júl 28 2007
5 Comments

Rógburður RÚV

Í kvöldfréttum sjónvarps RUV 26. júlí var fullyrt að mótmælendur Saving Iceland „fengju peningagreiðslur fyrir að láta handtaka sig“ og staðhæft er að RUV telji heimildir sínar „traustar“.

Þrátt fyrir að talsmaður Saving Iceland hafi mótmælt þessum slefburði harðlega í viðtali við RUV greinir RUV ítrekað frá þessu eins og um staðreynd sé að ræða og þá um leið að það sé sjálfgefið að talsmaður Saving Iceland fari með ósannindi.

Það teljast undarleg vinnubrögð að kvöldið eftir að RUV sendir út þessa „frétt“ kýs RUV að taka viðtal í Kastljósi við tvo álitsgjafa sem velta úr sér rakalausum óhróðri um Saving Iceland frekar en að gefa talsmönnum Saving Iceland kost á svara lygum fréttastofunnar í sama þætti.

Saving Iceland krefst þess að RUV birti sönnunargögn máli sínu til stuðnings ellegar leiðrétti fréttina og biðjist tafarlaust afsökunar og það á jafn áberandi tíma og upphaflega fréttin var send út á.

Saving Iceland skorar jafnframt á heimildarmann RUV að gefa sig fram og standa fyrir máli sínu, hvort sem hann starfar hjá RUV, Athygli (óneitanlega er rógburðurinn ansi keimlíkur fyrri rógsherferðum þessa fyrirtækis gegn íslenskum náttúrverndarsinnum)(1), Landsvirkjun, Orkuveitu Reykjavíkur, Rio Tinto-ALCAN, ALCOA eða Century.

Að lokum vill Saving Iceland benda á að hefði RUV unnið heimavinnuna sína betur hefði fréttastofan fundið grein frá 19. júlí á www.savingiceland.org þar sem greint er opinskátt frá því hvernig samtökin eru fjármögnuð og í hvað fjármununum er eytt.(2)

Væri óskandi að fréttastofa RUV skoðaði sinn gang betur áður en hún lætur nota sig sem handbendi í jafn lágkúrulegri rógsherferð.

1.- Slanderous Athygli get a well deserved hit

2.- Who Pays Saving Iceland?

5 Responses to “Rógburður RÚV”

  1. Nafnlaust skrifar:

    Það er ákaflega einkennileg stefna að byggja fréttaflutning á því að slá upp getgátum hvort sem er um einstaklinga, fyrirtæki eða samtök. Ríkissjónvarpið ætti að biðjast afsökunar. Því miður er hins vegar líklegt að í þessu tilfelli telji stjórnendur stofnunarinnar sig komast upp með hvað sem er. Fjöldi molbúalegra athugasemda við fréttina bendir til að það viðhorf eigi við rök að styðjast.

    Þorsteinn Siglaugsson
    blog.is

  2. Nafnlaust skrifar:

    Ég sendi þetta bréf til RÚV en hef ekkert svar fengið ennþá þann 19. ágúst.

    http://www.nornabudin.is/sapuopera/2007/07/bref_til_ruv.html

  3. Nafnlaust skrifar:

    Mér finnst þetta dáldið merkilegt fréttamat hjá RÚV, að hafa þetta sem fyrstu frétt í kvöldfréttatíma sjónvarps. Í fréttinni segir orðrétt:

    „Samkvæmt heimildum sem fréttastofa telur traustar, þá fá að minnsta kosti sumir þeirra sem taka þátt í þessum aðgerðum Saving Iceland, greitt fyrir erfiðið – ef þeir eru handteknir af lögreglu við aðstæður eins og þær sem sköpuðust í morgun, þegar hluti hópsins hafði hlekkað sig við bíla eða klifrað upp í krana.

    Ekki er ljóst hvaðan þessar greiðslur koma, eða hversu háar þær eru.“

    Á góðri íslensku heitir þetta dylgjur.

    Áhorfendur fá engar raunverulegar upplýsingar, en sitja í staðinn eftir með órökstutt óbragð í munninum, og hausinn fullan af grunsemdum um djúpstæð óheildindi þessara mótmælenda.

    Þetta þykir mér ómerkileg fréttamennska hjá RÚV.

    Aftur á móti þykja mér smáborgaramótmælin gegn Saving Iceland fyndin.

    Það er afskaplega táknrænt að smáborgararnir skuli mótmæla aktívistunum með því að setja upp undirskriftalista á netinu sem segir:

    „hættið ólöglegum eignaspjöllum, umferðartöfum og skerðingu ferðafrelsis.“

    Það eina sem fær dæmigerðar smáborgarasálir til að mótmæla einhverju, er það þegar hugmyndaríkt og hugrakkt fólk truflar ferðir þeirra í kringluna, eða miðbæjarrúntinn á borgarjeppanum.

    Rétt í þessu hafa safnast um 1100 undirskriftir, og aftur er það táknrænt að nöfnin á undirskriftalistanum eru hvergi aðgengileg, enda væri það ekki líkt hinum dæmigerða smáborgara að gera sig sýnilegan í neins konar mótmælaaðgerðum.

    Ég bíð í ofvæni eftir næsta undirskriftalista þar sem smáborgararnir mótmæla „ólöglegum eignaspjöllum, umferðartöfum og skerðingu ferðafrelsis“ á Hinsegin dögum og á Menningarnótt.

    Undirskriftunum á þessum lista er kannski best haldið leyndum, því þær yrðu eigendum sínum til opinberrar háðungar.

    P.S. Lesendum til fróðleiks, má það koma fram að ég hef nánast enga trú á þessum aðferðum sem Saving Iceland notar, og vil ekki taka neinn þátt í þeim. Hins vegar ég dáist í aðra röndina að atorku þeirra og dugnaði, og fyllist nettu ógeði á fasismanum sem bærir á sér í samfélaginu þegar þau fara á stjá.

    Sjá: Már Örlygsson

    http://mar.anomy.net/entry/2007/07/26/23.09.01/

  4. Nafnlaust skrifar:

    Það að liðið, sem heldur með umhverfisspjöllum og auknum ítökum alþjóðlegra auðvaldsfyrirtækja á Ísland, skuli kveinka sér eins og stungnir grísir undan Saving Iceland bendir eindregið til að aðgerðir samtakanna eru að virka. Og að þetta auðvaldsdindlalið skuli láta sig hafa, að efna til undirskriftasöfnunar gegn aðgerðum jafn ágætra samtaka og Saving Iceland er í senn kyndugt og stórhlægilegt, og jafnast á við að óska eftir því við góðann knattspyrnumann að hann láti sníða af sér a.m.k. annann fótinn svo hann skori ekki eins mikið af mörkum.

    Áfram félagar í Saving Iceland á sömu braut, þið virðist vera á réttri leið.

    Jóhannes Ragnarsson
    http://joiragnars.blog.is/blog/joiragnars/entry/270163/

  5. Nafnlaust skrifar:

    ….með þessa undirskriftasöfnun sína.

    Svo illa að þeir skömmuðust sín og fjarlægðu hana af vefnum.

    En þeim láðist að fjarlægja ensku útgáfuna þar til loks núna í október.
    Þar sást hvað þeir fengu margar undirskriftir í allt: „1181 have signed the petition“. Ekki var það nú beysin þátttaka, sérstaklega í ljósi þeirrar miklu auglýsingar sem þeir fengu í fjölmiðlum. Stóra frétt í Mogganum, enn stærri í Fréttablaðinu og langt viðtal í Ísland í dag þar sem spyrillinn tuggði sífellt upp slóðina þeirra. Samt staðnaði söfnunin strax á þriðja degi.

    S.M.

Náttúruvaktin