feb 20 2011

Ríkislögreglustjóri neitaði ekki vitneskju um breskar lögreglunjósnir

Innanríkisráðuneytið hefur birt yfirlýsingu í framhaldi af greinargerð okkar um Mark Kennedy málið þar sem því er neitað að Haraldur Jóhannessen ríkislögreglustjóri hafi tjáð Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra að Ríkislögreglan hafi ekki haft vitneskju um njósnir Mark Kennedy um Saving Iceland hreyfinguna og að þeir hafi ekki haft neitt að gera með njósnarann eða yfirboðara hans, þ. e. bresku lögregluna. Samkvæmt yfirlýsingu ráðuneytisins er Ríkislögreglan enn að vinna í málinu og skýrslunni (um mögulegt vitorð Ríkislögreglunnar í njósnum Breta) sem innanríkisráðherra pantaði. Ríkislögreglustjóri ku ekki enn vera kominn til botns í málinu.

Í yfirlýsingu Innanríkisráðuneytisins er ekki að finna nein svör við áríðandi spurningum sem var varpað fram í greinargerð okkar, né kallar yfirlýsingin á neinar breytingar á ályktunum í greinargerð okkar.

Ein af þeim ályktunum sem eru hvað áleitnastar er þessi:

„Staðfestingar íslensku lögreglunnar [í Lögreglublaðinu] þess efnis að það hafi átt sér stað náin samvinna á milli breskra og íslenskra yfirvalda þegar kom að Saving Iceland veturinn 2005-2006 stangast á við yfirlýsingar lögreglunnar á Seyðisfirði og Eskifirði. Þetta er í mótsögn við þau gögn sem Saving Iceland hefur undir höndum. Þetta gefur ástæðu til að ætla að íslensk stjórnvöld hafi vitað af njósnum Mark Kennedy innan Saving Iceland.“

Umheimurinn mun fylgjast grannt með því hvernig íslenska Ríkislögreglan kýs að setja fram sína útgáfu á þeim alvarlegu brotum á lögum og mannréttindum sem hafa átt sér stað innan þeirra eigin lögsögu.

Þó að Saving Iceland fagni vitaskuld viðleitni Ríkislögreglunnar til að þrauka við þessa erfiðu rannsókn á eigin stofnun, verðum við varla andvaka þar til Haraldur Jóhannessen og ráðgjafar hans í almannatengslum ákveða hvenær stundin verður ákjósanleg til að láta fjallið taka jóðsótt og fæða mús.

Náttúruvaktin