Archive for maí, 2010

maí 28 2010

Pólitísk íhlutun Magma og Norðuráls


Í fréttum Stöðvar 2 sl. laugardag var kostuleg frétt þess efnis að viðræður væru hafnar milli Magma Energy og Norður-áls um sölu á orku til álversins í Helguvík. Í viðtali við Árna Sigfússon, bæjarstjóra í Reykjanesbæ, kom fram að hann fagnaði því að hlutur Geysis Green Energy væri nú í höndum aðila sem sé kominn að HS Orku til langs tíma. Það hafi greitt fyrir því að samningaviðræður milli Norðuráls og HS Orku hafi komist á skrið að nýju.

Með fréttinni var gefið í skyn að nú sé að rofa til í orkumálum álversins. En hvað skyldi í raun vera á bakvið þessar svokölluðu viðræður? Í fréttinni kom í raun ekkert fram um viðræðurnar því staðreyndin er sú að þar er ekkert að frétta. Hér var sett á svið ómerkileg leiksýning af hálfu Magma og Norðuráls, tveggja fyrirtækja í eigu erlendra aðila, sem með þessu eru að hlutast til um íslensk stjórnmál. Sýninguna setja þau á svið fyrir velgjörðarmann sinn, bæjarstjórann í Reykjanesbæ, viku fyrir kosningar til sveitarstjórnar. Samkvæmt fréttinni virðist sem hér séu á ferðinni stórtíðindi í atvinnumálum Suðurnesjamanna. Og eins og venjulega sá fréttamaðurinn ekkert athugavert.
Read More

maí 20 2010
1 Comment

Íslenska umræðuplanið


Rvk9Hvernig fjölmiðar og aðrir dómarar götunnar hafa dæmt nímenningana fyrirfram

Þann 8. desember 2008 fóru þrjátíu manns inn í Alþingishúsið. Tveir einstaklingar, af sitthvoru kyni, fóru upp á þingpalla og hvöttu þingmenn til að koma sér út úr húsi sem þjónaði ekki tilgangi sínum lengur. Aðrir voru stöðvaðir í stigaganginum, þeim var hótað piparúðun og lentu síðar meir sumir í stimpingum við lögreglu og þingverði. Nokkrir voru handteknir, yfirheyrðir og svo sleppt – þinghald tafðist um klukkustund. Rúmu ári seinna var níu einstaklingum – undirritaður þar með talinn – stefnt af Láru V. Júlíusdóttur, settum ríkissaksóknara, meðal annars fyrir árás gegn sjálfræði Alþingis. Refsiramminn sem héraðsdómaranum Pétri Guðgeirssyni er gert að dæma okkur eftir, er eins árs til lífstíðarfangelsi. Read More

maí 18 2010

Hvers vegna flýtur náttúruvernd ennþá á yfirborðinu – Frá þingi náttúruverndarsamtaka á Íslandi


Grein þessi birtist upphaflega í maí-tölublaði mánaðarritsins Róstur. Upplýsingar um Róstur og hvernig nálgast má blaðið má finna á vefsíðunni www.rostur.org

Ákveðin ládeyða hefur einkennt starfsemi íslenskra náttúruverndarhreyfinga eftir ósigur í baráttunni um Kárahnjúkavirkjun. Ef til vill var ósigurinn einfaldlega of stór biti að kyngja, því þrátt fyrir að til að mynda Saving Iceland hafi haldið uppi andspyrnubúðum gegn stóriðju  og virkjanaframkvæmdum eftir að Hálslón var fyllt og álframleiðsla hófst á Reyðarfirði, hefur á heildina litið skort þann baráttuanda sem einkenndi krítísku árin í kringum framkvæmdirnar fyrir austan.

Fyrsta náttúruverndarþingið á tíu árum

Laugardaginn 24. apríl sl. var gerð tilraun til að vekja hreyfinguna upp frá dauðum þegar Náttúruverndarþing var haldið í Menntaskólanum við Hamrahlíð á vegum náttúruverndarsamtaka á Íslandi. Það er hið fyrsta síðan árið 2000 ef undanskilin er alþjóðleg ráðstefna sem Saving Iceland stóð fyrir í Ölfusi sumarið 2007.
Read More

Náttúruvaktin