des 18 2011

Búsáhaldauppreisnin byrjaði á Vaði í Skriðdal í ágúst 2005

Ólafur Páll Sigurðsson

Fáum dylst sú staðreynd að Búsáhaldauppreisnin sem felldi ríkistjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í janúar 2009 á aðdraganda sinn og rætur í baráttu Saving Iceland. Saving Iceland endurhóf baráttuaðferðir svokallaðrar borgaralegrar óhlýðni í íslensku þjóðfélagi með fjölsóttum námskeiðum í beinum aðgerðum sumrin 2004 og 2005, og síðan með ótal mótmælaaðgerðum í gegnum árin, bæði hérlendis og erlendis. Þetta var á tíma sem einkenndist af algjöru andvaraleysi íslensks almennings og sögulegu máttleysi pólitísks andófs um leið og nýfrjálshyggjan tröllreið húsum á Íslandi.

Saving Iceland sáði ekki einungis nýjum andófsfræjum og baráttuaðferðum í íslenska grasrót heldur voru liðsmenn okkar ávallt í fremstu víglínu Búsáhaldauppþotanna, auk þess að eiga sífellt frumkvæðið í þeim mótmælum. Það er því ekki ofsagt að án Saving Iceland hefðu mótmælin veturinn 2008-2009 aldrei náð því sögulega hámarki sem þau gerðu. Þessi söguskoðun hefur verið staðfest bæði af álitsgjöfum úr háskólasamfélaginu og talsmönnum lögreglunnar, meira að segja á forsíðu Fréttablaðsins.

Eftirfarandi viðtal við Guðmund Ármannsson bónda á Vaði í Skriðdal er tekið upp úr áróðursbæklingi Landsvirkjunar, útgefnum í október 2009 í tilefni formlegra verkloka við Kárahnjúkaódæðin. Um útgáfu sá m.a. Athygli ehf., hið illræmda almannatengsla fyrirtæki Landsvirkjunar.

Í samblandi við yfirgengilegt sjálfshól tæknikratanna og sæg sögufalsana er stungið inn í hátíðarbæklinginn, sem einskonar málamynda jafnvægi við allan áróðurinn, nokkrum viðtalsbútum við Guðmund Ármannsson og Örn Þorleifsson í Húsey.

Guðmundur á Vaði talar um að lögreglan hafi haft „undirtökin“ í viðureign sinni við mótmælendur Saving Iceland sumarið 2005. Í þessu sambandi viljum við benda á að þrátt fyrir einbeittan brotavilja sinn á lýðræðisbundnum rétti til mótmæla og allan viðbúnað, erlenda flugumenn og ofbeldi hefur íslensku lögreglunni aldrei tekist að koma í veg fyrir eina einustu aðgerð Saving Iceland.

Eftir að lögreglan hrakti Saving Iceland frá Kárahnjúkum sumarið 2005, með hótunum um að ganga í skrokk á okkur með Víkingasveitinni, fluttum við okkur um set á bújörð Grétu Óskar Sigurðardóttur og Guðmundar á Vaði. Okkur dylst að vísu hvernig Guðmundur fór að því að draga þá ályktun að sumir af erlendu aðgerðasinnunum hafi haft þrönga sýn, því sökum tungumálaörðuleika var fátt um samræður milli hans og þeirra. Þrátt fyrir stöðugt umsátur og áreitni lögreglunnar framkvæmdum við öflug mótmæli frá Vaði, bæði á Kárahnjúkum sjálfum og á byggingarlóð ALCOA í Reyðarfirði, þar sem við stöðvuðum enn á ný alla vinnu í margar klukkustundir.

Atburðirnir á Vaði sem Guðmundur vísar í, þegar við hröktum burt ringlað og ráðþrota handtökulið lögreglunnar með háværu pottaglamri og flautum, eru vissulega táknrænt upphaf Búsáhaldauppreisnarinnar.

Eftir að við síðan, í ágúst 2005, færðum okkur til Reykjavíkur héldum við áfram að mótmæla stóriðjustefnunni m.a. með því að berja potta og pönnur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur, álráðstefnu á Hótel Nordica og við álver Alcan í Straumsvík.

Þann öfluga takt námu eyru þjóðarinnar og hann endurómaði í þjóðfélagsátökunum veturinn 2008-2009.

Guðmundur á Vaði á orðið:

„Búsáhaldabyltingin byrjaði á heimatúninu okkar í ágúst 2005 en ekki á Austurvelli í Reykjavík snemma árs 2009! Munurinn var hins vegar sá að lögreglan hafði undirtökin í átökum hér eystra en andófsfólkið hafði undirtökin fyrir sunnan,“ segir Guðmundur Ármannsson, bóndi á Vaði í Skriðdal, einn þekktasti andstæðingur stóriðjuframkvæmdanna á Austurlandi. Þau hjón á Vaði, Gréta Ósk Sigurðardóttir og Guðmundur, voru meðal annars mjög í fréttum sumarið 2005 eftir að hafa boðið hópi umhverfisverndarsinna að tjalda hjá sér þegar lögregla lét til skarar skríða gegn mótmælatjaldbúðum á landi Prestsetrasjóðs á framkvæmdasvæðinu. Guðmundur segir þau hafa brugðist við svona annars vegar vegna þess að þau hafi verið andvíg stóriðjuframkvæmdunum og hins vegar vegna afstöðu kirkjunnar manna til andófs gegn Kárahnjúkavirkjun. „Vissulega var fólk þarna í hópnum sem fór land úr landi til að mótmæla kröftuglegar en menn hérlendis voru vanir og það hafði dálítið þrönga sýn en sjóndeildarhringur stjórnar Prestsetrasjóðs var enn þrengri. Ráðamenn sjóðsins höfðu greinilega ekki tileinkað sér andann í orðum krists: „Leyfið börnunum að koma til mín og varnið þeim eigi, því að slíkra er Guð ríki.“

Þegar svo lögreglumenn mættu nokkrum dögum síðar hingað heim á tún og ætluðu að handtaka fólk í tjaldbúðunum fyrir meint skemmdarverk á jarðstreng RARIK í Skriðdal brást ég hart við og sagði að þeir gætu tekið sjálfan mig fastan en aðra ekki nema fyrir lægi dómsúrskurður þar að lútandi. Lögreglan hvarf þá á braut og lét ekkert frá sér heyra frekar um strengsmálið. Tjaldbúar tóku þarna á móti laganna vörðum með því að berja potta og pönnur og láta í sér heyra líkt og síðar gerðist á Austurvelli. Þar með held ég að Búsáhaldabylting hafi byrjað á Vaði!“

Lifðum eins og við værum síðasta kynslóðin

„Sjálfur er ég ekki svo vitlaus að mæla gegn því að stóriðjan skapi atvinnu; það er augljóst. Framkvæmdin hefur hins vegar breytt miklu og flestu til hins verra. Atvinnumynstrið er gjörbreytt á Austurlandi og mörg fyrirtæki farin á hausinn, sem rekja má til stóriðjunnar. Þetta verkefni var hluti af því rugli að spila með fjármuni sem ekki voru til og er sem slíkt harmleikur fyrir þjóðina að súpa seyðið af. Því miður lendir vitleysan á komandi kynslóðum og þær þurfa að borga brúsann. Framsýnina skortir; við lifðum eins og við værum síðasta kynslóðin á Íslandi. Þetta er orðinn hlutur og það verður að taka því þótt erfitt sé. Menn mega ekki vera í skotgröfum heldur lifa með því sem orðið er. Margir harðir stuðningsmenn stóriðjuframkvæmdanna voru og eru góðir vinir mínir og það breytist ekki. Náttúran hefnir sín alltaf ef mennirnir misbjóða henni. Ég skammast mín ekkert fyrir að berjast fyrir því að varðveita ættlandið mitt handa komandi kynslóðum svo þær eigi val um hvað þær vilji gera. Hins vegar er búið að grípa fram fyrir hendur afkomenda okkar á margan hátt og þrengja framtíðarvalið, til dæmis með vatnaflutningum í tengslum við virkjunina. Flutningur Jöklu yfir í Lagarfljót er skemmd á náttúrunni og mér þótti Héraðsbúar alltaf undarlega andvaralausir gagnvart þeim ósköpum öllum.“

Náttúruvaktin