nóv 03 2011

Ómerkilegur útúrsnúningur iðnaðarráðherra

Sigmundur Einarsson

Í fréttum af fundi um atvinnumál á Húsavík í gær sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að það væri ekki sitt hlutverk að segja frá fyrirætlunum stórfyrirtækja. Þessi ómerkilegi útúrsnúningur er dæmigerður fyrir framkomu yfirmanna orkumála hér á landi síðustu misserin. Þar á bæ hefur lengi vantað hugrekki til að segja sannleikann umbúðalaust.

Sannleikurinn hentar ekki

Nú eru liðin rúmlega tvö ár síðan ég skrifaði grein hér í Smuguna (og á Saving Iceland, ritstj.) um „Hinar miklu orkulindir Íslands.“ Tilefni þeirra skrifa voru síendurteknar yfirlýsingar ýmissa þingmanna, sveitastjórnarmanna og frammámanna í atvinnulífi þess efnis að styrkur Íslands lægi í auðlindum þjóðarinnar, ekki síst gríðarlegri orku í jarðhitasvæðum landsins. Þessir spámenn lýstu því ítrekað yfir að það eina sem virkilega gæti bjargað íslenskri þjóð frá ævarandi örbirgð væru nýjar virkjanir og álbræðslur. Mér ofbauð þessi málflutningur og vildi fá fram málefnalega umfjöllun. Ég lagði töluverða vinnu í að taka saman grein um málið. En viti menn. Viðbrögð voru sáralítil. Orkustofnun og iðnaðarráðuneyti þögðu þunnu hljóði. Nokkrir andmæltu mér opinberlega, einkum „sérfræðingar“ sem áttu að vita betur. Vandinn er nefnilega sá að „sérfræðingar“ okkar í orkumálum hafa nær allir beinan eða óbeinan hag af aukinni orkuvinnslu. Sannleikurinn reyndist hvorki henta sérfæðingunum né „frammámönnum“ í atvinnulífi.

Fólk haft að ginningarfíflum

Jafnvel þótt álbræðslu á Bakka hafi nýlega verið sópað út af borðinu er sami söngurinn ennþá sunginn af þingmönnum og sveitarstjórnarmönnum. Og verkalýðshreyfingin tekur undir. Þetta er svo fráleit og ósanngjörn framkoma við íslenskan almenning að ég finn mig knúinn til að halda áfram tilraunum til að skýra fyrir landsmönnum hvernig í málinu liggur, frá mínum bæjardyrum séð. Það er ótækt að saklaust fólk sé árum saman haft að ginningarfíflum líkt og Húsvíkingar og Suðurnesjamenn hafa mátt reyna. Og hvernig í dauðanum getur staðið á því að Halldór Blöndal leyfir sér, líkt og forstjóri Norðuráls, í fjölmiðlun að nota mat á umhverfisáhrifum jarðvarmavirkjana til að telja megavött? Þar er alls ekki sjáfsagt samhengi á milli, því miður, annars væri til heilmikil orka.

Yfirmenn orkumála hafa undanfarin misseri vísað umræðu um orkumál frá sér og bent á að beðið sé eftir niðurstöðu rammaáætlunar. Stundum hefur virst sem rammaáætlun sé ætlað að leysa allan vanda og að henni lokinni verði hægt að hefjast handa og þá fari margnefnd hjól atvinnulífsins að snúast. Hefur þetta fólk virkilega enga ábyrgðartilfinningu? Ég á bágt með að trúa að það sé svona illa upplýst.

Um vinnslugetu háhitasvæða

Um miðjan desember 2009, rúmum tveimur mánuðum eftir birtingu greinar minnar í Smugunni, gaf Orkustofnun út skýrsluna „Mat á vinnslugetu háhitasvæða“ eftir Jónas Ketilsson o.fl. Þar er beitt nokkuð öðrum aðferðum við slíkt mat en áður hafði verið gert í skýrslu Guðmundar Pálmasonar o.fl. frá 1985 og grein Sveinbjörns Björnssonar frá 2006 sem ég hafði tekið mið af í mínum skrifum.

Í skýrslu Orkustofnunar frá 2009 segir að þar sé „lagt fram gróft mat á vinnslugetu þekktra háhitasvæða á Íslandi til raforkuframleiðslu. Matið er byggt á einfaldri aðferðafræði en ekki flóknum útreikningum eða öllum þeim upplýsingum sem fyrir liggja í dag og skal skoðast með þeim fyrirvara.“  Og síðar: „Þegar afkastageta svæðanna var metin 1985 var miðað við nýtingu til 50 ára og er í þessari skýrslu miðað við sama árafjölda til samanburðar. Sjálfbær nýting á jarðhita gengur hinsvegar út frá nýtingu til 100-300 ára og til að fá mat á afkastagetu svæðanna þarf aðeins að deila með 2 upp í niðurstöðurnar fyrir 100 ára nýtingartíma og 6 fyrir 300 ára nýtingartíma.“  Þessi skýrsla Orkustofnunar verður að teljast opinbert mat á vinnslugetu jarðhitasvæðanna meðan annað liggur ekki fyrir

Í meðfylgjandi töflu eru dregnar saman niðurstöður mats framangreindra þriggja aðila á vinnslugetu háhitasvæðanna. Fyrstu þrír dálkarnir sýna vinnslugetu einstakra svæða miðað við 50 ára nýtingu (MW50).  Notað er svonefnt miðgildi úr nýlegri skýrslu Orkustofnunar. Af tölunum má sjá að þrátt fyrir ítarlegri gögn hefur matið aðeins breyst um tæplega 25% frá 1985. Fjórði og fimmti dálkur sýna vinnslugetuna miðað við 100 og 300 ára nýtingu (MW100 & MW300) sem Orkustofnun segir vera sjálfbæra nýtingu. Næst aftasti dálkurinn sýnir hve mikið hefur þegar verið virkjað en aftasti dálkurinn sýnir mitt eigið mat á því hve mikið er unnt að virkja miðað við að svæði endist í 100 ár sem þó er fjarri því að vera viðunandi endingartími ef nýtingin á að teljast sjálfbær.

Einföld túlkun á skýrslu Orkustofnunar frá 2009 er að virkjanleg orka háhitasvæðanna sé 4255 MW sem miðast við að orkan geti klárast á 50 árum. Ef dregin eru frá þau 666 MW sem þegar eru virkjuð standa eftir um 3600 MW. Það eru slíkar tölur sem sitja fastar í kolli þeirra manna sem enn halda því fram að grundvöllur sé fyrir byggingu álbræðslu á Bakka og annarrar í Helguvík.

Um einstök háhitasvæði

Í greininni sem sem ég skrifaði um orkulindirnar fyrir tveimur árum lét ég nægja að miða við 50 ára nýtingartíma og komst samt að því að ekki væri til næg orka fyrir tvær nýjar álbræðslur. Hér á eftir fylgir mat á vinnslugetu einstakra háhitasvæða miðað við 100 ára endingartíma sem er mun raunhæfara. Þetta mat er að mestu byggt á skýrslu Orkustofnunar frá 2009 en einnig almennum upplýsingum um fyrirætlanir orkufyrirtækjanna svo og minni eigin reynslu og þekkingu (sem orkugeirinn virðist reyndar ekki hafa mikla trú á). Svæðin eru talin upp í sömu röð og þau koma fyrir í töflunni og mitt mat er þar í aftasta dálki.

Reykjanes: Samkvæmt töflunni er jarðhitasvæðið á Reykjanesi talið líklegt til að standa undir 25 MW vinnslu í 100 ár. Þar hafa þegar verið virkjuð 100 MW og Orkustofnun hefur nýlega gefið leyfi fyrir 50 MW stækkun! Svæðið er ofnýtt nú þegar og upplýsingar í nýlega útgefnu leyfi til stækkunar breyta engu þar um.

Svartsengi-Eldvörp: Samkvæmt töflunni er svæðið fullnýtt miðað við 100 ára nýtingu. HS-Orka hefur þrátt fyrir það sett fram hugmyndir um 10 MW stækkun í Svartsengi og 50 MW virkjun í Eldvörpum! Verði af slíkri stækkun vaknar spurningin um það hvaða orku eigi að nota til húshitunar á Suðurnesjum eftir 50 ár!

Krýsuvík: Samkvæmt mati Orkustofnunar ætti að vera unnt að virkja meira en 200 MW á Krýsuvíkursvæði til 100 ára. Tvær djúpar borholur við Trölladyngja hafa gefið afar óhagstæðar vísbendingar. Ég tel afar ólíklegt er að þar sé unnt að virkja meira en 60 MW til 100 ára (eða 120 MW í 50 ár) og hef fært rök fyrir þeirri skoðun minni í grein hér í Smugunni (Er HS-Orka í krísu í Krýsuvík?).

Brennisteinsfjöll: Svæðið er trúlega helst til lítið til virkjunar og reyndar eina sæmilega stóra ósnortna hraunasvæðið á Suðvesturlandi.

Hengill: Svæðið er nú þegar fullvirkjað miðað við 100 ára nýtingu og gott betur. Að auki er áætlað að bæta við 135 MW virkjun við Bitru, 90 MW við Hverahlíð og 50 MW við Gráhnúka, alls 275 MW. Hvar á að fá heitt vatn fyrir höfuðborgarsvæðið eftir 50-100 ár?

Geysir: Svæðið er lítið og verður væntanlega aldrei virkjað þó ekki væri nema vegna hagsmuna ferðaþjónustu.

Kerlingarfjöll: Hér benda tölur til 100 MW vinnslugetu í 100 ár. Svæðið er í 950–1100 m hæð og ytri aðstæður erfiðar.

Hveravellir: Friðað svæði. Jarðhitasvæðið er líkast til of lítið og of afskekkt til virkjunar.

Torfajökull: Svæðið er friðað að mestu og stór hluti þess er vart aðgengilegur til borana. Orkufyrirtæki hafa einkum sýnt Reykjadölum áhuga en þeir eru í 800–1000 m hæð. Hugsanlega væri hægt að ná þar allt að helmingi af orku svæðisins og þá gætu fengist um 300 MW í 100 ár. Hugmyndir um 1000-2000 MW orkuver eru óralangt út úr korti.

Hágöngur: Tölur Orkustofnunar frá 2009 benda til 110 MW vinnslugetu í 100 ár.

Vonarskarð: Svæðið er friðað. Vinnslugeta í 100 ár er um 75 MW. Svæðið er mjög afskekkt og liggur í 950–1100 m hæð.

Kverkfjöll: Svæðið er friðað að hluta. Miðað við tölur Orkustofnunar er vinnslugeta þess í 100 ár um 80 MW en varla er hægt að koma tækjum á svæðið.

Askja: Svæðið er friðað. Vinnslugeta í 100 ár er metin um 70 MW. Líklega væri hætta á náttúruhamförum talin of mikil til að réttlæta virkjun.

Fremrinámar: Vinnslugeta í 100 ár er talin um 25 MW. Vafasamt er hvort slík nýting teldist hagkvæm þar sem svæðið er nokkuð afskekkt.

Hrúthálsar: Vinnslugeta í eina öld er metin um 10 MW. Svæðið er mjög afskekkt og nær örugglega of lítið til virkjunar.

Krafla-Námafjall: Samkvæmt mati Orkustofnunar er vinnslugetan 155 MW. Nú er í undirbúningi 90 MW virkjun í Bjarnarflagi til viðbótar við 60 MW virkjun við Kröflu. Þar með yrði svæðið fullnýtt til 100 ára. Hugmyndir hafa verið uppi um verulega aukna orkuvinnslu á Kröflusvæðinu en treglega hefur gengið að afla orkunnar.

Gjástykki: Vinnslugeta í 100 ár er talin um 30 MW. Svæðið er ekki vænlegt til vinnslu og margt sem bendir til að þar sé ekki eftir miklu að slægjast.

Þeistareykir: Vinnslugeta í 100 ár er talin um 120 MW. Nú er í undirbúningi um 100 MW virkjun á svæðinu og verður það þá langt til fullvirkjað.

Niðurlag

Sjálfbær vinnsla á háhitasvæðum landsins er ekki raunhæfur möguleiki. Líta ber á svæðin sem námur sem hafa að geyma endanlegt magn af varma. Við varmanámið gengur orkan smám saman til þurrðar og því er grundvallaratriði að hún sé nýtt skynsamlega og af varkárni. Mikilvægt er að horfa til nýtingar í langan tíma líkt og dæmið um nýtingu Hengilssvæðisins sýnir berlega.

Ótækt er að horft sé til nýtingar í 50 ár líkt og orkufyrirtækin gerðu þegar gerðar voru áætlanir um útvegun raforku frá háhitasvæðum bæði norðan lands og sunnan til að fullnægja orkuþörf fyrir álbræðslur á Bakka og í Helguvík, samtals yfir 1100 MW.

Ef aftasti dálkur töflunnar er skoðaður kemur í ljós að á suðvesturhorni landsins má hugsanlega vinna 60 MW í Krýsuvík, annað er fullnýtt. Á norðausturhorninu má líklega fá um 200 MW úr Þeistareykjum og Kröflu-Námafjalli. Önnur háhitasvæði eru inni á hálendinu þar sem mun erfiðara er um vik. Þar er óvissan mun meiri, ekki síst vegna veðurfars.

Það er hlutverk Orkustofnunar og iðnaðarráðuneytisins að halda þjóðinni upplýstri um þessi mál og sjá til þess að fram fari skynsamleg umræða um nýtingu orkunnar. Framkoma iðnaðarráðherra á Húsavík sýnir að ráðherrann hefur hreint ekki skilið hlutverk sitt í orkumálum. Og orkumálastjóra, lögboðnum ráðgjafa ráðherrans, verður seint brigslað um lausmælgi þegar kemur að upplýstri umfjöllun um orkumál.

Helstu heimildir

Guðmundur Pálmason, Gunnar V. Johnsen, Helgi Torfason, Kristján Sæmundsson, Karl Ragnars, Guðmundur I. Haraldsson & Gísli K. Halldórsson 1985. Mat á jarðvarma Íslands. Orkustofnun, OS-85076. http://www.os.is/gogn/Skyrslur/OS-1985/OS-85076.pdf

Jónas Ketilsson, Héðinn Björnsson, Sæunn Halldórsdóttir & Guðni Axelsson 2009. Mat á vinnslugetur háhitasvæða. Orkustofnun, OS-2009/09. http://www.os.is/gogn/Skyrslur/OS-2009/OS-2009-009.pdf

Sigmundur Einarsson 2009. Hinar miklu orkulindir Íslands. Smugan, 1. okt. 2009. http://smugan.is/2009/10/hinar-miklu-orkulindir-islands/

Sigmundur Einarsson 2009. Er HS-Orka í krísu í Krísuvík? Smugan, 13. nóv. 2009. http://smugan.is/2009/11/er-hs-orka-i-krisu-i-krysuvik/

Sveinbjörn Björnsson 2006. Orkugeta jarðhita. Orkuþing 2006. Reykjavík 12-13. október 2006. Samorka. http://samorka.is/Apps/WebObjects/SW.woa/1/swdocument/1616/Orku%C3%BEingsb%C3%B3kin.pdf?wosid=false

Greinin var fyrst birt á Smugan.is

Náttúruvaktin