'Ál' Tag Archive

jan 01 2004

Fordæmd þjóð – The Ecologist


blessunEftir Mark Lynas

 

Ég hafði aðeins verið á Íslandi í þrjá daga og allt gekk á afturfótunum. Ég var þar til að kanna hið risavaxna álbræðsluverkefni við Kárahnjúka. Verið er að byggja tröllaukna stíflu til rafmagnsframleiðslu á afskekktu svæði á hálendinu í austurhluta landsins. Kárahnjúkaverkefnið var afar umdeilt meðan það var enn á áætlanastigi, hrinti af stað mótmælum um land allt, herferðum um heim allan með tölvupósti og faxi og móðir söngkonunnar Bjarkar fór meira að segja í hungurverkfall. Þar sem ég hafði fylgst með stíflugerð eyðileggja náttúrulegt landslag og samfélög manna á stöðum á borð við Indland og Brasilíu þótti mér nokkuð ljóst að stórar stíflur væru yfirleitt af hinu vonda.

Samt var ég nú staddur á skrifstofu Þorsteins Hilmarssonar, blaðafulltrúa hins íslenska, ríkisrekna orkufyrirtækis Landsvirkjunar og hann var að sannfæra mig um að Kárahnjúkar væru reyndar til góðs. „Mikið af umræðunni hefur verið „annaðhvort eða“,“ sagði hann, „til dæmis að maður annaðhvort noti vatnsföllin til orkufreks iðnaðar eða láti náttúruna óspjallaða og vinni að ferðamennsku.“ En á Íslandi, benti Þorsteinn á, eflir vegagerðin ferðamennskuna en vegagerð er hliðargrein við orkuvinnsluna.

Og hvernig heldur þú annars að ferðamenn komist til landsins? „Þeir koma með flugvélum, og flugvélar eru smíðaðar úr áli.“ Það má bræða með kolum á stöðum eins og Ástralíu, hélt hann áfram, en það mundi hafa í för með sér 10 sinnum meiri útblástur gróðurhúsalofttegunda, eða það er hægt að framleiða það með hreinni raforku á Íslandi. Með því að nota endurnýjanlega orku í stað kola til að knýja álbræðslu minnkar útblástur kolefnislofttegunda í heiminum (staðreynd sem viðurkennd er með hinu svokallaða „íslenska ákvæði“ í Kyotosamkomulaginu um loftslagsbreytingar). Þetta markmið – auk eflingu hagvaxtar á afskekktum svæðum á Íslandi þar sem menn horfast í augu við fólksfækkun þegar fólk flytur til Reykjavíkur í atvinnuleit – er að baki stefnu ríkisstjórnarinnar um að þróa orkufrekan iðnað. Eins og Þorsteinn útskýrði þetta virtust Kárahnjúkar vera fullkomlega skynsamlegir.

Hættið að vera skynsamlegir

Fáeinum dögum seinna var ég nokkur hundruð kílómetra norðaustan við Reykjavík og hossaðist eftir moldarvegi í áttina að sjálfum virkjunarstaðnum í jeppa sem Sigurður St. Arnalds átti. Sigurður útskýrði sumar helstu tölulegar staðreyndir um Kárahnjúka af smitandi áhuga. Hann er verkfræðingur að mennt og sér nú um almannatengsl á staðnum. Stærsta vatnsforðabúrið, Hálslón, mun ná yfir 57 ferkílómetra svæði og verður gert með hæstu grjótstíflu Evrópu – gríðarmiklum stíflugarði sem verður 190 metra hár. Sjö smærri stíflur munu fullgera verkefnið. Saman munu stíflurnar veita vatni í gegnum 16 neðanjarðargöng inn í stöðvarhús sem grafið verður djúpt inn í fjall 600 metrum neðar.

Með 4.400 gígawattstunda framleiðslugetu á ári mun raforkan sem fæst knýja nýja álbræðslu sem reist verður og rekin á Reyðarfirði á austurströnd Íslands af bandaríska fyrirtækinu Alcoa. Samtals mun allt þetta kosta meira en 1 milljarð dala.
Það væri úrdráttur að kalla landslagið eyðilegt. Aðeins 20 kílómetrum norðan við Vatnajökul, stærsta jökul Evrópu, blés kuldastormur yfir hásléttuna og lág skýin gældu við gráar hæðirnar. Mikið af hálendi Íslands er nánast eyðimörk – vegna margra alda ofbeitar, þunns jarðvegs úr eldfjallaösku, lágs hitastigs og mikilla vinda – og ekki virtist vera umtalsverður gróður á miklum hluta þess svæðis sem fara á undir vatn. Fáeinir eyðilegir, grænir blettir gægðust upp úr sand- og malarflákunum en maður var yfirleitt ekkert uppnuminn. Þetta gátu verið öræfi, hugsaði ég, en hvers virði? Kárahnjúkaverkefnið mundi heldur ekki hrekja fólk úr bústöðum sínum, sem er algengt vandamál varðandi stórar stíflur annars staðar. Ástæðurnar eru augljósar, enginn býr nærri þessum stað.

„Við höfum ekki mikið af villtum dýrum hér,“ segir Sigurður Arnalds. „Við fluttum inn hreindýr frá Noregi fyrir 250 árum, og nú ganga þau villt um Austurland. Kárahnjúkar munu hafa áhrif á þriðjung stofnsins og dýr sem bera á svæðinu munu þurfa að flytja sig í aðra dali.“ Þar fyrir utan var reiknað með að hreiðurstæði 600 heiðagæsa færu á kaf en í heild er gæsunum að fjölga og samtals verpa um það bil 50.000 gæsir á Íslandi. (Gæsirnar eru meira að segja svo margar að vel má veiða úr stofninum.) Ekki yrðu heldur mikil áhrif á fisk, hinar risastóru jökulár sem Kárahnjúkaverkefnið hefur áhrif á eru nú of leirugar og kaldar til að þar þrífist markverð vatnavistkerfi. Ég var upplýstur um það að reyndar gæti það gerst að í hinni stærstu af þessum ám, Jökulsá á Dal, yrði jafnvel til nýr laxastofn í tærara vatni úr þverám sem rynnu í farveg hennar neðar þegar búið væri að veita hinni skítugu meginá í næsta dal.

Að flytja fjöll

Ég var gáttaður á einberu umfangi þess sem var að gerast. Risastórar gular jarðýtur – meira en tylft þeirra á hvorri hlið gapandi gljúfurs – fóru upp og niður hlíðina og skófu svartan jarðveginn ofan af grunnberginu og ýttu honum fram af brúninni ofan í stríðan straum Jökulsár á Dal. Gröfur og vélskóflur voru líka þrotlaust að störfum, langleiðina upp að tindi sjálfs Kárahnjúkafjallsins [Fremri Kárahnjúkur…] og höfðu þegar grafið risastórt þríhyrnt ör niður frá hlíðum tindsins. Vegir voru þvers og kruss um allt svæðið og flutninga- og vörubílar drundu á ferð upp og niður sveipaðir rykskýjum. Við fórum niður einn nýja veginn ofan í sjálft gljúfrið. Beljandi árniðurinn yfirgnæfði næstum bílhljóðið og við settum ljósin á þegar við komum inn í dimm göng.

Vatn og lag af brúnni leðju rann yfir allt gólf jarðganganna og loftið var þykkt af dísilreyk frá jarðýtunum og vörubílunum sem voru að störfum þar inni – þrátt fyrir að risastór loftræstipípa lægi eftir endilöngu loftinu. Ég sullaðist í gegnum leðjuna inn að sprengisvæðinu þar sem tveir menn í rauðum samfestingum voru að- störfum hátt uppi í lyftara og stungu stautum úr sprengiefni gætilega inn í nýboraðar holur. Tugir kveikivíra héngu út úr bergstálinu og tómir pappakassar merktir „dínamít: 32mm X 100mm“ lágu sem hráviði í pollum við jaðar ganganna. Við fórum aftur upp í jeppann og ókum inn í hliðargöng sem lágu út á blábrún gljúfursins – og þrýstum okkur upp að bergveggjunum meðan risastór trukkur ruddist hjá og sturtaði hlassi sínu í ána fyrir neðan. Ryk féll reglulega hátt að ofan, þar sem jarðýtur sem við sáum ekki voru enn að ýta hundruðum tonna af aur yfir brúnina.

Óskapleg stærð verkefnisins sást aðeins greinilega frá útsýnisstað hátt uppi í dalnum hinumegin. Jarðýturnar litu út eins og gulir maurar að störfum í fjarlægðinni, og íshetta Vatnajökuls lá þvert yfir sjóndeildarhringinn eins og risavaxin grá pönnukaka. „Áhrifin á dýralífið eru að mínu mati afskaplega hófleg,“ sagði Sigurður Arnalds um leið og slyddyhryðja dundi á framrúðu jeppans. „Það er eitthvað af fiski en samanborið við önnur svæði er það mjög lítið.“ Ég spurði hvort verkefnið eyðilegði öræfin. „Það eyðileggur ekki en minnkar öræfin að vissu marki,“ leiðrétti hann mig.

Til lengri tíma hefði umferð ferðamanna orðið að minnsta kosti jafnmikill átroðningur. Allir nýju vegirnir hafa opnað svæðið, sem var að verða þekkt sem hinn nýi „Gullni hringur“ Íslands, með öllum sínum fossum, gljúfrum og ósnortnum dölum. (Sá gamli, sem náði yfir Geysi og Gullfoss og er ekki svo langt frá Reykjavík, er þegar undirlagður af rútuförmum af túristum.)

Þegar allt kom til alls hafði ég það á tilfinningunni að Kárahnjúkaverkefnið væri miklu skaðlausara en maður hefði búist við af svo stórri áætlun, og að heildaráhrifin gætu jafnvel verið til góðs í því að draga úr hnattrænum loftslagsbreytingum. Þessar góðu hugsanir fylgdu mér þar til ég var kominn til baka til Englands og rannsakaði málið frekar. Þá rakst ég á nokkur gögn sem mér hafði yfirsést áður og uppgötvaði að veruleikinn var nokkuð annar. Staðfestingu sannleikans var ekki að finna í skýrslu sem skrifuð var af einhverjum grænum baráttuhópi, heldur í upphaflegu mati verkefnisins á umhverfisáhrifum sem pantað var af Landsvirkjun sjálfri.

Taka tvö

Það fyrsta sem ég komst að var hve auðvelt það er að fara á mis við raunverulegt vistfræðilegt gildi svæðis þegar þú gerir ekki annað en að aka um það daglangt á jeppa. Það sem hafði virst eyðilegt og líflaust reyndist vera fágætt lyngi vaxið búsvæði, þar sem uxu nokkrar tegundir af mosa og skófum í útrýmingarhættu auk annarra plöntutegunda sem eru lífsnauðsynlegar fyrir beit hreindýra og gæsa. Um 280 tegundir smádýra hafa verið greindar við Kárahnjúka af vísindamönnum við Náttúrufræðistofnun Íslands. Meðal þessara tegunda eru þrjár skordýrategundir sem aldrei hafa fundist fyrr á Íslandi og tvær þeirra gætu verið algjörlega nýjar fyrir vísindin yfirleitt. Ekki aðeins verða níu ferkílómetrar þessa dýrmæta lyngsvæðis færðir beinlínis á kaf (þar á meðal eini þekkti vaxtarstaður einnar af fágætustu skófum landsins), heldur mun jarðvegsuppblástur frá bökkum lónsins valda sandstormum og rykþurrkun votlendis og eyða gróðri langt fyrir utan hið eiginlega framkvæmdasvæði.

Þar fyrir utan bendir umhverfismatið á mörg einstæð jarðfræðileg einkenni sem einnig munu brátt fara undir vatn – þar á meðal óvenjulegar jökulöldur sem þar hafa sest, tvo meiriháttar fossa (annar þeirra mun að lokum hverfa að eilífu undir setlög lónsins), heita hveri, og efsta hluta hins stórfenglega Hafrahvammagljúfurs (Grand Canyon Íslands).

Hugmyndin sem gestgjafi minn á virkjunarstaðnum sagði mér frá, að fiskur mundi blómstra í hinu nýja, ferska vatni Jökulsár á Dal um leið og meginjökulvatninu væri veitt í burtu, þolir heldur ekki nánari athugun. Seint á hverju sumri mun lónið flæða yfir og hin volduga jökulá mun byltast enn og aftur og skola niður öllu nýju lífi. Og með minna setfalli allsstaðar verður árósinn viðkvæmari fyrir rofi af völdum hafsins. Þetta eru slæmar fréttir fyrir grágæsina sem er í sárum við ósana, og einnig fyrir landselinn – en stofn hans er þegar mjög á undanhaldi og gæti hrunið enn frekar þegar meginstíflan hefur verið byggð. Raunar er það svo að áhrif Kárahnjúka á dýralíf gætu orðið svo neikvæð að Alþjóðlega fuglaverndunarfélagið, WWF og nokkrir aðrir hópar eru að berjast fyrir því að málssókn verði hafin gegn Íslandi á grundvelli Bernarsáttmálans um verndun evrópsks dýralífs og náttúrulegra búsvæða (bæði heiðagæs og grágæs eru verndaðar dýrategundir“ undir viðbæti III í sáttmálanum).

Þá má nefna áhrif stíflunnar á rennsli hinnar árinnar sem fyrir áhrifum verður -Jökulsár í Fljótsdal sem mun flytja allt afgangsvatn frá orkuverinu niður í Lagarfljót sem er í dal á láglendinu. Vatnsborð vatnsins mun hækka, það mun dökkna að lit og hitastig vatnsins mun lækka um hálfa gráðu og með því veikja vatnavistkerfið og draga úr fæðuframboði fyrir fisk og endur. Þegar allir þessir frekari áhrifaþættir eru teknir með í reikninginn mun verkefnið í allt hafa áhrif á 3.000 ferkílómetra svæði – nærri 3% alls landsvæðis Íslands.

Það kemur því varla á óvart að Skipulagsstofnun landsins hafi upphaflega hafnað Kárahnjúkaverkefninu, þó ekki væri nema til þess að sú ákvörðun yrði svo numin úr gildi af umhverfisráðherra Íslands, sem veitti framkvæmdaleyfi af pólitískum ástæðum eftir að hafa fyrirskipað nokkrar minniháttar breytingar.

Það sem meira er, sá ávinningur sem talinn var Kárahnjúkum til tekna varðandi hitun jarðar er heldur ekki til staðar svo nokkru nemi. Eins og verndunarsamtökin International Rivers Network (IRN) benda á, lokaði Alcoa reyndar á síðasta ári þrem álbræðslum í Bandaríkjunum (tvær þeirra voru rafknúnar) vegna kostnaðarþátta og of mikillar framleiðslugetu. Rafgreiningarferlið við álbræðslu hefur einnig í för með sér útblástur tetraflúorometans og hexaflúorometans – gróðurhúsalofttegunda sem eru mörg þúsund sinnum kraftmeiri í því að hefta sólarhitann heldur en koltvísýringur.

Sannleikurinn er sá að Alcoa flytur til Íslands vegna þess að þar er orkan ódýrari. „Ef Alcoa væri í raun og veru annt um loftslagsáhrif gæti fyrirtækið farið út í meiri endurvinnslu,“ stingur Peter Bosshard upp á, hann er talsmaður IRN og er einnig höfundur nýlegrar skýrslu: Karahnjukar: verkefni á þunnum ís. Bosshard reiknar út að ef næðist hærra endurvinnsluhlutfall fyrir hina 100 milljarða drykkjadósa sem Alcoa framleiðir á hverju ári væri auðveldlega hægt að framleiða meira ál en nokkrar bræðslur eins og sú sem fyrirhuguð er á Íslandi. „Það er vitfirring að byrja á að eyðileggja stór svæði af óbyggðum aðeins fyrir ódýrara ál,“ fullyrðir hann.

Tröllaukin umhverfisflónska

Reyndar er það svo að ef álmálið er skoðað heildrænt eins og Þorsteinn Hilmarsson, blaðafulltrúi Landsvirkjunar krefst, verða fleiri annmarkar fljótt augljósir. Þorsteinn benti á að ál væri lífsnauðsynlegt fyrir flugvélar sem flytja ferðamenn til Íslands. Samt hefur baráttuhópur gegn námavinnslu, „Neðanjarðarverkefnið“ reiknað út að Ameríkanar fleygi á þrem mánuðum nægilega miklu áli til að endurbyggja allan flota bandarískra flugfélaga. Þar að auki notar endurvinnsla áls aðeins 5% þeirrar orku sem þarf til að vinna málminn úr báxíti. Ekkert af báxítinu verður grafið úr jörð á Íslandi svo það þarf að flytja það inn sjóleiðis frá öðrum löndum – í því ferli er mikil jarðefnabrennsla og útblástur. Þá er báxítvinnsla heldur ekki umhverfisvæn þar sem hún er stunduð: samfélög nærri námum í brasilíska ríkinu Para hafa kvartað yfir mengun frá eitruðu rauðu slabbi; í Súrínam sendu þorpsbúar ályktun til forseta landsins til að mótmæla þeirri eyðileggingu og mengun á landi þeirra sem fyrirtækið Suralco olli – sem sjálft var dótturfyrirtæki Alcoa (sjá box til hægri).

Pólitísk grundvallarréttlæting Kárahnjúka er sköpun atvinnu á Austfjörðum. Firðirnir eru eitt afskekktasta og minnst þróaða svæði landsins; fólki fækkaði þar um 10% á tíunda áratug síðustu aldar. En með verðmiða upp á 1,4 milljarða Bandaríkjadala fyrir virkjunina eina og annan upp á 1,1 milljarð fyrir álbræðslu Alcoa er Kárahnjúkaverkefnið lamandi dýr aðferð til atvinnusköpunar. Jafnvel þótt það væri rétt mat hjá ríkisstjórn Íslands að Kárahnjúkar muni skapa 1.000 varanleg störf á svæðinu er þetta samt verðmiði upp á 2,5 milljónir dala á hvert starf – meira en nóg fyrir hvern starfsmann til að fara á eftirlaun í vellystingum og þá gætu óbyggðirnar fengið að vera ósnertar. Það er reyndar efamál hvort tekjuháir Íslendingar hafi nokkurn áhuga á því að vinna í iðnaðarbræðslu. Mikill hluti starfanna við byggingarvinnuna á stíflusvæðinu hefur hingað til verið unninn af útlendingum.

Og tölurnar virðast heldur ekki ganga upp. Arðsemi verkefnisins var upphaflega metin á grundvelli hás álverðs. Samt heldur verðið áfram að lækka á veraldarvísu vegna offramboðs. Einn íslenskur hagfræðingur hefur reiknað út að í stað þess að vera ábatasamt muni verkefnið tapa um 36 milljónum bandaríkjadala á ári. Það þýðir í raun að ríkisstjórn Íslands gæti endað með því að nota fé skattgreiðenda til þess að ríkisstyrkja óbeint álframleiðslu erlends fjölþjóðafyrirtækis með eigin bakgarð eyðilagðan í leiðinni.

Hvers vegna er þá yfirleitt verið að halda áfram? Eins og Heimsnefndin um stíflugerð (World Commission on Dams), sem nú er óvirk, benti á, leika þröngir hefðhelgaðir hagsmunir banka, skrifræðis ríkisstjórna og orkufyrirtækja í þjóðareign oft aðalhlutverk í stórum stífluverkefnum. En ofar því ríkir hið kerfislæga. Kapítalískt hagkerfi getur ekki þrifist án stöðugs vaxtar í bæði efnislegri neyslu og hagnaði fyritækja – og það er mjög lítið af hvoru í því að endurvinna bara gamlar kókdósir. Stíflan verður byggð. Það þarf að fóðra skrímslið.

ALCOA

Með 127.000 starfsmenn í 40 löndum og 20,3 milljarða í heildartekjur árið 2002 er Alcoa risafyrirtæki, jafnvel á hnattrænan mælikvarða dagsins í dag. Það er einnig vel tengt pólitískt; fyrrverandi iðnjöfur Paul O’Neill var (þangað til hann var rekinn) fjármálaráðherra George W Bush.

Hin risavaxna verksmiðja Alcoa, Rockdale, er einn af stærstu mengunarvöldum í Texas og spýr út þúsundum tonna af gróðurhúsalofttegundum og brennisteinstvísýringi ár hvert. Í Brasilíu fær Alcoa ódýra orku fyrir bræðslu á Amasonsvæðinu frá stíflu sem hrakti 35.000 manns frá heimkynnum sínum og færði á kaf 2.820 ferkílómetra af hitabeltisregnskógum þegar flóðgáttum stíflunnar var lokað árið 1984. Alcoa leitar nú eftir nýjum tilslökunum vegna stíflugerðar á öðrum stöðum á Amasonsvæðinu. En stærsta náma Alcoa, og heimsins stærsta náma er Huntly náman í Ástralíu – er ástæðan fyrir ruðningi risastórra svæða í Jarra-frumskóginum í Vestur-Ástralíu. Meðan sjálfbærniskýrsla fyrirtækisins árið 2003 gortar af „endurreisn“ skógarins eftir að námavinnslunni verði lokið við Huntly, talar Skógabandalag Vestur-Ástralíu um að „risavaxin svæði af frumskógi í ríkiseign“ séu „eyðilögð af báxítnámi“.

Greinin á ensku

Damned Nation – The Ecologist – PDF

apr 08 2002

Atkvæðagreiðsla um Kárahnjúkavirkjun


Alþingi Íslendinga þann 8. apríl 2002

Frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal.

Samþykkt með 44 atkvæðum gegn 9, 2 sátu hjá, 8 voru fjarstaddir.

Arnbjörg Sveinsdóttir
Árni M. Mathiesen
Ásta Möller
Bryndís Hlöðversdóttir
Einar K. Guðfinnsson Read More

des 31 1970

Hernaðurinn gegn landinu


Á gamlársdag árið 1970 birti Halldór Laxness grein í Morgunblaðinu, sem hann nefndi „Hernaðinn gegn landinu“. Tilefni greinarskrifanna voru hugmyndir á þeim tíma um framkvæmdir í Laxá og Norðlingaöldulón í Þjórsárverum. Greinin birtist síðar í bók höfundar Yfirskygðir staðir, sem kom út hjá Helgafelli árið 1971 og er sú útgáfa greinarinnar birt hér.

Af öfugmælanáttúru sem íslendíngum er lagin, kappkosta sumir okkar nú að boða þá kenníngu innan lands og utan, einkum og sérílagi þó í ferðaauglýsingum og öðrum fróðleik handa útlendíngum, að Ísland sé svo landa að þar gefi á að líta óspilta náttúru. Margur reynir að svæfa minnimáttarkend með skrumi og má vera að okkur sé nokkur vorkunn í þessum pósti. Hið sanna í málinu vita þó allir sem vita vilja, að Ísland er eina landið í Evrópu sem er gerspilt af mannavöldum. Því hefur verið spilt á umliðnum þúsund árum samtímis því að Evrópa hefur verið ræktuð upp. Nokkur svæði í miðjarðarhafslöndum Evrópu, einkum Grikkland, komast því næst að þola samanburð við Ísland að því er snertir spillingu lands af mannavöldum.

Menn komu hér upphaflega að ósnortnu heiðalandi sem var þéttvaxið viðkvæmum norðurhjaragróðri, lýngi og kjarri, og sumstaðar hefur nálgast að vera skóglendi; hér var líka gnægð smárra blómjurta; og mýrar vaxnar háu grasi, sefi og stör, morandi af smákvikindum allskonar og dróu að sér fugla svipað og Þjórsárver gera enn þann dag í dag.

Mart bendir til þess að fólk er hér settist að hafi litið á náttúru Íslands einsog bráð sem þarna var búið að hremma. Skynbragð á fegurð lands var ekki til í þessu fólki. Slíkt kom ekki til skjalanna fyren þúsund árum eftir að híngað barst fólk. Á 13du öld skrifar Snorri Sturluson bók um eitt fegursta land heimsins, Noreg, rúmt reiknað 1000 blaðsíður, án þess séð verði að höfundi hafi verið kunn, aukin heldur meir, sú hugmynd að fallegt sé í Noregi. Orðið fagur á íslensku þýddi reyndar bjartur áður fyrri. Sú hugmynd af náttúran sé fögur er ekki runnin frá sveitamönnum, heldur fólki úr stórborgum seinni tíma, og náði loks til okkar íslendínga úr Þýskalandi gegnum Danmörku í tíð afa okkar. Náttúra verður auðvitað ekki falleg nema í samanburði við eitthvað annað. Ef ekki er til nema sveit er náttúran ekki falleg. „Óspilt náttúra“ er því aðeins falleg nú á dögum að hún sé borin saman við borgir þángað sem menn hafa flúið af því sveitin veitti þeim ónóga lífsafkomu; og búa þar nú við vaxandi óhægindi, sumstaðar einsog í víti.

Hafi einhverntíma verið hlýrra og lygnara hér en núna, þó ekki hefði verið nema í þúsund ár, til dæmis á þeirri tíð sem tré urðu hér eins stór og viðarbolurinn steingerði af Vestfjörðum, sem ég sá einusinni, og hafði minnir mig á annað hundrað árhrínga, þá er ekkert því til fyrirstöðu að Ísland hafi verið grænt, kanski skógur á Spreingisandi. Að hinu leytinu hafa menn séð landsvæði sem í æsku þeirra voru græn og fögur verða að Spreingisandi.

Vindar voru ugglaust orðnir óvinir gróðurs á hálendinu fyrir landnámstíð. Síðan kom mannfólk með búsmala sinn og gekk í lið með vindinum með því að etja beitarfé á viðkvæmar seinvaxnar jurtir uppsveitanna; menn voru að leita sér að tilveruhorni hver og einn útaf fyrir sig. Sumt þessara hálendisbygða hefur að því menn hyggja lagst af aftur vegna örfoks um það landnám var úti. Geitur og sauðfé, sem og smávaxinn miðaldanautpeníngur, einsog hnúta sú bar vott um úr Surtshelli sem árfærð var til A.D. 940, alt gekk úti vetur og sumar. Búsmalinn nagaði ofaní mold þann gróður sem fyrir var; og vindurinn var búinn að feykja moldinni burt áðuren hægfara græðimáttur þessa kalda loftslags feingi ráðrúm til að bæta í skörðin.

Af örnefnum má skilja að þessir menn hafi alið með sér akurvonir í hinu nýa landi; en ef þeir ekki brendu kjörrin í dölum og á nesjum til að fá sér akur, þá gerðu þeir það í fjandskaparskyni hver við annan ef trúa má fornsögum. Þetta var járnaldarfólk án aðgángs að járni, þeir urðu að gera til kola ef þeir áttu að geta járn; og þar hafa einkum kjarrskógarnir mátt gjalda afhroð. Auk þess var skjólgróður landsins höggvinn til endsneytis alt frammá okkar dag. Með hverri kynslóð sem kemur og fer verður flagsærið æ meira höfuðeinkenni landsins. Enn í dag verður miklu meira land örfoka á ári hverju en nemur árlegri viðbót í ræktun.

Á síðustu áratugum hafa menn verið verðlaunaðir af hinu opinbera fyrir að ræsa fram mýrar, lífseigustu gróðursvæði landsins, undir yfirskini túnræktar. Seigar rætur mýragróðursins halda gljúpum jarðveginum saman og vatnið nærir fjölda lífrænna efna í þessum jarðvegi og elur smádýralíf sem að sínu leyti dregur til sín fugla. Mýrarnar eru stundum kallaðar öndunarfæri landsins. Þúsundir hektara af mýrum standa nú með opnum skurðum sem ristir hafa verið í þeim tilgángi að draga úr landinu alt vatn; síðan ekki söguna meir: eftilvill var aldrei meiníngin í alvöru að gera úr þessu tún. Fer ekki að verða mál til að verðlauna menn fyrir að moka ofaní þetta aftur? Þegar mýrar eru ræstar fram til að gera úr þeim vallendi er verið að herja á hið viðkvæma jurta- og dýraríki landsins. Skilja menn ekki að holt og melar og aðrar eyðimerkur á Íslandi urðu til við það að vallendið blés upp? Það hefði verið nær, að minstakosti á síðustu áratugum að hvetja bændur til að gera tún úr holtum og melum: þar er það vallendi sem rányrkjan hefur snúið í eyðimörk; friða síðan mýrarnar með löggjöf.

Þó það sé einsdæmi í Evrópu að löndum hafi verið spilt af mannavöldum einsog á Íslandi, þá mætti það vera okkur nokkur huggun að vera ekki einsdæmi í heiminum samanlögðum. Norðurafríkuströndin var til forna kornhlaða Rómaveldis. Eftir fall Róms tíndust hjarðmenn úr arabalöndum inn í akurlönd þessi yfirgefin og fluttu með sér geitfé og sauðfé einsog okkar fólk. Sauðkindin og geitin eru einlægt fylgifé frumstæðra bænda; auðkenni vesallar þjóðmenníngar; rússar kalla þennan fénað kýr fátæka mannsins. Gróðurlendum fornaldarinnar, þar sem nú er Alsír, var snúið í mela holt og sanda nákvæmlega einsog hér á Íslandi. Enn í dag má sjá í Afríku hjarðmenn standa yfir fé sínu nótt sem nýtan dag og halda því á beit í holtum þessum og vera að mutra því til í landinu eftir því hvar falla skúrir og einhverjum holtagróðri kann að skjóta upp. Þarna er reyndar hægt að hafa sauðfé úti allan ársins hríng ef maður er nógu fátækur til að liggja úti með fé sínu eða nógu mikill sjeik til að eiga nokkur þúsund rollur í vörslu ekki velframgeinginna smalamanna, en situr sjálfur einhverstaðar þar sem rommið er skeinkt ómælt.

Lönd suðurhjarans ein, svo sem Argentína, hánga enn í því, amk. sumstaðar, að hafa náttúrleg skilyrði til sauðfjárræktar. Í Patagóníu geingur fé sjálfala vetur og sumar í vörslu ríðandi fjárhirða og ekki ótítt að einn sauðamiljóneri eigi þar 100-200 þúsunda hjörð. Í svona löndum er einginn teljandi kostnaður við framleiðslu sauðakjöts nema slátrunarkostnaður. Ætli Ísland sé ekki einna óhentast land og mest öfugmæli til sauðfjárræktar af öllum löndum heims? Það er amk. eitt þeirra fáru sauðfjárlanda þar sem ekki er hægt að vera útí haga og gæta hjarðar sinnar á jólanóttina einsog hirðarnir gerðu í Betlehem, heldur verður hjá okkur að heyja þessari skepnu vetrarforða með ærnum tilkostnaði og reisa yfir hana hús þar sem hún er látin dúsa helmíng ársins, stundum meira að segja alin á korni vestan um haf, og samt í meira lagi óbeysin á vorin; amk. svo horuð mestalt árið að hún er ekki sláturhæf nema fáar vikur á haustin. Að sumrinu er þessi blessuð skepna látin darka í landinu eftirlitslaust og naga það í rót ef svo vill verkast þángað til moldin er laus handa vindinum. Fjárhagslegur grundvöllur sauðakjötsframleiðslu á Íslandi liggur annars utan takmarka þessarar greinar.

Nú, þegar ætla mætti að nóg væri að gert um sinn í náttúruspillíngu og kominn tími til að spyrna við fæti, þá bætist niðurbrotsöflum landsins stórtækari liðstyrkur en áður var tiltækur. Til „að bæta lífsskilyrði almenníngs“ hefur nú verið settur upp kontór á vegum Iðnaðarmálaráðuneytisins, nefndur Orkustofnun, og á að undirbúa hér stóriðju sem knúin sé afli úr vötnum landsins.

Mér skilst að stóriðja þýði svipað og lykiliðnaður, og sé hlutverk hennar að breyta í vinsluhæft ásigkomulag þeim efnum sem liggja til grundvallar smáiðju eða neysluvöruiðnaði; undir stóriðju heyrir námurekstur, málmbræðsla, efnaiðnaður, olíuhreinsun og þessháttar. Svona iðja heimtar óhemjumikið rafmagn en fáar hendur. Neysluvöruiðnaður, til að mynda skógerð eða klæðaverksmiðja, eða segjum útvarpstækjasmíði, notar að öðru jöfnu margfalt vinnuafla reiknað í mannshöndum á við málmbræðslu eða olíuhreinsun. Ef við hefðum lagvirkni til að útbúa og „flytja út“ einhverja iðnaðarvöru sem aðrir vildu nýta, þá væri íslendíngum lagður atvinnugrundvöllur sem stóriðja getur aldrei lagt.

Draumurinn um verksmiðjurekstur hér á landi og íslendínga sem verksmiðjufólk er ekki nýlunda; skáld síðustu aldamóta sáu í vondraumum sínum „glaðan og prúðan“ iðnverkalýð á Íslandi. Fyrir skömmu sá ég haft eftir einum forgaungumanni stóriðju á Íslandi, í umræðum á málfundi, að eina vonin til þess að íslendíngar gætu lifað „mannsæmandi lífi í þessu landi“ (orðatiltækið hefur heyrst áður), sé sú að gera þjóðina að verkamönnum erlendra stóriðjufyrirtækja. Hinum stórhuga iðnfræðíngi láðist að geta þess sem hann veit miklu betur en ég, að stóriðja með nútímasniði notar mjög sjálfvirka tækni og kemst af með hverfandi lítinn mannafla; ekki síst málmbræðslur einsog hér eru hugsaðar. Ekki er fyrir það að synja að fé sem flýtur til ríkissjóðs frá útlendum stóriðjufyrirtækjum starfandi í landinu, einkum af sölu á rafmagni, gæti orðið einhver smávegis búbót hjá því opinbera þó svo hafi enn ekki orðið, því sala rafmagns til Straumsvíkur er, reikníngslega, rekin með tapi, þjóðartekjur okkar af álbræðslunni eru ekki aðrar en daglaun þeirra verkamanna sem þar vinna og ekki eru fleiri en menn sem starfa að landbúnaði í meðalsveit á Íslandi. Erlend stóriðja hér er þannig þýðíngarlaus fyrir íslenskan iðnvöxt. Rafmagnssala til útlendra stórfyrirtækja er í raun réttri aðeins verslun ríkisins með réttindi; þau kaup snerta aðeins óverulega íslenskan vinnumarkað, framleiðni og utanríkisverslun. Annars eru þau mál ekki til umræðu hér.

Vandræðin byrja þegar stofnun, sem fæst við niðurskipun orkuvera handa einhverri tilvonandi stóriðju, veitir virkjunarfyrirtækjum fríbréf til að darka í landinu einsog naut í flagi og jafnvel hyllast til þess að skaðskemma ellegar leggja í eyði þau sérstök pláss sem vegna landkosta, náttúrudýrðar ellegar sagnhelgi eru ekki aðeins íslensku þjóðinni hjartfólgin, heldur njóta frægðar um víða veröld sem nokkrir eftirlætisgimsteinar jarðarinnar.

Ég sagði að vandamálið væri ekki stóriðja sem dembt væri yfir okkur með offorsi að nauðsynjalausu. Vandamálið er oftrú þeirra í Orkustofnun á endalausar málmbræðslur sem eigi að fylla þetta land. Þá fyrst er land og lýður í háska þegar svona kontór ætlar með skírskotun til reikníngsstokksins að afmá eins marga helga staði Íslands og hægt er að komast yfir á sem skemstum tíma; drekkja frægum bygðarlögum í vatni (tólf kílómetrum af Laxárdal í Þíngeyarsýslu átti að sökkva samkvæmt áætlun þeirra), og helst fara í stríð við alt sem lífsanda dregur á Íslandi.

Nokkrir fátækir bændur hafa laungum átt bú sín kríngum fjallavatn á fornu jarðeldasvæði sem er eitt meðal náttúruundra heimsins. Mývatn. Hér hefur orðið til gegnum tíðina eitthvert fegursta jafnvægi sem þekt er á bygðu bóli í sambúð manna við lifandi náttúru. Óteljandi eru þeir náttúruskoðarar og vísindamenn og náttúruverndarmenn, svo og lærdómsmenn allskonar og listamenn hvaðanæva úr heimi, sem talað hafa og skrifað í sömu veru og þýskur fræðimaður og forgángsmaður náttúruverndar í landi sínu, dr. Panzer, gerði í sumar leið: „Laxár- og Mývatnssvæðið er sérstæðasta og dýrmætasta vatnasvæði í heimi frá líffræðilegu og náttúrufræðilegu sjónarmiði séð,“ skrifar hann.

Við Mývatn bjuggu til skams tíma þesskonar menn, og við munum marga þeirra enn, sem á hverjum tíma íslandssögunnar hefðu verið kallaðir mannval. Og svo hefði verið hvar sem var í heiminum. Þó þeir ynnu hörðum höndum og gætu aldrei orðið ríkir, þá voru þeir andlegir höfðíngsmenn. Verðmæti þeirra voru ekta. Þeir orkuðu á mann einsog prófessorar frá einhverjum hinna betri háskóla, en stundum einsog væru þar komnir öldúngar er staðið hefðu upp af bekk sínum hjá Agli og Njáli til að ræða við okkur um sinn. Margir þeirra voru þjóðkunn skáld. Einn þeirra, Sigurður á Arnarvatni, hann orti um mývatnsríkið þessar ljóðlínur:

Hér á andinn óðul sín
öll sem verða á jörðu fundin.

Ég man þá tíð að sumum þótti þetta í meira lagi djúpt tekið í árinni; en núna þegar verið er að basla við að tortíma Mývatni finnum við að hver stafur í þessum vísuorðum er gull. Sannar var ekki hægt að segja það.

Í okkar parti heimsins á öld þegar allir eru orðnir fátækir af því að vaða í einskisnýtum peníngum, þá er þeim mönnum hættast sem hafa ekki áður hnoðað hinn þétta leir. Að hlunnfara svona menn heyrir undir lögmál viðskiftalífsins. Nema bændur við Mývatn, frægir af sambýlisháttum sínum hver við annan og við náttúruna kríngum sig (og þetta er hið eina gull sem skiftir máli á jarðríki; og flórgoðinn hefur í þúsund sumur og kanski þúsund sumrum betur verpt í sefinu niðurundan bænum þar sem vatnið skerst inní túnið – þángað til í sumar) – þessir menn vakna nú upp við það einn góðan veðurdag að hinu fagra lífi Mývatns hefur verið snúið í skarkandi stóriðju. Og þjóðin öll, við sem tignuðum þetta norðlæga landspláss þar sem lífsgeislar íslenskrar náttúru eru dregnir saman í eina perlu, við uppgötvum – einnig um seinan – að þessi staður, sem hefði átt að standa undir þjóðgarðslögum samfara fullkominni náttúruvernd, hefur verið afhentur erlendu félagi til að klessa niður einhverskonar efnabrensluhelvíti á vatnsbakkanum. Það var þetta sem gerðist þegar Mývatni var fórnað fyrir kísilgúrstassjón. Fjalladrottníngin sem elskulegur snillíngur Sveitarinnar orti um og alt landið saung um, hún var seld.

Það er huggun harmi gegn að fyrirtækið hefur enn ekki veitt upphafsmönnum sínum annað en skell fyrir skillínga. Það hefur reynst þeim dýrt spaug að skemma Mývatn. Á fyrsta ári stassjónarinnar urðu eigendur kísilgúrsins fyrir 33gja miljón króna tapi á rekstrinum. Útkomu síðasta árs hafa þeir ekki gert heyrinkunna; borin von að hagurinn fari batnandi.

Af kísilgúr er það að segja að fjarri fer því sem stundum er látið í veðri vaka, að þessi málmleysíngi, einsog jarðfræðíngar vorir hafa þýtt ensku glósuna non-metallic metal, sé svo fágætt eða ómissandi efni í heiminum að nám hans réttlæti spillíngu Mývatns. Til að mynda liggja þykk lög af efni þessu í fjöllum í Vesturheimi. Þá er það einnig úr lausu lofti gripið að efnið sé hér á landi einúngis til við Mývatn. Ísland er fult af kísilgúr. Jafnvel vötn hér í námunda höfuðstaðarins hafa kísilgúrbotn. En helstefnulögmál reikníngsstokksins hefur tilhneigíngu til að vísa á þá staði fyrsta sem þjóðin hefur helgi á. Það er lán í óláni að íslenska ríkið skuli hafa trygt sér axíumeirihluta í þessu fyrirtæki; fyrir bragðið ætti það að vera á valdi stjórnarinnar að stöðva svona endurleysu og láta hreinsa óþrifnaðinn burt af strönd vatnsins.

(NB Þessi málmleysíngi hefur frá ómunatíð heitið barnamold eða pétursmold á íslensku. Hvernig stendur á að efnið skuli altíeinu heita kísilgúr, svo óvanir sem við erum því að taka upp hráa þýsku í túngu okkar – voru kanski þýskir peníngar í þessu upphaflega? Ef nú ráða eingilsaxneskir peníngar barnamold á Íslandi skilst mér að efnið ætti að heita diatomite eða þessháttar.)

Laxárvirkjunarstjórn á Akureyri gerir áætlanir með fulltíngi Orkustofnunar og hefur valdið blöskrun landslýðsins á síðustu misserum, og má segja alls heimsins ef miðað er við þá sem láta sig verndun lífs á jörðinni nokkru skifta. Snilli þessa félags er í því fólgin að hafa látið sér detta í hug áætlun um að minnstakosti 54ra megavatta orkustöð í Laxá samfara algerðri eyðileggíngu Laxár og Mývatns ásamt með bygðum sem við vötn þessi eru kend.

Áætlun þessara manna hefur verið studd siðferðilega með þremur höfuðrökum: 1) virkjun vatnakerfis laxár og mývatnssvæðisins á að bæta skilyrði almenníngs, 2) með virkjuninni á að fullnægja orkuþörf héraða er nærri liggja þessum vatnasvæðum, og 3) það á að koma upp stóriðju á Akureyri.

Hafi höfundur greinar þessarar misskilið málflutnínginn er ég reiðubúinn að leiðrétta.

Þessir þrír púnktar skýra sig nokkurn veginn sjálfir. Hinn fyrsti, að „bæta skilyrði almenníngs“, er sú vara játníng sem nú á dögum er höfð uppi í tíma og ótíma í öllum tilfellum þar sem áður fyr var vant að segja „í jesúnafni amen“.

Fyrirætlun um að vinna orku „handa nærliggjandi héruðum“, samfara eyðileggíngu á náttúru laxár- og mývatnssvæðisins, vitnar um hvílíkur gripur reikníngsstokkurinn getur orðið í höndum ofsamanna. Það hefur verið bent á óþrjótandi aðrar leiðir til að sinna takmarkaðri orkuþörf þessara fámennu bygðarlaga án þess troðnar séu illsakir við landslýðinn.

Sú viska er býsna hæpin að stóriðja á Akureyri, svo sem málmbræðslur, efnaverksmiðjur, olíuhreinsun og þvíumlíkt, mundi bæta skilyrði akureyrínga svo um munar; hitt líklegra að hún mundi æra þá fyrst og taka síðan frá þeim lífsloftið sem og öðru kviku við Eyafjörð. Væri gaman ef einhver gæti frætt mann um það hvar í heiminum stóriðjuverkalýður búi við betri afkomu en menn gera á Akureyri stóriðjulausir.

Hinsvegar er kunnara en frá þurfi að segja að akureyrarbúar hafa um lángt skeið verið að reyna sig við smáiðnað, þesskonar framleiðslu, bæði æta og óæta, sem miðuð er við þarfir „endanlegs neytanda“ sem svo er kallað. Sumt hjá akureyríngum er með vönduðustu vöru sem unnin er hér innanlands. Samt hafa fyrirtæki þeirra barist í bökkum að ekki sé ofmikið sagt – þó enn hafi ekki heyrst að fyrirtæki á Akureyri hafi farið yfrum af rafmagnsskorti. Er líklegt að fyrirtæki akureyrínga mundu verða betur solvent þó þeim bættust 54 megavött til viðbótar úr Laxá og Mývatni? Þá yrði að minsta kosti að koma til skjalanna meiri hlýleiki frá baunkum og stjórnvöldum en stundum hefur verið auðsýndur á Akureyri. Um þau efni samir reyndar betur að akureyríngar hefjist máls sjálfir. Því er þó erfitt að gleyma, einnig fyrir okkur sunnlendínga, að í vissum héruðum norðanlands, ekki síst við Eyafjörð, var einusinni unninn lángtum betri lýsumatur en annarstaðar á landinu, svo vandlátir kaupendur hér syðra höfðu þann sið að biðja ævinlega um akureyrarmerki á mjólkurvöru. Í þann tíma var það talið fjandsamlegt lýðræði í landinu ef einhver framleiddi betri vöru en annar; alt varð að miðast við það versta; þeir sem unnu vel voru fáir og það gerði ekkert til þó þeir sættu straffi, en það má aldrei móðga skussana. Þegar það komst upp að „norðansmjör“ var gott þá ákváðu mjólkuryfirvöldin, sem hafa fyrirkomulag sitt frá Kristjáni fjórða danakonúngi, að alt smjör, ilt og gott, hvaðan sem var af landinu, skyldi gert að „gæðasmjöri“ með fororðníngu einsog í dentíð, til þess að koma í veg fyrir að mjólkurbúin keptu hvert við annað í gæðum. Svona var hugur hins opinbera til iðnreksturs á Akureyri þann daginn.

Annað dæmi um ást hins opinbera á iðnaði akureyrínga: Ein frægust verksmiðja á Akureyri er bjórgerðin, ekki þó vegna þess að hún selji drykkhæfan bjór heldur af því hún er af yfirvöldunum látin hella niður drykkhæfum bjór. Þetta iðnfyrirtæki starfar undir löggjöf sem skyldar það til að framleiða svikna vöru, svokallað „pissuvatn“ í stað öls hadna íslendíngum. Sem sjá má er nafngiftin frá dönum nokkrum sem urðu fyrir þeirri reynslu að smakka þennan vökva. Á dögunum varð af misgáníngi úr þessu eitthvað sem líktist drykkhæfum bjór. Lögreglan á Akureyri sat fyrir hjá ljósmyndara, einkennisklædd, meðan hún var látin vera að hella niður þessu voðalega eitri í tonnatali; því bjór er sú eina tegund eiturs sem bannað er með lögum að hafa um hönd á Íslandi – að arseniki ekki undanskildu.

Þegar málsvari úr Orkustofnun var krafinn sagna í opinberum fjölmiðli í sumar, kom uppúr honum að 54ra megavatta orkuverið fyrirhugaða á laxár- og mývatnssvæðinu væri raunar ekki ætlað íslendíngum; við værum altof litlir fyrir svona aflstöð: hér var verið að hugsa um ímyndaðar þarfir stórra „orkunotenda“ útlendra á borð við Aluminium suisse. Þeir aðiljar voru að vísu enn ekki fæddir, ekki einusinni í kollinum á þessum blessuðum manni sjálfum, heldur vonaðist hann til að þeir mundu gefa sig í ljós um það er virkjuninni væri lokið. Semsé 54 megavött uppá grín og kanski. Má vera svisslendíngar komi með heimsfrægar beljur sínar og setji upp á Akureyri smjörbú handa Evrópu, Vache suisse; svissar eru líka meistarar í bjórgerð, kanski hugur hins opinbera yrði hlýrri gagnvart Bière suisse en eyfirskum bjórgerðarmönnum.

Annar kontóristi úr Orkustofnun kom í útvarpið og talaði um Gullfoss. Rannsóknir og mælíngar hafa verið gerðar á fossinum, sagði þessi maður, og hægt að leggja til atlögu við vatnsafl þetta með litlum fyrirvara. Eru svona ræður haldnar til að storka landslýðnum, eða hvað? Einginn virtist þó kippa sér upp. Landslýðurinn hlustaði með þolinmæði sem mátti heita kristileg. Manni skildist að Gullfoss ætti að vera hafður í nýar málmbræðslur, meira alúmíníum, að sínu leyti einsog vakir fyrir laxárvirkjunarnefnd nyrðra: stórir „orkunotendur“ að utan gefa sig vonandi fram!

Það var fróðlegt að heyra að Gullfoss hefði líka verið tekinn í karphúsið af verkfræðíngakontór Iðnaðarmálaráðuneytisins. Í æsku minni var til kona skamt frá Gullfossi, Sigríður nokkur í Brattholti, og lét til sín taka í samskonar máli þegar útlendir og innlendir ofurhugar ætluðu að taka höndum saman og gánga í skrokk á Gullfossi. Slíkar konur virðast því miður vera horfnar úr nágrenni þessa vatnsfalls.

Málsvari Orkustofnunar lýsti því að væntanleg virkjun fossins yrði framkvæmd þannig að farvegi Hvítár yrði breytt en fosstæðið þurkað. Þó hafði hann í pokahorninu einkennilega viðbót við hugmynd sína. Hann gerði ráð fyrir að tilfæríngar yrðu settar í ána til að hleypa fossinum á aftur ef túristar kæmu, svo hægt væri að kræla útúr þeim svolítinn aðgángseyri. Spurníng: Hvað eigum við íslendíngar að gera við alla þessa penínga þegar búið er að útanskota fyrir okkur fegurstu stöðum landsins? Hugsanlegt svar: Fljúga til Majorku þar sem þeir ku skeinkja rommið ómælt.

Því hefur verið haldið fram að þó íslendíngar séu fullir af varaþjónustu við rómantískan skáldskap eigi þeir bágt með að sýna í verki það sem þeir eru með á vörunum. Meðan þeir eru að fara með kvæði Jónasar og Steingríms um krystalstærar ár eru þeir kanski að keppast við að fylla þessar ár af sorpi. Þeir sem vaða mest uppi á opinberum vettvángi tala oft einsog þeim væri óljóst hvað fólki er heilagt. Þessvegna sagði þýski prófessorinn sem ferðaðist hér um árið: Die Isländer respektieren nichts. (Það var þá sem séra Jóhann Hannesson skaut inn: hvað um dollarann?) Nú vaða þeir menn uppi sem er mest í mun að sökkva vin þeirri sem vindurinn hefur skilið eftir í hálendinu. Þjórsárverum, ríki íslensku heiðagæsarinnar; það á að flæma burt fugl þann sem fann Ísland laungu á undan manninum og hefur búið hér í verunum um tugi alda, þúsundum til samans.

Náttúrufræðíngar hvaðanæva úr heimi, einstakir og fleiri saman, hafa sárbeðið ríkisstjórn Íslands, alþíngi og loks landslýðinn sjálfan að þyrma Þjórsárverum frá tortímíngu sem þeirra bíður um leið og hafinn er þriðji áfángi þjórsárvirkjunar.

Alþjóðleg samtök gegn náttúruskemdum héldu þíng í London í september síðastliðnum og tjáðu sig reiðubúin að kosta líffræðilegar rannsóknir á þessari paradís Íslands þar sem tíu þúsund heiðagæsahjón eru fulltrúar almættisins í norðlægri túndru umluktri eyðimörk. Þíngheimur lét í ljós þá von sína Íslandi til handa að landið mætti halda þessum gimstein sínum óspiltum um aldir.

Það kemur stundum fyrir að íslendíngur í útlöndum hefur ekki hugmynd um hvar hann er staddur og hagar sér þannig á almannafæri að landar hans fyrirverða sig niðrí tær. Ekki alls fyrir laungu gaf að líta hvar maður nokkur svaf þversum á þröskuldi í útidyrum verslunarhúss í erlendri borg í miðdegisösinni. Hann barðist um á hæl og hnakka, grenjandi, þegar hann var vakinn. Fólk staðnæmdist á gángstéttinni til að horfa á manninn. Einhver í hópnum heyrðist segja: Svona getur einginn gert nema íslendíngur.

Á ofangreindu alþjóðaþíngi náttúruverndara í London kom aðeins einn maður fram sem andstæðíngur Íslands. Hann var sendur þángað af orkustofnun í Reykjavík. Þessi maður lagði í ræðu sinni áherslu á „að íslendindíngar væru einganveginn reiðubúnir að hætta við framkvæmdir í Þjórsárverum“ (orðrétt úr Morgunblaðinu 24ða september 1970).

Meiníngin í þessu afundna svari íslendíngsins er glögg: Orkustofnun hefur aungvar skyldur við lífið í landinu. Hestaflið í almættinu er verðlaust í Orkustofnun. Við erum rökheldir íslendíngar og ef við höfum byrjað að trúa einhverri vitleysu haungum við fastir í henni til eilífðarnóns. Við höfum leyfi til að fara með Ísland einsog við viljum.

Gagnvart almenníngi á Íslandi felur svarið í sér að nú höfum við unnið þau verk fyrir fé ykkar skattþegnanna, að þið tapið því öllu – nema við fáum meira fé til að halda áfram!

Ég man ekki glögt hvað röksemdarfærsla af þessu tagi heitir á íslensku, kanski fjárkúgun eða fépynd; á ensku blackmail.

Hvað skyldu erlendir menn hafa hugsað um fulltrúa Íslands þegar hann stóð upp í London og lýsti yfir því að þó allur heimurinn stæði með landi hans mundi hann sjálfur gánga í gegn þessu landi.

Á jólum 1970.

Náttúruvaktin