Algengar spurningar

Hér eru svör við margspurðum spurningum um Saving Iceland hreyfinguna, aðferðir okkar og skoðanir, og samskipti við lögregluna.

Hvað er Saving Iceland?
Hvers konar fólk er meðlimir í Saving Iceland?
Eruð þið atvinnumótmælendur?
Er þetta lið ekki allt atvinnulaust?
Hvað er þetta fólk að þvælast til Íslands. Getur það ekki bara bjargað einhverju heima hjá sér
Stjórnast aðgerðasinnar ekki frekar af athyglissýki en hugsjónum
Hvernig get ég gengið í Saving Iceland?
Hvað eru beinar aðgerðir
Hvað er borgaraleg óhlýðni
Af hverju notið þið ekki frekar löglegar aðferðir?
Haldið þið að þið náið einhverjum árangri með þessum aðferðum
Sumir telja að þið skaðið málstaðinn með því að beita ólölegum eða kjánalegum aðferðum, hverju svarið þið því?
En fengjuð þið ekki fleiri fylgjendur ef þið skipuleggðuð frekar stórar mótmælasamkomur sem almenningur treystir sér til að taka þátt í
Hversvegna klæðist þið stundum eins og trúðar? Eruð þið ekki þar með að segja að það þurfi ekki að taka ykkur alvarlega
Endar þetta ekki bara í bílabrennum og ofbeldi?
Af hverju eruð þið svona mikið á móti rafmagni og áli þegar þið notið hvort tveggja sjálf?
Ef verður skrúfað fyrir alla stóriðju á Íslandi, á hverju eigum við þá að lifa
Af hverju eru Saving Iceland aðeins að mótmæla stóriðju? Af hverju ekki alveg eins botnvörpuveiðum?
Af hverju viljið þið endilega láta handtaka ykkur?
Af hverju fáið þið ekki bara leyfi fyrir mótmælum svo þetta líti ekki út eins og þið séuð að snappa fæting við lögguna?
Væri ekki betra fyrir alla ef þið hélduð uppi góðu samstarfi við lögreglu í stað þess að fá lögguna á móti ykkur?
Af hverju sýnið þið mótþróa við handtökur ef þið eruð á móti ríkissjórninni en ekki löggunni?
Af hverju takið þið þátt í ólöglegum aðgerðum og vælið svo um lögregluofbeldi?
Hafið þið engar áhyggjur af því að lögreglan eða einhver fyrirtæki sem þið berjist gegn séu með flugumann innan hreyfingarinnar?

 

Hvað er Saving Iceland?

Saving Iceland er alþjóðleg grasrótarhreyfing sem berst gegn náttúruspjöllum á Íslandi bæði með hefðbundnum leiðum og beinum aðgerðum. Munurinn á grasrótarhreyfingu og samtökum er sá að samtök eru mun meira skipulögð. Þau kjósa sér stjórn sem fer með ákveðið vald og tilteknir einstaklingar eru talsmenn samtakanna út á við. Hreyfing hefur enga félagaskrá og enga stjórn sem tekur ábyrgð á ákvörðunum eða sker úr um ágreiningsmál. Innan hreyfingar geta starfað margir litlir hópar sem hafa ekki endilega samráð sín á milli.

Saving Iceland starfar í mörgum löndum en eðlilega hefur mest kveðið að beinum aðgerðum á Íslandi sjálfu. Saving Iceland sýnir samskonar hreyfingum um víða veröld dyggan stuðning, einkum í Afríku, Trinidad & Tobago og í Indlandi.

Hverskonar fólk er meðlimir í Saving Iceland?

Í raun er rangt að tala um meðlimi því fólk gengur ekki formlega í félag þegar það kemur til liðs við okkur. Meirihluti þeirra sem taka þátt í beinum aðgerðum eru námsmenn sem hafa takmarkaða trú á flokkapólitík. Einnig eru í okkar röðum listamenn, kennarar, öryrkjar, vísindamenn, heilbrigðisstarfsfólk, eldri borgarar, lögfræðingar og fólk í fyrirtækjarekstri. Það er langt frá því að allir sem vinna með Saving Iceland beiti borgaralegri óhlýðni sjálfir enda liggur í augum uppi að t.d. fjölskyldufólk eigi erfiðara um vik að taka þátt í áhættusömum aðgerðum en ungir ofurhugar.

Rétt eins og leiksýning verður ekki til aðeins með þeim sem sjást á sviði, er ekki hægt að reka grasrótarhreyfingu eingöngu með þeim sem príla í byggingarkrönum. Það eina sem allir sem taka þátt í starfi Saving Iceland eiga sameiginlegt er andúð á stóriðjustefnu og trú á beinum aðgerðum. Því geta allir náttúruunnendur sem styðja beinar aðgerðir tekið þátt í starfi okkar á einhvern hátt.

Eruð þið atvinnumótmælendur?

Nei. Fólk sem vinnur fyrir Saving Iceland er hugsjónafólk. Enginn fær greitt fyrir störf í þágu hreyfingarinnar en við reynum að leggja til máltíðir fyrir þá sem dvelja í mótmælendabúðum. Við höfum einnig komið til móts við útlagðan kostnað vegna vinnu fyrir Saving Iceland, t.d. að greiða þeim sem lána bílana sína bensínkostnað og taka þátt í málskostnaði fyrir þá sem eru ákærðir. Oft afþakkar fólk greiðslur vegna útlagðs kostnaðar.
Enginn fótur er fyrir fullyrðingum um að fólk á okkar vegum fái greitt sérstaklega fyrir þátttöku í aðgerðum, fyrir áhættusamar aðgerðir eða fyrir að vera handtekið.

Er þetta lið ekki allt atvinnulaust?

Nei. Svipaðar reglur gilda um atvinnulausa á Íslandi og í nágrannalöndunum. Á flestum stöðum þurfa þeir sem eru á atvinnuleysisskrá að tilkynna það reglulega til þess að fá bætur. Einnig þarf fólk að vera reiðubúið að mæta í atvinnuviðtal með litlum fyrirvara og sjaldnast kemst fólk upp með að vera á atvinnuleysisbótum lengur en nokkra mánuði. Það liggur því í augum uppi að atvinnulaust fólk er bundið við sinn heimabæ og getur ekki leyft sér að þvælast til Íslands til að hlekkja sig við vinnuvélar ár eftir ár.

Goðsögnin um atvinnulausa atvinnumótmælandann er sennilega sprottin af því að margir aðgerðasinnar líta á það sem lífsstíl að ferðast um og taka þátt í beinum aðgerðum og vilja því ekki binda sig í ákveðinn vinnustað til langs tíma. Sumir fara þá leið að vinna mikið hluta ársins og safna peningum til að mæta kostnaði við ferðalög. Aðrir ganga ennþá lengra í hippastílnum; binda sig hvergi í vinnu lengur en fáeinar vikur í senn en ferðast um og taka þeim verkefnum sem bjóðast hverju sinni. Hér á landi eru dæmi um að bændur hafi hýst og fætt mótmælendur sem á móti hafa hjálpað þeim við bústörf. Þetta fólk lifir oftast nær ákaflega spart enda hafnar það neysluhyggju og fylgir þeirri reglu að nýta það sem aðrir hafa hent, fremur en að kaupa nýtt. Sumir þeirra sem hafa komið hingað til lands á vegum Saving Iceland tilheyra þessum hópi og taka einnig þátt í mótmælum umhverfis-, mannúðar-, og friðarhreyfinga í öðrum löndum. Aðrir eru bundnir í vinnu eða skóla en nota sumarfríið sitt til að taka þátt í aðgerðum.

Hvað er þetta fólk að þvælast til Íslands. Getur það ekki bara bjargað einhverju heima hjá sér?

Umhverfis- og mannúðarsinnar líta svo á að jörðin sé sameign okkar allra, ekki bara mannanna heldur einnig annarra lífvera. Þegar einu vistkerfi er spillt, hefur það áhrif á fleiri svæði jarðarinnar og þegar stórfyrirtæki nær að styrkja stöðu sína á einum stað, er það þar með í betri aðstöðu til að brjóta gegn mannréttindum á öðrum stað. Þetta álítum við að komi okkur við og þessvegna berjast aðgerðasinnar gegn stórfyrirtækjum og náttúruspjöllum hvar sem er í veröldinni. Saving Iceland hreyfingin varð til vegna þess óhugnaðar sem greip fjölda manns um víða veröld þegar fréttist að til stæði að eyðileggja stærstu öræfi í Evrópu. Nú er sá skaði skeður. Hingað til hafa aðeins fáeinir tugir Íslendinga tekið þátt í beinum aðgerðum gegn stóriðjustefnunni svo okkur veitir ekkert af liðsinni erlendis frá.

Þess má geta að margir þeirra mótmælenda sem hafa komið til Íslands á síðustu árum hafa einnig tekið þátt í beinum aðgerðum gegn stóriðju í sínum heimalöndum og íslenskir aðgerðasinnar hafa farið til útlanda og hjálpað til þar.

Sá þjóðernisrembingur sem er að baki því að einblína á að útlendingar séu í Saving Iceland er hræsnisfullur. Eða hvaðan koma þau margdæmdu stórfyrirtæki sem ógna nú bæði náttúru og lýðræði á Íslandi?

Stjórnast aðgerðasinnar ekki frekar af athyglissýki en hugsjónum?

Við erum vissulega að reyna að vekja athygli á baráttumálum okkar. Það eru hinsvegar til mun einfaldari leiðir til að verða frægur en að taka þátt í aðgerðum Saving Iceland. Oft hylur fólk á okkar vegum andlit sín þegar fjölmiðlar mæta á staðinn, einmitt til þess að athyglin beinist frekar að framkvæmdunum sem við erum að mótmæla en að andlitum mótmælenda. Til að forðast að gera fámennan hóp að andliti hreyfingarinnar skiptumst við á að vera talsmenn. Líklega muna fáir nöfn og andlit þeirra sem voru talsmenn okkar sumarið 2005 og enn færri þekkja andlit þeirra sem hafa lagt sig í mesta hættu í aðgerðum.

Hvernig get ég gengið í Saving Iceland?

Þú getur ekki gengið formlega í hreyfingu á sama hátt og í samtök. Við höfum enga félagaskrá eða inntökuskilyrði. Allir náttúruunnendur sem styðja beinar aðgerðir geta unnið með Saving Iceland á einhvern hátt. Ef þú hefur áhuga á því að taka þátt í hreyfingunni geturðu haft samband við okkur, t.d. í gegnum þessa vefsíðu og við munum bjóða þér að hitta einhverja úr hópnum.

Hvað eru beinar aðgerðir?

Með beinum aðgerðum er átt við það þegar venjulegt fólk grípur sjálft til sinna ráða í stað þess að bíða eftir að stjórnvöld geri það. Bein aðgerð þarf ekki endilega að fela í sér andóf. Það er t.d. bein aðgerð þegar íbúar taka sig saman um að hreinsa hverfið sitt. Oftast er hugtakið þó notað um það þegar hinn almenni borgari reynir að þvinga fram einhverja niðurstöðu með því að hegða sér þannig að það komi illa við þá stofnun eða fyrirtæki sem verið er að mótmæla. Beinar aðgerðir geta verið bæði löglegar og ólöglegar. Sem dæmi um löglegar aðgerðir má nefna það þegar stórir hópar neytenda taka sig saman um að refsa fyrirtæki með því að sniðganga vörur þeirra eða þjónustu. Sumt af því sem við hjá Saving Iceland gerum er vafasamt að standist gagnvart lögum og má flokka sem borgaralega óhlýðni.

Beinar aðgerðir hafa verið notaðar sem baráttuaðferð í öllum helstu réttlætismálum sögunnar. Má þar nefna kvennabaráttuna, verkalýðsbaráttuna, sjálfstæðisbaráttu ýmissa þjóða og andóf gegn þrælahaldi og aðskilnaðarstefnu. Við álítum að beinar aðgerðir séu nauðsynlegt innlegg í baráttuna gegn náttúruspjöllum.

Hvað er borgaraleg óhlýðni?

Borgaraleg óhlýðni er það þegar almennir borgarar taka lögin í sínar hendur og ráðast gegn kúgara eða valdastofnun án samráðs við yfirvöld með aðgerðum sem eru ólöglegar eða á gráu svæði. Lög eru ekki helgidómur sem Guð letraði á leirtöflur, heldur gagnrýniverðar hugmyndir venjulegs fólks um það hvernig réttlæti skuli haldið uppi. Ef lög stangast alvarlega á við hugmyndir okkar um réttlæti þá finnst okkur réttlætanlegt að brjóta þau, helst kerfisbundið þannig að eftir því sé tekið. Við beitum hinsvegar aldrei ofbeldi. Aðgerðir okkar eru friðsamlegar en ekki endilega löglegar.

Af hverju notið þið ekki frekar löglegar aðferðir?

Við notum reyndar líka löglegar aðgerðir en ástæðan fyrir því að við beitum borgaralegri óhlýðni er einföld: Stjórnvöld hafa ekkert slakað á stóriðjustefnu sinni þrátt fyrir endalausar mótmælastöður, skiltaburð, bréfaskrif, blaðaskrif, metsölubók og fjölmennustu götumótmæli Íslandssögunnar. Við sjáum okkur því nauðbeygð til þess að taka upp skilvirkari aðferðir til að berjast gegn jarðeyðingarstefnunni.

Haldið þið að þið náið einhverjum árangri með þessum aðferðum?

Já. Við höfum fulla trú á því sem við erum að gera. Hefðbundnar aðferðir eru fullreyndar, það er sjálfsagt að halda þeim áfram en þær duga ekki einar og sér. Aðgerðir Saving Iceland hafa þegar skilað þeim árangi að halda umræðunni vakandi síðustu þrjú árin. Markmið okkar er að valda álrisunum, Landsvirkjun og öðrum drullusokkafyrirtækjum sem stuðla að eyðileggingu Íslands, nógu miklu ónæði til þess að Ísland verði ekki lengur “best geymda leyndarmál áliðnaðarins”. Saving Iceland stefnir að því að verða óþægasti ljárinn í féþúfu áliðnaðarins á Íslandi.

Mörg dæmi eru um það erlendis frá að aktivistahreyfingum hafi tekist að afstýra náttúruspjöllum.

Sumir telja að þið skaðið málstaðinn með því að beita ólölegum eða kjánalegum aðferðum, hverju svarið þið því?

Þessi hugmynd heyrist fyrst og fremst hjá þeim sem vilja veg stóriðju sem mestan. Ef náttúruverndarmaður snýst á sveif með virkjanasinnum vegna þess að einhver hlekkjaði sig við vinnuvél eða dansaði úti á götu, þá hefur sannfæring hans varla rist djúpt. Reyndar fá allir mótmælendur að heyra að andóf þeirra skaði málstaðinn. Jafnvel þeir sem hafa mótmælt með því að standa þegjandi fyrir framan Alþingishúsið hafa fengið það framan í sig að svo máttlausar og asnalegar aðgerðir sé svo ótrúverðugar að þær hreki fólk frekar frá umhverfisvernd en laði það að.

Við berum ekki ábyrgð á skoðunum annarra. Ef okkur tekst að vekja einhverja til umhugsunar er það gott mál en það er ábyrgð hvers og eins að kynna sér allar hliðar málsins og mynda sér sjálfstæða skoðun.

En fengjuð þið ekki fleiri fylgjendur ef þið skipuleggðuð frekar stórar mótmælasamkomur sem almenningur treystir sér til að taka þátt í?

Við erum ekki trúflokkur. Við þurfum ekki fylgjendur. Hinsvegar er fólki sem styður beinar aðgerðir velkomið að vinna með okkur.

Við teljum að menn beri sameiginlega ábyrgð gagnvart náttúrunni og gagnvart þeim sem minna mega sín. Við höfum og munum áfram, bæði taka þátt í aðgerðum annarra náttúruverndarsinna og bjóða almenningi til þátttöku í sumum af okkar aðgerðum. Almennt leggjum við þó lítið upp úr því að skipuleggja aðgerðir fyrir aðra vegna þess einfaldlega að flest fólk er fullkomlega einfært um að segja skoðanir sínar, með þeim aðferðum sem það sjálft kýs. Þeir sem eru mótfallnir stóriðju á Íslandi þurfa ekki að bíða eftir því að Ómar Ragnarsson bjóði þjóðinni í gönguferð. Göngum með honum og öllum öðrum sem vinna gegn stóriðju, en höfum líka manndóm til að gera eitthvað af eigin frumkvæði.

Hversvegna klæðist þið stundum eins og trúðar? Eruð þið ekki þar með að segja að það þurfi ekki að taka ykkur alvarlega?

Trúðurinn er tákngervingur þess sem hefur engar áhyggjur af því þótt aðrir hlæi að honum. Stærsta ástæðan fyrir því að fólk hikar við að taka þátt í starfi grasrótarhreyfinga er sú að það er hrætt við að gera sig að fífli. Það óttast tilhugsunina um að reka í vörðurnar eða komast klaufalega að orði ef það þarf að rökstyðja skoðanir sínar. Margir óttast að öðru fólki finnist þeir skrýtnir og aðgerðirnar asnalegar.

Með því að flykkjast út á göturnar sem trúðar erum við að segja; þú þarft ekki að vera stjórnmálamaður, fræðimaður eða ræðumaður til að hafa skoðanir. Við verðum að byrja einhversstaðar og ef við erum of hrædd við að láta hlæja að okkur þá fáum við aldrei tækifæri til að hafa áhrif.

Auk þess hafa mótmæli tilhneigingu til að verða leiðinleg. Við reynum að skemmta sjálfum okkur og öðrum í stað þess að sýna reiði. Trúðaherinn er friðelskandi her sem öðrum þræði berst fyrir betri veröld með glensi og bjánagangi en hefur líka það markmið að afstýra slagsmálum og úlfúð.

Endar þetta ekki bara í bílabrennum og ofbeldi?

Yfirlýst stefna okkar er að beita ekki ofbeldi og forðast aðgerðir sem gætu skaðað saklausa fjárhagslega eða á annan hátt. Það er undir viðbrögðum yfirvalda komið hvort okkur tekst að halda henni.

Það ber að hafa í huga að þegar mótmælaaðgerðir snúast upp í óeirðir, er það nánast alltaf eftir að lögregla hefur gripið til ofbeldis gegn múg friðsamra (en e.t.v. háværra) mótmælenda.
Þegar mótmæli verða mjög fjölmenn og fólk með mismunandi skoðanir (sumir jafnvel með frjálslega afstöðu til ofbeldis) dregst inn í þau, getur allt gerst og þótt þeir sem hafa reynslu af beinum aðgerðum sjái mesta skynsemi í því að beita aðeins passivum mótþróa gegn lögreglu (svosem að leggjast niður) má gera ráð fyrir að fólk verji sig ef er ráðist á það með hnúum eða bareflum, það eru bara mannleg viðbrögð.

Sem betur fer hefur íslenska lögreglan ekki tileinkað sér þau hrottalegu vinnubrögð gegn mótmælendum sem við höfum séð t.d. á Ítalíu og í Frakklandi en þó eru dæmi um að liðsmenn lögreglunnar á Íslandi beiti óþarfa harðræði. Það þurfa menn að varast. Stjórnvöldum er svo í lófa lagið að hindra að mótmæli okkar þróist út í götubardaga, það eina sem þau þurfa að gera er að hlýta þeim vilja meirihlutans að hverfa frá stóriðjustefnunni og afmá þar með þörfina fyrir beinar aðgerðir.

Af hverju eruð þið svona mikið á móti rafmagni og áli þegar þið notið hvort tveggja sjálf?

Við erum í raun hvorki á móti rafmagni né áli enda er varla hægt að komast af án þess í nútíma samfélagi. Við erum ekki á móti rafmagnsframleiðslu til skynsamlegra framleiðsluhátta. Það er stóriðjustefna sem við erum mótfallin.

Í heiminum er framleitt miklu meira ál en við höfum þörf fyrir. Mikið af því fer til hergagnaframleiðslu sem allir friðarsinnar hljóta að leggjast gegn. Allt of lágt hlutfall áls er endurunnið en mun minni orku þarf til að endurvinna ál en frumvinna.

Nýjar virkjanir á Íslandi eru ekki til þess ætlaðar að hita og lýsa íbúðarhús og stofnanir, heldur til að sjá stóriðjufyrirtækjum sem hvað eftir annað hafa verið dæmd fyrir umhverfisspjöll og brot á vinnulöggjöf fyrir ódýrri orku.

Við viljum ekki að allir Íslendingar noti olíulampa í stað ljósaperu, hætti að nota álpotta til að elda og losi sig við bílana sína. Það sem við viljum er að eigendur stórfyrirtækja slaki á gegndarlausri græðgi sinni svo jörðin endist okkur nokkrar kynslóðir í viðbót.

Ef verður skrúfað fyrir alla stóriðju á Íslandi, á hverju eigum við þá að lifa?

Við erum nú að verða dálítið þreytt á þessum harmasöng um afkomumöguleika þjóðarinnar. Sannleikurinn er sá að þjóðarbúið okkar á ekkert bágt og þótt lífsgæðum sé misskipt mun það ekkert lagast með því að reisa álver í hverju krummaskuði.

Umhverfissinnar hafa komið með ótal ábendingar um það sem hægt væri að gera. Andri Snær Magnason hefur skrifað heila bók um ókannaða valkosti og sú bók er víðlesin. Vandamálið felst ekki í því að okkur séu engir aðrir vegir færir eða að ríki og athafnafólk viti ekki af möguleikunum sem blasa við okkur, heldur í einlægum vilja stjórnvalda til að blóðmjólka jörðina til að græða eins mikið og hægt er, eins hratt og hægt er, án tillits til þess hvernig komandi kynslóðum mun reiða af.

Af hverju eru Saving Iceland aðeins að mótmæla stóriðju? Af hverju ekki alveg eins botnvörpuveiðum?

Við erum fá, höfum úr litlu fjármagni að spila og þurfum að gera ýmislegt fleira en að standa í mótmælaaðgerðum. Umhverfissinnar eru ekki á mótmælendalaunum hjá ríkinu og hafa ekkert meiri skyldur í þeim efnum en hinn almenni borgari. Sum okkar verja nánast öllum sínum frítíma í umhverfisbaráttu og við komumst hreinlega ekki yfir öll þau verkefni sem liggja fyrir. Ef aðrir hópar taka að sér að skipuleggja aðgerðir gegn botnvörpuveiðum eða öðrum umhverfisógnvöldum, tökum við því fagnandi og mörg úr okkar röðum eru tilbúin til að taka virkan þátt. En það er auðvitað mun auðveldara að röfla yfir því sem náttúruverndarsinnar eru ekki að gera en að gera það bara sjálfur.

Af hverju viljið þið endilega láta handtaka ykkur?

Við viljum helst ekki láta handtaka okkur. Það er hundleiðinlegt, sum okkar hafa meiðst við handtökur og það kostar heilmikið vesen og ýmist fjármuni eða vinnutap að fá á sig dóm. Við teljum þó málefnið svo mikilvægt að sum okkar eru tilbúin til að taka þá áhættu að fá á okkur fangelsisdóma.

Markmið okkar með því að fara inn á vinnusvæði er ekki það að fá lögreglu á staðinn, heldur að trufla vinnu og valda fyrirtækinu óþægindum. Því lengur sem okkur tekst að hanga uppi í krana eða utan á vinnuvél, því óþægilegra fyrir fyrirtækið. Handtaka er ekki markmið okkar heldur óþægilegur fylgikvilli. Við gleðjumst yfir hverri krónu sem álrisarnir tapa og styðjum því eindregið tillögur sem hafa komið fram um að láta okkur bara í friði þar til við gefumst upp sjálf.

Af hverju fáið þið ekki bara leyfi fyrir mótmælum svo þetta líti ekki út eins og þið séuð að snappa fæting við lögguna?

Reyndar þurfum við ekki leyfi til að mótmæla. Hinsvegar er í gildi lögreglusamþykkt um tilkynningarskyldu.

Ef við tilkynntum lögreglu um fyrirhugaðar mótmælaaðgerðir, þá væri lögreglan þar með komin í aðstöðu að hindra okkur í því sem við erum að reyna að gera. Tilgangur okkar og meginmarkmið er að gera stóriðjufyrirtækjum veruna á Íslandi óbærilega. Það tekst auðvitað ekki ef lögreglan er stöðugt að trufla okkur.

Við erum í raun ekki í stríði við lögregluna heldur við stjórnvöld en þar sem lögreglan er fulltrúi valdstjórnarinnar beinist athyglin oft að samskiptum mótmælenda og lögreglu.

Væri ekki betra fyrir alla ef þið hélduð uppi góðu samstarfi við lögreglu í stað þess að fá lögguna á móti ykkur?

Við viljum gjarnan eiga eins þægileg og kurteisleg samskipti við lögreglu og mögulegt er. Hinsvegar liggur í hlutarins eðli að þar verður aldrei um eiginlegt samstarf að ræða, þar sem hlutverk okkar er að rísa gegn ægivaldi stóriðjunnar en hlutverk lögreglu er hinsvegar að tryggja stóriðjunni frið til að halda eyðileggingarstarfi sínu áfram. Andspyrna gegn þeim aðgerðum lögreglu sem trufla starf okkar er því eðlileg og nauðsynleg.

Af hverju sýnið þið mótþróa við handtökur ef þið eruð á móti ríkissjórninni en ekki löggunni?

Við sláumst ekki við lögreglumenn og sýnum ekki beinan mótþróa við handtökur. Ef við sjáum fram á að það þjóni tilgangi (t.d. ef það getur lengt um nokkrar mínútur þann tíma sem fyrirtækið sem við erum að mótmæla er óstarfhæft) þá leggjumst við niður, en meiri er nú mótþróinn ekki.

Stundum finnum við til með lögreglumönnum sem óháð skoðunum sínum neyðast til að handtaka okkur en þeir hafa valið sér þetta þrælshlutverk sjálfir og það hvarflar ekki að okkur að gera þeim það auðveldara að handtaka fólk fyrir pólitískar skoðanir sínar.

Af hverju takið þið þátt í ólöglegum aðgerðum og vælið svo um lögregluofbeldi?

Aðgerðarsinnar væla ekki um lögregluofbeldi, þeir tilkynna hinsvegar þjóðinni um það.

Við vitum að það er hárfín lína á milli eðlilegra aðgerða lögreglu og óþarfa harðræðis og jafnvel ennþá fínni á milli óþarfa harðræðis og ofbeldis. Lögreglan á Íslandi er óvön borgaralegri óhlýðni og í raun mjög illa í stakk búin til að bregðast rétt við. Dæmi eru um að lögreglan á Íslandi hafi beitt mótmælendur óþarfa harðræði og við teljum nauðsynlegt að greina frá því svo hægt sé að veita eðlilegt aðhald. Hver mótmælandinn á fætur öðrum hefur þurft á læknisaðstoð að halda eftir handtökur. Í sumum tilvikum hafa meiðsli orðið vegna vankunnáttu lögregluþjóna en einnig má rekja meiðsli til fruntaskapar við handtökur. Ef við þegjum um það, verður þess stutt að bíða að rafmagnskylfum og táragasi verði beitt gegn friðsamlegum mótmælendum. Kylfum hefur þegar verið beitt gegn okkur við Kárahnjúka.

Hafið þið engar áhyggjur af því að lögreglan eða einhver fyrirtæki sem þið berjist gegn séu með flugumann innan hreyfingarinnar?

Nei. Vel má vera að svo sé en við höfum ekki áhyggjur af því að það skaði starf okkar. Við álítum að andóf gegn stóriðju sé ábyrgðarhluti hvers og eins og þessvegna eru fyrirhugaðar aðgerðir aldrei kynntar fyrir öllum (enda væri það hvort sem er ekki hægt þar sem við höldum ekki félagaskrá). Við vinnum oft í litlum hópum og vitum ekki einu sinni hvaða aðgerðir aðrir hópar eru með á prjónunum. Ef einhver “útsendari óvinarins” tekur upp á því að mæta á fundi hjá okkur, þá getur hann í mesta lagi eyðilagt eina aðgerð og þó sennilega aðeins hluta hennar. Við eigum engin leyndarmál sem eru þess eðlis að hreyfingin leysist upp ef þau berast út. Við gerum þó vissar öryggisráðstafanir. Ef svikari leynist meðal okkar mun komast upp um hann eða hana fyrr eða síðar. Í eins litlu þjóðfélagi og hér er það ekki eftirsóknavert hlutskipti að verða uppvís af svikum við fólk sem er heilt í sinni hugsjón.

Sjá einnig:

S.O.S. ÍSLAND – Björgum Íslandi frá stóriðju – Ákall til aðgerða

Leiðréttingar á tólf alhæfingum um eðli og áhrif beinna aðgerða

Answers to Frequently Asked Questions

One Response to “Algengar spurningar”

  1. Þórarinn S Andrésson skrifar:

    langar að gerast meðlimur

Náttúruvaktin