sep 24 2010

Komið að skuldadögum í Helguvík

Sigmundur Einarsson

Álbræðsla í Helguvík hefur verið töluvert til umræðu undanfarið vegna fyrirsjáanlegra tafa á afhendingu orkunnar. Skýringar hagsmunahópa eru allar á sama veg. Stjórnvöld bregða fæti fyrir atvinnuuppbyggingu! HS Orka fær ekki leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun! Seinagangur við afgreiðslu skipulagsáætlana! Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ lagður í pólitískt einelti! – O.s.frv.

Umfjöllun fjölmiðla er hefðbundin. Hvorki er vilji né geta til að fjalla um kjarna málsins og stjórnmálamenn óttast óvinsældir. Þeir eru hræddir um að verða kallaðir til ábyrgðar og þora ekki að viðurkenna að verkefnið hafi verið tálsýn frá upphafi.

Aðdragandinn

Þegar áform um dularfulla stálpípuverksmiðju í Helguvík gufuðu upp um miðjan þennan áratug var Norðuráli boðin þar aðstaða fyrir álbræðslu. Norðurál sló til og samdi um kaup á raforku. Skipulag og umhverfismat voru unnin fyrir álbræðslu, orkuver og háspennulínur. Svo kom kreppan og eyðilagði allt. Eða hvað?

Orkan til álbræðslunnar

Núverandi áform Norðuráls gera ráð fyrir að álbræðsla í Helguvík verði reist í fjórum jafnstórum áföngum sem hver framleiðir 90 þús. tonna á ári, alls 360 þús. tonn. Heildar orkuþörf er liðlega 600 MWe og þarf fyrsti áfanginn um 150 MWe. Árið 2007 var samið við Hitaveitu Suðurnesja (nú HS Orka) og Orkuveitu Reykjavíkur um afhendingu allt að 250 MWe rafafls í fyrsta áfanga álbræðslunnar fyrir árslok 2010. Jafnframt gáfu fyrirtækin vilyrði fyrir allt að 185 MWe til viðbótar, samtals 435 MWe, en ekki hafa verið gerðir frekari orkusamningar.

Brauðfætur Reykjanesvirkjunar

Samkvæmt umhverfismatsskýrslu vegna Helguvíkur frá árinu 2007 hyggst Hitaveita Suðurnesja tutla orku úr öllum háhitasvæðum á Reykjanesskaga vestan Kleifarvatns til að næra álbræðsluna. Í Reykjanesvirkjun eru nú framleidd 100 MWe. Áformað er að stækka virkjunina í 200 MWe fyrir fyrsta áfangann í Helguvík. Í matsskýrslu um stækkunina frá júní 2009 er ítarleg umsögn Orkustofnunar um áformin en þessi sama stofnun veitir hið endanlega virkjunarleyfi. Þar kemur skýrt fram á hvílíkum brauðfótum framkvæmdin stendur.

Í umsögninni segir að þrýstingslækkun í jarðhitakerfinu hafi á fyrstu þremur árum nýtingar orðið umtalsvert meiri en gert var ráð fyrir. Þetta telur Orkustofnun að eigi að hvetja til varúðar við frekari orkuvinnslu úr svæðinu. Þá segir að þegar horft sé til stærðar (flatarmáls) vinnslusvæðisins á Reykjanesi sé það fjarri því að standa undir fyrirhugaðri tvöföldun Reykjanesvirkjunar í 200 MWe til lengri tíma. Að auki bendir Orkustofnun á að nýtingin bjóði heim hættu á gufusprengingum og að kaldur jarðsjór gæti komist inn í jarðhitageyminn þar sem undirþrýstingur er mikill. Bent er á að virkar jarðskjálftasprungur á jarðhitasvæðinu hafi hreyfst a.m.k. fjórum sinnum á síðustu öld.

Umsögn Orkustofnunar sýnir að hugmyndir HS Orku um stækkun Reykjanesvirkjunar hafa frá upphafi verið óraunsæjar svo ekki sé meira sagt og skýrir þann vanda sem nú er uppi við afhendingu orkunnar til Helguvíkur. Reyndar segist HS Orka nú hafa nýjar upplýsingar um jarðhitasvæðið og nú er bara að bíða og sjá hvað sérfræðingar Orkustofnunar segja þegar þær berast.

Af einhverjum undarlegum ástæðum sá Skipulagsstofnun ekki ástæðu til að taka afstöðu til ofangreindrar umsagnar Orkustofnunar í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum vegna Reykjanesvirkjunar.

Vonbrigði á Hellisheiði

Í umhverfismatsskýrslu um Helguvík frá 2007 segir að árið 2010 muni tvær 45 MWe vélar bætast við Hellisheiðarvirkjun, tvær í Bitruvirkjun og tvær í Hverahlíðarvirkjun, samtals 270 MWe. Orkan muni m.a. fara til Helguvíkur. Eftir að ljóst varð að boranir Orkuveitunnar á Skarðsmýrarfjalli skiluðu ekki þeim árangri sem vonast var eftir hefur lítið frést af orkuvinnslu á Hellisheiði. Bitruvirkjun hefur verið slegin af í bili og Hverahlíðarvirkjun er strand í skuldafeni Orkuveitunnar. Raforku til Helguvíkur er því vart að vænta úr þessari átt á þessu ári og ekki heldur því næsta.

Engar háspennulínur

Til að koma raforkunni frá Hellisheiði til Helguvíkur þarf Landsnet að reisa háspennulínur. Ekkert bólar á línunum en gert er ráð fyrir að þær liggi þvert um verndarsvæði vatnsbóla höfuðborgarsvæðisins. Þetta hljómar líkt og Vatnsveita Reykjavíkur hafi týnst í Orkuveitunni. Hvort skyldi vera mikilvægara, neysluvatnið eða álbræðslan?

Ber einhver ábyrgð?

Fróðlegt verður að fylgjast með málinu næstu vikurnar. HS Orka fær líklegast ekkert virkjunarleyfi, engin er háspennulínan og engin orka frá Hellisheiði í sjónmáli. Nú er líklega rétti tíminn fyrir yfirvöld að rifja upp þær kröfur sem gerðar voru um sameiginlegt umhverfismat fyrir álbræðslu og tengdar framkvæmdir. Kröfur sem Skipulagsstofnun og umhverfisráðuneyti höfnuðu á sínum tíma.

Hætt er við að nú sé farið að hilla undir dánarvottorð álbræðslunnar í Helguvík og komið að skuldadögum. En ber einhver ábyrgð? Og gagnvart hverjum? Hvað um allar framkvæmdirnar á kostnað Reykjanesbæjar og Helguvíkurhafnar? Hvað um orkufyrirtæki sem lofuðu upp í ermina á sér?Auðvitað verður kreppu og fjárskorti kennt um. En ábyrgðin liggur fyrst og síðast í óábyrgum loforðum um orkusölu ásamt óraunsæjum væntingum stjórnvalda um orku úr iðrum jarðar.

Grein þessi birtist á vefsíðunni natturan.is

Náttúruvaktin