ágú 12 2010
1 Comment

Samband milli Magma og Glitnis/Íslandsbanka?

Eitt af því sem maður verður mikið var við þegar farið er aðeins að kanna ofan í söguna á bak við sölu HS og síðar HS Orku er hvað starfsmenn Glitnis og sá banki er nátengdur öllu saman. Á Suðurnesjum hefur sá banki rekið fasteignafélag með Reykjanesbæ, stofnaði Geysi Green Energy þar sem Ásgeir nokkur Margeirsson var gerður að forstjóra en GGE keypti hlut ríkisins í HS. Gaman er einnig að geta þess að Vilhelm Þorsteinsson, yfirmaður fyirrtækjasviðs hjá Glitni/Íslandsbanka var einnig sonur Þorsteins Vilhelmssonar en fyrirtæki hans, Atorka átti sinn þátt í stofnun GGE. Glitni stóð einnig í fleiri fjárfestingum m.a. á eignum Keflavíkurflugvallar sem bæjarstjóri og bæjarfulltrúar Reykjanesbæjar komu einnig. REI-ævintýrið með fyrrum forstjóra Glitnis, Bjarna Ármanns, í fararbroddi, fór þó úrskeiðis en þá átti HS að enda í fanginu á sameinuðu félagi GGE og REI.

Glitnir var samt stórhuga á fleiri sviðum og hélt í útrás hingað og þangað um heiminn m.a. til Bandaríkjanna þar sem eftir Hrun endaði skrifstofan í höndum starfsmanna þar sem stofnuðu fyrirtækið Glacier Partners með Magnús nokkurn Bjarnason fremstan í flokki en sá hafði setið í stjórn Geysis Green Energy meðal annars. Síðar var stofnað Capacent Glacier sem var í samstarfi við Glacier Partners og stýrði Magnús Bjarnason þeim báðum með marga fyrrum starfsmenn Glitnis innanborðs.

Einnig hélt Glitnir til fleiri staða, m.a. til Suður-Ameríku þar sem stofnaðar voru m.a. skrifstofur í Santiago, höfuðborg Chile og Lima, höfuðborg Perú og ráðnir þar menn með reynslu til að huga að ráðgjöf og fjárfestingum varðandi sjávarútveg og einnig endurnýtanlega orku við mikinn fögnuð Magnúsar Bjarnasonar í hefðbundinni fréttatilkynningu og svo einnig Jóns Garðars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra yfir Rómönsku Ameríku og Asíuútibúum Glitnis, sem kemur einnig að Glacier Partners/Capacent Glacier.

Því er gaman að skoða þetta kort næst sem er tekið úr kynningu Glitnis á fjárfestingum í endurnýtanlegri orku. Af þessu broti úr glærunni má sjá hvar Glitnir var að hasla sér völl í Ameríkunni.

Eins og sjá má var Glitnir að leika sér aðeins í Bresku Kólumbíu, í Kanada og Nevada í Bandaríkjunum við mikinn fögnuð Árna Magnússonar og fyrrnefnds Magnúsar Bjarnasonar. Einnig er eins og áður var Glitnir með skrifstofur í Santiago, Chile og Lima, Perú. Glitnir var bankafyrirtæki með heimsyfirráðadrauma á þessum tíma, og ætlaði sér stóra hluti allstaðar m.a. með Geysir Green Energy….allavega út á við meðan verið var að tæma bankann að innan.

Magma heimsmyndLítum því næst á annað kort:

Eins og sjá má þá hefur Magma starfsemi og skrifstofur í Bresku Kólumbíu, Nevada, Santiago í Chile og Lima í Perú líkt og kemur fram á heimasíðu þeirra.

Tilviljun gæti verið um að ræða að þessir tveir aðilar skuli hafa starfsemi á svipuðum slóðum en bætum fleiri hlutum inn í jöfnuna til að velta fyrir sér. Í grein sem birtist í Scientific American 17. febrúar2009 þá má finna ummæli frá Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra Geysi Green Energy og Alexander Richter sem var og er enn að manni sýnist í orkumálum Glitnis/Íslandsbanka. Þar virðast þeir vera búnir að gefa drauminn upp um heimsyfirráð Glitnis á þessum markaðii en eru farnir að horfa til Íslands varðandi fjárfestingar í orkugeiranum.

Þann 30. Apríl (skemmtileg tilviljun að árið 2007 keypti GGE hlut ríkisins í HS þann sama dag) birtist Magma og skellir sér með sprautunum í Geysi Green Energy inn á fund í iðnaðarráðuneytið og ballið byrjar. Um sumarið er svo selt til Magma og þar sem Geysir Green er eiginlega á kúpunni ásamt því að Atorka er í greiðslustöðvun þá leppar Geysir Green kaupin fyrir Magma og bæjarstjórinn í Reykjanesbæ sem hefur verið í miklu samstarfi við Glitnismenn, keyrir kaupin af offorsi í gegn með sínum flokksmönnum og það án tillits til athugasemda minnihlutans. Sama aðferðafræði er beitt og sumarið 2007 þegar GGE keypti hlut Reykjanesbæjar, kallað til fundar í hvelli meðan sumarfrí standa yfir. Í framhaldi fer Magma að ásælast hlut OR sem var einmitt bitbeinið í REI-málinu þar sem Glitnis-menn ýmsir, núverandi og fyrrverandi, komu nálægt og kemur þá upp úr kafinu að Magnús Bjarnason og gengi hans í Glacier Partners/Capacent Glacier eru ráðgjafar í kaupunum. Má kalla þetta Deja Vu miðað við að ferlið er eins.

Hlaupum yfir OR og allt það en Ásgeir Margeirsson hættir svo hjá GGE og gerist forstjóri Magma. Í stað hans tekur við Alexander Guðmundsson sem starfaði fyrir Bjarna Ármanns í Noregi líkt og hinn frægi norski ráðgjafi Geirs H. Haarde en sá norski hafði einnig tekið þátt í ímyndarherferð með Bjarna þegar markaðir heimsins hristust og Tryggvi Þór og Mishkin skrifuðu skýrslu stórblekkinga fyrir Viðskitparáð. Alexander Guðmundsson þessi kom svo til Íslands og gerðist yfirmaður Fjármálasviðs undir Lárusi Welding en færði sig greinilega svo yfir til GGE í fjármálastjórn þar. Einnig opnar Íslandsbanki nýja skrifstofu í New York með sömu áherslum og áður en í minna húsnæði, nokkurskonar ný útrás þó manni gruni að um sé að ræða frekar innrás.

Svo koma stóru kaupin í vor sem eiga að klára dæmið og loks vakna fleiri en þeir fáu sem voru að benda á óeðlilegheit. Í kjölfarið kemur upp athyglisverður hlutur varðandi Magma og Íslandsbanka. Það kemur í ljós að Íslandsbanki lak tilboðum til Magma, tekur ekki hæsta boði heldur eftirlætur Magma hlut GGE sem var í höndum skilanefndar og stjórnar GGE sem var skipuð Íslandsbankamönnum að stórum hluta ef ekki öllu leyti og í stað þess að halda opið útboð er það lokað með fáum útvöldum þar sem tilboðin enda í höndum Magma líkt og áður var sagt.

Nú verður maður því að spyrja þegar þetta er skoðað allt saman fyrst og þá til hugleiðingar hver eru tengslin milli Glitnis/Íslandsbankamanna og Magma? Eru þeir í fjárfestingum saman í dag? Er Magma eða Pan American Silver stór viðskiptavinur í S-Ameríku? Hvað með skrifstofurnar þar? Eru þær enn í höndum Íslandsbanka eða eru aðrir aðilar tengdir Glitni komnir með þær? Er þetta ekki of margar tilviljanir tengdar Glitnis-mannskap til að vera eðlilegar? Eru staðsetningar Glitnis og Magma eingöngu tilviljun eða eru náin tengsl þar á milli? Hversvegna lekur Íslandsbanki tilboðunum og hversvegna er þessi ofuráhersla hjá bankanum, meirihlutanum í Reykjanesbæ sem hefur átt í óeðlilegu sambandi við Glitni og fleirum úr stjórnmálum um að Magma fái að eignast HS Orku? Þarf ekki að kafa ofan í þetta jafndjúpt og Rannsóknanefnd Alþingis gerði?

Í landi þar sem fáar tilviljanir eru í viðskiptum tengdum fámennum klíkuhópum þá vill maður fá svör við þessu.

Grein þessi er eftir Agnar Kristján Þorsteinsson og birtist upphaflega á bloggsíðu hans, AK-72

One Response to “Samband milli Magma og Glitnis/Íslandsbanka?”

  1. John Watson skrifar:

    This article is very interesting and infomative. Keep it up!

Náttúruvaktin