okt 26 2010
Upplýsingabæklingur til stuðnings hinna ákærðu níumenninga
Stuðningsmenn níumenninganna sem ákærðir eru fyrir árás á Alþingi vegna mótmælaaðgerðar sem átti sér stað þann 8. desember árið 2008, hafa útbúið upplýsingabækling um málið á ensku. Ríkisvaldið hefur gengið svo langt að kalla aðgerðina ógn við sjálfræði þingsins og heldur því uppi ákærum byggðum á 100. grein hegningarlaga, sem hefur í för með sér eins til sextán ára fangelsisdóm verði þau fundin sek um brot á henni, ásamt ákærum um húsbrot og ofbeldi, sem framburður þingvarða og upptökur úr öryggismyndavélum sanna að eru hrein lygi. Lesið nánar um málið og sögusvið þess í bæklingnum.
Smellið hér, eða á forsíðumynd bæklingsins, til að sækja bæklinginn sem pdf-skrá.
Dreifið sem víðast.
Heimsækið stuðningssíðu níumenninganna til að fylgjast með framvindu málsins.
ISAL (Rio Tinto Alcan) hefur tryggt sér alla þá samninga sem fyrirtækið þarf til að geta hafið stækkun álvers síns í Straumsvík. Um miðjan júní undirrituðu Landsvirkjun og ISAL endurnýjunarsamning um sölu raforku til fyrirtækisins fram til ársins 2036 og var kveðið á um kaup 75MW viðbótarorku í þeim samningi. Þessi viðbótarorka er meginforsenda þess að ISAL geti hrint í framkvæmd áformum sínum um stækkun álversins. Stækkunin hljóðar upp á 40.000 tonna aukna framleiðslugetu á ári. Mun hún fara fram á núverandi landi fyrirtækisins sem gerir hana óháða niðurstöðum íbúakosninga Hafnafjarðar og krefst þessara 75MW í viðbót við þá orku sem ISAL þegar fær afhenta á gjafaverði. Samningurinn er þó háður þeim fyrirvara að óvissu um skattalegt landslag stóriðju hér á landi verði eytt fyrir 31. ágúst, og sýnir það skýrt og skorinort hvernig forsvarsmenn álfyrirtækjanna og orkugeirans leika sér með stjórnartauma yfirvaldsins, sem hingað til hefur ekki þorað öðru en að lúta eftir slíkum kúgunaraðferðum fjársterkra aðilla og ætti því ekki að vera von á öðru í þessu tilfelli.
Nýlega kom út bókin Out of this Earth: East India Adivasis and the Aluminium Cartel eftir Felix Padel og Samarendra Das. Þeir félagar hafa eytt síðustu árum í rannsóknir á áliðnaðinum á alþjóðavísu, auk þess að vinna með frumbyggjum Odisha héraðsins (áður Orissa) á Indlandi. Rithöfundurinn Arundhati Roy ritar inngang að bókinni sem er gefin út af Orient BlackSwan.