'Náttúruvernd' Tag Archive

maí 18 2011

Myndir – Íslenska lögreglan hafði svo sannarlega afskipti af Mark Kennedy


Fréttatilkynning frá Saving Iceland

Vegna yfirlýsingar sem lögreglan á Seyðisfirði sendi frá sér í gær, þar sem því er alfarið neitað að mynd sem náttúruverndarhreyfingin Saving Iceland birti af breska lögreglunjósnaranum Mark Kennedy sé af honum, vill Saving Iceland ítreka að umrædd ljósmynd sýnir svo sannarlega tvo íslenska lögreglumenn kljást við Kennedy á Kárahnjúkum þann 26. júlí 2005.

Ekki þarf annað en að bera myndina saman við aðrar myndir sem teknar voru af Kennedy við Kárahnjúka til að sjá að um sama manninn er að ræða. Ein þeirra var meðal annars birt í breska dagblaðinu The Daily Mail og sýnir hún Kennedy, klæddan í sömu föt og á umræddri mynd Saving Iceland, þar sem hann stendur á vinnuvél sem hann hafði stöðvað ásamt fleiri aktívistum við Kárahnjúka. Read More

maí 18 2011
2 Comments

Ullað á innanríkisráðherra


Árni Finnson

Ögmundi Jónassyni, innanríkisráðherra, er lítill sómi sýndur með skýrslu ríkislögreglustjóra um starfsaðferðir lögreglu, samstarf við erlendar löggæslustofnanir og meðferð trúnaðarupplýsinga.

Nei, engin gögn fundust „… við yfirferð hjá embætti ríkislögreglustjóra …” sem „… gera kleift að skera úr um hvort þessi flugumaður [Mark Kennedy] bresku lögreglunnar hafi verið hér á landi í samvinnu eða með vitund lögreglunnar árið 2005,“ segir í skýrslunni.

Innanríkisráðherra getur sjálfum sér um kennt. Víða erlendis tíðkast óháðar rannsóknarnefndir til að koma í veg fyrir að þeir sem kunna að hafa framið embættisafglöp dæmi í eigin sök. Innanríkisráðherra er ekki mjög erlendis. Read More

maí 06 2011

Íslensk yfirvöld láti af seinagangi og undanbrögðum í máli Mark Kennedy


Saving Iceland

Saving Iceland sendir ríkislögreglustjóra og innanríkisráðherra bréf: Íslensk yfirvöld láti af seinagangi og undanbrögðum í máli Mark Kennedy

Eins og kom fram í yfirlýsingu sem náttúruverndarhreyfingin Saving Iceland sendi frá sér sl. þriðjudag, um afskipti íslenskra lögregluyfirvalda af breska lögreglunjósnaranum Mark Kennedy, óskaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra eftir því í ársbyrjun að ríkislögreglustjóri gerði rannsókn á því hvort íslenska lögreglan hafi vitað af störfum Kennedy hér á landi og eins hvort hún hafi átt í samstarfi við hann.

Nú hafa þrír mánuðir liðið en ekkert heyrst frá Haraldi Johannessen, ríkislögreglustjóra. Þessi langa þögn yfirvalda um þetta alvarlega mál stangast algjörlega á við viðbrögð yfirvalda í Þýskalandi og Írlandi sem lýstu því yfir opinberlega, stuttu eftir að fréttirnar af Kennedy komust á síður alþjóðlegra fjölmiðla í byrjun janúar þessa árs, að þau hafi verið meðvituð um veru og störf hans innan lögsagna þeirra. Read More

apr 25 2011

Vítahringur láglaunahórunnar


Í síðustu viku hélt Landsvirkjun kynningarfund um virkajanáform sín næstu 15 árin. Fundurinn fór fram í samstarfi við Háskóla Íslands sem sá ekki ástæðu til að bjóða andmælanda að svara fullyrðingum Landsvirkjunar. Ósáttur háskólanemi ákvað að taka málin í eigin hendur og flytja óumbeðinn erindi sem birtist á Róstur.org

Í dag hefur kennslustofa verið yfirtekin. Hún hefur verið yfirtekin af einu stærsta fyrirtæki landsins sem hingað er komið í leit að nýrri kynslóð sölupjakka. Landsvirkjun er að kynna nýja hugmyndafræði sem er afar sérkennileg. Umhverfisvænar virkjanir sem framleiða græna orku. LV ætlar að setja upp 14 grasgrænar og náttúruelskandi virkjanir á næstu 15 árum og hefst nú hernaðurinn gegn landinu fyrir alvöru. Það mætti í raun kalla þetta hernaðinn gegn landsmönnum og -konum því hluti af hernaðinum er að sannfæra fólkið um skaðleysi þeirra á náttúruna. Það er ekki nóg að sannfæra fólkið í landinu því góður sölumaður verður að hafa trú á vörunni sem hann selur og verður að vera löggiltur söluaðili. Landsvirkjun er hingað komin í leit að sölupjökkum nýrra hugmynda en sömu skemmdarverka. Read More

feb 21 2011

Um ræktun erfðabreytts byggs


Hákon Már Oddsson

Þessi grein/bréf er af Facebook-síðunni
„Án erfðabreytinga – GMO frjálst Ísland“

Sem betur fer er umræða um erfðabreytta ræktun lífvera farin af stað í fjölmiðlum í kjölfar þingsályktunartillögu um að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera og síðan birtingu athugasemdabréfs nokkurra sérfræðinga á vef Háskóla Íslands. Þriðjudaginn 15. febrúar var einn sérfræðinganna Eiríkur Steingrímsson gestur Kastljóssins. Margt kom þar fram og hefur verið kallað eftir meiri upplýsingum í kjölfarið. Read More

ágú 31 2010

Fyrir og eftir Miðkvísl


Guðmundur Páll Ólafsson

… og svo sprakk dýnamítið og grjót og mold þyrlaðist yfir alla en áin söng á ný. Laxá var frjáls.

Einhvern veginn svona hljómaði lýsing af sprengingunni í Miðkvísl við Mývatnsósa þegar ólögleg stífla Laxárvirkjunar var rofin. Ég vildi að ég væri sekur og hefði átt virkan þátt í verknaðinum. En jafnvel þótt fyrrum formaður stjórnar Laxárvirkjunar lýsti því í ævisögu sinni, Sól ég sá, að ég hefði aðstoðað sprengjumenn þá var ég því miður erlendis þegar lýðræðissprengjan sprakk. Read More

ágú 12 2010

Ákall Saving Iceland!


Takið þátt í baráttunni gegn iðnvæðingu einhverra sérstæðustu náttúrusvæða Evrópu og grípið til beinna aðgerða gegn stóriðju!

Baráttan fram að þessu

Baráttan heldur áfram til varnar stærstu ósnortnu víðernum Evrópu. Síðastliðin fimm ár hafa sumarbúðir beinna aðgerða á Íslandi beinst gegn álbræðslum, risastíflum og jarðgufuvirkjunum. Eftir þá skelfilegu eyðileggingu sem fylgdi byggingu stærstu stíflu Evrópu við Kárahnjúka og mikilla jarðgufuvirkjana í Hengli, er enn tími til að rjúfa „snilldaráætlun“ valdhafa um stíflur í öllum stærstu jökulánum, gernýtingu allra helstu háhitasvæðanna og byggingu álvera, olíuhreinsistöðva, gagnavera og sílikonverksmiðja. Þessar framkvæmdir myndu ekki aðeins eyðileggja einstakt landslag og vistkerfi, heldur einnig hafa í för með sér stórfellda aukningu á útblæstri gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.

Read More

maí 18 2010

Hvers vegna flýtur náttúruvernd ennþá á yfirborðinu – Frá þingi náttúruverndarsamtaka á Íslandi


Grein þessi birtist upphaflega í maí-tölublaði mánaðarritsins Róstur. Upplýsingar um Róstur og hvernig nálgast má blaðið má finna á vefsíðunni www.rostur.org

Ákveðin ládeyða hefur einkennt starfsemi íslenskra náttúruverndarhreyfinga eftir ósigur í baráttunni um Kárahnjúkavirkjun. Ef til vill var ósigurinn einfaldlega of stór biti að kyngja, því þrátt fyrir að til að mynda Saving Iceland hafi haldið uppi andspyrnubúðum gegn stóriðju  og virkjanaframkvæmdum eftir að Hálslón var fyllt og álframleiðsla hófst á Reyðarfirði, hefur á heildina litið skort þann baráttuanda sem einkenndi krítísku árin í kringum framkvæmdirnar fyrir austan.

Fyrsta náttúruverndarþingið á tíu árum

Laugardaginn 24. apríl sl. var gerð tilraun til að vekja hreyfinguna upp frá dauðum þegar Náttúruverndarþing var haldið í Menntaskólanum við Hamrahlíð á vegum náttúruverndarsamtaka á Íslandi. Það er hið fyrsta síðan árið 2000 ef undanskilin er alþjóðleg ráðstefna sem Saving Iceland stóð fyrir í Ölfusi sumarið 2007.
Read More

des 17 2009

DON´T BUY THE LIE!


Svartsokka.org

Nú er skrípaleikurinn í Kaupmannahöfn brátt á enda runninn. Kókauglýsingarnar með slagorðunum “Hopenhagen” og “Coke: A Bottle of Hope” verða brátt teknar niður af strætóskýlunum. Lögreglan mun aftur fara að áreita pólitíska flóttamenn í stað anarkista sem berjast fyrir réttlátara samfélagi.

Siemens blaðran sem einnig auglýsir “Hopenhagen” mun verða tekin niður af Ráðhústorginu og smám saman mun hugur fólks reika að imbakassanum í leit að innihaldslausu lífi. Hvað kom út úr tveggja vikna stanslausum fundarhöldum, fyrirlestrum, auglýsingum, mótmælum, öskrum, slagorðum, bannerum, óeirðum, blóði, grjóti, táragasi? Read More

nóv 27 2009

Er stóriðja leið út úr kreppunni?


Indriði H. Þorláksson – hagfræðingur

Efnahagsleg áhrif stórframkvæmda verður að meta með hliðsjón af efnahagsstefnu bæði til skemmri og lengri tíma.

Staðhæfingar settar fram án raka öðlast stundum vægi langt umfram inntak þeirra.  Tvær slíkar staðhæfingar sem haldið er á lofti í umræðu um byggingu orku- og stóriðjuvera eru sérstaklega varhugaverðar. Annars vegar að slíkar framkvæmdir séu nauðsynlegar, séu jafnvel leiðin út úr „kreppunni“ og hins vegar að framtíð íslensks efnahagslífs sé best tryggð með nýtingu orkuauðlinda fyrir stóriðju. Önnur þeirra horfir til skamms tíma en hin lengra fram á veg en báðar eru vafasamar, líklega rangar og jafnvel skaðlegar.

Efnahagsleg áhrif stórframkvæmda verður að meta með hliðsjón af efnahagsstefnu bæði til skemmri og lengri tíma. Til skamms tíma, segjum 3 til 5 ára, er markmiðið að koma atvinnulífinu í gang. Til lengri tíma litið er markmiðið að stuðla að vexti hagkerfisins með þeim hætti að það veiti þegnunum sem mest lífsgæði. Til þess þarf atvinnulífið að skila sem mestum virðisauka til þjóðarinnar fyrir vinnuframlag, fjármagn og auðlindir. Read More

Náttúruvaktin