feb 11 2011
1 Comment

Staðreyndirnar að baki njósnum Mark Kennedy innan íslensku umhverfishreyfingarinnar

Í nýlegri greinaröð Guardian og fleiri fjölmiðla um lögreglunjósnarann Mark Kennedy hefur minniháttar hlutverk hans innan íslensku umhverfishreyfingarinnar verið ýkt. Þessar ýkjur hafa jafnvel gengið svo langt að segja að hann hafi verið mikilvægur hlekkur í stofnun hennar. Þetta þjónar ef til vill því markmiði að gera fréttamat úr sögu Kennedy en er í raun della. Fyrir nokkrum vikum sendi Saving Iceland útskýringar lið fyrir lið til Guardian þar sem bent var á rangfærslur í umfjöllun blaðsins. Þrátt fyrir þetta hefur blaðið enn ekki leiðrétt þær fyrir utan takmarkaðan fyrirvara í grein Ameliu Hill sem ber nafnið „Mark Kennedy var í lykilhlutverki við stofnun íslensku náttúruverndarhreyfingarinnar“ en þar kemur fram að: „Saving Iceland […] vefengir hversu mikið viðriðinn Kennedy var“.

Í fleiri greinum þar sem rætt er um þátttöku Mark Kennedy í breskum hreyfingum vitnar Guardian nokkrum sinnum í breska aktívista sem halda því fram að Kennedy hafi ekki tekið þátt í skipulagi né komið að ákvarðanatöku hreyfinganna. Hins vegar hafi hann tekið þátt sem bílstjóri og verið drífandi þegar kom að daglegum „reddingum“. Einn heimildarmaður hélt því jafnvel fram við Guardian að Kennedy hafi „ekki verið álitinn beittasti hnífurinn í skúffunni“ (að hann stígi ekki í vitið). Fullyrðingar Guardian um meint mikilvægi hans innan Saving Iceland vekja því furðu, svo vægt sé til orða tekið.

Þessi yfirlýsing er skrifuð til að leiðrétta ýmsar rangfærslur sem komið hafa fram í tengslum við veru Kennedy á Íslandi og innan Saving Iceland hreyfingarinnar. Þær eru að Kennedy hafi tekið mikilvægan þátt í stofnun íslenskra umhverfishreyfinga, að hann hafi aðstoðað við að þjálfa Íslendinga í beinum aðgerðum, að hann hafi verið í aðalhlutverki í ýmsum mótmælum á Austurlandi og að hann hafi haft forystu um ýmsar ákvarðanir.

Kennedy gegndi engu hlutverki við stofnun íslensku umhverfishreyfingarinnar
Mark Kennedy sneri ekki aftur til Íslands fyrir mótmælabúðirnar að Kárahnjúkum, Snæfelli og Reyðarfirði árið 2006. Þrátt fyrir að hafa haldið áfram sækja eitthvað af fundum okkar fækkaði athöfnum hans með hreyfingunni smám saman og lauk þeim alfarið árið 2007.

Svo virðist sem blaðamenn Guardian viti lítið um íslenska umhverfisverndarhreyfingu þar sem þeir halda því fram að Kennedy hafi verið „í lykilhlutverki“ við myndun hennar. Saving Iceland er síður en svo eina náttúruverndarhreyfingin á Íslandi. Til eru þó nokkrir fleiri íslenskir umhverfishópar og samtök, og eru sum þeirra eldri en Saving Iceland. Kennedy tók ekki þátt í að stofna Saving Iceland árið 2005 eins og Guardian heldur fram og í raun var hreyfingin stofnuð árið 2004.

Kennedy þjálfaði ekki íslenska mótmælendur og tók ekki mikilvægan þátt í aðgerðum
Mark Kennedy var aldrei þjálfari fyrir Saving Iceland, né tók hann þátt í að þjálfa Íslendinga. Eina þjálfunin sem hann gæti hafa tekið þátt í var í að þjálfa íslenska lögreglumenn á meðan á yfirlýstri samvinnu þeirra við bresku lögregluna stóð árin 2005- 2006. Tilgangur þessarar samvinnu var að hjálpa íslensku lögreglunni við að taka á aktívistum á vegum Saving Iceland.

Kennedy lék ekki stórt hlutverk í aðgerðum á Íslandi árið 2005, það ár sem hann kom hingað. Hann hafði þegar yfirgefið mótmælabúðirnar áður en þeim var lokað á Kárahnjúkum og var ekki viðstaddur þegar þær voru færðar að Vaði í Skriðdal. Hann tók einungis þátt í tveimur stórum aðgerðum þar sem fólk læsti sig við vinnuvélar á vinnusvæðinu á Kárahnjúkum, áður en búðunum var lokað. Hann tók ekki þátt í aðgerðum sem framkvæmdar voru eftir að búðunum var lokað þetta sumar, bæði á Kárahnjúkum og á vinnusvæði álvers ALCOA á Reyðarfirði, né tók hann þátt í aðgerðum sem fram fóru í Reykjavík seinna í ágúst. Kennedy var aldrei í því hlutverki að sinna erindum fyrir Saving Iceland í Reykjavík. Eftir því sem við best vitum kom hann aldrei til Reykjavíkur.

Þar af leiðandi eru eftirfarandi fullyrðingar rangar sem birst hafa í Guardian: „Það var á meðan þessum mótmælum stóð sem Kennedy sýndi íslenskum aktívistum aðferðina að „læsa niður“ – þar sem mótmælendur festa sig við kyrrstæðan hlut – og hvernig loka megi vegum með því að setja saman þrífætur úr vinnupöllum og hafa einn mótmælanda á toppnum“ og „Leynilögreglumaður gerði sjálfan sig ómissandi fyrir hreyfinguna, að sögn aktívista“.

Það er vert að taka það fram að blaðamaðurinn notar orðin „læsa niður“ fyrir aðferð sem venjulega er nefnd „læsa við“ af aktívistum, sem sýnir hversu lítið hann veit um mótmæli með beinum aðgerðum.

Í fyrstu tvö skiptin sem mótmælendur læstu sig við vinnuvélar á Kárahnjúkum var enginn Íslendingur þeirra á meðal. Þetta voru einu aðgerðirnar sem Kennedy tók þátt í á Íslandi. Allir sem tóku þátt í þessum aðgerðum voru mjög reyndir aktívistar frá mismunandi löndum og þurftu þeir ekki á neinni þjálfun eða kynningu á slíkum aðferðum að halda, hvorki frá Kennedy né öðrum. Að auki var ekki notast við vegatálma né þrífætur þetta sumar. Saving Iceland notaði þrífætur í mótmælaskyni fyrst sumarið 2008 við vinnusvæði Century Aluminum í Hvalfirði, nokkrum árum eftir að Kennedy hafði verið á Íslandi.

Stofnandi Saving Iceland, Ólafur Páll Sigurðsson, hafði þegar skipulagt nokkurra daga námskeið í beinum aðgerðum í samvinnu við íslensku friðarhreyfinguna vorið 2004 og aftur undir merkjum Saving Iceland í júní 2005. Leiðbeinendur á námskeiðunum voru erlendir aktívistar og voru þau auglýst opinberlega og um þau fjallað í íslenskum fjölmiðlum með vissri undrun og kímni.

Það er mögulegt að Mark Kennedy hafi ýkt mikilvægi sitt í samtali við Jason Kirkpatrick, einn af heimildarmönnum Guardian. Hin svonefndu „þjálfunarmyndbönd“ sem Kennedy sýndi Kirkpatrick voru af raunverulegum aðgerðum á Kárahnjúkum. Þetta myndband gekk mannna á milli meðal aktívista og fjölmiðla víða um Evrópu. Það hafa aldrei verið til nein þjálfunarmyndbönd af aktívistum á vegum Saving Iceland, hvað þá þar sem Mark Kennedy var þjálfari.

Hin raunverulegu námskeið í beinum aðgerðum voru haldin í maí 2004 og júní 2005. Kennedy kom hins vegar ekki til Íslands fyrr en í júlí 2005 eftir mótmælin á G8 fundinum á Gleneagles í Skotlandi. Þar af leiðandi byggjast fullyrðingar Kirkpatricks á gorti í atvinnulygara, þ.e Kennedy.

Þegar kom að þátttöku Kennedy í upplýsingaferðum Saving Iceland, og meintu hlutverki hans í að tengja Ólaf Pál og aðra evrópska aktívista, var hlutverk hans einungis að vera bílstjóri og reddari í nokkrum af þeim fjölmörgu ferðum sem Ólafur og fleiri fóru í til þess að vekja athygli á baráttunni fyrir verndun íslenska hálendisins. Það er því algjörlega rangt að halda því fram að Kennedy hafi verið ómissandi í að kynna Saving Iceland fyrir erlendum aktívistum og og að hann hafi innleitt beinar aðgerðir hér á landi.

Kennedy var aldrei forystumaður í ákvarðanatöku með Saving Iceland
Fullyrðingin um að Kennedy hafi „fljótlega orðið […] forystumaður í ákvarðanatöku“ innan Saving Iceland er að öllu leyti ósönn. Saving Iceland er ekki skipulagt sem stigveldi heldur með láréttri ákvarðanatöku. Við höfum enga leiðtoga og mikilvægum hlutverkum er deilt niður og fólk skiptist á að sinna þeim. Við byggjum á breytilegum hópi hugsjónafólks sem leggja sitt af mörkum eftir þeirra áhugasviði og getu hverju sinni. Áherslan á „forystumenn í ákvarðanatöku“ er leið til að blása upp hlutina og ýtir ef til vill undir sölu á dagblöðum en sýnir skilningsleysi á uppbyggingu flestra þeirra hreyfinga sem fjallað var um í tengslum við mál Kennedy. Að auki má spyrja þess, að úr því að breskir aðgerðasinnar álitu Kennedy ekki stíga í vitið, hví ætti Saving Iceland að hafa álitið hann vera nokkuð skarpari? Fjölmargir aðrir voru mun hæfari og gáfu sig meira í báráttuna en Kennedy þegar kom að ákvörðunum og skipulagi.

Á þeim fáu árum sem Kennedy starfaði með Saving Iceland var hann hluti af stórum hópi útlendinga sem lögðu sitt af mörkum til samtakanna. Í raun er sú staðreynd að Kennedy var njósnari á vegum bresku lögreglunnar það eina merkilega sem tengist starfi Kennedy með Saving Iceland.

Umfjöllun Guardian er villandi þar sem blaðið fjallar ranglega um samhengið í þátttöku Kennedy, og eins ber hún ekki vott um þann heiðarleika sem blaðamenn þess héldu á lofti í upphaflegum samskiptum þeirra við Saving Iceland. Saving Iceland krefst þess að fá að heyra sannleikann sem liggur að baki níðingslegum persónulegum svikum Kennedy og þeim mannréttindabrotum sem framin voru með heimild yfirvalda.

Kennedy hvatti til ólöglegra aðgerða
Saving Iceland getur nú staðfest að Mark Kennedy hafi hvatt til ólöglegra aðgerða á meðan hann var við störf sem lögreglumaður innan hreyfingar okkar. Hann kallaði ítrekað eftir því að mótmælin gengju lengra og misnotaði það traust sem hann naut í ólöglegum tilgangi, jafnvel með því að nota kynlíf til að öðlast upplýsingar.

Við krefjumst þess að sannleikurinn um svik hans á meðan hann var við vinnu á vegum breskra stjórnvalda, mögulega í samvinnu við íslensk stjórnvöld, verði upplýstur og að þeir sem bera ábyrgð svari fyrir athæfi sitt. Bresk og íslensk lögregla og stjórnvöld þurfa að svara því hvaða stofnanir og yfirvöld vissu af því að hann væri leynilega við störf á Íslandi.

Kennedy hefur sjálfur staðfest það í viðtali við Daily Mail að á meðan hann var við störf í Þýskalandi var hann alltaf í beinum samskiptum við þýsk yfirvöld og kom sjálfur áleiðis upplýsingum til þýsku lögreglunnar. Þetta hefur verið staðfest í þýska þinginu af háttsettum þýskum lögreglumönnum. Daily Mail flutti fregnir af því að „Kennedy segist ferðast erlendis með öðrum aktívistum og koma upplýsingum til yfirmanna sinna í Bretlandi til þess að deila með öðrum þjóðum. „Aktívismi á sér engin landamæri“ segir hann. „Ég fór aldrei til útlanda nema með leyfi frá yfirmönnum mínum og lögreglunni á staðnum.“

Hvers vegna ætti þetta að vera eitthvað öðruvísi í tilfelli íslenskra stjórnvalda?

Ólögleg samvinna íslenskra og breskra yfirvalda?
Saving Iceland mun á næstu dögum birta gögn sem sýna að lögreglan á Seyðisfirði og Eskifirði sagði ósatt í tilkynningu þeirra til RÚV þar sem hún hélt því fram að lögreglan hefði ekki haft nein „afskipti“ af Mark Stone/ Kennedy árið 2005. Síðar neitaði Ríkislögreglustjóri að svara spurningum RÚV um það hvort hann hafi vitað af breskum lögreglunjósnara innan raða Saving Iceland. Saving Iceland spyr því: Hvað er ríkislögreglustjóri að fela?

Enn síðar,  2 febrúar sl., sagði Haraldur Jóhannesen, ríkislögreglustjóri á fundi með Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra, að lögreglan hefði ekki vitað af því að breskur leynilögreglumaður hafi starfað innan íslenskrar lögsögu [Leiðrétting]. Svo virðist sem ráðherrann hafi skipað lögreglustjóra að rita skýrslu um málið.

Íslensk löggjöf leyfir ekki forvirkar rannsóknarheimildir. Ef breska lögregla vann hér án vitneskju íslenskra stjórnvalda braut hún á íslenskri lögsögu. Ef íslenska lögreglan vissi af Kennedy eða tók við upplýsingum frá honum eða yfirboðurum hans braut hún lög.

Staðfestingar íslensku lögreglunnar (í Lögreglublaðinu) þess efnis að það hafi átt sér stað náin samvinna á milli breskra og íslenskra yfirvalda þegar kom að Saving Iceland veturinn 2005-2006 stangast á við yfirlýsingar lögreglunnar á Seyðisfirði og Eskifirði. Þetta er í mótsögn við þau gögn sem Saving Iceland hefur undir höndum. Þetta gefur ástæðu til að ætla að íslensk stjórnvöld hafi vitað af njósnum Mark Kennedy innan Saving Iceland.

Í stað þess að birta fréttir af upplognum uppákomum ættu Guardian og aðrir fjölmiðlar að einbeita sér að því að rjúfa þögn breskra og íslenskra stjórnvalda varðandi það hver veitti viðtöku uppljóstrana Kennedy og hvaða stofnanir og yfirvöld vissu af athöfnum hans á Íslandi.

STADREYNDIR UM MK.pdf

One Response to “Staðreyndirnar að baki njósnum Mark Kennedy innan íslensku umhverfishreyfingarinnar”

  1. Írsk samvinna skrifar:

    Þýska lögreglan hefur þegar viðurkennt að hafa átt í samvinnu við Kennedy. Nú viðurkennir írska lögreglan að þeir vissu af njósnum hans á Írlandi.

    http://www.independent.ie/national-news/gardai-let-undercover-uk-officer-protest-here-2509066.html

    Þetta eykur líkurnar á því að íslensk yfirvöld hafi haft vitneskju um njósnir Kennedy.

Náttúruvaktin