maí 06 2011

Íslensk yfirvöld láti af seinagangi og undanbrögðum í máli Mark Kennedy

Saving Iceland

Saving Iceland sendir ríkislögreglustjóra og innanríkisráðherra bréf: Íslensk yfirvöld láti af seinagangi og undanbrögðum í máli Mark Kennedy

Eins og kom fram í yfirlýsingu sem náttúruverndarhreyfingin Saving Iceland sendi frá sér sl. þriðjudag, um afskipti íslenskra lögregluyfirvalda af breska lögreglunjósnaranum Mark Kennedy, óskaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra eftir því í ársbyrjun að ríkislögreglustjóri gerði rannsókn á því hvort íslenska lögreglan hafi vitað af störfum Kennedy hér á landi og eins hvort hún hafi átt í samstarfi við hann.

Nú hafa þrír mánuðir liðið en ekkert heyrst frá Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra. Þessi langa þögn yfirvalda um þetta alvarlega mál stangast algjörlega á við viðbrögð yfirvalda í Þýskalandi og Írlandi sem lýstu því yfir opinberlega, stuttu eftir að fréttirnar af Kennedy komust á síður alþjóðlegra fjölmiðla í byrjun janúar þessa árs, að þau hafi verið meðvituð um veru og störf hans innan lögsagna þeirra.

Sökum þessarar löngu þagnar hefur Saving Iceland nú sent ríkislögreglustjóra bréf þar sem ítrekuð er nauðsyn þess að staðreyndir málsins líti dagsins ljós. Saving Iceland spyr ríkislögreglustjóra hver nákvæmlega fyrirspurn innanríkisráðherra varðandi Kennedy hafi verið, hvenær vænta megi svara við fyrirspurninni, og loks hvort íslenska lögreglan hafi notað rannsóknarheimildir á borð við hleranir, til dæmis á símum og tölvupóstum, staðsetningarbúnað eða annan sambærilegan rannsóknarbúnað gagnvart einstaklingum sem störfuðu með Saving Iceland hreyfingunni og náttúruverndarsamtökunum Náttúruvaktinni á tímabilinu frá nóvember 2003 til dagsins í dag.

Aukinheldur hefur Saving Iceland óskað eftir því að ríkislögreglustjóri afhendi lagalegum umboðsmanni Saving Iceland aðgang að öllu þeim gögnum sem við koma afskiptum og mögulegum njósnum lögreglunnar á Saving Iceland og Náttúruvaktinni og þeim einstaklingum sem frá og með nóvember 2003 hafa starfað innan hópanna tveggja.

Saving Iceland hefur einnig sent Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, bréf þar sem ítrekuð er sú krafa að svör ríkislögreglustjóra um afskipti og samskipti íslensku lögreglunnar við Mark Kennedy, líti dagsins ljós. Sömuleiðis er ítrekuð beiðni lagalegs umboðsmanns Saving Iceland um afhendingu ofangreindra gagna um afskipti og mögulegar njósnir lögreglunnar um Saving Iceland og Náttúruvaktina.

Saving Iceland bendir einnig á að skýrsla sem þáverandi dómsmálaráðherra lét gera í apríl 2008, að kröfu níu þingmanna Vinstri grænna, þar með töldum núverandi innanríkisráðherra, gefur ekki fullnægjandi mynd afafskiptum lögreglunnar af Saving Iceland. Fjölda atvika vantar í skýrsluna auk þess sem sú staðreynd að hún er gerð af skólastjóra Lögregluskólans, sem verður að teljast eins hlutdrægur aðili og orðið getur, hlýtur að rýra sannleiksgildi hennar.

Að lokum bendir Saving Iceland á að í þingumræðum um Mark Kennedy, sem fram fóru á Alþingi þann 17. janúar sl. að frumkvæði Marðar Árnasonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sagði Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, að reynist það rétt að íslenska lögreglan hafi vitað af og/eða starfað með Kennedy, hafi þar um forvirkar rannsóknarheimildir verið að ræða og þær heimildir hafi íslenska lögreglan ekki. Össur sagði að hvorki stjórnvöld né utanríkisráðherra einn og sér hefðu nokkra ástæðu til að aðhafast í málinu fyrr en niðurstöður þeirrar rannsóknar sem innanríkisráðherra bað ríkislögreglustjóra um að gera lægju fyrir. Þótt þrír mánuðir séu nú liðnir og engin svör hafi borist frá ríkislögreglustjóra hefur Össur ekkert aðhafst frekar í málinu. Ljóst er að ef íslensk yfirvöld höfðu ekki vitneskju um Kennedy brutu bresk lögregluyfirvöld bæði íslensk og alþjóðleg lög, og er þá um alvarlegt milliríkjamál að ræða.

Þessi langa þögn gefur óhjákvæmilega til kynna að ekki sé allt með felldu hjá íslenskum yfirvöldum hvað störf Mark Kennedy hér á landi varða. Saving Iceland krefst þess að innanríkisráðherra, utanríkisráðherra og ríkislögreglustjóri láti af seinagangi sínum og undanbrögðum undir eins.

Sjá yfirlýsingu Saving Iceland frá því á þriðjudag hér.

Nánari upplýsinga veitir Saving Iceland hreyfingin

Frettatilk. SI 6.5. í PDF

Náttúruvaktin