maí 22 2012
1 Comment

Sakaður um svik vegna skoðanna sinna

Í helgarblaði DV 18.-20. maí sl. birtist drottningarviðtal við Janne Sigurðsson, nýjan forstjóra Alcoa Fjarðaáls. Í viðtalinu lýsir Janne meðal annars hópeflisfundum sem haldnir voru vegna mótmælanna gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðafirði, í bland við tilfinningaklám þar sem hún líkir samfélaginu fyrir austan við dauðvona ömmu sína, hverrar lækningu mótmælendurnir börðust gegn. Einnig fullyrti Janne — og var ekki beðin um rökstyðja mál sitt nánar — að einungis fimm manns frá Austurlandi hafi verið andsnúnir virkjana- og álversframkvæmdunum.

Þann 21. maí birti DV hins vegar viðtal við Þórhall Þorsteinsson, einn þeirra Austfirðinga sem höfðu kjark og þor til að mótmæla framkvæmdunum. Í viðtalinu, sem snýr fullyrðingum Janne gjörsamlega á hvolf, kemur skýrt í ljóst hversu hörð kúgunin var á Austurlandi á þessum tíma — fólk var „kúgað til hlýðni“ eins og Þórhallur orðar það. Hann segir hér frá reynslu sinni, vinslitum, morðhótunum, tilraunum áhrifamanna til að hrekja hann úr vinnu og afskiptum Biskupsstofu og lögreglunnar af mótmælabúðum Saving Iceland — aðgerðum sem fengu hann til íhuga hvort hann byggi í lögregluríki.

Þórhallur Þorsteinsson er einn þeirra Austfirðinga sem mótmæltu aðgerðum á hálendi Austurlands vegna Kárahnjúkavirkjunar. Fyrir vikið var hann úthrópaður umhverfissinni og svikari, sakaður um að standa í vegi fyrir framþróun í samfélaginu. Áhrifamenn reyndu að hrekja hann úr starfi, hann þurfti að svara til saka gagnvart vinnuveitanda sínum og vinir hans snerust gegn honum. Undirbúningur vegna virkjunarinnar hófst árið 1999 en framkvæmdir hófust árið 2002. Virkjunin var síðan gangsett árið 2007 en þrátt fyrir að nú séu nokkur ár liðin frá því að baráttan stóð sem hæst hafa sárin ekki gróið.

„Það eru heimili hér á Egilsstöðum sem ég kem ekki inn á út af þessum deilum. Heimili þar sem ég var gestur kannski einu sinni til tvisvar í viku áður. Ég veit ekki hvort ég væri velkominn þangað í dag. Kannski. En þarna var ég að ósekju særður þeim sárum að ég hef ekkert þar inn að gera. Ég heilsa þessu fólki en ég hef ekkert inn á heimili þeirra að gera. Ég varð nánast fyrir einelti,“ segir Þórallur þar sem hann situr í hægindastól á heimili sínu á Egilsstöðum.

Heimilið ber þess merki að hann er mikill náttúruunnandi, hér er fjöldi bóka um hálendi Íslands, náttúruna og dýralíf. Þórhallur hefur líka lengi ferðast um hálendið og þekkti þetta svæði betur en margir. „Ég var búinn að ferðast um þetta svæði áratugum saman. Ég var búinn að fara þarna um gangandi, á bíl og fljúga yfir það. Ég fór um þetta svæði sumar og vetur. Ég fór þarna sem leiðsögumaður og þekkti þetta svæði mjög vel. Þannig að ég er ekki einn af þeim sem eru að tala um þetta og hafa ekki þekkt það.“

Hann þekkti svæðið og honum þótti vænt um það. Honum þótti sárt að sjá landinu sökkt fyrir lónið og hefur aldrei tekist að sætta sig við það. „Ég er gríðarlega ósáttur við allt sem þessu við kemur. Virkjunina, álverið, umhverfisáhrifin og í ofanálag hefur þetta ekki fært okkur það sem ætlast var til. Þannig að ég sé ákaflega lítið jákvætt við þetta,“ segir Þórhallur.

„Fórnin inn frá, umhverfisáhrifin af þessum framkvæmdum, er þannig að það er ekki hægt að réttlæta það sem þarna var gert. Tugir fossa sem margir hverjir voru mjög fallegir eru að hverfa og eru nánast vatnslausir. Þar sem lónið er fór mjög merkilegt svæði undir vatn. Hálsinn sem var aðalburðarsvæði hreindýranna. Þetta var líka eini staðurinn á Íslandi þar sem samfelldur gróður var frá sjó og upp að jökli. Nú er búið að rjúfa það með Hálslóni.“

Andstaðan á Austurlandi

Á ferð blaðamanns um svæðið var heimafólki tíðrætt um það hvernig listamenn úr 101 mótmæltu þessum aðgerðum. Þórhallur bendir hins vegar á að fyrsta andstaðan sem myndaðist gegn þessum framkvæmdum var á Héraði. „Það virðist oft gleymast því það er alltaf talað um 101 Reykjavík. En hér var stofnað félag um verndun hálendis á Austurlandi áður en þessar deilur hófust. Félagið var stofnað gegn þessum framkvæmdum, Kárahnjúkar voru ekki einu sinni komnir í almenna umræðu þá þótt við vissum auðvitað af þeim.“

Á stofnfundinn mættu um tuttugu til þrjátíu manns sem sammæltust um mikilvægi þessa félags. Fljótlega fór þó að tínast úr hópnum. „Menn sem voru að öndverðum meiði miðað við það sem almennt gekk voru kúgaðir. Dæmið var sett upp með þeim hætti að Austfirðingar stæðu saman. Við hinir sem vorum andvígir þessum aðgerðum vorum ekki sannir Austfirðingar. Og við vorum alls ekki góðir borgarar. Við vorum svikarar í huga fólksins. Við vorum bara fólkið sem vildi að aðrir færu aftur í torfkofana eins og sagt var. Við vorum sagðir á móti framförum, á móti því að skapa börnunum framtíð, þetta dundi á manni, að börnin kæmu ekki aftur heim eftir nám, að þau fengju ekki vinnu. Í huga þessa fólks var ég að taka lífsviðurværið af börnunum þeirra með andstöðunni, koma í veg fyrir atvinnusköpun og lækka verð á húsnæði hér fyrir austan. Þetta fékk ég allt að heyra. Svona var þetta.“

Fyrstu mótmælaaðgerðirnar

Einu sinni gekk fúkyrðaflaumurinn þó lengra en eðlilegt getur talist. „Mér var hótað lífláti. Maður sem ég hafði unnið með mætti mér úti á götu og sagði að það ætti bara að skjóta mig. Auðvitað var sárt að mæta þessu, það var sárt því það var verið að reyna að kúga mig. Persónugera málið þannig að ég væri að hafa eitthvað af fólki, koma í veg fyrir að fólkið hér lifði eðlilegu lífi. Það var viðhorfið. Ég hef búið hér frá því að ég var lítill krakki og hef frá unga aldri verið að vinna þessu samfélagi gagn. Ég tók þátt í því að byggja það upp, félagslega og sem einstaklingur.

Ég hef verið hér allt mitt líf. Þrátt fyrir andstöðu mína við þessar framkvæmdir leit ég svo á að ég væri ekki síður meðlimur þessa samfélags enda hef ég ekkert gert hér sem réttlætir það að ég sé borinn þeim sökum að vilja spilla fyrir samfélaginu, ég var bara á móti þessari aðgerð. En það átti að kúga mig eins og aðra til hlýðni.“

Þrátt fyrir allt sem á gekk á þessum tíma voru hugsjónir Þórhalls þess eðlis að hann neitaði að þegja, staðráðinn í að láta ekki þagga niður í sér og hann barðist áfram fyrir hugsjónum sínum með orðum og gjörðum. „Ég er líklega eini Austfirðingurinn sem var sektaður fyrir andstöðu sína gegn Kárahnjúkum. [Guðmundur Már Beck bóndi á Kollaleyru í Reyðarfirði var einnig sektaður fyrir að mótmæla við verksmiðju ALCOA. Ritstj. SI] Ég lokaði ásamt fleirum uppi á brú við Bessastaðaá og fékk sekt fyrir,“ segir hann og bætir því glottandi við hann hafi glaður greitt sektina. „Þessi mótmæli voru táknræn fyrir ástandið, táknræn fyrir það að málið væri komið í hnút. Við ætluðum aldrei að hefta för þeirra sem þarna voru á ferð,“ segir Þórhallur en það var stjórn Landsvirkjunar ásamt Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem var þá borgarstjóri, og deilan var um Eyjabakka. „Við lásum fyrir þau tvær ályktanir frá félagi um verndun hálendis Austurlands og þar með var þessum mótmælum lokið.“

Hann sér ekki eftir þessu þótt hann hafi þurft að taka afleiðing um gjörða sinna. „Ég var þarna í mínum frítíma en starfaði á þessum tíma fyrir Rafmagnsveitu ríkisins. Og það upphófust einhverjar almestu nornaveiðar á Austurlandi fyrr og síðar. Harkan er mér minnisstæð.“

Hart sótt að honum

Þau voru þrjú sem stóðu fyrir þessum mótmælum. Þórhallur, Karen Erla Erlingsdóttir, sem starfaði sem grunnskólakennari, og Hrafnkell A. Jónsson, sem nú er látinn. „Foreldrar hringdu í skólastjórann og kröfðust þess að nemendur yrðu ekki í tíma hjá þessari konu. Pólitíkusar á Austurlandi reyndu ítrekað að láta reka mig úr vinnu. Það var hringt í rafmagnsveitustjóra ríkisins, rafveitustjórann hér og þess var krafist að ég yrði rekinn úr vinnunni vegna þess sem ég gerði í mínum frítíma. Stjórnarformaður Rarik fékk ekki frið fyrir þessum mönnum. Og ég þurfti að standa fyrir máli mínu, ég var kallaður inn til rafmangsveitustjórans hér og þurfti að sanna það fyrir honum að ég hefði verið í fríi, mín orð nægðu ekki og ég þurfti að kalla til verkstjórann sem gaf mér frí. Það var allt reynt. Þetta var harka.

Og þegar ég fékk þau skilaboð að áhrifamenn á Austurlandi, virtir borgarar í sínu samfélagi, væru að reyna að klekkja á mér og hrekja mig úr vinnu vegna skoðana minna fékk ég mjög einkennilega tilfinningu fyrir því hvernig samfélagi ég bý í.

Ég varð líka vitni að framferði lögreglu sem var að eltast við mótmælendur inni á hálendi sem varð til þess að ég velti því fyrir mér hvort ég byggi í lögregluríki. Reynt var að taka hvíld af fólki með því að setja sírenu á um miðjar nætur, það var stöðugt verið að keyra fram hjá þeim og í kringum bíla þeirra, taka flassmyndir í rökkri og loka vegum þannig að ekki var hægt að færa þeim vistir. Ég sá þetta gerast.“

Vissi alltaf af fleirum

Mótmælendur slógu upp búðum á hálendinu tvö sumur í röð. Fyrra sumarið komu þeir upp búðum á landi Biskupsstofu. „Umburðarlyndi kirkjunnar var ekki meira en svo að Biskupsstofa óskaði eftir því að þeir yrðu fjarlægðir. Ári seinna höfðu mótmælendur samband við mig vegna þess að ég hafði fært þeim mat með því að fara aðrar leiðir að búðunum þegar veginum var lokað. [Það var reyndar sumarið 2006 sem Þórhallur rauf herkví lögreglunnar um mótmælabúðirnar til þess að færa mótmælendum mat og vistir. Einnig hefur komið fram að landið er í eigu Þjóðkirkjunnar en Biskupsstofa hafði samband við Þórhall vegna málsins. Ritsj. SI] Ég studdi þetta fólk því það var að vinna starf sem við gátum ekki unnið, heimamenn. Þau voru að andmæla því sem fáir treystu sér til að andmæla hér fyrir austan vegna þess að framkoma við þá fáu sem þorðu því var þess eðlis. Fólk fylgdist með því og vissi hvernig þetta var. Það var látið berast hvernig lið við værum. Þess vegna hafði fjöldi fólks samband við mig sem annars þorði ekki að láta uppi sína skoðun, þorði ekki að vera í baráttunni. Ég vissi alltaf að ég talaði fyrir hönd fleiri.“

Þannig að þegar fulltrúi Saving Iceland hafði samband var Þórhallur allur af vilja gerður til að hjálpa þeim. Hann var í forsvari fyrir Ferðafélagið og benti þeim á að það væri nánast útilokað að vísa þeim frá Snæfellsskálanum þar sem tjaldstæðið hefði verið opið áratugum saman. Úr varð að þar yrðu reistar tíu daga mótmælabúðir. „Síðan fór þetta að spyrjast út og ég fékk símhringingu frá Biskupstofu þar sem ég var spurður hvort ekki væri hægt að koma í veg fyrir þesar búðir. Ég sagði að þetta hefði verið opið tjaldstæði síðan skálinn var byggður og bauð manninum að koma sjálfur austur til að vísa fólkinu frá. Nokkrum dögum seinna hringdi blaðafulltrúi Landsvirkjunar og hafði sömu áhyggjur af þessu. Spurði hvort við gætum takmarkað fjöldann, hvort heilbrigðisyfirvöld myndu samþykkja og þannig fram eftir götunum. Ég sagði honum það sama, að þetta væri opinbert tjaldstæði og við gætum ekki flokkað inn á það. En þú sérð ástandið.“

Innan Ferðafélagsins voru heldur ekki allir á eitt sáttir. „Sumir stjórnarmenn voru andvígir þessu og það voru deilur innan félagsins. Ég spurði þá hvað þeir ætluðu að gera, hvort Ferðafélagið ætlaði þá að velja inn á tjaldstæði í framtíðinni. Fólkið kemur bara inn á tjaldstæðið, fer eftir þeim reglum sem þar eru og borgar sín gjöld. Á meðan getum við lítið gert. Og menn áttuðu sig á því að þeir voru að seilast ansi langt.

Þannig að þau komu og voru þarna í tíu daga. Það gekk prýðilega en svo fóru þau annað og lentu í ýmsum hremmingum.“

Friðlýsingu aflétt

Meðferð pólitíkusa á málinu er honum líka hugleikin. „Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni um rammaáætlun núna. Talað er um að pólitíkusar séu að hringla með álit sérfræðinga. Þá er vert að minnast þess að Kárahnjúkavirkjun var tekin út úr rammaáætlun. Það fékkst ekki fjallað um hana nema að mjög litlu leyti. Það voru pólitískar sem tóku ákvörðun um það. Þetta fór í umhverfismat og skipulagsnefnd hafnaði þessum framkvæmdum vegna umhverfisáhrifa en þá fór málið í pólitískt ferli og sú ákvörðun var tekin að virkja þrátt fyrir álit umhverfisstofnunnar sem sagði umhverfisáhrifin óásættanleg.

Það væri rannsóknarefni að skoða hvernig staðið var að þessari virkjun. Þarna var aflétt friðlýsingu af landi til að hægt væri að sökkva því. Það hefur ekki gerst áður á Íslandi en það gerði Siv Friðleifsdóttir. Það er hennar minnismerki að vera sá umhverfisráðherra sem stóð fyrir hvað mestum umhverfisspjöllum,“ segir Þórhallur og er ómyrkur í máli.

Gamla fólkið komst burt

Að hans mati hefði aðeins verið verra út frá umhverfisáhrifum að sökkva Þjórsárverum. „Næst á eftir voru Kárahnjúkar. En þetta snýst allt um pólitík, Íslendingar þurfa ekkert á pólitík að halda. Danir komast fínt af án stóriðju. Þetta er alltaf bara spurning um pólitíska stefnu og það eru áratugir síðan það var farið að lofa Reyðfirðingum því að það ætti einhver að koma og gera eitthvað fyrir þá. Þá gleyma menn sjálfsbjargarviðleitninni.

Gengið var allt of hátt skráð og iðnaðurinn fór úr landi. Skinney-Þinganes flutti með allt sitt á Höfn í Hornafirði, Samherji keypti upp kvóta á Stöðvafirði og Eskifirði og fór með hann þaðan en fólk taldi að það gerði ekkert til því það var að koma álver. Það er alltaf hægt að svelta menn til hlýðni. Það er hægt að gera umhverfið þannig að það takið við. Álverið kom allt í einu sem einhver björgunarhringur. Það jákvæða við það er að yngra fólk býr í Fjarðabyggð en áður. Gamla fólkið komst í burtu. En á bak við það liggur fórnin. Fórnin var allt of mikil og fórnin var Héraðsins. Við fórnuðum þessu fyrir amerískan auðhring. Við fórnuðum öllu fyrir allt of lítið. Á meðan þetta var allt að ganga í gegn átti samstaðan á ríkja á öllu Austurlandi og það var talað um landshlutann sem eina heild. En um leið og þetta var orðið þá var slík samstaða úti.

Beinar og óbeinar greiðslur

Hann hefur þó skilning á því af hverju Fjarðarmenn töluðu fyrir þessum framkvæmdum og lögðu áherslu á að fá álver. „Ég skil þá ósköp vel enda fengu þeir eitthvað út úr þessu. En við fengum of lítið út úr þessu, það er alveg ljóst. Ég held að það séu 200 manns sem sækja vinnu í álverið héðan. 200 störf eru allt of lítið fyrir þessa fórn. 500 störf hefðu líka verið of lítið fyrir landsvæðið sem var spillt. En í flestum tilfellum getur þú keypt menn með því bera fé á þá og ég skil bændur sem höfðu aldrei séð peninga og fengu allt í einu loforð um fjármuni sem þeir hefðu annars aldrei getað látið sig dreyma um. En er það þannig sem við viljum hafa það? Að það sé hægt að villa mönnum sýn með fé?

Ef þeir hefðu staðið í lappirnar og hafnað þessu, ef Fljótsdalshérað hefði hafnað þessu, pólitíkusar og almenningur, þá hefði þetta aldrei orðið að veruleika. Þeir sem segja að við höfum ekki haft neitt um þetta að segja eru menn sem hafa slæma samvisku yfir því að hafa ekki barist gegn þessu.

Alls staðar í heiminum nema á Íslandi hefðu þessar mótvægisaðgerðir, sem svo eru kallaðar, verið álitnar mútur. Sveitastjórnarmenn voru hreinlega keyptir. Bændur og áhrifamenn voru ráðnir á góðum launum og bændur fengu traktor til að bera áburð á óræktuð svæði. Allar svona óbeinar greiðslur til áhrifamanna hafa áhrif á það hvaða ákvarðanir eru teknar og út frá hvaða forsendum. Bændur fengu bætur fyrir spjöllin en það að borga einni kynslóð skaðabætur er ekki eðlilegt. Eðlilegra hefði verið að tengja bæturnar við raforkuframleiðslu og greiða þær árlega til íbúa á svæðinu.“

Gullfoss gæti gleymst

Aðspurður hvaða máli þetta landsvæði skiptir í raun svarar Þórhallur: „Við getum sagt sem svo að þetta hafi verið aðdráttarafl. Fossarnir sem eru nú orðnir þurrir, gróðurlendið sem fór undir, víðernið sem er alltaf að verða dýrmætara. Að fá að hafa þetta er engu líkt. Þarna hefði verið hægt að fara með mörg hundruð þúsund ferðamenn án þess að eyðileggja landið ef það væri vel skipulagt. Til lengri tíma litið myndi það skapa meiri tekjur.

Hugsaðu þér, einu sinni voru Gullfoss og Geysir ekki fjölmennir ferðamannastaðir. Fyrir fimmtíu til hundrað árum síðan var erfitt að komast þangað. Með tímanum hefði líka verið hægt að byggja þetta svæði upp. Við getum ekki fórnað einhverju svæði af því að það eru fáir sem þekkja það. Með sömu rökum væri hægt að þurrka upp Gullfoss því að á nokkrum áratugum gleymum við honum og komandi kynslóðir munu ekki vita að þarna var einu sinni fallegur foss. Við getum ekki hugsað með þessum hætti. Ein kynslóð getur ekki farið svona með þjóðargersemina sem náttúra Íslands er.

Ég fór fyrst akandi inn í Hafrahvamma árið 1972 og það hafa legið vegir og slóðar þarna áratugum saman en það var erfitt að fara þá. En það hefði verið hægt að auka aðgengið að svæðinu.“

„Sama skelfingarástand víða“

Að lokum segir hann að áhrif álversins hafi ekki staðið undir þeim væntingum sem samfélagið hafði. „Það hefur ekki enn tekist að manna þetta með Íslendingum. Álverið ræður aðeins íslenskumælandi fólk til starfa en þrátt fyrir allt atvinnuleysið og auglýsingamennskuna manna undirverktakar sín fyrirtæki að miklu leyti með útlendingum því það er ekki hægt að fá Íslendinga í þetta. Starfsmannaveltan hefur verið allt að 25 prósent. Þrátt fyrir allar hörmungarnar sem dundu á þjóðinni er þetta ekki betri vinnustaður en það.

Vorum við að sökkva þessu landi, vorum við að eyðileggja þessa náttúru, vorum við að þurrka upp fossana til þess að flytja inn farandverkamenn? Vill ekkert af þessu atvinnulausa fólki á Suðurnesjum koma austur, flytja hingað í tómar íbúðir og vinna í álverinu í Reyðarfirði? Er ekki eitthvað að? Af hverju sækir fólk ekki um vinnu þarna?“ spyr Þórhallur og bætir því við að það sé ekki eftirsóknarvert að vinna í kerskálanum eða steypuskálanum, þótt önnur störf séu vissulega áhugaverð. „Þarna eru tólf tíma vaktir og ég þekki engan sem vinnur í álverinu sem lítur á það sem sitt framtíðarstarf. Ég þekki líka fólk sem hætti að vinna þarna af því að vaktirnar voru of langar og það vildi ekki fórna fjölskyldunni. Fólk vinnur þarna þar til það fær betra starf. Efnahagskreppan mun jafna sig á nokkrum árum og hvernig verður þetta þá? Munum við manna álverið með útlendingum sem koma hingað á vertíð?

Þetta átti að bjarga öllu en það er enn sama skelfingarástandið víða. Álverið hafði til dæmis engin áhrif til batnaðar á Stöðvarfirði eða í Breiðdalsvík.

Fólksfjölgun á Austurlandi varð ekki sú sem stefnt var að. Og hér fór allt á annan endann því stjórnleysið var algjört. Hér voru byggð hús sem enginn er í, hér voru lagðar götur fyrir hús sem aldrei voru byggð. Sveitarfélagið er á hausnum, enda dýrt að fara í svona framkvæmdir og eins er það kostnaðarsamt að vera með mikið af hálfbyggðu gatnakerfi. Eflaust mun það jafna sig á einhverjum áratugum. En þetta var ekki þess virði.“

One Response to “Sakaður um svik vegna skoðanna sinna”

  1. Sigmundur Einarsson skrifar:

    Orð í tíma töluð. Þórhallur er hetja. se

Náttúruvaktin