apr 19 2011

Glæpaferill Rio Tinto Alcan

Róstur.org

Nýlega vöktu ummæli leikarans Benedikts Erlingssonar mikla athygli, þar sem hann sagði í viðtali við morgunútvarp Rásar 2: „[Rio Tinto Alcan] er einn mesti umhverfisspillirinn, og ég held að þeir hafi verið dæmdir fyrir morð á heilu þorpi einhvers staðar í Indónesíu“. Ekki minni athygli vöktu þó orð upplýsingafulltrúa Rio Tinto Alcan hér á landi, en hann sagði í samtali við DV að fyrirtækið hefði aldrei verið dæmt fyrir morð, aðeins mannréttindabrot. „Ég geri ekkert lítið úr því að fyrirtækið hafi gengist við því að hafa staðið að brotum á þessu svæði á árunum 1985 til 1995. Það er auðvitað alvarlegt mál og við þykjumst ekki vera fullkomin í þeim efnum,“ sagði Ólafur Teitur Guðnason í samtali við DV. Hér á eftir verður fjallað nánar um þessar ásakanir á hendur fyrirtækinu.

Indónesískar námur fyrirtækisins og náin tengsl við Suharto

Eins og Benedikt lét í ljós í viðtalinu í morgunútvarpinu tók norski olíusjóðurinn þá ákvörðun árið 2008 að selja hlutabréf sín í Rio Tinto. Olíusjóðurinn tók þessa ákvörðun í kjölfar umsagnar siðanefndar og að sögn sjóðsins vegna „hættu á að stuðla að alvarlegum umhverfisskemmdum” vegna eignarhalds Rio Tinto á hinni umdeildu Grasberg gull- og koparnámu á Vestur-Papúa.

Vestur Papúa heyrir undir Indónesíu en um er að ræða vestari helming eyjunnar Nýju-Gíneu. Vestur Papúa var undir stjórn Hollendinga á nýlendutímanum en Indónesía réðst inn á svæðið 1961 og tók yfir það. Vestur Papúar hafa barist fyrir sjálfstæði undan Indónesíu frá árinu 1971.

Að sögn indónesísku umhverfissamtakanna WALHI hefur yfir milljarði tonna af úrgangi verið hent frá námunni í árnar í nágrenninu, sem hefur valdið því að koparmagn í ferskvatni í nágrenninu er tvöfalt það magn sem leyfilegt er í landinu. Áætlað er að 230 þúsund tonn af árgangi fari daglega frá námunni út í Akywa ána, sem var áður uppspretta vatns og fæðu fyrir íbúa svæðisins.

Grasberg náman er stærsta gullnáma heims og er rekin af Rio Tinto í samvinnu við bandaríska fyrirtækið Freeport-McMoRan. Norski olíusjóðurinn hefur einnig selt hlutabréf sín í Freeport vegna námunnar. Náman var þegar orðin umdeild þegar Rio Tinto keypti hluta í henni en upphaflega átti fyrirtækið einungis lítinn eignarhlut. Til að fjármagna frekari framkvæmdir lagði það til auknar fjárhæðir og á nú 40% hlut. Indónesíska ríkið hefur einnig hagsmuna að gæta en það á 9% hlut.

Alvarleg mannréttindabrot hafa verið framin á íbúum svæðisins í kring um námuna en bæði Rio Tinto og Freeport-McMoran hafa verið sökuð um að hafa stutt þau brot beint og óbeint. Samkvæmt mannréttindavakt Indónesíu voru indónesískar öryggissveitir ábyrgar fyrir morðum, pyntingum og hvarfi heimamanna á meðan þær stunduðu öryggisvörslu fyrir námufyrirtækin.

Grasberg náman á Vestur-Papúa. (Mynd: Nasa)

Grasberg náman á Vestur-Papúa. (Mynd: Nasa)

Mótmæli gegn námunni

Íbúar á svæðinu hafa frá upphafi verið mótfallnir námunni og árið 1977 sprengdi hópur fólks, sem tengdur var Frelsishreyfingu Papúa, upp eina af leiðslum fyrirtækisins. Í hefndarskyni sendi indónesísk stjórnvöld herflugvélar á svæðið til að sprengja upp þorp (í aðgerð sem nefndist „útrýming“). Talið er að þúsundir manna hafi látið lífið en opinber tala látinna er 900 manns.

Tæpum tuttugu árum síðar urðu aftur mótmæli gegn námunni þar sem einhverjar skemmdir urðu á tækjum. Samkvæmt áströlskum hjálparsamtökum og kaþólsku kirkjunni á svæðinu gerðu námufyrirtækin ekkert í því þegar indónesíski herinn barði og pyntaði þorpsbúa, og drap fjóra þeirra. Þess í stað eyddi Freeport háum upphæðum til hernaðaruppbyggingar indónesískra stjórnvalda, undir forystu einræðisherrans og harðstjórans General Suharto, og byggði meðal annars aðstöðu fyrir 6.000 hermenn á svæðinu. Samkvæmt New York Times létu Freeport-McMoRan af hendi 20 milljónir dala til indónesíska hersins og lögregluforingja á svæðinu. Einstakir herforingjar fengu upp í hendurnar tugi þúsunda dala. Þrátt fyrir að halda því fram í viðtali við New York Times að um eðlilegar greiðslur fyrir öryggisvörslu hafi verið að ræða, hafði fyrirtækið ekki gefið þessar upplýsingar upp á hluthafafundum fyrirtækisins fyrr en eftir að dagblaðið fékk gögn um þetta í hendurnar.

Í skýrslu War on Want frá 2007 kemur fram að Rio Tinto hafi lítið svarað gagnrýni sem beinst hefur gegn námufyrirtækjunum, og vísar gjarnan á Freeport Mc-MoRan. Í skýrslunni kemur þó fram að þrátt fyrir að fyrirtækin þykist aðskilin voru þau með sama framkvæmdarstjóra á árunum 2000-2004.

Dr. Aloysius Renawarin, formanns Mannréttindastofnunar Vestur Papúa lýsir ástandinu á þennan veg: „Þegar samfélagið mótmælir þurfa þau alltaf að mæta öryggissveitum (hernum og lögreglu) sem er borgað til að vernda fyrirtækið, en brot á mannréttindum fylgja oft í kjölfarið. Fátt bendir til að þessum mannréttindabrotum á námusvæðunum hafi fækkað frá því fyrirtækið kom fyrst á svæðið og til dagsins í dag.“

Dayak fólk í Kalimantan hefur barist gegn námu Rio Tinto. (Mynd: Jajay)

 

Fyrirtækið hefur einnig verið ásakað um að hafa tekið þátt í, og stutt mannréttindabrot í annarri indónesískri námu, Kelian gullnámunni í Austur Kalimantan. Rio Tinto átti 90% hlut í þeirri námu, en henni var lokað árið 2005.

Þúsundir íbúa á svæðinu horfðu upp á heimili sín eyðilögð við upphaf námugraftarins, sem hófst upp úr 1980 og í það minnsta nokkur hundruð manns voru neydd með vopnavaldi til að yfirgefa heimili sín og ræktarlönd.

Samkvæmt Mannréttindanefnd Indónesíu gerðust starfsmenn námunnar sekir um að nauðganir og kynferðislega áreitni gegn heimamönnum. Ennfremur segir nefndin að þeir sem mótmæltu námunni og framferði fyrirtækisins hafi verið handteknir og fangelsaðir, og þeim ógnað af lögreglunni á svæðinu. Heimamenn sökuðu einnig öryggisverði námunnar um að hafa oftar en einu sinni skotið á þá.

Mengun frá námunni olli því að heimamenn misstu helstu uppsprettu drykkjarvatns síns og þjáðust af útbrotum og augnsýkingum eftir að hafa baðað sig í Kelian ánni. Fiskur sem gekk í ána hvarf nánast alveg en með því misstu heimamenn sína helstu uppsprettu próteins.

Málaferli við fyrirtækið hafa staðið í tíu ár

Frá árinu 2000 hafa íbúar eyjarinnar Bouganville staðið í málaferlum við fyrirtækið fyrir bandarískum dómstólum. Fyrirtækið er sakað um glæpi gegn mannkyni, stríðsglæpi og kynþáttamisrétti, ásamt ríkisstjórn Papúa Nýju Gíneu. Brotin áttu sér stað í kjölfar reksturs Rio Tinto á Panguna kopar og gullnámunni en hún lokaði árið 1989.

Nú síðast í september reyndi Rio Tinto enn á ný að fá málinu vísað frá en um prófmál er að ræða þar sem brotin áttu utan Bandaríkjanna. Samkvæmt Reuters fréttastofunni var tekin ákvörðun í september um að reyna að fá báða aðila til að semja um sátt, en ekki voru allir dómarar á eitt sáttir um hvort hægt séð að fara sáttaleiðina fyrr en skorið hefur verið úr um hvort málið á heima fyrir bandarískum rétti. Fyrirtækið byggir frávísunarkröfu sína á því að málið eigi heima fyrir dómstólum í Papúa Nýju Gíneu, en svo virðist sem heimamenn á Bouganville treysti ekki þarlendum dómstólum, enda er málið háð gegn yfirvöldum Papúa Nýju Gíneu. Ríkisstjórn Papúa Nýju Gíneu, rétt eins og ríkisstjórn Indónesíu, hefur ítrekað tekið afstöðu með stórfyrirtækjunum og gegn eigin þegnum. Samkvæmt frétt ABC fréttastofunnar í Ástralíu reyndi ríkisstjórn Papua Nýju Gíneu að koma í veg fyrir að lögsóknin ætti sér stað. Ástralir eru ekki ókunnugir fyrirtækinu þar sem dótturfélag Rio Tinto átti og rak báxítnámu á landi frumbyggja í Weipa í Ástralíu. Þar voru tvö samfélög ástralskra frumbyggja hrakin á brott til að rýma fyrir námunni.

Ásakanir á hendur fyrirtækinu fela í sér að á meðan byggingu Panguna námunnar á Bouganville stóð hafi Rio Tinto eyðilagt lifibrauð íbúa á svæðinu með því að ryðja burt regnskóginum sem var undirstaða lífsafkomu þeirra. Á meðan náman var starfrækt var milljörðum tonna af menguðum úrgangi hent á ósnortnu landi og áður ómenguðu vatni. Mengunin er talin hafa verið svo slæm að íbúar eyjunnar hafi látist af hennar sökum en fjölmargir hafa átt við heilsufarsvandamál að stríða.

Óánægja heimamanna með námuna varð á endanum svo mikil að þeir risu upp gegn fyrirtækinu, sem í kjölfarið neyddist til að loka námunni. Stjórnvöld tóku þá til bragðs að senda inn herlið til að opna hana á ný en Rio Tinto er sakað um að hafa aðstoðað herliðið með styrkjum og útbúnaði. Í kjölfarið var svæðið hersetið í nærri tíu ár til að reyna að fá námuna opnaða á ný. Hersetan kom í veg fyrir að lyf og aðrar nauðsynjavörur kæmust til eyjunnar. Samkvæmt Rauða krossinum dóu um 2.000 börn á fyrstu tveimur árum hersetunnar en talið er að hún hafi í heild valdið dauða á milli 5.000 og 15.000 manna, um 10% íbúa eyjarinnar.

Yfirborðsnámuvinnsla í Weipa, Ástralíu. Fyrst er efsta lagi jarðvegarins rutt í burtu. (Mynd: Mick Morris).

 

Umhverfisspjöll í Afríku

Á austurhluta Madagaskar starfrækir dótturfélag Rio Tinto, QIT Fer et Titane, námu þar sem títanjárn er unnið úr málmsandi. Títanjárn er efnasamband járns, súrefnis og títans, og er fyrst og fremst notað til að vinna úr því títandíoxíð en það er notað í margar gerðir málningar, pappírs og plasts.

Þegar náman hóf göngu sína neyddust þúsundir heimamanna til að yfirgefa landsvæði sín, með tilheyrandi missi matvæla, eldsneytis og lyfjaplantna sem þeir höfðu fengið úr regnskóginum. Náman er staðsett á svæði sem hafði að geyma síðasta ósnortna strandsvæðisskóg eyjarinnar, og þar sem sú tegund af skógi er einstök á eynni er hætta á að stofnar villtra dýra og plantna muni minnka mjög, og geti jafnvel horfið alveg.

Að auki saka heimamenn Rio Tinto um að hafa ekki skapað þeim nein störf að ráði, en þess í stað hafi flutt á svæðið mikill fjöldi verkamanna annars staðar frá, sem valdið hafi þenslu og hækkuðu húsnæðisverði.

Í Kamerún er Rio Tinto Alcan að vinna að byggingu Lom-Pangar stíflunnar sem mun hrekja 28 þúsund manns frá heimilum sínum, auk þess að drekkja 30 þúsund hektörum af regnskógi og ógna lífríki á svæðinu. Að sögn Alþjóðabankans mun virkjunin hafa gríðarleg heilsufarsleg áhrif á íbúa svæðisins og valda aukinni dreifingu malaríu og annarra sjúkdóma. Landbúnaður, fiskveiðar og ferðamannaiðnaður á svæðinu verður einnig fyrir miklum neikvæðum áhrifum. Virkjunina á að reisa til að framleiða rafmagn fyrir álver sem rekið verður af Rio Tinto Alcan en líkt og hér á landi fær álverið orkuna á mun lægra verði en íbúar svæðisins.

Rio Tinto á meirihluta í Rössing námunni í Namibíu sem er stærsta opna úraníum náma heimsins. Upphaflega fékk fyrirtækið leyfi til að starfrækja námuna frá apartheid stjórninni í Suður-Afríku, sem hafði þá tekið yfir Namibíu. Sameinuðu þjóðirnar álitu yfirtöku aparheid stjórnarinnar ólöglega og lögðust gegn veitingu námuleyfisins, og það sama á við um alþjóða mannréttindadómstólinn. Allt frá upphafi hefur fyrirtækið verið gagnrýnt fyrir meðferð sína á svörtum starfsmönnum, sem á áttunda áratugnum voru sagðir vinna nánast þrælavinnu í námunni. Allt fram til aldamóta bárust fréttir af því að fyrirtækið borgaði svörtum starfsmönnum sínum mun lægri laun en hvítum námuverkamönnum.

Fyrirtækið er einnig sakað um að halda úti einkaher til þess að brjóta á bak aftur mótmæli gegn námunni og baráttu námuverkamanna. Þær hersveitir eru taldar hafa drepið óbreytta borgara, í samvinnu við her landsins.

Mannréttindabrot í nærri öld?

Allt frá upphafi reksturs fyrirtækisins hefur nafn þess verið tengt við mannréttindabrot og það gagnrýnt fyrir náin samskipti þess við einræðisherra og harðstjórnir víða um heim. Strax Á fjórða áratugnum á Spáni voru verkamenn sem gagnrýndu vinnuaðstöðu í námum Rio Tinto, drepnir af hermönnum Francos. Á aðalfundi fyrirtækisins árið 1937 lýsti Auckland Geddes því yfir að frá því Franco hafi tekið yfir „hafa ekki verið nein vandamál með verkamenn … „námumenn sem hafa verið sakaðir um að vera til vandræða eru dæmdir af herdómstól og skotnir“

Árið 2000 gerðist Rio Tinto aðili að Samfélagssáttmála Sameinuðu þjóðanna (Global Compact), en það er samningur þar sem fyrirtæki gangast undir að vernda umhverfið og virða mannréttindi. Ekkert eftirlit er með því af hálfu SÞ hvort samningnum sé fylgt eftir og því kemur það í hlut óháðra samtaka á borð við CorpWatch að hafa eftirlit með því. Samkvæmt CorpWatch hefur Rio Tinto gerst sekt um að brjóta fyrstu og áttundu grundvallarreglu sáttmálans sem fela í sér að fyrirtæki eigi að „styðja og virða verndun alþjóðlegra mannréttinda innan þeirra áhrifasviðs“ og „taka frumkvæði í að stuðla að aukinni ábyrgð á verndun umhverfisins“.

Rio Tinto sameinast Alcan

Árið 2007 runnu Alcan og Rio Tinto saman og mynduðu Rio Tinto Alcan sem er nú stærsti álframleiðandi heimsins. Þá voru hlutabréf Alcan í lágmarki, enda hafði fyrirtækið nýlega dregið sig út úr báxítvinnslu í Kashipur í Orissa héraði á Indlandi, eftir að hafa orðið fyrir gríðarlegri gagnrýni vegna mannréttindabrota og fjöldamorða á innfæddum íbúum svæðisins. Brotin áttu sér stað yfir 13 ára tímabil þar sem yfirvöld héraðsins reyndu að koma fólki af svæðinu til að hægt væri að hefja báxítvinnslu. Flestir neituðu að yfirgefa svæðið, eftir að hafa séð nágranna sína yfirgefa landsvæði sín fyrir aðrar báxítnámur og enda uppi í sárri fátækt í kjölfarið. Lögreglan á svæðinu neyddi íbúana til að yfirgefa svæðið með árásum með kylfum, táragasi, fangelsun, pyntingum og drápum á heimamönnum.

Ung stúlka í Orissa á Indlandi þar sem innfæddir hafa barist gegn Alcan

 

Um var að ræða báxítvinnsluna Utkal Alumina Industries Ltd sem reka átti í samvinnu af Hindalco og Alcan. Utkal myndi hafa framleitt einn fimmta af því báxíti sem Alcan þarf á að halda, miðað við framleiðslu þess árið 2006. Verkefnið tafðist um þrettán ár vegna mótmæla heimamanna og 147 fjölskylda sem neituðu að yfirgefa heimili sín til að verkefnið næði fram að ganga.

Samkvæmt skýrslu sem unnin var af Robert Goodland, fyrrum sérfræðings Alþjóðabankans, áttu sér stað gróf mannréttindabrot á heimamönnum í tengslum við mótmæli gegn námunni. Strax í janúar árið 1998 reyndu heimamenn að loka af námusvæðið sem byrjað var að reisa á landi sem þau höfðu ekki selt en árás lögreglu á mótmælendur leiddi til þess að 12 konur og 34 karlar meiddust. Í október sama ár leiddi könnun í ljós að 96% heimamanna voru mótfallnir námunni. Í desember 1999 myrti lögreglan á svæðinu ellefu þorpsbúa í þorpinu Gajapati sem höfðu neitað að yfirgefa heimili sín. Í kjölfarið gaf Norsk Hydro út yfirlýsingu um að fyrirtækið myndi draga sig út úr verkefninu árið 2003.

Í desember árið 2000 komu nokkrir háttsettir embættismenn á svæðinu í þorpið Maikanch ásamt þremur lögreglusveitum. Þar sem frést hafði að þeir væru á leiðinni flúðu allir karlmenn þorpsins upp í hlíðarnar umhverfis það, aðeins konur og börn urðu eftir. Þegar fregnir bárust af því að lögreglan hefði rifið fötin utan af konunum og misþyrmt þeim sneru karlmennirnir aftur til þorpsins. Þar mætti þeim skothríð lögreglu sem drap þrjá menn. Ekki er vitað hve margir særðust.

Stuttu eftir árásina fóru fyrrum forseti hæstaréttar Kalkútta, Debi Singh Tewatia, ásamt aktívistanum Swami Agnivesh til Maikanch til að rannsaka hvað hefði átt sér stað. Í skýrslu þeirra kemur fram að aðgerðir lögreglu væru „fyrirfram ákveðið morð af ásettu ráði“. Þeir tengja árásina einnig við Utkal álverkefnið. Í niðurlagi dómarans kemur fram að „öll stjórnsýsla ríkisins, lögreglan sér í lagi, virðist hafa unnið að beiðni valdamikilla álfyrirtækja, fremur en samkvæmt lögum og reglu“.

Í október 2001 voru fimm manns drepin af lögreglu eftir að hafa mótmælt því að þurfa að yfirgefa land sitt. Tveimur árum síðar var flutt frétt í The Economic Times of India að Norsk Hydro hafi selt allan hlut sinn í Utkal verkefninu, 35% af eignarhaldi Norsk Hydro var selt til Indal sem er í eigu Hindalco, en 10% til Alcan sem hafði þá aukið hlut sinn í Utkal verkefninu upp í 45%.

Árið 2004 flutti IndiaResource.org fréttir af því að 400 manns, mestmegnis konur, hefðu orðið fyrir árás lögreglu eftir að hafa mótmælt vígslu vegar sem lagður hafði verið fyrir báxítnámu í eigu Alcan. Fréttir bárust af því að 16 manns hefðu hlotið alvarleg meiðsl af hálfu lögreglu og þrjár konur voru barðar þar til þær misstu meðvitund. Eftir atvikið var þorp þeirra umsetið og aktívistar úr röðum innfæddra voru endurtekið handteknir og fangelsaðir án ákæru.

Í skýrslu á vegum Samtaka fólks fyrir lýðræðisréttindum (PUDR) frá 2005 kom fram að lögreglan hagi sér eins og einkaher fyrir álfyrirtækin. Þeir hafi aðsetur á svæði Utkal og fyrirtækið borgi fyrir fæðu þeirra og uppihald.

Í kjölfar þessara atburða var sett af stað mikil herferð gegn Alcan í heimalandi þess, Kanada, þar sem þrýstingur var lagður á fyrirtækið að draga sig út úr Utkal verkefninu. Í apríl 2005 tóku verkamenn í Alcan álbræðslum í Kanada til þess bragðs að neita að bræða ál frá Kashipur héraði á Indlandi. Loks í apríl 2007 lýsti fyrirtækið því yfir að það hygðist selja hlut sinn í Utkal verkefninu.

Hindalco tók yfir hluta Alcan í Utkal verkefninu og hefur nýlega sent út tilkynningu þar sem búist er við að verkefninu ljúki í júlí 2011. Ekki hefur náðst sátt við íbúa svæðisins en um helmingur íbúa hefur þegið skaðabætur fyrir landmissi, eftir 18 ára baráttu við álfyrirtækin. Talsmaður fyrirtækisins reyndi að réttlæta landtökuna með því að segja að skaðabæturnar hafi verið hækkaðar um sem samsvarar 100 þúsund krónur á hektara.

Alcan't
Mótmæli gegn Alcan í Kanada (mynd: druojajay)

 

Greinin vart birt fyrst á RÓSTUR.ORG 9. mars 2001

Frekari lesning:

Saving Iceland stöðvar umferð að álveri Rio Tinto-Alcan í Hafnarfirði

Frétt DV

Skýrsla Goodland

London Mining Network

Skýrsla War on Want

Corpwatch

Survival International

Umfjöllun prófessors Bruce Johansen

Business and Human Rights Resource Center

Mines and Communities

Náttúruvaktin