jún 20 2019

Bitcoinvirkjun á sílikonfótum

Viðar Hreinsson

HVALÁ.IS

Nú hefur Skipulagsstofnun gefið grænt ljós á deiliskipulag sem leyfir rannsóknir vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Þessum rannsóknum fylgir gríðarlegt jarðrask á Ófeigsfjarðarheiði vegna vegalagningar og byggingar vinnubúða. Verði það gert er skaðinn skeður að nokkru leyti, víðernum heiðarinnar svo illa spillt að mörgum þyki ástæðulaust að hætta við. Hvalárvirkjun er óheillaverkefni byggt á hagnaðarvon, mistökum og rangfærslum og því er full ástæða til að rekja sögu þess í samhengi umhverfis og samfélags. Þessi grein er nokkuð löng, en skiptist í eftirtalda hluta:

• Skipulagður samdráttur er nauðsyn
• Opinbert stefnuleysi
• „Top gun“
• Raforka fyrir Vestfirðinga?
• Veikburða sveitarfélag og björgunin mikla
• Vönduð stjórnsýsla?
• Víðernin sem hverfa
• Arion banki og lífeyrissjóðir gegn víðernum?
• „Top Gun“ gegn Drangajökulsvíðernum

1. Skipulagður samdráttur er nauðsyn: Undanfarin misseri hafa orðið straumhvörf í vitund fólks um þá alvarlegu umhverfiskreppu sem mannkyn stefnir í. Öflugar mótmælahreyfingar hafa sprottið upp og ungt fólk undir forystu Gretu Thunberg hefur vakið slíka athygli á vandanum að nú eru ríkisstjórnir jafnvel farnar að lýsa yfir neyðarástandi. Æ meira er tekið mark á þeim röddum sem halda því á lofti að óhófleg neysla og hagvaxtarhyggja verði að taka endi, bruðli með orku linni og öll orkuvinnsla verði vel skipulögð á samfélagslegum forsendum í stað þess að vera hluti af hagnaðarsókn einkafyrirtækja.

Raforkuvinnsla hér á landi jókst um 3,1% í fyrra frá því sem var árið áður. Það er langt umfram meðaltalsaukningu síðustu ára á undan og samsvarar allri raforkunotkun á Suðurlandi eða 13% af allri almennri raforkunotkun í landinu. Þó er þetta töluvert minni aukning er orkuspá gerði ráð fyrir að yrði 2018. En til hvers var rafmagnið notað? Mest voru það stóriðjan og stórnotendur sem juku við sig og fór meira en helmingur þessarar auknu vinnslu til gagnavera, að langmestu leyti í bitcoingröft, eða meira en 300 gígawattsstundir (sjá hér.) Það er um það bil jafnmikið rafmagn og Hvalárvirkjun í nýrri útgáfu er ætlað að framleiða (320 gígawattsstundir).

Nýjar virkjanir næra óskipulagðan hagnað og þar með ofneyslu meðan nær væri að draga saman neysluhvetjandi framkvæmdir á öllum vígstöðvum og bæta flutningslínur svo sú orka sem beisluð hefur verið nýtist sem best. Allir hugsandi verkfræðingar verða að taka höndum saman, allt verkfræði- og hagfræðivit ætti að fara í þá víðtæku nýsköpun sem nauðsynleg er til að finna leiðir til að draga úr neyslu án þess að samfélög fari á hliðina. Því þarf að leggjast á eitt um að þróa hjöðnun (degrowth) hagkerfisins og meta allar framkvæmdir út frá almannahag, sjálfbærni og skaðleysi fyrir umhverfið í stað þess að ráðast í orkuvinnslu eða aðrar framkvæmdir bara af því að það er hægt og skilar hagnaði.

2. Opinbert stefnuleysi: Algengt er að opinber stórverkefni fari langt fram úr kostnaðaráætlunum, hvort sem verið er að byggja stórvirkjanir eða lappa uppá gamla bragga. Einnig hefur oft blasað við æpandi skortur á stefnumótun eða opinberri áætlanagerð í orkumálum og dreifikerfið er einfaldlega veikt. Í sáttmála núverandi ríkisstjórnar er þó talað um langtímaorkustefnu og að bæta flutningskerfið í stað þess að virkja meira: „Forgangsverkefni ríkisstjórnarinnar verður að nýta með sem hagkvæmustum hætti þá orku sem þegar hefur verið virkjuð.“ Vegna stefnuleysis undanfarinna ára hefur hins vegar mikill þrýstingur myndast víða um land um að ráðast í smærri virkjanir sem hafa rétt tæplega 10 megawatta afl á pappírunum, því þá smjúga þær undir radar rammaáætlunar og ekki sjálfgefið að þær þurfi umhverfismat. Orkustofnun hefur dritað út rannsóknarleyfum í slíkar virkjanir undanfarinn áratug og þó einkum frá árinu 2015 í skjóli hins opinbera stefnuleysis þannig að orkufyrirtæki sem fyrst eru á vettvang merkja sér virkjanakostina með því að fá þessi rannsóknarleyfi:

Á árunum 2009–2018 hefur Orkustofnun gefið út alls 40 rannsóknarleyfi á virkjunarkostum í vatnsafli og þar af eru fimm leyfi framlenging á eldri leyfum. Orkustofnun bendir á að við útgáfu rannsóknarleyfa liggur ekki í öllum tilvikum fyrir hvert mögulegt uppsett afl virkjana kann að verða. Oft eru í umsóknum um rannsóknarleyfi gefnar upp hugmyndir að mögulegri stærð virkjunarkosta, sem ætlunin er að rannsaka, en það kann að taka breytingum á grundvelli rannsóknanna /…/ Á sama tímabili voru gefin út 17 virkjunarleyfi fyrir vatnsaflsvirkjanir með uppsett afl allt að 10 MW (sjá hér á vef Alþingis)

Af þessum 40 leyfum eru 29 frá árinu 2015 og síðar en fáein þeirra eru þó framlengingar fyrri leyfa. Það gengur ekki að orkumál þróist þannig stjórnlítið að frumkvæði hagnaðarknúinna aðila eingöngu því þá er augljós hætta er á að náttúruperlum verði fórnað vegna veikburða regluverks. Auk þess bendir opinber málflutningur orkumálastjóra til þess að hann misskilji hlutverk sitt og telji að það sé að stuðla að sem mestum virkjanaframkvæmdum og umhverfisverndarfólk flækist bara fyrir þjóðþrifamálum.

3. „Top gun“: Í stefnuleysi markaðshyggjunnar reið yfir einkavæðingarbylgja á sviði orkumála sem varð til þess að Hitaveita Suðurnesja lenti í höndum erlendra auðhringa í kringum bankahrun. Þar var Ross Beaty innsti koppur í búri, í Magma Energy, Alterra, Innergex og hvað þau hétu öll grænslikjufyrirtækin hans sem áttu meirihluta í HS Orku. Hluturinn var á dögunum seldur með gríðarhagnaði. Næsti eigandi er samlagsfélag 14 lífeyrissjóða sem sló sér saman með bresku fyrirtæki og eiga þau nú orkufyrirtækið til helminga. Íslandsáratugurinn hefur fært Ross Beaty nægan gróða og hverfur hann nú úr stjórn HS Orku og snýr sér að raunverulegum gullgreftri.

Hvalárvirkjun sem er fyrirhuguð á Drangajökulsvíðernum er í höndum HS Orku sem fer með þá framkvæmd í gegnum ráðandi hlut í litlu vestfirsku skúffufyrirtæki sem það hefur gleypt á liðnum fimm árum og eignast að mestu leyti með því að dæla hundruðum milljóna í rannsóknir og annað sem tengist því að koma viðskiptahugmyndinni í gegn. Hér innanlands er því enn mjög haldið á lofti að sú virkjun eigi að bjarga byggð í Árneshreppi og raforkuvanda Vestfirðinga. Það bar þó lítið á þeim björgunaraðgerðum á fundum eigendanna. Þar er forstjóri HS Orku kallaður „our top gun in Iceland“ og umræðan snýst um sölu á orku til gagna- og kísilvera, jafnvel sölu um sæstreng þegar fram líða stundir. Það er reyndar ekki aðeins Hvalárvirkjun sem er í sigtinu heldur einnig Skúfnavatnavirkjun eins og kom fram hjá Paul Rapp, yfirmanni hjá Alterra fyrrum eiganda HS Orku, á fjárfestafundi 13. maí 2015:

Fyrst þarna efst [á glærunni] það lítur út eins og Hvalá, það er borið fram kavalo og þar er 55 megawatta, býsna stór eign sem við erum að vinna með í fyrirtæki sem heitir [Vesturverk] þar sem við förum nú með 58% eignarhlut og kannski jafnvel meira þegar við þróum þetta verkefni áfram … og ég vil líka tilkynna að Hvalársvæðið efst og þá á næstu glæru Skúfnavatnavirkjun, neðst á glærunni, bæði eru rétt búin að fá rannsóknaleyfi, þær komust báðar í gegnum kærufrestinn, svo við einbeitum okkur á fullu að báðum þessum verkefnum. [First up at the top, it looks like it’s a Hvalá, its pronounced kavalo and there is a 55 megawatt, a pretty sizeable hydro asset that we’re working on in a company called [Vesturverk] where currently we project 58% ownership and perhaps even greater as we develop this project further… and also I want to announce that the Hvalá site above and then on the next slide Skúfnavatnavirkjun, at the bottom of the slide, both just received their research permits, they both passed through their appeals period, so we’re fully engaged to go on both of these projects. (Paul Rapp, Head of Geothermal Operation, Alterra, 13. maí 2015)] Ef slegið er inn „HS Orka“ í leitarstreng á þessari síðu fæst listi yfir þessa fundi.

Hvalárvirkjun er aðeins liður í blautum hagnaðar- vaxtar- og sæstrengsdraumum. Á fundum eigenda HS Orku tók oft til máls fyrrum stjórnarmaður í HS Orku, John Carson, þá framkvæmdastjóri Alterra.

„Neðst á vatnsorkutöflunni er nýtt verkefni, Hvalá, það er 55 megawatta vatnsorkumöguleiki á Íslandi sem við erum mjög spenntir yfir […] ég er mjög spenntur fyrir þessu tímabili í vexti fyrirtækisins, það er verulegur vöxtur og við munum sjá hvaða áhugaverðu ækifæri bíða okkar seinna á þessu ári […] útlitið á orkumarkaði á Íslandi er sterkt. Svo ég get sagt ykkur að tækifærin sem við erum að skoða þarna á Íslandi fyrir nýjar og frekari fjárfestingar eru yfirleitt hagnaðartækifæri í tveggja stafa tölum. Það eru ekki aðeins gagnaver, það er líka annar iðnaður auk álvera fyrir utan gagnaver sem við horfum á […] Þið vitið kannski líka að tilraunir eru í gangi til að setja upp eða koma fyrir flutningsstreng sem mundi taka íslenska orku, endurnýjanlega orku yfir á meginland Evrópu og eða Bretlands (John Carson 25. mars 2015) Það er greinilega seljendamarkaður núna, merkilegt síðustu 5 árin eða svo og það er mikil eftirspurn eftir orku […] við reiknum með að það haldi áfram, aðaleftirspurninn á markaðinum nú er frá sílikoniðnaðinum. Tvö af þessum verkefnum eru þegar í byggingu og komin nærri framleiðslu og tvö eru enn á þróunarstigi. Og þá eru gagnaverin að auka orkuþörfina, en á smærri skala. Sílikonverkefnin eru eitthvað um 40, 50, upp í 70, 80 megawött hvert. Gagnaverin eru 10, 20 hvert og vaxa síðan smátt tog smátt.” (John Carson 10. ágúst 2017) [Down toward the bottom of the hydro chart, there is a new project there Hvala, it’s at 55 megawatt hydro opportunity in Iceland that we’re very excited about. […] I’m very excited about this period in our company’s growth, it’s very substantial growth and we will see what interesting opportunities await us later this year. […] the power market outlook in Iceland is strong. So I would tell you that the opportunities that we’re looking at there in Iceland for new and further investments are generally double digit return opportunities. […]. It’s not just server farms, it’s also other industries besides aluminum besides the server farms which we’re seeing them. […] You maybe also aware that there is an effort underway to establish or put into place a transmission line that would take Icelandic power, renewable power over to the European mainland and/or the UK. […](John Carson, stjórnarmaður í HS Orku og framkvæmdastjóri Alterra, 25. mars 2015)
It’s actually clearly a seller’s market now that stands, remarkably over the last 5 years or so and there is a lot of demand for power. […] we expect that to continue the main demand product in the market now is for silica industries. Two of those projects have already started construction by getting close to commissioning and two of those are still in the development phase. And then the data centers are pacing up a bit more power, but on a smaller scale. The silica projects are something like 40, 50 up to 70, 80 megawatts each. Data sectors are 10, 20 each and then grow gradually. (John Carson, 10. ágúst 2017, skömmu áður en Alterra rann inní Inngergex)].

4. Raforka fyrir Vestfirðinga? Rétt er að rifja upp forsögu þessara funda þar sem glaðbeittir fundarmenn voru alveg ómeðvitaðir um raforkuvanda á Vestfjörðum. Fyrirtækið VesturVerk varð til með kaupum á bolvísku félagi árið 2005 og starfaði í þrjú ár á sviði ráðgjafar við skipasmíðar. Starfseminni var breytt í orkuframleiðslu árið 2008. Félagið hefur ekki framleitt neina orku svo vitað sé en var í eigu vestfirskra (hugsjóna-) og athafnamanna sem vildu leysa raforkuvanda Vestfjarða. Það beindi sjónum að Hvalá í Ófeigsfirði og samdi við eigendur tveggja jarða um að rannsaka, og ef af yrði, nýta afl þriggja vatnsfalla. Í júní árið 2011 afhenti verkefnisstjórn rammaáætlunar iðnaðarráðherra fyrstu flokkun virkjanahugmynda í samræmi við erindisbréf sitt. Ein þeirra var 35 megawatta virkjun Hvalár með tengingu beint til Ísafjarðar. Sagt var að rannsóknarleyfi hefði þegar verið gefið út. Verkefnisstjórn lagði til við ráðherra að hugmyndin færi í nýtingarflokk. Ekkert af þessu stóðst; VesturVerk sagði rangt til um að rannsóknarleyfi væri fengið (það veitti Orkustofnun að hluta 31. mars 2015) og tenging til Ísafjarðar reyndist óraunhæf enda var hún ókönnuð og er enn. Virkjunin var talin óraunhæfur kostur vegna gríðarlegs tengikostnaðar en langur vegur er til allra tengikosta. Verkefnisstjórnin var þó alls ekki sammála um flokkunina. Fimm nefndarmenn vildu nefnilega setja kostinn í biðflokk á meðan meirihlutinn, sjö, vildu setja hann í nýtingarflokk. Óhætt er að fullyrða að niðurstaðan hafi verið mistök því upplýsingar voru af skornum skammti. Gögnin voru í besta falli sæmileg og forsendur fyrir mati á náttúru- og menningarþáttum voru einfaldlega ekki fullnægjandi fyrir raunhæft mat. Því hefði virkjunin átt að fara í biðflokk. Alþingi samþykkti þingsályktun 14. janúar 2013 þar sem virkjanahugmynd þess tíma fór í nýtingarflokk. Þar með hafði Alþingi skapað vestfirsku athafnamönnunum sem farið höfðu af stað fimm árum áður fyrirtaks söluvöru enda seldu þeir HS Orku hugmyndina og smám saman varð skúffufyrirtækið VesturVerk til.

Síðan hefur eiginlega allt breyst. HS Orka fékk yfirráð yfir VesturVerki árið 2015 og fyrirtækið virðist ekki þjóna öðru hlutverki en vera falskt flagg stóreigendanna, andlit verkefnisins gagnvart íbúum Árneshrepps og Vestfirðingum en með óveruleg útgjöld á rekstrarreikningi (heilar 100.000 kr. í rekstrargjöld árið 2017). Upphaflegir stofnendur og eigendur fyrirtækisins eiga nú ekki nema 26% hlut í því, HS Orka á 74%: „HS Orka hefur enn fremur unnið að þróun annarra verkefna. Lagt var aukið hlutafé í VesturVerk hf. á Ísafirði, vegna rannsókna við virkjunarkostina Hvalá í Ófeigsfirði (55 MW) og Skúfnavatnavirkjun í Ísafjarðardjúpi (um 14 MW), auk annarra verkefna sem félagið vinnur að. Á HS Orka nú um 74% eignarhlut í VesturVerki.“(sjá hér) Þetta þýðir að allur þróunarkostnaður er eignfærður hjá HS Orku og eignarhlutur stofnenda hefur smám saman fjarað út, rétt eins og umhyggja VesturVerks fyrir raforkuöryggi Vestfjarða sem greinilega skilaði sér ekki inn á fundi stórlaxanna. Í raun og veru var eina eign VesturVerks frá upphafi 2013-stimpillinn frá rammaáætlun 2 sem byggður var á mistökum.

Ný virkjunarhugmynd kom fram 2015. Hún er um margt ólík hinni upphaflegu að gerð með meira afl, 55 megawött í stað 35 og aukin orka krefst mun viðameiri og dýrari raflagna. Hún gerir ekki ráð fyrir tengingu til Ísafjarðar. Hún á að framleiða raforku þegar eftirspurn er mest, vera eins konar birgðastöð fyrir fyrirtæki sem annars framleiðir raforku með gufuafli. Viðskiptahugmynd HS Orku er einfaldlega 55 megawatta toppaflsstöð til að þjóna gagna- og kísilverum í viðskiptum við fyrirtækið á hverjum tíma. Tenging til Ísafjarðar er ekki raunhæf. Engin störf fylgja þessari hugmynd á Ströndum eða Vestfjörðum svo vitað sé nema kannski skrifstofustarf á Ísafirði. Því eru allar forsendur breyttar og mjög vafasamt að flokkun í nýtingarflokk rammaáætlunar 2 eigi lengur við á nokkurn hátt.

5. Veikburða sveitarfélag og björgunin mikla: Snemma árs 2017 kom að því að yfirvöld skoðuðu virkjunarhugmyndina eftir leikreglum lýðræðisins. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að virkjunin hefði verulega neikvæð umhverfisáhrif. Hins vegar er endanlegt leyfisveitingar- og skipulagsvald í höndum sveitarfélaga samkvæmt lögum en eftirlitsstofnanir eiga að gæta þess að að þeim sé farið. Því nýtti peningavaldið sér smæð sveitarfélags í neyð því engum dylst að byggð í Árneshreppi er í hættu. Fjársterkt orkufyrirtæki gerir hreppinn háðan sér, spilar með vanda hans og lofar hinu og þessu sem ætti að vera á könnu stjórnvalda. Óþarfi er að rifja upp sögur af þriggja fasa rafmagni, ljósleiðara, vegabótum, nettengingu, málningu á skólahúsið (þar sem engin börn eru eftir), gestastofu í óbyggðum sem gera á úr yfirgefnum vinnubúðum og nú síðast hafnarbótum. Reyndar er ekki að sjá í skýrslu um samfélagsáhrif virkjunarinnar í Árneshreppi að þau verði neitt sérstök þrátt fyrir þessi loforð. Þar er þetta kannski áhugaverðast þó hlálegt sé: „Hvalárvirkjun mun þannig hafa mikil áhrif á tvo bæi í Árneshreppi þar sem þó aðeins hefur verið sumardvöl síðustu ár. Annar bærinn, Ingólfsfjörður, mun fá nýjan veg en hinn bærinn, Ófeigsfjörður, mun fá rafmagn, ljósleiðara og nýjan veg.“ (sjá hér) Báðir bæirnir eru sem sagt í eyði en nýttir sem sumarhús.

Þróunarverkefnin Hvalárvirkjun og Skúfnavatnavirkjun voru töluð upp af erlendum eigendum HS Orku með orðfærinu sem sjá má hér að ofan. Þar var horft á hagnaðarvon en fulltrúar VesturVerks (peðin á taflborðinu) töluðu um að leysa raforkuvanda Vestfjarða og allan hugsanlegan vanda Árneshrepps. Gegndarlaus áróður HS Orku með VesturVerk sem málpípu hefur síðan farið fram og upplýsingafulltrúi ráðinn til að telja Vestfirðingum trú um að verið væri að leysa vanda þeirra. Myndböndum var dælt út með einræðum um stóru lausnina. Auk þess skrifar upplýsingafulltrúinn greinar fullar af sérkennilegri vanþekkingu um orkumál. Til dæmis kemur þar fram sú furðuhugmynd að rafmagn renni eins og vatn, stystu mögulegu leið. Spilað er jafnt með hreppsnefnd sem örfáa landeigendur. Þó virðast háværir talsmenn virkjunar í þágu Vestfirðinga, sem eru á stór-Ísafjarðarsvæðinu, nú vera á undanhaldi og hafa breytt málflutningi sínum þannig að það sé fullkomlega eðlilegt að rafmagnið úr Hvalárvirkjun sé selt til Suðurnesja og hefur þá orðið ærinn viðsnúningur á þeim bæ.

Hvalárvirkjun er stórlausn að ofan eins og svo oft hefur sést til að „bjarga“ byggð í landinu. Ferlið undir því göfuga yfirskini hefur einkennst af vanáætlunum, stefnu- og skipulagsleysi, skorti á yfirsýn, gróðavon og siðlausum leik með vanburða hreppsnefnd. Ekki er hægt að ætlast til að örsmátt hreppsfélag standi óstutt undir öllum þeim skyldum sem lagðar eru á sveitarfélög. Því eru aðstæðurnar siðlausar þegar rammefldir hagsmunaaðilar á borð við HS Orku og lögfræðingar og verkfræðistofur í þjónustu þeirra leggja þeim orð í munn. Verulegur ágreiningur hefur löngum verið innan hreppsins um virkjunina en naumur meirihluti verið hlynntur henni. Hreppsnefnd hefur jafnan tryggt framkvæmdaraðila brautargengi í öllum sínum ákvörðunum og oddviti í stöðugu og eiginlega hjartnæmu sambandi við forstjóra HS Orku og framkvæmdastjóra VesturVerks. Ekki hefur alltaf verið farið að lögum í þessum samskiptum sem sjást í hnotskurn í harðorðu en umboðslausu erindi sem lögmaður í (óbeinni) þjónustu HS Orku sendi Skipulagsstofnun í nafni Árneshrepps til að tjá ríkisstofnuninni að málið kæmi henni ekki við og hún væri komin út fyrir hlutverk sitt. Í þessu bréfi eru hin nánu tengsl rakin nokkuð fróðlega, útskýrt að alsiða sé að framkvæmdaraðilar greiði kostnað sveitarfélags og auk þess tekinn samanburður við borgarfulltrúa Reykjavíkur þegar talað er um að kjörnir fulltrúar megi hafa skoðanir á málefnum. Hið áhugaverða er að bréfið afhjúpar hvernig framkvæmdaraðilinn getur ráðskast með þessa hluti vegna vanmættis sveitarfélagsins. Hins vegar er þáttur þess lögmanns sérstakt rannsóknarefni. Bréfið er sent í umboðsleysi því hann sendi það án nokkurs umboðs sitjandi hreppsnefndar eftir kosningar 2018 og áður en ný hreppsnefnd tók við (sjá hér). Það er því nokkuð dæmigert fyrir þær geðþóttaákvarðanir og flumbrugang sem einkenna alla söguna. Áður hefur komið fram opinberlega hver greiðir reikninga þessa lögmanns fyrir vinnuna sem að forminu til er fyrir hreppinn.

6. Vönduð stjórnsýsla? Ferlið hefur vægast sagt verið sérkennilegt allt frá því 35 MW virkjun var fyrir vangá lögð í nýtingarflokk með tillögu verkefnisstjórnar iðnaðarráðherra árið 2011. Eftir að Alþingi féllst á tillöguna 2013 var næsta skref að keyra í gegn fyrstu skipulagsáætlun hreppsins. Það var 2014. Þá hóf HS Orka að kaupa sig inn í virkjunarhugmyndina en með gerbreytta viðskiptahugmynd eins og lýst var hér að framan. Síðan kom umhverfismat breyttrar virkjunar. Skipulagsstofnun gerði sem fyrr segir alvarlegar athugasemdir við verulega neikvæð umhverfisáhrif. Aðalskipulagi þurfti að breyta og fella að viðskiptahugmynd HS Orku. Breytingar á aðalskipulagi voru auglýstar 2017 og síðan var lögð fram deiliskipulagstillaga til að geta hafið stórfelldar rannsóknir á svæðinu sem hefðu verulegt rask í för með sér. Aðferðin er kunnugleg, að spilla svo miklu í kringum rannsóknir að ekki verði aftur snúið. Skipulagið er þannig bútað í áfanga til að auðvelda það markmið að koma framkvæmd á koppinn.

Í deiliskipulagi sem nú á að taka gildi er margt athugavert: Vegalagning sem nánast eyðir öllum víðernunum á því svæði sem um ræðir og uppsetning stærðar iðnaðarsvæðis og vinnubúða í gönguleið að fossinum Drynjanda, 70 metra háum. Gríðarleg efnistaka er úr Neðra-Hvalárvatni sem nýtur sérstakrar verndar lögum samkvæmt og ekki má raska nema brýn almenningsþörf krefji. Það ætti að vera löngu orðið ljóst að því fer fjarri að hér sé um almenningsþörf að ræða.

Tillöguna þurfti að auglýsa ár eftir ár vegna furðulegra mistaka af hálfu hreppsins. Margar ítarlegar og vel rökstuddar athugasemdir komu fram. Verkís, sem vinnur á vegum HS Orku, skrifaði 114 síðna minnisblað þar sem athugasemdum var í orði kveðnu svarað. Aðferð Verkíss sem Árneshreppur ber ábyrgð á er hrakleg: Fæstum athugasemdum er beinlínis svarað efnislega. Þess í stað virðast þær hafa verið grófflokkaðar eftir efni og síðan smíðuð nokkur stöðluð svör með einstaka tilvísunum í lög og reglugerðir. Svörunum er svo raðað á athugasemdirnar og stundum er torvelt að sjá þar vitrænt samhengi. Þessum svörum má líkja við reyksprengjur sem gera það tafsamt að elta uppi efnistökin til að finna heila brú í textanum. Þá er það áberandi að flestar athugasemdir við deiliskipulagið leggja áherslu á gífurlegt umfang og rask framkvæmdanna. Í svörunum er reynt að gera sem minnst úr því, jafnvel með hreinum rangfærslum þegar því er haldið fram að hægt verði að færa umhverfið í samt lag eftir framkvæmdirnar, jafnvel þó að þurfi við vegarlagninguna að sprengja í gegnum klettabelti. Aðferð Verkíss í umboði hreppnefndar spillir fyrir allri málefnalegri umræðu, breiðir yfir möguleika á heildarsýn og allt gagnsæi sem er í æpandi andstöðu við góða stjórnsýslu og tilganginn með því að fá almenning að borðinu. Með því að samþykkja og leggja fram þetta minnisblað frá Verkís gengur hreppsnefnd Árneshrepps gegn öllum heilbrigðum sjónarmiðum um heiðarleg vinnubrögð og svíkur með því umbjóðendur sína og almenning í landinu.

Íbúar Árneshrepps hafa vakið aðdáun og eiga hrós skilið fyrir hafa viðhaldið byggð með myndarskap um áratugi án þess að njóta sanngjarns stuðnings sem þarf til að halda uppi nútímasamfélagi. Hins vegar er staðan gjörsamlega óviðunandi. Hæpið er að nokkursstaðar annarsstaðar fari jafnfámennt sveitarfélag og vanburða sveitarstjórn með jafnmikið vald. Verndun eða eyðilegging meira en helmings Drangajökulsvíðerna fer eftir geðþótta fimm manna hreppsnefndar sem kosin var af rúmlega 20 manns sem flest eru af eldri kynslóð sem hugsanlega áttar sig ekki á hugmyndum nútímans um verðmæti víðerna (Af allra villtustu víðernum Evrópu eru 42% á Íslandi og Drangajökulsvíðerni eru 1-2%). Það er skelfilegur ágalli á íslensku stjórnkerfi að svona geti gerst og ólíklegt að öllum í þessum meirihluta líði vel með þessa ábyrgð, vitandi um vanmáttinn sem fylgir smæðinni. Því er það grátlegt að hreppsnefndinni skuli fjarstýrt með þessum hætti af framkvæmdaraðila sem hyggst fórna ómetanlegum víðernum á altari bitcoin. Gustuk væri ef æðri stjórnvöld skæru fólkið úr snörunni.

Nú hefur Skipulagsstofnun fallist á að deiliskipulagið taki gildi. Skemmst er frá að segja að þar hefur stofnunin illilega brugðist eftirlitshlutverki sínu, sér fátt athugavert við augljósar rökleysur í plaggi Verkíss/Árneshrepps og gengur sumt í bréfi hennar til Árneshrepps dagsett 28. maí 2019 þvert á alla skynsemi:

Samkvæmt skilmálum þá á að halda vegaframkvæmdum í lágmarki og sleppa þeim þar sem það er mögulegt. Ekki skal skerða vistgerðir sem njóta verndar, samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd, eða vistgerðir með hátt eða mjög hátt verndargildi. Ef fallið verður frá virkjanaáformum skulu vegir og brú fjarlægð eins og kostur er. Einnig eru sett ákvæði um vinnulag við efnistöku og frágang efnistökusvæða og að efnistökusvæði ES19 við Neðra Hvalárvatn verði aðeins nýtt ef ekki fæst nægilegt efni úr efnistökusvæði við Hvalárósa. Að framkvæmdum loknum skulu starfsmannabúðir fjarlægðar og gengið frá því svæði þannig að það verði sem líkast því sem var fyrir framkvæmdir.

Skipulagsstofnun fellur hér í þá gryfju að líta á framkvæmdirnar sem afturkræfar (jafnvel þótt sprengt sé fyrir vegi í gegnum klettabelti) og virðist halda að allt sé hægt að færa í fyrra horf þó að augljóst sé að víðernum sé varanlega spillt. Og vinnuskúrana á að fjarlægja, þessa sem áttu að verða gestastofa í boði HS Orku. Þá er Neðra-Hvalárvatn aðalefnistökusvæðið samkvæmt deiliskipulaginu og efnistaka þaðan einfaldlega lögbrot. Nú getur hreppsnefnd Árneshrepps auglýst skipulagið í Stjórnartíðindum og í kjölfarið fjallað um umsókn VesturVerks um framkvæmdaleyfi. Þegar leyfið er fengið vonast fyrirtækið til að geta hafist handa við eyðileggingu víðernanna þó að varla verði mikið um framkvæmdir í sumar. Hins vegar er víða pottur brotinn í þessu ferli og full ástæða til að leita allra kæruleiða.



7. Víðernin sem hverfa:
Eins og staðan er núna virðist eiga að leyfa orkufyrirtækjunum að spilla fyrirhuguðu virkjanasvæði varanlega þó að ýmsar blikur séu á lofti sem geta komið í veg fyrir virkjunina. Gagnvart Drangajökulsvíðernum er myndin nokkurn veginn svona: Um árabil hafa þrjár virkjanir verið í sigtinu. HS Orka er með Hvalárvirkjun sem breytti um eðli og stækkaði snögglega úr 35 í 55 MW. HS Orka er líka með Skúfnavatnavirkjun í undirbúningi sem sögð er undir 10 MW og þar með undir radar rammaáætlunar en er í raun 14 MW ef marka má forstjóra HS Orku. Hvalárvirkjun og Skúfnavatnavirkjun munu spilla drjúgum hluta víðernanna og þegar Austurgilsvirkjun hefur bæst þar við nemur skerðingin meira en helmingi eða 55% eins og rækilega hefur verið rakið í þrem ítarlegum greinum Snæbjarnar Guðmundssonar í Kjarnanum í febrúar og mars sl.(15. febrúar, 4. mars og 7. mars). Þegar HS Orka hefur staðið fyrir stórfelldri skerðingu Drangajökulsvíðerna getur Landsvirkjun komið í mesta sakleysi í Austurgil af því búið er að fremja glæpinn, víðernin svo mikið skert að ekki munar um eina virkjun í viðbót. Reyndar hafa Austurgilsvirkjunarmenn nú þegar lagt vegslóða upp að Drangajökli í óleyfi um hverfisverndað svæði og án umhverfismats, „til rannsókna“. Verði af öllum þessum þrem virkjunum sem eitt sinn voru fyrirhugaðar er syðri hluti víðernanna nánast horfinn eins og sjá má á þessari mynd úr síðustu grein Snæbjarnar Guðmundssonar:

8. Arion banki og lífeyrissjóðir gegn víðernum? Óvíst er að fjármögnun eyðileggingarinnar sé í augsýn. Ekki er sérlega líklegt að sá banki sem fjármagnar framkvæmdir HS Orku, Arion banki, illa brenndur af viðskiptaævintýrum United Silicon, Primera og WOW, sé óðfús að lána krónu, hvað þá hundruð milljóna til að borga fyrir uppbyggingu iðnaðarsvæðis og vegarlagningu á heiðum uppi meðan stjórnvöld hafa ekki leyft þann ríkisstuðning í gegnum Landsnet sem þarf til að niðurgreiða tengingu Hvalárvirkjunar.

Sú undarlega fyrirgreiðsla sem er augljós forsenda framkvæmdarinnar á rætur í reglugerð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur fyrrverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra sem skömmu fyrir starfslok sín gerði Reykjanesfyrirtækinu HS Orku þann greiða að sú virkjun sem fyrst tengdist nýjum punkti gæti möglega fengið afslátt af tengikostnaðinum. Þannig gæti HS Orka sparað milljarða á kostnað almennra raforkunotenda. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ekki lagt blessun sína yfir slíkar fyrirgreiðsluæfingar úr vasa almennings en þeirri stofnun er ætlað að annast eftirlit með íslenskum stjórnvöldum í skiptum sínum við almenning. Ekkert tengivirki, hvað þá tvö, verður byggt nema innlendi eftirlitsaðilinn, Orkustofnun hafi gefið leyfi sitt fyrir því. Svoleiðis verður tengingin að standa undir kostnaði – eða orkuframleiðandinn að borga aukakostnaðinn. Orkustofnun hefur ekki komið að hugmyndum HS Orku um að fá aukatengivirki fyrir virkjun fjarri flutningsneti. Hins vegar hefur Landsnet nýverið komið fram með illa rökstudda áætlun um að byggja tengivirki bæði í Djúpi og í Kollafirði, til að koma rafmagni HS Orku úr Hvalá, Rjúkandi og Eyvindarfjarðará suður í gagnaver einhverntíma ef af verður, en að forminu til er þetta óljós hugmynd um að bæta afhendingaröryggi á Vestfjörðum. Allir sem nenna að líta á það plagg sjá að tenging yfir Ófeigsfjarðarheiði er ekki einu sinni inni á tillögunni; heldur er tengivirki í Djúpi hreint og beint endastöð. Líklega þora stjórnendur Landsnets ekki að sýna teikningu af því hvernig loftlína frá Hvalárvirkjun myndi kljúfa víðernin í herðar niður, minnugir þess að lína þeirra yfir Sprengisand fékk heldur bágar viðtökur um árið. Þeir sem rýna aðeins dýpra sjá að tenging úr Dúpi til Ísafjarðar er langt frá því að vera nokkuð meira en lausleg hugmynd um eitthvað sem hugsanlega gæti gerst einhvernveginn í óljósri framtíð. Það hefur bara ekkert verið skoðað. Hvernig getur svona talist bæta afhendingaröryggi, eins og fullyrt er í þessum nýju tillögum Landsnets? Það er óábyrgt að leggja þetta til í tillögu að kerfisáætlun og ýta þannig undir falskar væntingar þeirra sem eru að fjárfesta og fjármagna og þeirra sem búa við skert afhendingaröryggi á stór-Ísafjarðarsvæðinu. Í annarri raforkutilskipun Evrópusambandsins stendur í fyrstu grein að flutningskerfi þurfi að byggja upp að teknu tilliti til umhverfissjónarmiða. Ekki er orð um það í þessum nýju tillögum Landsnets.

Þá bætist hér við sá augljósi vandi að nú stefna í það minnsta tvö fyrirtæki á að reisa vindmyllugarða á svæði Vesturlínu, að Hróðnýjarstöðum í Dölum og Garpsdal norðan Gilsfjarðar. Þá yrði að tengja við Vesturlínu sem Hvalárvirkjun þyrfti líka að tengjast því orkan þaðan á að fara suður í gagnaverin. Með því fer að verða þröngbýlt í kaplinum því að flutningsgeta Vesturlínu er fjarri því að ráða við alla þessa orku nema verulega verði aukið við raflínur sem ekki er í augsýn. Hér er því brýnt að stjórnvöld taki í taumana, meti þörfina fyrir orku og geri raunhæfar áætlanir út frá umhverfissjónarmiðum og þeirri nauðsyn að draga úr neyslu, eins og drepið var á í upphafi.

Allt eru þetta svo miklir draumórar að það setur að manni hálfgerðan óhug. Hvar er samfélagsleg ábyrgð Landsnets? Halda stjórnendur þar að fyrirtækið fái afslátt af kröfum um náttúruverndarsjónarmið og geti bara seilst í vasa almennra neytenda til að borga svona vitleysisgang? Er Orkustofnun kannski búin að gefa grænt ljós undir borðið? Er orkumálastjóri kannski vanhæfur vegna fyrri aðkomu að málinu? Ekki getur heldur verið fýsilegt fyrir nokkurn banka að lána HS Orku til svona virkjanaframkvæmda og verða þá samsekur í eyðileggingu verðmætra víðerna. Það hlyti að skaða ímynd bankans stórlega nú þegar öll samfélagsumræða snýst æ meir um umhverfisvanda, náttúruvernd og sjálfbærni. Sama ábyrgð leggst á herðar lífeyrissjóðanna fjórtán sem hafa eignast HS Orku til hálfs og ráða þar því miklu. Er ekki tímabært að spyrja hina raunverulegur eigendur þessara sjóða hvað þeim finnst? Er ekki nauðsynlegt að spyrja hvort framkvæmd af þessu tagi samræmist almennum markmiðum sjóðanna?

9. „Top Gun“ gegn Drangajökulsvíðernum? Af framansögðu er ljóst að saga draumsins um Hvalárvirkjun er saga vanþekkingar, mistaka, villandi upplýsinga og rangfærslna, fúsks, siðleysis, stefnuleysis og skipulagsleysis sem helst minnir á harmsöguna af kísilverinu í Keflavík, United Silicon.

Orkumál Vestfjarða eru fyrst og fremst spurningar um tengingar. Næg orka er í landinu og hægt að nýta hana miklu betur. Nú þykir mörgum að vindmyllugarðar séu að verða fýsileg leið til orkuöflunar, eigi á annað borð að framleiða meira rafmagn, sem ekki er sjálfgefið. Því er augljóst að HS Orka og upplýsingafulltrúi VesturVerks þurfa að berjast við vindmyllur, vilji þeir þoka Hvalárvirkjun áleiðis.

Nú ríður á að stjórnvöld greini raunverulegar þarfir, myndi yfirsýn yfir valkosti um orkuvinnslu og -flutning og geri raunhæfar langtímaáætlanir með umhverfi og almannahag að leiðarljósi. Langtímablautir draumar einkarekinna orkufyrirtækja eru alltaf þeirra eigin gróðahagsmunir og ekkert annað. Það er óhugsandi að bankar, fjárfestar og lífeyrissjóðir sem vilja sýna snefil af samfélagsábyrgð liðsinni svona verkefni á nokkurn hátt nú þegar allir þurfa að sýna ábyrgð og leggjast á árar með framtíðinni. Vilja lífeyrissjóðirnir sem keypt hafa HS Orku að forstjórinn verði áfram þeirra „Top Gun“ gegn Drangajökulsvíðernum?

Byggð í Árneshreppi er ómælanlega verðmæt fyrir íslenskt samfélag og menningu. Útilokað er að Hvalárvirkjun tryggi á nokkurn hátt framhald þeirrar búsetu (Ég hef fjallað um þá hlið málsins í tveim greinum á síðastliðnum tveim árum, hér og hér). Eina hugsanlega leiðin er samgöngubætur og markviss stuðningur við þá atvinnustarfsemi sem sprettur úr jarðvegi sveitarinnar og færi vel saman við stofnun þjóðgarðs í kjölfar ákvörðunar um verndun víðernanna. Samtökin ÓFEIG létu gera vandaða skýrslu um fýsileika þess að vernda víðernin nyrðra og væri nær fyrir hreppsnefndina að ganga til samstarfs við alla þá sem vildu liðsinna við slíkt verkefni frekar en að láta fjárgróðamenn fjarstýra sér. Skýrsluna má nálgast hér:

Ekki er laust við að greina megi örvæntingartón í virkjunarfólki. Feigðarflanið verður æ augljósara og flumbrugangurinn gerir það að verkum að kæruleiðir eru til gegn framkvæmdinni. Þess vegna verður að koma í veg fyrir að rokið verði í framkvæmdir vegna rannsókna í sumar, því þeim fylgja mikil óafturkræf spjöll þó að Skipulagsstofnun hafi ekki komið auga á þau og haldi að hægt sé að púsla saman sprengdum klettabeltum. Drangajökulsvíðernum má ekki fórna á altari bitcoin og gagnavera. Það væri meinleg kaldhæðni örlaganna ef það gerðist þegar flokkur sem kallar sig grænan heldur um stjórnartaumana, bæði í forsætisráðuneytinu og umhverfisráðuneytinu. Nú ríður á að Katrín Jakobsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson sýni til hvers flokkur þeirra situr í ríkisstjórn

Markaðslausnir, hagnaður og arðbærni hafa verið æðstu boðorð samfélagsins undanfarna áratugi og umhverfið gleymdist. Nú þarf að snúa við blaðinu og samstilla vellíðan manna, náttúru og umhverfis. Það verður aðeins gert með því að halda í heiðri þá fjölbreytni sem er undirstaða lífríkis og menningar. Lausnin felst í því að taka völdin af einsleitum og voldugum gróðaöflum og dreifa valdinu í samfélaginu með því að þróa lýðræðið. Það er við hæfi að ljúka þessu með orðum skáldsins og sjáandans Elísabetar Jökulsdóttur: FRAMTÍÐIN FYLGIST MEÐ OKKUR!

Höfundur er bókmenntafræðingur og áhugamaður um menningu og náttúru Stranda
Myndir: Tómas Guðbjartsson

Greinin í PDF með neðanmálsgreinum og myndum.

Greinin í PDF með hyperlinks og myndum.

Náttúruvaktin