feb 21 2008

Þegar vorið vaknar

Ávarp Guðmundar Páls Ólafssonar rithöfundar á baráttufundi gegn virkjunum í Neðri-Þjórsá 17. febrúar 2008. Fundurinn var haldinn á vegum Sólar á Suðurlandi.

Þegar vorið vaknar við strendur Íslands flykkjast fuglar í varplönd og fiskar synda í torfum til varplanda í sjó þar sem þeir hrygna. Þannig hafa fuglar og fiskar vitjað hér vors frá ómunatíð. Vitneskjan er gömul; allir vita þetta – og samt …

Og samt eru aðeins örfá ár síðan rann upp fyrir mönnum að þorskurinn hrygnir framan við ósa jökulánna um allt land og er háður þeim. Sú jökulspræna er varla til sem ekki lokkar þorskinn til hrygningar og það veit hver þorskur þótt ekki sé talinn „skepna skýr“ að hann á samleið með jökulánum. Hann veit að við jökulár henta aðstæður hrygningu og klaki. Þannig eru jökulfljót einskonar skapanornir þorsksins. Þær búa honum aðstæður og örlög og munar þar einna mest um systur þrjár: Ölfusá, Þjórsá og Skeiðará.

Hvergi við Íslandsstrendur hefur hrygning þorsks verið jafn öflug og umfangsmikil og framan við ósa Þjórsár; hvergi er mikilvægara að fara að með gát en þar, því ögn utar er Selvogsbanki – langstærsti og dýrmætasti banki landsins. Þetta vitum við – og samt…

Og samt er eins og okkur sé ekki sjálfrátt. Fara að með gát? Einkennir varkárni og væntumþykja athafnir okkar?

Þegar vorið vaknar í sjónum bráðnar klaki og snjór á landi, lækir þrútna og ár og hlaupa. Vorflóðin eru næringarsturta sjávar og mynda ferskvatnshimu ofan á sjónum – og þar sem ferska lagið mætir því salta blómgast þörungalíf; og þá er líf í tuskunum. Þörungar og svidýr tímgast og þörungar eru æti svifdýra og svifdýrin æti þorskseiðanna og samspilið þarf að vera ein allsherjar harmonía á þeirri ögurstund sem seiðin leita ætis. Þetta stórfenglega og samofna lífkerfi lands og sjávar þar sem Þjórsá er lífæðin – var ekki ofið í gær, heldur hefur viska náttúrunnar tvinnað þetta samhengi – í Íslands milljón ár.

Stíflað jökulfljót missir mátt. Vorflóð minnka, stórfenglegar dægursveiflur og haustflóð hverfa – uppleyst steinefni og næringarefni sitja eftir í stíflum og lífhimnan sem ferskvatnið myndar veikist. Og þegar önnur eins Auðhumla og Þjórsá er margstífluð geldist hún. Líklegt er að risastíflurnar sem fyrir eru hafi þegar haft alvarleg áhrif á hrygningu þorsks og afkomu þjóðarinnar. Við vitum það ekki fyrir víst vegna andvaraleysis og doða við hafrannsóknir og stjórnun fiskveiða.

En þetta vitum við: Árið 1975 – fimm árum eftir gangsetningu Búrfellsvirkjunar hrundi þorskstofninn við Ísland. Vitnisburðurinn kom út í fyrstu Svörtu skýrslu Hafrannsóknastofnunar. Síðan hefur enn syrt í álinn – og á eftir að sortna.

Því miður.

Við vitum líka að hlaup í Skeiðará hafa haft afgerandi áhrif á hrygningu og klak þorsksins. Margir stærstu árgangar þorsks hafa orðið til eftir hlaup í Skeiðará.

Skyldi það – ef til vill – segja eitthvað?

Og svo vitum við að splunkuný Þriggja-gljúfra-stífla í Kína hefur nú þegar haft svo neikvæð áhrif á Austur-Kínahaf að sjávarlíffræðingar spá hruni vistkerfisins vegna þess að Þjórsárnar þeirra eru geldar.

Ábyrgur sjávarútvegsráðherra myndi taka fyrir allt fikt við virkjun Þjórsár og reyndar í öllum jökulám landsins og setja í gang öflugar kerfisrannsóknir í sjó til að meta langtímaáhrif jökulvatna á sjávarauðlindina. Það væri ábyrg pólitík. En ráðherrann á bágt. Kannski vill hann vel en hann fyllir hóp hörðustu stuðningsmanna virkjana og stóriðju eins og forsætisráðherra – eins og fjármálaráðherrann gjafmildi.

Þegar vorið vaknar leitar einn stærsti laxastofn Íslands upp Þjórsá. Lax er dásamleg auðlind. Hann er land- og vatnsgæði og það má aldrei vera ákvörðun einstaklinga eða stjórnar Landsvirkjunar, ekki sveitastjórna og ekki einu sinni ríkisstjórnar, að farga slíkri auðlind. Hún á að vera til staðar þegar hver einasti núlifandi Íslendingur er kominn yfir móðuna miklu – og mun lengur. Það er ábyrg pólitík.

Vitað er að margir laxastofnar, stórir og smáir, hafa orðið útdauðir við virkjun fallvatna. Þetta gildir um stofna í Evrópu, N-Ameríku og annars staðar í heiminum. Það telst ekki til vísinda að ætla sér að redda laxinum með seiðaveitum eða að búa til ný búsvæði fyrir laxinn fyrir þau sem tapast, heldur kallast það verkfræði-kukl. Stórfelld uppdæling á árbotninum og lífríki hans er afleitt veganesti fyrir laxinn og það sem Veiðmálastofnun gælir við í samkrulli við Landsvirkjun er miður traustvekjandi fyrir stofnunina og framtíðarhorfur laxins.

Æðsta regla þeirra sem annt er um laxveiðiár er að láta þær í friði. Verði hins vegar virkjað við Urriðafoss eru yfirgnæfandi líkur á því að einn stærsti laxastofn landsins hrynji og hverfi.

Ástæðan fyrir þessari vitfirrtu pólitík er meðal annars sú að okkur er talin trú um að við getum leyst orkumál heimsins með því að fórna jökulánum, auðhumlunum okkar örfáu, undir ósjálfbærar virkjanir svartar orku náttúruspjalla. Firringuna verður að skoða í ljósi þess að síðastliðin tvö ár hafa Kínverjar (einir og sér) sett í gang að jafnaði um þrjár Kárahnjúkavirkjanir á viku?

Eðlisfræðingurinn Albert Einstein sagði á góðri stundu: Tvennt er óendanlegt: alheimurinn og heimska mannsins, og ég er ekki alveg viss um alheiminn.

Á óttu rétt fyrir kosningadag 2007 gáfu þrír ráðherrar í ríkisstjórn Geirs Haarde Landsvirkjun vatnsréttindi þjóðarinnar í Þjórsá sem enginn þeirra átti né mátti gefa. Hvað gekk þeim til? Vildu þeir að hygla Landsvirkjun um vornótt og eyðileggja Þjórsá, eyða einum stærsta laxastofni landsins eða vildu þeir skaða mikilvægastu hrygningarstöðvar þorsksins? Því vil ég ekki trúa. Kannski vissu þeir ekki hvað hin gjafmilda hönd gerði. Þekking er best í hófi.

Nýverið skilgreindi Pétur skáld Gunnarsson íslensk stjórnmál sem tossapólitík. Hér hamast menn við að bralla á bak við tjöld til að koma sér undan ábyrgð. Svo óforskömmuð er röksemdafærslan að forstjóri Landsvirkjunar kallar þekkingu og varkárni tilfinningarök. Er það annars satt að unnt sé að hafa lónin aðeins 5% af því sem núverandi tossaverkfræði býður upp á?

Virkjanir í neðri hluta Þjórsár er hluti af draumsýn um fullvirkjun Þjórsár, ramm-sovésk allsherjaráætlun sem Sjálfstæðisflokkur hefur hvatt til öðrum fremur. Hönnunin er áþekk því sem var á teikniborðinu fyrir 50 árum og hugsunin sú sama. Til að koma þessu á kopp hefur öllum brögðum og óheilindum verið beitt. Og sýnir sig best núna þegar illa gengur að tjónka við þrjóska landeigendur og hugrakka heimamenn þá er Búðarhálsvirkjun aftur komin á dagskrá Landsvirkjunar – fyrirtækis sem kennir sig nú á alþjóðavettvangi við vald – eða á skollaensku Landsvirkjun Power.

Búðarhálsvirkjun er óútfyllt ávísun bæði fyrir vatnsforða Þjórsárvera og Skaftár um Langasjó. Hún var hönnuð og hugsuð þannig. Verði hún byggð þarf aðeins einn ófyrirleitinn iðnaðarráðherra í stóriðjuríkisstjórn til að heimila stíflur og vatnaflutninga.
Búðarhálsvirkjun er svar Landsvirkjunar-Valdsins við heitstrengingum ríkisstjórnarinnar um að friða Langasjó og Þjórsárver – og þetta er álit Valdsins á metnaðarfullu Fagra Íslandi Samfylkingarinnar – í hnotskurn.

Sagt er: Kommúnisminn brást vegna þess að hann tók ekki tillit til lýðræðis og kapítalisminn hefur brugðist vegna þess að hann tekur ekki tillit til náttúrunnar.

Engu skiptir hvaða stefnu stjórnmálaflokkur hefur virði hann ekki náttúruna því þá vanvirðir hann fólk og lýðræði. Hann er flokkur ofbeldis.

Enn bíðum við eftir vori í íslenskri pólitík.

Og þegar vorið vaknar í þeim ólgusjó mun almenningur og stjórnmálamenn átta sig á því að lýðræði er tækifæri en ekki böl – að umhverfismál eru vandasöm en líka uppspretta tækifæra – að náttúrufórnir eru ekki aðeins óþarfar heldur heimskar.

Við viljum varðveita þjóðararf í dýrmætri náttúru lítils lands en hvorki óheiðarlega þingmenn né þá tossapólitík að þekking sé best í hófi.

Náttúruvaktin