Author Archive

sep 27 2006

Álftin, ormurinn og fljótið


Gréta Ósk Sigurðardóttir

EFTIR Lagarfljóti heitir Fljótsdalur og Fljótsdalshérað eftir dalnum. Fljótið er lífæð Héraðsins og í því býr sál þess í líki Ormsins. Frá upphafi byggðar hefur það verið örlagavaldur. Halldór Laxness yrkir um ,,fljótsins dreymnu ró“. ( Helgi Hallgrímsson: LAGARFLJÓT)

Í júlí sl.var gönguhópur Augnabliks á ferð niður með Jökulsá í Fljótsdal. Áin geymir fegurstu fossaröð Íslands, nú eign ALCOA. Hún er aurminnsta jökuláin öfugt við stöllu sína Jökulsá á Brú sem er aurugust. Því varðveittist þessi einstæða fossaröð.

Gengið var niður með ánni og áð við hinn magnaða foss Faxa. Sumir gengu niður að fossinum, aðrir tóku upp nesti. Ég ráfaði eitthvað um, sá örfáar kindur framundan og þótti ein hafa æði skrýtið vaxtar- og göngulag, ekki kindarlegt. Þarna kjagaði álft með blessuðum skjátunum. Hugsaði ég ekki meir útí það en settist hjá fólkinu.

Sem við sitjum þarna þá flýgur álftin yfir, segir „gvak“ og svo rakleitt í fossinn. Þögn sló á hópinn og leitt að sjá blessaða skepnuna farast í fossinum. Veltu menn vöngum en komust ekki að niðurstöðu. Kona stóð við fossinn og sýndist henni álftin reyna að bremsa sig af áður en hún hvarf í iðuna. Þegar við héldum af stað á ný sá ég hvar álftin duggaði í ánni hinumegin við bakkann og kom í ljós að hún var lifandi og spræk. Hvar sem þessi saga var sögð þótti mönnum undrum sæta.

Mánuði seinna er ég enn á ferð þarna og er gengið upp með ánni, frá Glúmsstaðaseli. Þegar við komum að Axaránni sjáum við álftina á klettasyllu í brattri hlíðinni fast við fossinn, einsog að hún lægi á hreiðri sem var auðvitað ekki raunin. Fylgdist hún stóísk með okkur. Var þetta undarlegur staður fyrir álft að halda sig á. Sagði ég Helga Hallgrímssyni alla álftarsöguna þegar ég kom til byggða. Hann spyr hvort ég sé skyggn. Ég neita og bendi á að allir hafi séð álftina. Þá segir Helgi að sagt sé að Lagarfljótsormurinn birtist gjarnan í álftarlíki á undan stórtíðindum. Finn ég strax að skýring Helga muni rétt.

Um miðjan ágúst er ég á ný í ferð niður með ánni. Heitt er í veðri og allt eins unaðslegt og á verður kosið, geti maður gleymt því að ALCOA fékk fossana að gjöf og ætlar að múlbinda þá. Það er lenska í þessum ferðum að taka fjaðrir sem á vegi verða, aðallega gæsafjaðrir og skreyta sig með þeim. Er þá stundum sem fari þar indíánahópur! Ég leita að álftinni minni, orminum mínum, en sé hann hvergi. Þá liggur allt í einu fyrir fótum mér drifhvít álftarfjöður sem enginn hafði komið auga á. Veit ég um leið að þar eru komin skilaboð frá Orminum til mín að nú sé hann kominn í ormshaminn og því finni ég hann ekki í álftarlíki. Var ég hrærð og glöð og huggun að vita að nú sé hann kominn á vaktina að verja sitt Fljót. Ekki hafa Héraðsbúar í sér döngun að reyna að halda hlífiskildi yfir lífæð síns Héraðs, þeirri náttúruperlu og Héraðsstolti sem Fljótið er og ætti að vera. Malda þeir ekki í móinn yfir að foraðinu, Jöklu blessaðri skuli veitt milli vatnasviða, sem er skýrt lögbrot og siðlaust með öllu. Má vart á milli sjá hvort það er meiri móðgun fyrir Jöklu eða Fljótið. Það er eins rangt og hugsast getur að raska þannig jafnvægi Móður Náttúru sem veit hvað hún syngur.

En hún tekur til sinna ráða og Austfirðingar kalla hefnd hennar yfir þjóðina með því að heimta álversskrímslið, Héraðsbúar með að verja ekki sitt Hérað, ríkisstjórnin með siðspillingu og þjóðin með að fljóta sofandi að feigðarósi og vilja ekki vita hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Jökla hefnir sín með Dauðalóni (Hálslóni). Gróðri og náttúruperlum verður drekkt, dýra- og fuglalífi raskað, leirfok spillir lífsgæðum á Héraði um ókomna tíð. Lagarfljót breytist úr dulúðugu vatnsfalli í drullupoll. Ekki þarf skyggnigáfu til að sjá að Austfirðingar verða lagðir í einelti þegar fram líða stundir fyrir að heimta þennan skerf þjóðaeignarinnar með offorsi. Fari á versta veg getur orðið hamfarahlaup. Er þá ekki spurt að leikslokum.

Allt leggst á eitt um að vara okkur við að halda þessari virkjun til streitu, og enn er hægt að hætta við. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir að ,,Kárahnjúkavirkjun … muni hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og að ekki hafi verið sýnt fram á að annar ávinningur af fyrirhuguðum framkvæmdum verði slíkur að hann vegi upp þau verulegu, óafturkræfu, neikvæðu umhverfisáhrif sem framkvæmdin muni fyrirsjáanlega hafa…“ Alþjóð veit að Skipulagsstofnun lagðist gegn framkvæmdinni og gaf falleinkunn. Að auki er eitthvað bogið við að ekki megi tala um nýtt arðsemismat en þjóðin neydd til fjárhagslegrar ábyrgðar á framkvæmdinni. Ekki er seinna vænna að vakna til vitundar og hlusta á viðvaranir, þessa heims og annars.

Að lokum er góð ábending frá Landsvirkjun af kortinu ,,Ferðaleiðir á öræfum umhverfis Snæfell“. Þar er bent á að eyða ekki né spilla gróðri, trufla ekki fugla- og dýralíf og ekki hlaða vörður (bara stíflur!). Svo koma gullvæg orð sem ég bið þá sjálfa og alla íbúa þessa lands að íhuga: MUNIÐ AÐ ÞAÐ ER ENGIN SKÖMM AÐ ÞVÍ AÐ SNÚA VIÐ Í TÍMA.

Höfundur er bóndakona á Vaði í Skriðdal.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

ágú 05 2006

Ógnandi framkoma lögreglu


Fréttablaðið

„Mér var hótað handtöku, það voru teknar myndir af okkur í tjaldbúðunum við Snæfell, ég var krafin um að sýna ökuskírteini og það var skoðað inn í bílinn hjá mér,“ segir Hrund Ólafsdóttir sem var stödd í fjölskyldubúðum við Snæfell í grennd við virkjanasvæðið á Kárahnjúkum um síðustu helgi. „Mér er stórlega misboðið hvernig lögreglan kom þarna fram við venjulega borgara og erlenda gesti.“

Hrund segir að lögregla hafi viðhaft ógnandi framkomu við fólk sem var þarna statt til að taka þátt í friðsamlegum mótmælum og henni kom á óvart hversu margir þeir voru á svæðinu, en hún sá sjálf um það bil tíu lögregluþjóna.

„Við friðsama mótmælastöðu á landi í almenningseign kom lögregluþjónn til mín og hótaði mér handtöku ef ég færi lengra. Fólki er frjálst að vera þarna og því get ég ekki sætt mig við þessa hótun.“ Hrund segir að lögreglumenn í ómerktum bílum hafi tekið myndir af fólki og neitað að upplýsa tilganginn með því. Svo þegar Hrund var á leið burt af svæðinu var hún stöðvuð af lögreglu og krafin um ökuskírteini. „Á meðan gengu sex lögreglumenn kringum bílinn og voru að skoða inn um rúðurnar. Maður veltir fyrir sér hver það er sem borgar þessa löggæslu og hver ákveður að hafa svona marga menn á svæðinu. Mér finnst þessi framkoma lögreglunnar alveg með ólíkindum.“

okt 13 2005

Af meintri arðsemi Kárahnjúkavirkjunar


Þórólfur Matthíasson prófessor í hagfræði.

Margir hafa orðið til að gagnrýna framkvæmdir Landsvirkjunar við Kárahnjúka. Sumir gagnrýnendur telja náttúrufórnir tengdar framkvæmdinni óásættanlegar. Aðrir, þar á meðal stór hópur hagfræðinga, telja að Landsvirkjun og iðnaðarráðuneyti hafi ekki tekist að sýna fram á að ávinningur í krónum og aurum sé meiri en svari til þeirra verðmæta í krónum og aurum sem til er fórnað. Skiljanlega getur verið erfitt að sætta sjónarmið hörðustu náttúruverndarsinna annars vegar og Landsvirkjunar hins vegar. Fyrirfram hefði mátt ætla að auðvelt væri að sætta sjónarmið Landsvirkjunar og hagfræðinga/viðskiptafræðinga og bankamanna. Til þess þarf aðeins að leggja fram gögn og reikna út. En þar stendur hnífur í kú. Gagnrýni hagfræðinga og bankamanna er þríþætt. Í fyrsta lagi er gagnrýnt að framkvæmdin skuli gerð í skjóli ríkisábyrgðar á lánum hennar vegna. Í öðru lagi er gagnrýnt að ekki skuli lagt mat á verðmæti allra þeirra gæða sem fórnað er í þágu virkjunarinnar. Í þriðja lagi er gagnrýnt að arðsemi virkjunarinnar sé lítil og það jafnvel þó svo sumir kostnaðarþættir séu ekki taldir með.

Forstjóri LV reynir að svara gagnrýni í Morgunblaðinu 12. sept. sl. Hann svarar fyrsta atriðinu með því að benda á að Landsvirkjun greiði ríkisábyrgðargjald af lánum. Rétt er það að hægt er að svipta LV hagræðinu af ríkisábyrgð með því að rukka nægjanlega hátt ríkisábyrgðargjald af fyrirtækinu. Í þessu sambandi má minna á að í upphafi stóð til að stofna sérstakt fyrirtæki um stórvirkjun á Austurlandi og beita svokallaðri verkefnafjármögnun. Ekki stóð til að veita því fyrirtæki ríkisábyrgð á lánum. Horfið var frá þessum áformum um verkefnafjármögnun. Það var greinilega mat iðnaðarráðuneytisins og forystu LV um aldamótin 2000 að það væri hagfelldara fyrir verkefnið að taka lán með ríkisábyrgð og ríkisábyrgðargjaldi en án. Landsvirkjun hefur því óbeint upplýst okkur um að ríkisábyrgðargjaldið sé of lágt.

Forstjóri LV telur í svari sínu ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi landsvæðanna sem fórnað er. Til vara bendir hann á að David Bothe hafi komist að þeirri niðurstöðu í doktorsritgerð sinni að núlifandi Íslendingar telji tilvistargildið lítið. Forstjórinn verður að gera upp við sig hvort það sé mögulegt eða ómögulegt að leggja mat á tilvistargildi. Er það ómögulegt ef hann heldur að útkoman verði honum óhagstæð, er það mögulegt ef hann telur að útkoman verði honum þóknanleg? Vonandi er þessi afstaða ekki lýsandi fyrir áætlanagerð fyrirtækisins almennt. En varla getur það talist stórmannlegt af fyrirtæki sem stendur fyrir stærstu framkvæmd Íslandssögunnar að fela sig á bak við niðurstöður námsmanns sem varð að sníða umfang rannsóknar sinnar að afar takmarkandi útgjaldaramma.

Kemur þá að þriðja atriðinu. Forstjórinn vísar til þess að raunarðsemi af Kárahnjúkavirkjun sé ætluð 5,5%. Þessi tala skiptir þó ekki máli má skilja af skrifum hans heldur stærð sem hann kallar arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar. Þessi arðsemi er heil 11% segir hann bara nokkuð drjúgur, enda 11 nákvæmlega tvöfalt stærri tala en 5,5. Hefði ríki, Reykjavíkurborg og Akureyrarbær tekið segjum 25 milljarða af skattfé og lagt fram sem hlutafé í slíku félagi þá er það rétt og satt að arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar hf. hefði skipt skattgreiðendur nokkru máli. En þessi leið var ekki farin. Eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar er afgangsstærð sem verður til þegar ljóst er hver hagnaður LV er þau ár sem framkvæmdir standa á Kárahnjúkasvæðinu. Þessi stærð hoppar upp og niður eftir því hver þessi hagnaður er og hverjir vextir eru á alþjóðamörkuðum. Báðar stærðirnar, eigiðfé Kárahnjúkavirkjunar og arðsemi þess hoppa fram og til baka eins og börn í leikafangabúð um jólaleytið. Með því að hækka vexti á alþjóðamörkuðum úr 3,5% í 7% má lækka útreiknaða arðsemi eiginfjár í 1%. Með því að lækka eiginfjárhlutfallið niður í næstum ekki neitt en ganga út frá 3,5% vöxtum erlendis má láta útreiknaða arðsemi eiginfjár Kárahnjúkavirkjunar verða 100%, 1000%, 1000000% eða hverja aðra tölu sem þykir áhugaverð! En þar fyrir utan þá skiptir þessi tala skattgreiðendur og aðra þegna landsins litlu máli. Það sem skiptir máli er hvaða ávinningur fæst af Kárahnjúkaævintýrinu umfram önnur efnahagsleg ævintýri sem þegar eru sögð og framkvæmd á vegum Íslands hf. Ávöxtun á hlutabréfamarkaði á Íslandi bendir til að ávinningur af fjárfestingum íslenskra einkafyrirtækja sé langt umfram það sem endurspeglast í þeim 5,5% sem forstjórinn nefnir svo feimnislega. Því verður að skjóta inn hér að þessi 5,5% eru of há tala því það er eftir að draga frá kostnað vegna ómetinna umhverfisfórna eins og þegar hefur verið drepið á. Gagnrýnendur Kárahnjúkaframkvæmdanna úr hópi „peningamanna“ óttast þess vegna að virkjanaframkvæmdirnar nú séu á kostnað arðsamari verkefna á vegum einkaaðila. Hafi þeir rétt fyrir sér hefði Ísland hf. verið betur sett án álversvirkjunarinnar fyrir austan.

Svar forstjóra LV er ekki til þess fallið að veita þeim hugarró sem hafa áhyggjur af ávinningi Íslands hf. af Kárahnjúkavirkjun. Þvert á móti vakna efasemdir um hvort æðsta stjórn fyrirtækisins geri sér ljóst hvert umboð hennar sé og hverjir umbjóðendurnir. Það ætti að hvetja til árvekni gagnvart framtíðaráformum fyrirtækisins, því miður.

Höfundur er prófessor í hagfræði við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands (VHHÍ). Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu.

ágú 21 2005

Mótmælendur og andstyggð


Haukur Már Helgason fjallar um aðgerðir Saving Iceland sumarið 2005.

Þegar talað er í niðrandi tóni um „atvinnumótmælendur“ er látið í veðri vaka að þeir stingi tilviljanakennt niður fæti hvar sem eitthvað gerist, og mótmæli því. Þetta er næstum rétt en þar með alveg rangt. Því framvinda heimsins er ekki jafn tilviljanakennd og hún getur virst í nærmynd. Eftir að önnur kerfi lögðu upp laupana er nú eitt kerfi í þann mund að sölsa undir sig veröld manna eins og hún leggur sig, yfirleitt nefnt kapítalismi. Það felur einkum í sér að skiptagildi hluta og fyrirbæra í heiminum er gert hærra undir höfði en raungildi nokkurs í lífi manneskju. Enda er skiptagildi þægilegra en raungildi, að því leyti að það má mæla og því má safna. Read More

ágú 20 2005

Vald og víðerni


Ólafur Páll Jónsson fjallar um aðgerðir lögreglu gegn Saving Iceland sumarið 2005.

Í sumar risu tjaldbúðir við Kárahnjúka þar sem stærsta jarðvegsstífla Evrópu mjakast upp. Á ferðinni var hugsjónafólk sem stendur ekki á sama um stærstu óspilltu víðerni Evrópu og margar af dýrmætustu náttúruperlum Íslands. Það vildi mótmæla virkjanaframkvæmdum og byggingu risaálbræðslu við Reyðarfjörð (á við 2 álbræðslur Alcan í Straumsvík). Í lok júlí dró til tíðinda eftir að mótmælendur fóru inn á vinnusvæði og ollu töfum og tjóni sem Sigurður Arnalds, talsmaður Landsvirkjunar, segir að nemi tugum eða hundruðum þúsunda. Nokkrir mótmælendur voru handteknir og leyfið fyrir tjaldbúðunum var afturkallað. Á meðan búðirnar voru fluttar að Vaði í Skriðdal barst lögreglunni liðsauki svo ekki færri en 20 lögreglumenn á 9 bílum vöktuðu vinnusvæðið og víðernin norðan Vatnajökuls – fólk í sumarfríi var stoppað og spurt á hvaða leið það væri, hverra erinda og hvort það hefði séð til grunsamlegra mannaferða. Read More

júl 19 2004

Ávarp Þorleifs Haukssonar við stjórnstöð Landsvirkjunar á degi hálendisins 19. júlí 2004


Þessa blíðviðrisdaga hefur aragrúi fólks streymt út um land til að njóta dásemda íslenskrar náttúru sem skartar sínu fegursta. Samt er þessi dagur, sem hefur verið útnefndur dagur hálendisins, merktur sorg og reiði. Þennan dag í fyrra drógu landverðir upp fána, sína eigin fána, í hálfa stöng á hálendinu í minningu samninganna við Alcoa – og fengu bágt fyrir hjá stjórnvöldum. Nú drögum við okkar eigin fána í hálfa stöng á flaggstengur Landsvirkjunar, sem okkur skilst að sé í eigu okkar allra.

Þetta fyrirtæki hefur í umboði stjórnvalda þröngvað inn á okkur hrikalegustu náttúruspjöllum Íslandssögunnar á örfáum síðustu árum, án þess að gefa okkur eigendum sínum neitt tóm til að afla okkur upplýsinga um stærð, umhverfisáhrif og afleiðingar þessara risaframkvæmda.

Mikið hefur verið talað um lýðræði á opinberum vettvangi upp á síðkastið. Manni skilst á stjórnvöldum að þau telji lýðræðið því traustara sem almenningi er haldið fjær allri ákvarðanatöku. Þetta kemur svo sem engum á óvart sem kynnir sér tildrög Kárahnjúkavirkjunar. Read More

júl 07 2004

Mótmæli við fyrstu skóflustungu að álveri ALCOA í Reyðarfirði


Fréttatilkynning frá Náttúruvaktinni

Fimmtudaginn 8. júlí verður tekin fyrsta skóflustungan að væntanlegu álveri við Reyðarfjörð. Þar með mun bandaríska risafyrirtækið Bechtel taka opinberlega við yfirráðum á byggingarsvæði fyrirhugaðs álvers í Reyðarfirði. Bætist þar enn eitt risafyrirtækið með vafasama fortíð að baki í hóp þeirra sem þegar eru viðriðin virkjunar- og stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi. Bechtel hefur bæði verið bendlað við efnavopn í Írak og situr nú að milljarðaverkefnum þar á vegum Bandaríkjastjórnar. Fyrirtækið hefur reyndar einbeitt sér að nýtingu vatns fremur en olíu. Nýjasta afrekið á því sviði fólst í einkavæðingu vatnsveitna í Bólivíu og stórhækkun á verði þannig að vatn varð munaðarvara sem fátækar fjölskyldur urðu að neita sér um. Bechtel er ekki síður þekkt en Alcoa og Impregilo fyrir lítilsvirðingu á réttindum starfsfólks í ýmsum heimshlutum. Nú er fyrirtækinu falið að byggja upp farveg íslenskrar vatnsorku til mengandi stóriðjuframkvæmda.

Read More

mar 22 2004

Kárahnjúkavirkjun mótmælt á Tate Modern sýningu Ólafs Elíassonar


Morgunblaðið 22. mars 2004

Virkjun mótmælt á lokadeginum

EFNT var til mótmæla gegn Kárahjúkavirkjun í Tate Modern-safninu í gær á síðasta sýningardegi Ólafs Elíassonar. Hópur fólks, bæði Bretar og Íslendingar búsettir í London, safnaðist saman í túrbínusalnum upp úr hádegi og opnaði regnhlífar á gólfi salarins á meðan bréfmiðum var hent ofan af svölum og niður á gólf.

Áletranir með slagorðum gegn virkjuninni voru á regnhlífunum og á miðunum var vitnað í ummæli Ólafs í blaðinu Guardian frá desember sl. þess efnis að Alcoa væri að eyðileggja hálendi Íslands með stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar. Vöktu þessi mótmæli mikla athygli, en voru friðsöm að sögn blaðamanns Morgunblaðsins sem staddur var á sýningunni í gær.

Meðal áletrana voru: „Don’t let the sun go down on Iceland“ og vísað þar til sólarinnar í verki Ólafs. Í tilkynningu frá mótmælendum segir að með Kárahnjúkavirkjun sé verið að stíga skref aftur til 20. aldar.

Sjá nánar (á ensku): Umbrella Protest in Tate Modern

mar 31 1998

Hin skrínlagða heimska


Pétur Gunnarsson fjallar um aðdraganda Eyjabakkadeilunnar og Kárahnjúkastríðsins.

Árið 1995 gaf markaðsdeild Iðnaðarráðuneytis og Landsvirkjunar út bækling sem nefnist: „Lowest Energy Prices“ (Lægsta orkuverðið). Það er ekki hlaupið að því að nálgast þennan bækling, markaðsdeild Iðnaðarráðuneytisins hefur innkallað hann, hann fyrirfinnst ekki á Borgarbókasafni né Þjóðarbókhlöðu, eitt eintak er skráð í bókasafni Seðlabankans, til skoðunar á staðnum, en reyndist ekki heldur tiltækt þar og fannst að lokum í skjalasafni fyrrnefnds banka í einu úthverfa bæjarins.

Í þessum sjaldgæfa og samt tiltölulega nýja bæklingi eru tíundaðir kostir þess að við Íslendingar skulum geta boðið allra lægstlaunaða vinnuaflið í sambærilegum ríkjum Evrópu, auk þess – og takið nú vel eftir – séu starfsleyfi fyrir stóriðju hérlendis vanalega samþykkt með lágmarkskröfum til umhverfismála („the operating licence is usually granted with a minimum of environmental red tape“).

Í framtíðarsýn núverandi iðnaðarráðherra á Ísland að verða rafhlaða sem knýr álbræðslur heimsins. Þessi nútíma Skugga-Sveinn gín yfir öræfum landsins og til halds og trausts hefur hann sinn Ketil skræk sem samþykkir allt sem hann mælir fyrir um og er svo þjálfaður að skrifa upp á starfsleyfi fyrir álbræðslur að hann er iðulega búinn að því áður en þær ná að ganga frá formsatriðum umsóknarinnar, enda eins og segir í bæklingnum: starfsleyfi fyrir stóriðju hérlendis er vanalega samþykkt með lágmarkskröfum til umhverfismála.

„Fólk hefur ekki ímyndunarafl til að skilja stjórnmálamenn“ segir í Atómstöðinni, en ef þessi áform næðu fram að ganga væri úti um það Ísland sem við teljum okkur þekkja í dag.

Í hverju felst aðdráttarafl íslenskrar náttúru? Þetta sem gerir að verkum að við getum ekki án hennar verið og verðum sem oftast að hafa hana fyrir augunum og vita að hún „vakir og lifir þó enn“. Það er af því að hún er ómanngerð – þetta orð hefði ekki skilist fyrir fáeinum áratugum – en fær áþreifanlegri merkingu með hverju árinu eftir því sem fleiri neonljós ber við eiturbrasaðan himin, olíubrákin glampar víðar á þríkrossuðum höfunum og malbikið skríður hraðar yfir jarðskorpuna. Eftir því sem þessi heimsmynd verður skýrari því ómetanlegra verður Ísland í öllum sínum ósnertanleika, öræfin eru dulvitund landsins, og það er í dulvitundinni sem draumarnir búa og sköpunin – allt sem er dýrast og upprunalegast.

Í dag – eins og á Sturlungaöld – stendur okkur mest hætta af okkur sjálfum, það er fyrst og fremst valdabaráttan, auðlindasölsunin innanlands, sem við þurfum að horfast í augu við. Það er búið að taka af okkur miðin, næst á að snúa sér að landinu og koma því í hlutabréfatækt form. En það er ekki þar með sagt að við verðum rekin í burtu, þvert á móti, okkur býðst eftir sem áður að vera: „lægslaunaða vinnuaflið í sambærilegum ríkjum Evrópu“.

Í hvert skipti og óráðskennd áform á borð við þessi spyrjast út, rýkur þjóðin upp til handa og fóta með andfælum og mótmælir hástöfum. En ofvirkjunarmenn eru ekki af baki dottnir, þeir taka málið einfaldlega af dagskrá, bæklingur sem aldrei var ætlaður fyrir almenningssjónir á Íslandi er innkallaður, ekki að þeir séu hættir við, þvert á móti; undirbúningur er í fullum gangi, aðeins er hann ekki til umræðu.

Það er þessi íslenska þögn, svo lífgefandi á öræfum uppi, en að sama skapi þrúgandi í opinberri umræðu. Þess vegna er okkur lífsspursmál að eiga fjölmiðla sem halda vöku sinni, sem upplýsa okkur um gang mála í þessu litla en lokaða samfélagi okkar og hafa úthald og siðferðisþrek til að fylgja málum eftir og afhjúpa þegar brögð eru höfð í frammi.

Hin skrínlagða heimska má aldrei ná að ríkja yfir Íslandi.

Höfundur er rithöfundur.

Flutt á Rás 1 31. mars 1998 og birt í Glettingi 1998.

 

des 31 1970

Hernaðurinn gegn landinu


Á gamlársdag árið 1970 birti Halldór Laxness grein í Morgunblaðinu, sem hann nefndi „Hernaðinn gegn landinu“. Tilefni greinarskrifanna voru hugmyndir á þeim tíma um framkvæmdir í Laxá og Norðlingaöldulón í Þjórsárverum. Greinin birtist síðar í bók höfundar Yfirskygðir staðir, sem kom út hjá Helgafelli árið 1971 og er sú útgáfa greinarinnar birt hér.

Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin, kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vera að okkur sé nokkur vorkunn í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. Nokkur svæði í miðjarðarhafslöndum Evrópu, einkum Grikkland, komast því næst að þola samanburð við Ísland að því er snertir spillingu lands af mannavöldum.

Read More

Náttúruvaktin