nóv 09 2011
1 Comment

Frá Síberíu til Íslands: Century Aluminum, Glencore International og skuggaveröld námuvinnslu

Sérstök samantekt fyrir Saving Iceland, eftir Dónal O’Driscoll

Formáli

Fyrirtækið Glencore er aðaleigandi Century Aluminum sem á eitt starfandi álver á Íslandi og annað hálfbyggt. Ísland er þannig aðalframleiðsluland áls fyrir Century. Hverjir standa að baki Glencore og hvaða þýðingu hefur það fyrir Ísland? Í þessari grein er fjallað um þennan stærsta hrávörumiðlara heims síðan Enron var og hét. Myndin sem dregin er upp sýnir bæði umfang og eðli áhrifa Glencore á heimsmörkuðum fyrir málma, korn, kol og olíu – fyrirtækið getur stjórnað verðmyndun svo að fáir útvaldir hagnast gríðarlega meðan almenningur tapar. Greinin varpar ljósi á þéttriðið tengslanet milli Glencore og nokkurra stærstu námufyrirtækja heims, tengsl sem felast í sameiginlegu eignarhaldi á öðrum fyrirtækjum og því að sömu aðilar eiga sæti í stjórnum fyrirtækjanna. Sagt er frá helstu hluthöfum í Glencore, sem sumir hverjir eiga stærri hlut persónulega en stofnanafjárfestar. Meðal þessara hluthafa má nefna fjárfestinn Nathaniel Rothschild sem á rúmar 40 milljónir dala í Glencore og er auk þess persónulegur vinur þeirra Peter Mandelson (breskur stjórnmálamaður og fyrrverandi viðskiptafulltrúi Evrópusambandsins) og George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Bretlands.

Í greininni er ennfremur lýst mannréttindabrotum og umhverfisspjöllum sem skrifa má á reikning Glencore. Þar má fremst telja morðið á leiðtoga Maya indíána í Guatemala, Adolfo Ich Chamán, árið 2009. Adolfo hafði mótmælt framkvæmdum Glencore í Guatemala meðan Peter Jones var framkvæmdastjóri fyrirtækisins (Jones situr enn í stjórn Glencore). Færð eru rök fyrir því að Glencore hafi fleiri umhverfisspjöll og mannréttindabrot á samviskunni en flest önnur námafyrirtæki, enda hikar fyrirtækið ekki við að eiga í viðskiptum þar sem aðrir halda sig fjarri, t.d. í Kongó og Mið-Asíu ríkjum. Sem dæmi má nefna að Glencore stundaði viðskipti við Írak í tíð Saddam Hussein og við Suður-Afríku aðskilnaðarstefnunnar – bæði löndin voru undir alþjóðlegu viðskiptabanni. Marc Rich, stofnandi Glencore, átti í viðskiptum með íranska olíu þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjamanna á landið. Þessi viðskipti urðu til þess að Rich var ásakaður um innherjaviðskipti og skattsvik og flúði hann því Bandaríkin árið 1983. Hann var fyrir vikið eftirlýstur af FBI og var á tímabili einn af 10 mest eftirsóttum glæpamönnum Bandaríkjanna, eða þar til Bill Clinton náðaði hann. Glencore er enn rekið af tveimur helstu samstarfsmönnum Richs.

Inngangsorð

Frá Kazakhstan til Ástralíu, um þvera Zambíu, stríðshrjáð Kongó og Angóla, frá Síberíu til Íslands má finna net námu- og jarðefnafyrirtækja sem valda umhverfisspjöllum og samfélags vandamálum. Á Íslandi er Century Aluminum andlit þessa nets, en í hjarta þess er að finna svissneska hrávörumiðlarann Glencore International. Glencore er í þann mund að halda hlutafjárútboð þar sem til stendur að auka hlutafé um 10 milljarða Bandaríkjadollara. Þessi gjörningur mun gera marga vellauðuga og að honum loknum mun virði félagsins vera um 60 milljarðar Bandaríkjadollara. Í þessari grein er ætlunin að varpa ljósi á hvernig Glencore græðir peninga og sýna að Ísland er aðeins eitt af mörgum fórnarlömbum þessa fyrirtækis sem er byggt á grímulausri græðgi og arðráni.

Við fyrstu sýn virðist auður Glencore vera til kominn fyrir viðskipti með hrávörur (sjá frekari útskýringar neðar), aðallega þó kornvörur og málma. Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að Glencore er óvenjulegur hrávörumiðlari að því leyti að fyrirtækið fjárfestir mikið í þeim fyrirtækjum sem framleiða vörurnar sem Glencore stendur í viðskiptum við. Þessa viðskiptahagsmuni er að finna víðsvegar um heiminn: í „brauðbelti“ Rússlands, í sink-námum í Kasakhstan, í kopar- og kóbaltnámum í Kongó og Angóla og í álverum á Íslandi.

Álverin tengja Glencore við Ísland, enda á fyritækið 44% hlut í Century og á fulltrúa í framkvæmdastjórn þess. Century er eigandi álversins á Grundartanga og stendur auk þess fyrir byggingu annars álvers í Helguvík – en fyrir það álver þyrfti að ráðast í byggingu umdeildra varma- og vatnsorkuvera. Það er líka alls óvíst að næg virkjanleg orka sé yfir höfuð fyrir hendi til að knýja fyrirhugað álver í Helguvík. Glencore stjórnar 38% af heimsmarkaði með ál. Helmingur þessa áls er framleitt af Century og rússneska álrisanum UC Rusal, sem Glencore á 8.8% hlut í.

Af framansögðu má greina þéttriðið net persónulegra- og viðskiptatengsla: Hagsmunir Century skarast greinilega mikið við hagsmuni Glencore. Þó ríkisstjórn Íslands sitji að nafninu til við samningaborðið með Century eru hagsmunir Glencore aldrei langt undan, og setja óhrjálegan svip á samvinnuna. Mörgum spurningum um fjárfestingastefnu Glencore er enn ósvarað. Ekki þarf annað en að líta á helstu viðskiptavini fyrirtækisins til að sjá að þar á bæ er ekki hikað við að arðræna stríðshrjáð lönd og eiga í viðskiptum við aðila sem hafa auðgast fyrir tilstilli spillingar og kúgunar. Almennt séð ríkir ánægja með Glencore á fjármálamörkuðum vegna hins mikla hagnaðar sem fyrirtækið skilar, en einstaka blaðamenn og aðilar innan fjármálageirans velta nú fyrir sér hvort ráðlegt sé að fara með meiri gát, þar sem svo lítið sé vitað um innra starf fyrirtækisins og hvernig það fari að því að ná jafngríðarlega arðvænlegum samningum og raun ber vitni.

Í þessu samhengi sakar ekki að rifja upp að síðast þegar hrávörumiðlari náði jafnsterkri markaðsráðandi stöðu og Glencore hefur nú fóru hlutirnir mjög illa. Umrætt fyrirtæki var Enron.

Hvað með Century Aluminum?

Century-fyrirtækið sérhæfir sig í álbræðslu. Það var stofnað árið 1995 við samruna nokkurra smærri fyrirtækja sem Glencore hafði yfirtekið og var sett á almennan markað ári síðar.1

Enn er Glencore stærsti eigandi Century, með 44% eignarhluta. Megnið af hinum 56% er í eigu bandarískra stofnanafjárfesta, svo sem vogunarsjóða.2 Á vefsíðu Century má glöggt sjá að Ísland er lykilhluti af starfsemi fyrirtækisins og þrír framkvæmdastjórar hjá íslenska hluta Century teljast til lykilaðila í framkvæmdastjórn félagsins.

Lykilaðilar

Gunnar Guðlaugsson, framkvæmdastjóri hjá Norðuráli á Grundartanga

Gunnar hóf störf hjá Norðuráli árið 2008 eftir að hafa starfað í álverinu í Straumsvík, nú í eigu Rio Tinto Alcan, í rúmlega tíu ár.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls

Norðurál er eignarhaldsfélag utan um/fyrir íslenska starfsemi Century. Ragnar var áður fjármálastjóri hjá Básafelli og þar áður forstöðumaður innanlandsflutninga og hagdeildar Samskipa.

Wayne R. Hale, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs

Gekk til liðs við Century í 2007 eftir að hafa áður starfað fyrir Sual í Rússlandi (Sual, Rusal og ál-interests Glencore í Rússlandi mynduðu UC Rusal við samruna sinn). Hann hefur einnig starfað fyrir Kaiser og Rio Tinto.

Peter Jones, forstjóri

Forstjóri og framkvæmdastjóri rekstrarsviðs fyrirtækisins Inco Ltd. á árunum 2001-2006. Fyrrverandi forstjóri og framkvæmdastjóri Hudson Bay Mining & Smelting Co. Jones fór á eftirlaun í lok árs 2009.

David J. Kjos, forstjóri Norðuráls á Grundartanga

Fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins Cygnus Inc. sem framleiðir geimtæknibúnað. Þar áður vann Kjos fyrir United Development Co og Kaiser Aluminium & Chemical Co.

Logan W. Kruger, framkvæmdastjóri, aðalforstjóri Century Aluminum

Kruger gekk til liðs við Century í nóvember 2005. Milli 2003 og 2005 var hann háttsettur hjá námafyrirtækinu Inco og leiddi starfsemi þess í Asíu og í Kyrrahafinu. Þar á meðal var Goro nikkel-náman á Nýju-Kaledóníu og fleiri námur í Indónesíu. Kruger er enn framkvæmdastjóri indónesíska dótturfyrirtækisins P.T. Inco (brasilíska nikkel-námufyrirtækið Vale hefur í millitíðinni eignast Inco). Kruger starfaði einnig sem yfirmaður hjá Anglo American’s í Chile (2002-03) og sem framkvæmdastjóri Hudson Bay náma- og málmbræðslufyrirtækisins í Kanada (1998-2002).3 Hann er einnig framkvæmdastjóri hjá Amcoal, sem hefur umsjón með kolanámum námarisans Anglo American í Suður-Afríku.

Andrew Michelmore, forstjóri

Síðan 2009 hefur Michelmore gegnt stöðu framkvæmdastjóra Minerals and Metals Group, áður var hann framkvæmdastjóri hjá OZ Minerals. Bæði fyrirtækin eru meðal stærstu námafyrirtækja Ástralíu. Minerals & Metals Group er dótturfyrirtæki Minmetals Resources Ltd. Minmetals Resources Ltd., staðsett í Hong Kong, á umtalsverðra hagsmuna að gæta á álmarkaðinum í Kína.

John P. O’Brien, stjórnarformaður

Hefur gegnt stöðu stjórnarformanns síðan í janúar 2008. Bakgrunnur hans er á sviði framkvæmdastjórnunar og endurskipulagningar fyrirtækja.

Willy R. Strothotte, forstjóri

Stjórnarformaður hjá Glencore og Xstrata (sjá að neðan í kaflanum um Glencore).

Jack E. Thompson, forstjóri

Gegnir einnig starfi stjórnarmeðlims fjölmargra annarra námufyrirtækja, þar á meðal Anglo-American og Centerra Gold, sem er stærsti vestræni framleiðandi gulls í Mið-Asíu.

Fjórir aðrir stjórnarmeðlimir vernda hagsmuni almennra hluthafa, en það er ljóst af ofansögðu að framkvæmdastjórnin samanstendur að mestu leyti af stjórnendum úr námaiðnaðinum sem þekkjast vel. Slík tengsl geta verið vel falin og þurfa ekki að blasa við út frá upptalningunni að ofan. Til dæmis keyptu Century og Noranda báxítnámuna St. Anns á Jamaica og álverið í Gramercy, Louisiana, af Kaiser Aluminium (síðar keypti Noranda Century út). Noranda er dótturfyrirtæki Xastra, sem eignaðist Noranda árið 2006 sem hluta af yfirtökunni á Falconbridge námufyrirtækinu.

Önnur athyglisverð tengsl eru meðal annars:

Xstrata og Anglo-Americal Chile eiga í sameiningu Callahuasi koparnámuna, þriðju stærstu koparnámu veraldar. Hatrömm átök brutust út við námuna árið 2010 vegna verkfalls námamanna.4

Hudson Bay námafyrirtækið hefur verið ákært vegna morðsins á Adolfo Ich Chamán, leiðtoga Maya indjána, sem mótmælti gjörðum fyrirtækisins í Guatemala. Ich Chamán var skotinn til bana af öryggisvörðum árið 2009.5 Þegar morðið var framið var Peter Jones, núverandi stjórnarmeðlimur Century, framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Einnig er vert að minnast þess að Logan Kruger, núverandi aðalforstjóri Century, var framkvæmdastjóri HB fram til ársins 2002.

Centerra Gold keypti Kumtor námuna í Kyrgyzstan af stjórnvöldum. Almenningur naut lítils góðs af kaupsamningnum og olli það pólitískum titringi í landinu.6 Jack Thompson, stjórnarmeðlimur í Century og Anglo-American, situr einning í stjórn Centerra.

Innfæddir réðust árið 2006 inn í námu í eigu Inco í Goro á Nýju-Kaledóníu vegna áhyggja af umhverfisáhrifum námunnar.7 Á þeim tíma var Peter Jones framkvæmdastjóri hjá Inco. Logan Kruger hafði stjórnað umsvifum við þessa námu á árunum 2002-2005 og gegnir hann enn stöðu forstjóra hjá móðurfélaginu P.T. Inco.

UC Rusal er stærsti einstaki álframleiðandi í heimi og er stjórnað af rússneska ólígarkanum Oleg Deripaska gegnum En+ Group, sem hann stjórnar. En+ á ráðandi hlut í fjölmörgum öðrum námavinnslu- og orkufyrirtækjum sem flest er að finna í Síberíu.8

Meðstjórnandi hans er fjárfestirinn Nathaniel Rothschild, sem stjórnar námufjárfestingarfélaginu Vallar, á 40 milljón dollara hlut í Glencore og er auk þess mikill stuðningsmaður yfirtöku Glencore á Xstrata.9,10 Rothschild er einnig persónulegur vinur bæði Peter Mandelson, fyrrverandi viðskiptafulltrúi Evrópusambandsins, og George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Bretlands.

Xstrata á mikilla hagsmuna að gæta í Ástralíu. Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt harðlega fyrir óprúttnar viðskiptaaðferðir11, og fyrir óvægna meðferð á innfæddum við McArthur-námuna.12 Einnig er í gangi herferð gegn fyrirtækinu vegna umhverfisspjalla við ofanjarðarnámu fyrirtækisins í Mangoola.13

Það er erfitt að sjá að eitthvert eitt námufyrirtæki í þessu neti sé betra en annað. Öll fyrirtækin hafa átt í stormasömum samskiptum við innfædda og við verkalýðsfélög, auk þess að hafa valdið umtalsverðum umhverfisspjöllum. Það segir sitt hve auðvelt er að finna dæmi um þetta á ferilskrám þeirra aðila sem í dag eru lykilstjórnendur Century.

Glencore International AG

Marc Rich & Co

Upphaf Glencore má rekja til verðbréfafyrirtækis hins umdeilda hrávörubaróns Marc Rich. Rich byggði upp hrávöru-viðskiptaveldi sitt með því t.d. að eiga í viðskiptum við fólk eins og Ayatollah Khomeini með olíu frá Íran þrátt fyrir viðskiptabann á Íran af hálfu Bandaríkjamanna. Á sama tíma átti hann einnig í samskiptum við ísraelsku leyniþjónustuna Mossad.

Árið 1983 voru hann og Pincus Green, samstarfsmaður hans, ásakaðir um innherjasvik, skattsvik og ólögleg viðskipti við Írak á sama tíma og viðskiptabann á landið var í gildi. Í framhaldi af því flýðu þeir báðir land og Rich varð einn af tíu efstu á lista bandarísku alríkislögreglunnar (FBI) yfir eftirlýsta glæpamenn. Hann var síðar náðaður af Bill Clinton á síðasta degi þess síðarnefnda í embætti forseta Bandaríkjanna. Athyglisvert er að staðgengill Rich í Washington á fimmtán ára tímabili (1985-2000) var Lewis “Scooter” Libby, sem síðar varð alræmdur sem starfsmannastjóri Dick Cheney.

Rich settist að í Sviss þar sem hann stofnaði fyrirtækið Mark Rich & Co. Undir merkjum þessa fyrirtækis hélt hann áfram með hrávöruviðskipti og sérhæfði sig í olíu, gasi og málmum. Á árunum 1993-4 mistókst honum tilraun til að ná stjórn á heimsviðskiptum með sink. Í kjölfar þess missti hann stjórn á fyrirtæki sínu, en hann er eftir sem áður milljarðamælingur.

Á sama tíma var fyrirtækinu skipt upp og til varð fyrirtækið Trafigura, sem hefur verið síst minna umdeilt en forveri þess. Trafigura komst í fréttirnar þegar fyrirtækið losaði sig á ólöglegan hátt við eitraðan úrgang á Fílabeinsströndinni og lét svo setja lögbann á fréttaflutning af athæfinu. Þetta er ekki eina hneykslismálið sem upp hefur komið í sambandi við störf Trafigura.

Glencore

Mark Rich & Co. var tekið yfir af aðilum nákomnum Rich og gefið nafnið Glencore. Margir hluthafar, 485 talsins, munu verða mjög ríkir þegar fyrirtækið verður sett á markað. Daglegur rekstur fyrirtækisins er að mestu leyti í höndum tveggja fyrrverandi starfsmanna Richs, þeirra Ivan Glasenberg og Willy Strothotte. Glasenberg er framkvæmdastjóri, einrænn og forðast fjölmiðla. Strothotte var fyrsti framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Glencore. Undir stjórn þeirra hefur Glencore vaxið og náð yfirburðastöðu á mörgum mörkuðum. Fyrirtækið þróaði þá taktík að fjárfesta í hráefnisframleiðendum, gera samninga sem gáfu fyrirtækinu einkaleyfi á aðgengi að vörunni sem framleidd var og selja hana svo á mörkuðum. Á þennan hátt hefur Glencore orðið að hálfgerðu heimsveldi með ítök á mörgum mörkuðum, einkum olíu, málmum og korni. Óvægnar og ágengar samningaaðferðir, þróaðar undir stjórn Mark Richs, eru enn mikið notaðar af fyrirtækinu, sem að öðru leyti er hjúpað töluverðri leynd.

Velgengni Glencore má að stórum hluta skýra með því hve viljugt fyrirtækið er að eiga viðskipti við aðila og á stöðum sem flestir kapítalistar með sjálfsvirðingu forðast, t.d. í Kongó og í Mið-Asíu. Fyrirtækið hefur heldur aldrei vílað fyrir sér að brjóta viðskiptabönn, t.d. við Saddam Hussein og við Suður-Afríku á tímum aðskilnaðarstefnunnar. Einnig gerir það stóra samninga við námubaróna í Mið-Asíu, sem spruttu upp eftir fall Sovétrikjanna og hafa sterk tengsl við spillingu í heimalöndum sínum. Enn þann dag í dag heyrast ásakanir á hendur fyrirtækinu og dótturfyrirtækja þess um mannréttindabrot og umhverfisspjöll.

Glencore hefur gríðarleg áhrif á mörkuðum heimsins. Fyrirtækið stjórnar stórum hluta heimsmarkaðsviðskipta með kopar (50%), sink (60%), ál (38%), blý (45%), kóbalt (23%), járn-króm málmblendi (16%), kol (til orkuframleiðslu) (28%) og hveiti (10%). Auk þess stjórnar það um fjórðungi heimsmarkaðsins með bygg, sólblóm og repjufræ. [14,15] Þetta þýðir að fyrirtækið getur í raun stjórnað heimsmarkaðsverði á þessum vörum. Athugið að þarna er ekki um að ræða hlutfall af heildar-heimsframleiðslu á þessum vörum, heldur hlutfall af því magni sem er til reiðu á mörkuðum. Margar námur eru t.d. í eigu stórra fyrirtækja sem hafa keypt námuna til að nýta allt sem úr henni er unnið. Framleiðsla slíkra náma er ekki talin með að ofan.

Helstu viðskiptahagsmunir Glencore16

Glencore á mikilla hagsmuna að gæta um allan heim. Hér á eftir fer stutt lýsing á þeim helstu og þeim vandamálum sem þeim fylgja. Listinn er engann veginn tæmandi. Margar námur sem fyrirtækið stjórnar eru ofnajarðar, með öllum þeim vandamálum sem slíkum námum fylgja, svo sem mengun og röskun búsvæða.

Argentína

AR Zinc Group, sem Glencore eignaðist árið 2005, rekur Aguilar-námuna, Palpala-álbræðsluna og auk þess brennisteinssýruverksmiðju, Sulfacid S.A., í einu helsta námuhéraði Argentínu, Jujuy, sem er í norðaustur-hluta landsins. Þessi fyrirtæki eru dæmi um starfsemi sem hefur valdið umtalsverðum umhverfisspjöllum og heilsufarsvandamálum hjá innfæddum í héraðinu. Veru þessara fyrirtækja, þar á meðal AR Zinc Group, í héraðinu hefur verið mótmælt.17, 18, 19

Ástralía

Glencore á 40% hlut í Minara Resources (áður Anaconda), sem rekur Murrin Murrin-námuna. Willy Strothotte, Ivan Glasenberg og aðrir aðila tengdir Glencore sitja í stjórn Minara.20 Murrin Murrin-náman, og Mt. Isa náman sem er rekin af Xstrata, voru útnefndar sem mest mengandi starfsemi í Ástralíu árið 2009.21

Bólivía

Glencore á Sinchi Wayra námufyrirtækið, sem rekur fimm námur. Deilur hafa staðið yfir lengi við starfsmenn um lengingu vinnutíma og um laun. Starfsmenn námunnar hafa sent stjórnvöldum ákall um að þjóðnýta námuna.22 Áður hefur Glencore verið gagnrýnt fyrir að nota fjöldauppsagnir til að skera niður rekstrarkostnað.23

Kólumbía

El Cerrejon Norte námunni, sem Glencore á í félagi við Anglo American og BHP Billiton, hefur verið lýst sem hryllingssögu um nauðungarflutninga innfæddra, mannréttindabrot, umhverfisspjöll og ýmiss konar annað órétti, einkum gegn Wayuu-ættbálknum. Verkalýsðforingjum hefur verið hótað lífláti af öryggissveitum.24 Svipaðar ásakanir hafa heyrst vegna La Jagua-námunnar, sem dótturfyrirtæki Glencore, Prodeco, keypti af Xstrata.25,26,27 Prodeco rekur einnig ofnajarðar kolanámu í Calenturitas, La Loma.

Kongó

Árið 2008 eignaðist Glencore ráðandi hlut í Katanga Mining, einum stærsta kopar- og kóbaltframleiðanda í Afríku.28 Fyrirtækið hafði átt í fjárhagsörðugleikum. Í Katanga-héraði hafa einkaherir selt land og auðlindir til að fjármagna sig. Frést hefur af menguðu drykkjarvatni og slæmum vinnuskilyrðum í námunum.29 Svissnesk félagasamtök hafa gagnrýnt Katanga námufyrirtækið harðlega, og hafa Bread for All og Swiss Catholic Lenten Fund gefið út skýrslu þar sem fyrirtækið er ásakað um mannréttindabrot, barnaþrælkun, mengun og skattsvik.30 Hefur þetta leitt til herferðar gegn fyrirtækinu á svæðinu.31 Glencore á einnig nýju námuna í Mutanda, sem er einnig í Katanga-héraði. Ísraelski auðmaðurinn Dan Getler, sem sérhæfir sig í fjárfestingum í Kongó, er minnihlutaeigandi í Katanga námufyrirtækinu á móti Glencore. Getler tengist bæði blóðdemöntum og ísraelskum hægrisinnuðum stjórnmálamönnum, einkum Avigdor Lieberman.32

Kazakhstan

Glencore er í samstarfi við kazakhstanska einkafjárfestingafélagið Verny Capital um að taka yfir Kazzinc, sem á fjölmargar námur og málmbræðslur í landinu. Eins og er á Glencore um 51% hlut í fyrirtækinu, en búist er við að þessi hlutur muni aukast í 93% þegar fyrirtækið verður sett á markað. Verny Capital er stjórnað af hinni umdeildu Utemuratov-fjölskyldu, sem er nákomin Nazarbayev forseta, sem er talinn vera einn af hluthöfum.33 Stór hluti af jarðefnaauðlindum landsins hefur verið einkavæddur undir stjórn Nazarbayev, og hefur Glencore komið þar mjög við sögu.

Perú

Glencore á Iscaycruz og Yauliyacu námurnar í Los Quenualos. Eftir að fregnir bárust af því að öryggismál í námunum væru í ólestri var gripið til aðgerða gegn verkalýðsfélögum á staðnum.34

Filippseyjar

Fyrirhuguð Sagittarius-náma Xstrata í Tampakan, Mindanao, ógnar búsvæðum innfæddra og einnig mikilvægum regnskógum. Einn helsti baráttumaðurinn á móti námunni, Eliezer “Boy” Billanes, var myrtur þann 9. mars 2009.35 Sambærilegar námur á Filippseyjum hafa einnig verið gagnrýndar fyrir neikvæð áhrif á fæðuöryggi, ekki síst vegna þess hve vistkerfin á þessum svæðum eru sérstök.36

Rússland

UC Rusal37, rússneski álrisinn, stjórnar stærstu báxítnámu í heimi (súrál er unnið úr báxíti) og er næststærsti framleiðandi súráls í heimi (súrál verður að áli með rafgreiningu í álverum), með 14% heimsframleiðslu. Fyrirtækið, sem er stjórnað af ólígarkanum Oleg Deripaska, var stofnað við samruna Rusal við SUAL og önnur álfyrirtæki í eigu Glencore. Enn eru sterk tengsl milli Glencore og UC Rusal – Glencore á 8.7% hlut í UC Rusal og Deripaska og Glasenberg eru persónulegir vinir.38

Glencore er með mörg önnur járn í eldinum í hinu jarðefnaríka Rússlandi. Í sumum tilfellum er um að ræða fyrirtæki og auðlindir sem Glencore komst yfir strax við fall Sovétríkjanna. Glencore hefur reyndar verið bolað út úr sumum þessara fyrirtækja, sem vilja frekar selja beint til viðskiptavina í t.d. Kína. Engu að síður á Glencore enn í miklum viðskiptum við rússnesk olíu-, gas- og kornfyrirtæki, að hluta til í gegnum En+, fyrirtæki Deripaska. Orðrómur er á kreiki um að Glencore sé þar að auki að reyna að ná til sín viðskiptum með sink, nikkel og blý. Það hefur reynst erfitt að afla áreiðanlegra upplýsinga um aðra viðskiptasamninga Glencore í Rússlandi39, en vitað er að annar stór viðskiptafélagi fyrirtækisins er óháða olíuhreinsifyrirtækið Russneft.40

Zambia

Glencore á ráðandi hlut í Mopani Mines, sem hefur sætt gagnrýni fyrir umhverfisspjöll (talið er að námavinnslan valdi súru regni vegna útblásturs brennisteinssýru).41 Tuttugu námuverkamenn fórust við störf í námunni á árinu 2005; hluti skýringarinnar er talinn vera niðurskurður í starfsþjálfun fyrir verkamenn.42 Rannsókn gerð af dagblaðinu Daily Mail komst að þeirri niðurstöðu að Glencore stundi umfangsmikil skattsvik með verðlagsaðgerðum og hafi þannig skatttekjur af zambíska ríkinu, sem sárlega þarf á þeim að halda.43

Zimbabwe

Árið 2011 undirritaði Glencore samning við Mwana Africa um kaup á nikkeli úr Trojan-námunni í Bindura í Zimbabwe, sem þekkt er fyrir tengsl sín við Morgan Tsvangirai. Mwana er suður-afrískt námafyrirtæki sem rekur koparnámur í Katanga í Kongó og gullnámur í Ghana.

Aðrar eignir og viðskiptahagsmunir Glencore víðsvegar um heiminn

Glencore á PASAR koparbræðsluna á Filippseyjum, Sherwin álverið í Texas (sem hefur fengið áminningar og sektir fyrir að hleypa spilliefnum út í umhverfið44,45) og Portovesme blý- og sink-bræðsluna á Sardiníu. Það á einnig 70% í suður-afríska kolanámufyrirtækinu Shanduka. Sem eigandi Moreno sólblómafyrirtækisins, sem er einn stærsti framleiðandi sólblómaolíu í heimi, tekur Glencore stóran þátt í framleiðslu og sölu erfðabreyttra matvæla.46 Auk þess á Glencore um 270 þúsund hektara af akurlendi víða um heim og nokkrar kornvinnslustöðvar. Þessar eignir eru lykillinn að ítökum og áhrifum Glencore á heimsmarkaði með korn.

Síður: 1 2

One Response to “Frá Síberíu til Íslands: Century Aluminum, Glencore International og skuggaveröld námuvinnslu”

 1. Orkubloggið skrifar:

  Ketill Sigurjónsson –

  Höfuðpaurinn á hrávörumörkuðunum (Úttekt á Glencore)
  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/1162091/

  Sjá einnig nýlega:
  Century vill koma áhættunni yfir á Landsvirkjun
  http://www.mbl.is/vidskipti/pistlar/audlind/1336741/

Náttúruvaktin