvel þótt fyrrum formaður stjórnar Laxárvirkjunar lýsti því í ævisögu sinni, Sól ég sá, að ég hefði aðstoðað sprengjumenn þá var ég því miður erlendis þegar lýðræðissprengjan sprakk.

Samt á ég hluta í sprengingunni en því miður líka í stíflunni. Það er einu sinni svo að hlutleysi og aðgerðarleysi fríar mann ekki þegar upp er staðið. Jafnvel þegar við erum sofandi á verðinum eigum við hlutdeild í mörgu sem gerist. Þegar við kjósum ekki tökum við óbeinan þátt. Þegar við þöggum nauðgun gerumst við samsek. Þegar við verjum ekki landið okkar eigum við þátt í að eyðileggja það og skaða framtíð barna okkar. Þegar við látum þingmenn og sveitastjórnarmenn eina um lýðræðið gefum við þeim lausan tauminn að vinna gegn lýðræði.

Eyðilegging Miðkvíslarstíflu var þarfaverk. Laxá féll frjáls á ný sem bókstaflega bjargaði vistkerfi Mývatns og Laxár og hún sprengdi líka lýðræðishaft sem stjórnvöld og stjórn Laxárvirkjunar höfðu þröngvað upp á íbúa sveitanna og alla þá sem unna landinu. Hroki valdsins sveif yfir sveitunum þar til sprengjan sprakk en þá urðum við frjáls – um sinn.

Staðan er síst skárri í dag. Launþegar lýðræðis, þingmenn og sveitastjórnarmenn, eru kosnir til að vinna fyrir fólk. En þess í stað gerast þeir verðir hagsmunahópa og taka völdin í þeirra nafni. Um leið er lýðræðinu varpað fyrir róða. En við eigum ekki bara stjórnmálamenn af þessu sauðahúsi. Við höfum líka aðra valdastétt, fyrirtækjavaldið. Í Laxárdeilunni fór það fram með offorsi, þá umgekkst stjórn Laxárvirkjunar og Orkustofnunar náttúru Íslands, fólk og fjármuni ríkisins eins og sína eign. Við höfum leyft þessu spillta valdi að vaða fram. Landsvirkjun hefur ávallt stundað þetta og þá ekki síður Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur, að ógleymdri sveitastjórn Reykjanesbæjar sem ákvað að bjóða Norðuráli orku og auðæfi Reykjaness og Þjórsár eins og það sé í hennar valdi. Sveitastjórn Norðurþings lærði af Austfirðingum hvernig kúga ætti fólk til hlýðni og beitir sömu bellibrögðum til að afhenda ALCOA eða Kínaáli stórkostleg auðæfi Þingeyjarþings.

Hér þarf að moka út og „sprengja“ líkt og við Miðkvísl.

Við þurfum að skilgreina hlutina upp á nýtt til að skilja við hverja við einfaldir sveitamenn erum að glíma. Um allan heim er háð áþekk barátta til að vernda auðlindir, vistkerfi og fólk. Þetta þrennt hangir saman. Án heilbrigðra vistkerfa verða auðlindir rýrar og einkavæðing auðlinda eða afhending auðlinda til yfirþjóðlegra fyrirtækja eins og við höfum stundað (ALCOA, Rio Tinto og Norðurál) er auðlindarán. Hvorki stjórnmála- né stjórnarmenn í orkufyrirtækjum eiga auðlindir. Þeir hafa fyrst og fremst umboð til að vinna fyrir fólk en gera ávallt hið gagnstæða þegar þeir afsala auðlindum og eyða náttúrugæðum í þágu yfirþjóðlegra fyrirtækja sem mörg hver hafa verið skilgreind sem hryðjuverkafyrirtæki á alþjóðavísu vegna átakanlegs skaða sem þau valda. Öll álfyrirtækin falla undir þessa skilgreiningu vegna báxítnáms og mengunar. Þá eru risafyrirtækin sem í óðaönn sölsa undir sig vatnsréttindi víða um veröld ógnvænleg. Fyrirtæki í gulli og pappírsiðnaði eru lítt skárri.

Eftir hryðjuverk þessara fyrirtækja á náttúru og auðlindir eru harmleikir þeirra sem líða fyrir miklu víðtækari og skelfilegri en árás á Tvíburaturna eða voðasprengjur kúgaðra og trúblindra manna hafa valdið, án þess að gert sé lítið úr þeim voðaverkum. Víða um heim eru milljónir og milljarðar manna í neyð af völdum slíkra hryðjuverkafyrirtækja sem auðtrúa menn á Íslandi halda að starfi í anda góðgerðastofnana og hvetja til þess að þau komi hingað með „raunverulegar fjárfestingar“ svo „hjól atvinnulífsins geti farið að snúast“.

Aðvörun: Þegar fulltrúar atvinnulífs og verkalýðhreyfingar, stjórnmálaflokka og sveitastjórna tala um „hjól atvinnulífsins“ þá má fólk vara sig.

Sveitastjórnarmenn í Norðurþingi og Þingeyjarsveit bjóða nú öllum sótröftum heimsminjar falar sem vilja koma á mengandi stóriðju í fríðri og auðlindaríkri heimabyggð. Við þurfum lýðræðissprengjur til að sprengja þetta vald hrokans en einnig þau lýðræðis- og mannréttindahöft sem ríkisstjórnir, Alþingi og embættismenn hafa komið á. Sú var tíð að Þingeyingar börðust fyrir landinu sínu, frelsi og réttlæti – hvar eru þeir nú? Og hvers vegna fáum við ekki að njóta sömu mannréttinda og frændur okkar á Norðurlöndum og í Evrópu? Í svokölluðum Árósarsáttmála felast þau sjálfsögðu mannréttindi að mega verja land sitt og auðlindir fyrir dómstólum. Hvers vegna þurfum við að taka upp siði Kínverja og Rússa í þeim efnum?

Meirihluti þingmanna Íslands fékk falleinkun þegar hann gætti hagsmuna landsmanna gagnvart bönkum. Hafi þingmenn reynst gálausir gæslumenn á því sviði þá eru þeir sýnu verri náttúru- og auðlindagæslumenn. Stóri flokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, á til dæmis engan talsmann á þingi fyrir náttúrugæðum landsins en marga ákafa um ríkisstuðning til stóriðju með náttúruspjöllum og niðurgreiddri orku. Svo langt gengur að varaformaður flokksins fær sitt daglega brauð frá ALCOA og berst fyrir stóriðju fyrirtækisins í Þingeyjarþingi. Hvernig eigum við almúgafólk að treysta að rétt sé gefið á Alþingi?

Og Þjórsárver eru enn á dagskrá eftir hálfrar aldar ofbeldi. Ef til vill er sú deila stóridómur um stjórnarfar á Íslandi, tregan skilning stjórnvalda á náttúruauðæfum og um getu okkar að stjórna okkur sjálfum. Ef við viljum hins vegar taka til í íslensku samfélagi þá byrjum við á að vernda landið okkar og Þjórsárver. Við einfaldlega lokum þar á stríðsrekstur Landsvirkjunar í eitt skipti fyrir öll og hugsum stórt: Bætum Kerlingarfjöllum inn í friðlýsinguna og komum svæðinu á Heimsminjaskrá UNESCO. Sá mun vera mesti hagur sveitanna og landsmanna allra.

Höfundur er Þingeyingur

Greinin birtist upphaflega á Smugunni 31. ágúst 2010

Náttúruvaktin