jún 28 2011

Opið bréf til iðnaðarráðherra

Guðmundur Páll Ólafsson

Ágæta Katrín

Gamansemi er mér síst í huga þegar ég sest niður til að senda þér nokkar línur er varða Rammaáætlun, stefnu í orkunýtingu og nýjustu útgáfu þína af skipan nefndar sem má ekki kalla nefnd – þar sem fulltrúum náttúruverndarfélaga á Íslandi hefur verið úthýst. Í útvarpsfréttum 24. júní sagðir þú náttúruverndina „misskilja“ málið og gafst skýringar sem duga lítt til að draga úr áhyggjum um alvarlega aðför að íslenskri náttúru hvað þá til að efla traust á stjónvöldum og stjórnmálamönnum.

Til þessa hefur fátt bent til þess – annað en barátta og vilji Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra – að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar um að náttúruvernd skuli hafin til vegs og virðingar á Íslandi verði annað en fagurgali. Ef Rammaáætlun undir þinni stjórn fer eins hörmulega og margt bendir til verður virkjunarkostum forgangsraðað af lögfræðingum eftir ósk orkugeirans og athafnafíklanna sem enn leika lausum þrátt fyrir Hellisheiðar- og Kárahnjúkavirkjun en verndun dýrmætra svæða sniðgengin. Finnst þér virkilega að síðasti skollaleikur í iðnaðarráðuneytinu bendi til þess að vegur náttúruverndar hafi aukist?

Um allan heim eru orkumál, iðnaður og verksmiðjulandbúnaður með skuggalegustu athöfnum sem ríkisstjórnir og ráðamenn taka þátt í. Hvers vegna ætti það að vera öðruvísi hjá okkur? Þessa dagana eru Brasilíumenn að murka lífið úr mótmælendum í Amazonia sem dirfast að andmæla eyðingu regnskógarins og stíflum í Amazonfljóti. Þegar hafa þúsundir verið drepnar og heilu samfélögin verið hrakin af fornum lendum sínum þar sem sjálfbærni hefur einkennt athafnir þeirra frá aldaöðli. Þriggja-gljúfra-stífla í Kína sökkti mörgum borgum, yfir hundrað bæjum, ótal þorpum og hrakti 1,3 milljónir manna að heiman með fagurgala um betra húsnæði, garðnæði og velferð. Allt var það meira og minna svikið. Terhi-stífla í Garwahlhæðum á Indlandi sökkti frjósamasta landi fjallabænda og rak yfir hundrað þúsund bændur slyppa og snauða á vergang. En áróðurinn var sá að þeir sem væru á móti virkjunum væru á móti framförum og betra lífi. Kannast einhver við gömlu klisjuna um að hverfa aftur til torfkofanna ef ekki verður virkjað um allt land?

Með nýrri Rammaáætlun óttast ég að lokasókn iðnaðarráðuneytis og orkugeirans sé nú hafin um síðustu villtu gæði landsins til að þjóna náttúru- og mannfjandsamlegri hagspeki sem kenna má við iðnaðarkapítalisma og að hún verði notuð til að halda áfram bakstri Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar á stærri þjóðarköku sem reyndist mesta óhæfuverk á náttúru- og menningarminjum þjóðarinnar í allri sögu landsins. Reyndar var mestöll Samfylkingin undir leiðsögn sinna forystumanna samsek, því miður.

Niðurstaða Rammaáætlunar undir stjórn Svanfríðar Jónasdóttur er afar sérkennileg, svo ekki sé meira sagt þar sem náttúruverndarvinna faghóps I sem fjallaði um náttúru og menningarminjar var að flestu leyti lofsamleg en tímaramminn allt of knappur. Svipað má segja um faghóp II sem hélt utan um ferðaþjónustu, útivist og hlunnindi. Aðferðafræði þessara faghópa var til fyrirmyndar. Verri og vafasamari er sá hluti er snýr að hagfræði-úttektinni og verður að efast um hæfni og trúverðugleika þeirra sem hafa sett fram formúlu um hagræn áhrif framkvæmda en samkvæmt henni má meta áhrif virkjana með því að margfalda saman gígavattstundir á ári og íbúafjölda: deila í með 1,3 sinnum fjarlægð (ýmist frá Akureyri eða Reykjavík) sinnum 3. Mér er til efs að unnt sé að hnoða saman meira bulli og óheiðarleika í eina „félagsfræðiformúlu“. Gígavattstundir x íbúafjöldi er ekki gullinsnið í hagfræði fremur en þyngdarlögmálið jafnvel þótt deilt sé í með fjarlægð frá Reykjavík. Ég er satt að segja ákaflega undrandi að sú ágæta kona Svanfríður Jónasdóttir skuli hafa glapist til að láta þessa bullformúlu koma fram og taka hana alvarlega í stað þess að skoða fjárhagslegt mikilvægi útivistar og ferðaþjónustu fyrir einstakar byggðir og svæði – með og án virkjana – svona til þess að gera eitthvað sem gæti nýst.

Annað sem dregur úr vægi orða þinna um „misskilning“ er framganga undirmanns þíns, Guðna A. Jóhannessonar orkumálastjóra, þegar Orkustofnun veitti Sunnlenskri orku rannsóknarleyfi í Grændal. Varla hefur Orkustofnun á ábyrgð Guðna gert slíkt upp á sitt eindæmi, er það?

Til hvers er fólk að leggja sig fram, vanda sig við náttúrufarslegar úttektir, vega og meta gæði lands, skoða verðmæti landslags af mikilli natni ef embættismaður getur síðan vaðið yfir alla og heimilað orkufélagi rannsóknir á svæði sem lagt hefur til af fagráði að eigi skilyrðislaust að vernda? Hafir þú sem iðnaðarráðherra verið ósammála Orkustofnun þá áttir þú að krefjast þess að Guðni sæi til þess að ákvörðunin yrði tekin til baka samstundis þótt það þýddi í raun að hann fengi lausn frá störfum til langframa.

Þessi afleitu vinnubrögð eru okkur ekki framandi. Fyrrverandi orkumálastjóri og fyrrverandi forstjóri Landsvirkjunar léku sína einleiki en margir vonuðust til þegar félagsleg ríkisstjórn tæki við og réði nýja menn að hún markaði metnaðarfull siðferðisleg markmið til að vinna eftir. Við höfum fengið bæði nýjan orkumálastjóra og forstjóra Landsvirkjunar, ný andlit en aðeins nýja fagurgala og leikfléttur. Annars vegar hefur Orkustofnun undir stjórn Guðna veitt rannsóknaleyfi út og suður „upp á eigin spýtur“ í hrópandi ósamræmi við umræðuna og hins vegar hefur forstjóri Landsvirkjunar lýst því yfir að hann vilji tvöfalda orkuframleiðsluna á næstu 15 árum eða svo – í sátt við landsmenn og ríkisstjórn!

Í raun hefur ekkert breyst í iðnaðarráðuneyti frá því fyrir hrun, Katrín, annað en að ósvífnin er meiri en áður. Meira að segja er sama þreytta orðræðan um eilífan „misskilning“ notuð. Áætlanir ofangreindra embættismanna gefa aðeins til kynna að það á að nýta Rammaáætlun til að virkja en ekki vernda. Ef tvöfalda á raforkuframleiðslu landsins verður að virkja í öllum þjóðminjasöfnum íslenskrar náttúru – að skaðlausu að sjálfsögðu – en að skaðlausu fyrir hvern og sátt við hverja? Stóriðjuna? Orkufyrirtækin? Verktakana? Jarðýtueigendur?

Getur verið að íslenska þjóðin sé heimskur og óuppdreginn lýður?

Forsenda þess að hægt sé að taka forstjóra Landsvirkjunar alvarlega um að stofnunin vilji vinna í sátt við landsmenn er að Landsvirkjun gefi eftir virkjun í Þjórsárverum þ.e. Norðlingaölduveitu og það án átaka og undanbragðalaust. Þetta er svo sjálfsagt mál vegna þess að í því felst mesti þjóðarhagurinn til langframa, vilji landsmanna og það myndi styrkja sjálfsmynd þjóðar og efla virðingu fyrir stjórnmálum, sem ekki er vanþörf á. Inn í Þjórsárverafriðland ætti að innlima Kerlingarfjöll í heilu lagi.

Um Þjórsárver hefur verið barátta í hálfa öld og mál að linni. Þar er hjarta landsins og þessi öræfadýrð á erindi á heimsminjaskrá UNESCO. Í slíkum athöfnum liggur þinn sómi.

Þótt deila stæði einvörðungu um Þjórsárver og Norðlingaölduveitu þá myndi hún vekja enn og aftur upp stórkostleg átök og harðari aðgerðir gegn virkjunum og stjórnmálamönnum en áður hafa þekkst. Ekkert bendir hins vegar til þess að Þjórsárver verði einangrað deilumál og sá grunur læðist að manni að síðasti leikur þinn um 7 manna „nefndina“ – sem ekki má kalla nefnd – til að flokka verndar- og/eða virkjanakosti hafi í raun verið leikinn að setja allt í uppnám svo að hægt verði í kjölfarið að þvinga fram niðurstöðu sem orkugeirinn og orkufyrirtækin vilja. Slík þvingunarpólitík í lýðfrjálsu landi er óþolandi og ég er virkilega hugsi yfir því hver gefi þér svo galin ráð.

Vilji ríkisstjórn sú sem þú átt sæti í auka veg náttúruverndar á Íslandi og verja hagsmuni lífsins og kynslóða Íslendinga þá setur þú bremsu á Rammaáætlun og tekur mark á faghópi I sem fjallaði um náttúru og menningarminjar. Niðustaða hans er án efa vandaðasta innleggið í Rammaáætlun og framtíðarstefnu um nýtingu lands og gæti varðað leið til framtíðar. Mat hans á og má ekki rýra með ófaglegum kröfum og heimtufrekju, hvað þá formúlusmíðum sem eru ekki fólki boðlegar.

Ég velti því fyrir mér hvers vegna iðnaðarráðherrar í ríkisstjórn Íslands hafa reynst nær undantekningarlaust náttúrufjandsamlegir, jafnvel svo að jaðrar við ímugust á náttúruvernd. Það er álíka gáfulegt og að hafa andstyggð á menningu, heilbrigðismálum og komandi kynslóðum. Engu er líkara en að í starfslýsingunni sé áskilið virðingarleysi fyrir hjartslætti lífsins sem aðeins er varðveitt í óspilltri og villtri náttúru. Iðnaðarráðherra okkar til margra ára hefur einfaldlega skort auðmýkt til að skilja að Ísland er ekki og verður ekki stórveldi í orkumálum, heldur dvergþjóð í litlu, gjöfulu en afar takmörkuðu landi sem hægt er að manngera og eyðileggja á örfáum árum. Og þeir hafa nær allir stutt hagfræði iðnaðarkapítalismans.

Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra. Ég hvet þig til að brjóta blað í sögu iðnaðarráðherra og iðnaðarráðuneytis og byggja betur á niðurstöðu faghóps I um úttekt á náttúru og menningarminjum, draga skilyrðislaust til baka ákvörðun Orkustofnunar og orkumálastjóra um rannsóknaleyfi í Grændal, bjóða forstjóra Landsvirkjunar að marka nýja stefnu í orkunýtingu þar sem sjálfbærni og náttúruvernd ráða för; taka í hönd umhverfisráðherra og afstýra átökum og náttúruslysum með því að vernda Þjórsárver og Kerlingarfjöll, Torfajökulssvæðið allt, allt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum, Markarfljót, Skaftá, Langasjó, Tungnaá, Þjórsá, vatnasvið Austari og Vestari Jökulsár og að ógleymdu Gjástykki til eilífrar verndar fyrir íslenska þjóð. Þá fyrst er hægt að ræða um hvernig við viljum lifa í þessu landi af miklum samhug. Við verðum að fá nýja von og sýn á landið til að skilja og hagnýta tækifæri sem þar eru og felast í sjálfbærri nýtingu. Núverandi orkustefna gerir það ekki. Okkar mesti akkur er að vernda villtu auðæfin, víðernin, landslagið og þá ekki síst fallvötnin fríð sem ala af sér þorskinn framan við ósa jökuláa, eins og Þjórsár. Í þessu liggja saman hagsmunir náttúru og þjóðar.

Þetta er ekki einfalt mál og þetta er ekki heldur bara okkar mál. Við eigum að halda svo á málum að þau verði komandi kynslóðum til heilla – ekki iðnaðarfyrirtækjum og yfirþjóðlegum risafyrirtækjum. Við höfum ekki pláss fyrir slíka starfsemi í dvergríkinu Íslandi, en við erum nógu stór til að vera til fyrirmyndar ef við vöndum okkur.

Ég vona að þú berir gæfu til að vera hugrökk og farsæl í starfi en það verður ekki með núverandi stefnu. Um leið og ég bið þig vel að lifa bið ég þig að afstýra átökum og illindum og ákaflega illa grunduðum áformum um tvöföldun orkuframleiðslu.

Vinsamlegast,

Guðmundur Páll Ólafsson

Fyrst birt á Smugan.is

Náttúruvaktin