jan 03 2006

Virkjanir í jökulám óhagstæðar fyrir loftslagsvernd

Hjörleifur Guttormsson
3. janúar 2006

Áhrif aurburðar í jökulám á kolefnishringrás og loftslagsbreytingar

Talsmenn stóriðju hérlendis hafa hampað því óspart að með tilliti til gróðurhúsalofts mengi vatnsaflsvirkjanir allt að tífalt minna en virkjanir sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Þessum aðilum sést yfir að Kyótósáttmálinn skammtar iðnríkjunum ákveðinn kvóta og segir ekkert fyrir um hvernig hann er nýttur og að ekki er greint alþjóðlega á milli einstakra þátta sem mengun valda. Ýmsir hafa líka bent á að vatnsaflsvirkjanir eru misjafnar innbyrðis með tilliti til losunar gróðurhúsalofts, m.a. hefur heimsnefndin um stíflur (World Commission on Dams) bent á sérstöðu virkjana í jökulám.

Kalsíum bindur gróðurhúsaloft

Nýbirtar rannsóknaniðurstöður sem hér verður getið styðja þetta og benda til að virkjun eins og við Kárahnjúka sé síst betri í loftslagssamhengi en virkjun byggð á jarðefnaeldsneyti. Þessu veldur stöðvun á aurrennsli til sjávar í miðlunarlónum, en það er kalsíum í framburðinum sem bindur koltvísýring í hafinu í ríkum mæli og hafið tekur af þeim sökum við meira af gróðurhúsalofti úr andrúmsloft i.
Rannsóknaniðurstöðurnar birtust nú í ársbyrjun í Geology (I, 2006), tímariti bandaríska jarðfræðafélagsins (Geological Society of America) , og hljóta þær að vekja mikla athygli víða og ekki síst hérlendis. Höfundar eru Sigurður R. Gíslason í Háskóla Íslands, Eric H. Oelkers frá Toulouse-háskóla og Árni Snorrason forstöðumaður vatnamælinga Orkustofnunar. Sjálfur Dettifoss skreytir af þessu tilefni forsíðu tímaritsins. Rannsóknir þeirra félaga varða kalsíum-flæði, annars vegar í upplausn og hins vegar í aurburði, frá þremur jökulám á Norðausturlandi og þýðingu þessa fyrir kolefnisbúskap hafsins þar sem kalsíum binst koltvísýringi og dregur þannig úr gróðurhúsaáhrifum. Hingað til hefur verið talið að kalsíummagn frá upplausn og aurburði í ám væri sem næst jafnt en annað kemur á daginn. Aurburðurinn leggur þar margfalt meira til af efni sem bindur gróðurhúsaloft.

Aurburður jökulánna dregur úr gróðurhúsaáhrifum

Rannsóknir þeirra félaga byggja á mælingum í jökulánum á 30-40 ára tímabili, þar af á tveimur stöðum í Jöklu (Jökulsá á Dal). Niðurstöðurnar endurspegla áhrif veðurfars, hitastigs og úrkomu á báða þessa kalsíumgjafa en þau reynast mun meiri hvað aurburðinn varðar. Breytileika á daglegu kalsíumflæði aurburðar í Jöklu innan ársins telja þeir vera af stærðargráðunni fjórir en aðeins af stærðinni einn fyrir uppleyst kalsíumflæði. Árlegt uppleyst kalsíumflæði í Jöklu sveiflast sem nemur 2.6 en í aurburði um 7.1. Þar eð kalsíumflæði tengt aurburði eykst meira við hlýnun en flæði uppleysts kalsíums hefur aurburðurinn vaxandi áhrif á hlýskeiðum til jöfnunar á hitastig jarðar með því að draga úr gróðurhúsaáhrifum. Benda höfundarnir á að við líkanútreikninga á koltvísýringi í andrúmslofti á liðinni tíð og til framtíðar litið þurfi að taka þessi gagnvirku viðbótaráhrif (additional feedback) með í reikninginn til að spá sem nákvæmast fyrir um þróun loftslags á heimsvísu.

Óbeislaðar jökulár mikilvæg auðlind

Athygli vekur hve aurframburður til sjávar frá ám á eldfjallaeyjum er mikill að magni til í samanburði við ár á jarðfræðilega gömlum meginlöndum. Aurburðurinn reynist því meiri sem bergið er yngra. Þannig skilar rof (mechanical weathering) frá Íslandi til hafs um 0,7% af öllu aurburðarflæði á jörðinni en það svarar til um fjórðungs alls aurburðar frá ám í Afríku að magni til. Því hefur aurburður frá íslenskum ám hlutfallslega mjög mikla þýðingu við að jafna út hitasveiflur og draga úr hlýnun af völdum gróðurhúsaáhrifa á heimsvísu. Séu árnar stíflaðar eins og nú er unnið að við Kárahnjúka sest aurinn til í miðlunarlóninu ofan stíflu og skilar sér ekki til hafs. Að þessu leyti blasir við að íslensku jökulárnar með ótrufluðu rennsli eru mikilvæg auðlind í baráttunni við gróðurhúsaáhrif. Séu þær virkjaðar er þessi eiginleiki þeirra ekki lengur til staðar. Því ætti að reikna áhrifin af virkjun þeirra inn í losunaruppgjörið hérlendis sem og annars staðar með hliðstæðum hætti.

Falsrök fyrir Kárahnjúkavirkjun

Grein nefndra höfunda fjallar hvorki um einstakar virkjanir né er þar að finna tölulega útreikninga vegna stöðvunar á aurrennsli sem sest til í miðlunarlónum. Af niðurstöðu ofangreindra rannsókna má hins vegar ráða að röksemdir sem virkjunaraðilar hafa mjög haldið á lofti um afar jákvæð loftslagsáhrif virkjana eins og Kárahnjúkavirkjunar í samanburði við virkjanir sem knúðar eru af jarðefnaeldsneyti fá ekki staðist. Skaðsemi Kárahnjúkavirkjunar og hliðstæðra framkvæmda er því að líkindum langtum meiri en hingað til hefur verið talið. Fróðlegt verður að sjá viðbrögð opinberra aðila hérlendis og forráðamanna Landsvirkjunar við niðurstöðum þessara rannsókna og fylgjast með því hvernig þær koma til með að hafa áhrif á útreikninga á gróðurhúsalosun einstakra ríkja í framtíðinni.

Hjörleifur Guttormsson

Sjá einnig:


‘Kárahnjúkavirkjun, sýnd veiði en ekki gefin’ eftir Grím Björnsson jarðeðlisfræðing

The whole article ‘Role of river-suspended material in the global carbon cycle’ is here in pdf

http://www.gsajournals.org/perlserv/?request=get-document&doi=10.1130%2FG22045.1

‘Hydropower Disaster for Global Warming’ by Jaap Krater

‘Glacial Rivers Reduce Pollution on Earth’ by Gudmundur Pall Olafsson

Hydroelectric Power’s Dirty Secret Revealed – New Scientist

‘Stóra samhengið’ eftir Guðmund Pál Ólafsson náttúrufræðing – Virkjanaæði stjórnvalda stefnir fiskimiðum landsins í voða

Náttúruvaktin