Author Archive

nóv 12 2009
5 Comments

Velkomin!


Velkomin á vefsíðu Saving Iceland! Ef þú ert hér í fyrsta skipti þá getur þú byrjað á að lesa Grípum til aðgerða!, einnig Ákall Saving Iceland og Um okkur. Í Íslandi ógnað er farið yfir öræfin sem við verðum að reyna að vernda fyrir græðgi stóriðju- og orkufyrirtækjanna sem starfa markvisst að því að eyðileggja íslenska náttúru. Þú getur líka horft á myndbönd og skoðað myndir frá starfi okkar í gegnum árin og lesið á ensku tímarit okkar Voices of the Wilderness. Og síðast, en ekki síst, fengið Svör við algengum spurningum um Saving Iceland.

sep 16 2009

Náttúruvernd er ekki velmegunarpólitík!


Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Morgunblaðið – Eftir efnahagshrunið hefur umræðan um umhverfismál breyst. Stjórnmálamenn sem áður töluðu harkalega gegn orku- og stóriðjuframkvæmdum hafa nú snúist við með þeim formerkjum að umhverfisvernd sé velmegunarpólitík. Formaður Vinstri grænna kallar umhverfisstefnu flokksins hreintrúarhugmyndafræði sem eigi ekki við á þessum tímum. Þá hlýtur síðasta vígið að vera fallið – a.m.k. í huga þeirra sem trúa á umbætur innan fulltrúalýðræðisins.

Nú á að keyra í gegn álver í Helguvík með tilheyrandi orkuframkvæmdum. Fjölmargir, m.a. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, hafa sagt að ekki sé til orka á Reykjanesinu til að uppfylla orkuþörf álversins. Aðrir hafa bent á að virkjun jarðvarmasvæðanna sé svo stórtæk að þau komi til með að þorna upp á skömmum tíma. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segist jákvæð gagnvart því að Landsvirkjun framleiði orku fyrir Helguvík – Þjórsá kemur strax upp í hugann. Hún er einnig til í að endurnýja viljayfirlýsingu vegna álvers á Bakka, sem samkvæmt áætlunum Alcoa krefst þess að jarðvarmasvæði Norðausturlands verði virkjuð og vatnsaflsvirkjanir reistar í einni eða fleiri jökulám. Read More

ágú 22 2009

Illgresið og öfgarnar


Björg Eva Erlendsdóttir

Tekið af Smugunni – „Íslenskur öfgahópur veldur nýsköpunarfyrirtæki milljóna tjóni,“ er fyrirsögn fréttar á Vísi af spjöllum sem unnin voru á tilraunaakri ORF í Gunnarsholti, þar sem erfðabreytt bygg er ræktað.

Lögbrot, öfgahópar, skemmdarverk og glæpastarfsemi eru vinsæl orð hjá þjónum valdsins þegar minnihlutahópar grípa til sterkari meðala, en að skrifa greinar í blöð sem birtast eftir dúk og disk og enginn les .

Kverúlantar sem gagnrýna vald mega hrópa sig hása, en enginn hlustar. Valdið fer sínu fram, með réttu eða röngu, og helst umræðulaust. Óhefðbundin barátta gegn því kallar strax á harða dóma.

Þeir sem sletta grænu skyri eru skemmdarverkamenn. Þeir sem rjúfa bankaleynd til að koma upp um fjármálasvikara eru samfélagsógn. Þeir sem sletta málningu á hús auðmanna eru níðingar sem virða ekki griðastað saklausra. Þeir sem þvælast fyrir virkjunum og stóriðjustefnu eru náttúruverndartalíbanar sem helst á að handtaka á staðnum. Read More

ágú 13 2009

Ragnfærslur fjölmiðla um aðgerð Saving Iceland í Helguvík


Ýmsar rangfærslur voru í umfjöllunum fjölmiðla um aðgerð Saving Iceland í Helguvík í gær, án nokkurrar sýnilegrar ástæðu annari en þeirri að einfaldlega vilja ekki fjalla almennilega um málið. Vefsíða Morgunblaðsins birti frétt undir titlinum: ,,Hættu mótmælum“ þar sem meðal annars segir að þeir sem hlekkjuðu sig við hlið vinnusvæðisins hafi farið að tilmælum lögregu, dregið sig í hlé og leyft umferð að ganga um svæðið. Allir aðrir fjölmiðlar sögðu aðgerðina hafa stoppað vinnu í klukkustund en sannleikurinn er sá að vinnan stöðvaðist í minnsta kosti í tvo klukkutíma og hugsanlega mun lengur,þar sem það er okkur hjá Saving Iceland ókunnugt hversu miklar öryggisráðstafanir þarf að gera eftir að óviðkomandi einstaklingar fara inn á vinnusvæði á borð við Helguvík. Þeir sem hlekkjuðu sig við hlið vinnusvæðisins færðu sig ekki heldur sátu sem fastast þangað til lögreglan hafði klippt á lása þeirra. Read More

ágú 08 2009

Hávaðamótmæli við lögreglustöðina – Tveir í viðbót handteknir


Uppfært: 04:30 – Öllum hefur verið sleppt úr haldi.

Eftir ofbeldisfulla handtöku 5 einstaklinga eftir mótmæli Saving Iceland í dag (lestu um það með því smella hér), söfnuðust um þrjátíu manns við lögreglustöðina á Hlemmi til að mótmæla handtökum félaga sinna og lögregluofbeldinu. Á meðan mótmælunum stóð voru tveir í viðbót handteknir, í þetta sinn eftir að reyna að hindra aðgang að bílastæði lögreglustöðvarinnar. Samkvæmt vitnum var annar þeirra alvarlega meiddur af lögreglunni, sem barði hann til blóðs.

Okkur hefur ekki borist neinar almennilegar myndir eins og er, en munum vonandi geta birt þær hér á heimasíðunni eins fljótt og mögulegt er, auk frekari upplýsinga.

We have received no proper photos yet, but hope to be able to put them on the website as soon as possible, as well as more information.

ágú 08 2009
1 Comment

Lögregla gengur í skrokk á konu – Fjölmiðlar taka þátt í rógburði


Í gær, Föstudaginn 7. ágúst mótmælti umhverfishreyfingin Saving Iceland við Iðnaðarráðuneytið á sama tíma og undirritun fjárfestingarsamnings ríkisstjórnarinnar og Norðuráls vegna álvers í Helguvík átti sér stað. Þegar mótmælunum var að ljúka mætti lögreglan á svæðið, handtók 5 einstaklinga og gekk sérstaklega alvarlega í skrokk á einum þeirra. Flestir fjölmiðlar hafa sagt frá atvikinu en ekki minnst á ofbeldi lögreglunnar. Þess í stað hafa fjölmiðlar óspart birt rógburð lögreglunnar um að sparkað hafi verið í höfuð lögreglumanns og lögreglunni ógnað með járnstöngum, án þess að nokkuð myndefni bendi til þess að slíkt hafi átt sér stað. Saving Iceland hafnar þessum ásökunum algjörlega og fordæmir einhliða fréttaflutning fjölmiðla.

Samningurinn sem skrifað var undir í dag gerir ráð fyrir ríkisstyrkjum til álversins í formi skattaafsláttar sem nemur 16,2 milljónum Bandaríkjadala, þ.e. tveimur milljörðum íslenskra króna, og veitir Norðuráli undanþágur frá iðnaðarmálagjaldi, markaðsgjaldi og rafmagnsöryggisgjaldi. Auk þess munu sérreglur gilda gilda um stimpilgjöld og skipulagsgjald og öryggisákvæði gilda varðandi upptöku nýrra skatta. Þær losunarheimildir sem liggja fyrir leyfa 150.000 tonna álver í Helguvík, umhverfismat 250.000 tonn en Norðurál hyggst reisa 360.000 tonna álver og samningurinn sem undirritaður var í dag tryggir fyrirtækinu rétt til þess. Rafmagn til álversins hefur ekki verið tryggt og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra hefur sagt opinberlega að ekki sé til næg orka á Reykjanesinu til að keyra álverið áfram. Katrín Júlíusdóttir hefur að sama skapi tekið vel í hugmyndir um að Landsvirkjun selji orku úr fyrirhugðum virkjunum Þjórsár til álversins í Helguvík. Read More

ágú 05 2009

Saving Iceland ræðst gegn Alcoa – ,,Eina leiðin til raunverulegra breytinga liggur í verndun náttúrunnar!“


Í gær réðst Saving Iceland gegn álfyrirtækinu Alcoa. Við bönkuðum upp á skrifstofu fyrirtækisins við Suðurlandsbraut en enginn kom til dyra, svo græna skyrið og annar óþrifnaður sem við höfðum með okkur, endaði á hurðum, veggjum og gólfinu fyrir framan skrifstofuna. Í samanburði við þátt Alcoa í eyðileggingu íslenskrar náttúru og öðrum umhverfis- og mannréttindabrotum um víða veröld, er þetta minnsta mögulega refsing.

Þó álver Alcoa á Reyðarfirði starfi nú af fullum krafti, keyrt áfram af fullkláraðri Kárahnjúkavirkjun, er rík ástæða til þess að ráðast áfram gegn fyrirtækinu. Álverið á Reyðarfirði var upphafið á stóriðjubrjálæðinu, fyrsta merkið um áhrif auglýsingaherferðar stjórnvalda á ódýrri orku landsins og lítilli sem engri andspyrnu íbúa þess. (1) Álverið á Reyðarfirði var boltinn sem ýtti af stað þeirri hugmynd að álframleiðsla sé forsenda lífs. Eftir byggingu Kárahnjúkavirkjunar líta allar aðrar orkuframkvæmdir út fyrir að vera svo smáar að fæstir sjá ástæðu til þess að spyrna frekar á móti. Og meðferð lögreglunnar á þeim sem voguðu sér að setja fót sinn fyrir framkvæmdirnar fyrir austan hvatti fólk varla til að halda andófinu áfram. Read More

ágú 03 2009

Hús Friðriks Sophussonar límt og málað


Síðasta fimmtudag fékk Saving Iceland send bréf og myndir frá hóp sem kallar sig A.S.Ö. Samkvæmt bréfinu fór hópurinn að húsi Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar, hellti grænni málningu á veggina og tróð lími inn í hurðalásana. Eftirfarandi er bréfið í fullri lengd:

Við viljum líf okkar til baka. Frelsi okkar. Óbyggðirnar okkar.

Við ákveðum að setja það ekki á annara herðar að framkvæma það sem við trúum að sé nauðsynlegt að gera. Við tökum ábyrgð á aðgerðum okkar gegn þeim sem eru að eyðileggja og menga Jörðina.

Að halda að einhver annar en þú geri eitthvað eða að engu verði breytt, er valmöguleiki sem hefur afleiðingar. Við getum valið á milli þess að hella olíu í rústandi vél þessa samfélags eða að vera sandurinn sem stöðvar hana!

Ábyrgð einstaklingsins er ástæða þess að við ráðumst persónulega á þeim sem sitja hæst í fyrirtækjum kapítalista eins og Landsvirkjun. Í nafni peninga og valds hefur Landsvirkjun markvisst eyðilagt íslenskar óbyggðir. Forstjóri fyrirtækis breytir ekki um persónuleika á milli þess sem hann er í vinnu og heima. Hann er sá sami. Hann ber sömu ábyrgð á báðum stöðum.

Aðfaranótt 28. júlí fórum við að húsi Friðriks Sophussonar, forstjóra Landsvirkjunar. Við lokuðum dyrunum með lími og helltum grænni málningu yfir veggina.

Gleymið því aldrei að nóttin er með okkur í liði!

A.S.Ö.

júl 31 2009

Nokkrar minniháttar aðgerðir í Reykjavík


Síðustu daga hafa nokkrar minniháttar aðgerðir verið gerðar í Reykjavík; í miðbænum var stór borði hendur upp, graffítí og illþefjandi vökvi prýddu Jarðboranir og Útlendingastofnun var lokað í skjóli nætur.

Í morgun, 30.júlí, var stórum borða komið fyrir utan á húsi í miðbæ Reykjavíkur sem sýndi tengsl og samstarf milli áliðnaðarins og vopnaframleiðslu. Á borðanum stóð: “Ál drepur – 30% af öllu áli fer í vopnaframleiðslu – Stöðvum áliðnaðinn!” Frá upphafi herferðar okkar höfum við ekki einungis beint athyglinni að eyðileggjandi áhrifum álframleiðslu og virkjanaframkvæmda á umhverfið heldur einnig að félagslegum og mannlegum áhrifum stóriðju. Alcoa á Íslandi hefur staðfastlega neitað þessum tengslum en stutt heimsókn á heimasíðu Alcoa Defense sýnir greinilega að Alcoa framleiðir ekki bara ál í vopnaframleiðslu heldur stærir sig af þætti sínum í hönnun ýmis konar hernaðargagna. Read More

júl 29 2009

Hvers vegna ræðir Saving Iceland ekki við Iðnaðarráðherra?


Stuttu eftir að fréttir bárust um að á aðfararnótt þriðjudags hafi Saving Iceland lokað skrifstofum stofnanna og fyrirtækja tengdum stóriðjuframkvæmdum hér á landi, sagði Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra að hún hafi ekki getað kynnt sér skilaboð Saving Iceland. Hún hafi ekki fengið skriflegt erindi frá hópnum og ekki sett sig í samband við hann en sagðist skoða allar málefnalegar athugasemdir sem henni berast. (1)

Þetta svar er dæmigert fyrir stjórnmálamann eða starfsmann stórfyrirtækis þegar starf hans er gagnrýnt. Það er ómögulegt að halda utan um það hversu oft Saving Iceland hefur verið boðið að setjast niður og ræða málin við talsmenn fyrirtækja á borð við Landsvirkjun og fulltrúa stjórnmálaflokka. Tilgangurinn með þessum fundarboðum er auðvitað einungis að setja upp jákvæða mynd af fyrirtækinu eða stofnuninni og gefa þá hugmynd að samræður og upplýsing séu mikilvægur hluti starfseminnar. Þegar Saving Iceland hefur ekki þegið fundarboðin hefur hreyfingin verið stimpluð sem ómálefnaleg og þekkingarlaus, t.d. sl. sumar þegar forstjóri Landsvirkjunnar, Friðrik Sophusson sagði Saving Iceland eingöngu vera að leita eftir athygli með trúðslátum. (2)

Katrín Júlíusdóttir veit jafnvel og Friðrik Sophusson hver skilaboð og markmið Saving Iceland eru og þarf því ekki að spyrja sig hvers vegna hópurinn óskaði ekki eftir því að hitta hana. Umhverfissinnar á Íslandi – þ.m.t. Saving Iceland – hafa í áraraðir útskýrt andóf sitt gegn stóriðjuvæðingu Íslands með öflugum upplýsingaherferðum, útgáfu blaða og bæklinga, uppihaldi á vefsíðum og þar fram eftir götunum. Langflestum aðgerðum Saving Iceland hafa fylgt ítarlegar fréttatilkynningar með óþægilegum staðreyndum um fyrirtækin sem koma að stóriðjuvæðingunni og upplýsingar um alvarlegar afleiðingar álframleðislu. Þessar fréttatilkynningar hafa m.a. leitt til þess að umfjöllunin um málin hefur víkkað og því til stuðnings má nefna umfjallanir fjölmiðla um neikvæð áhrif báxítgraftar og samstarf álfyrirtækja við hergagnaframleiðendur og hernaðarstofnanir. (3) Read More

Náttúruvaktin