'Náttúruvernd' Tag Archive

sep 16 2009

Náttúruvernd er ekki velmegunarpólitík!


Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson, Morgunblaðið – Eftir efnahagshrunið hefur umræðan um umhverfismál breyst. Stjórnmálamenn sem áður töluðu harkalega gegn orku- og stóriðjuframkvæmdum hafa nú snúist við með þeim formerkjum að umhverfisvernd sé velmegunarpólitík. Formaður Vinstri grænna kallar umhverfisstefnu flokksins hreintrúarhugmyndafræði sem eigi ekki við á þessum tímum. Þá hlýtur síðasta vígið að vera fallið – a.m.k. í huga þeirra sem trúa á umbætur innan fulltrúalýðræðisins.

Nú á að keyra í gegn álver í Helguvík með tilheyrandi orkuframkvæmdum. Fjölmargir, m.a. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, hafa sagt að ekki sé til orka á Reykjanesinu til að uppfylla orkuþörf álversins. Aðrir hafa bent á að virkjun jarðvarmasvæðanna sé svo stórtæk að þau komi til með að þorna upp á skömmum tíma. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segist jákvæð gagnvart því að Landsvirkjun framleiði orku fyrir Helguvík – Þjórsá kemur strax upp í hugann. Hún er einnig til í að endurnýja viljayfirlýsingu vegna álvers á Bakka, sem samkvæmt áætlunum Alcoa krefst þess að jarðvarmasvæði Norðausturlands verði virkjuð og vatnsaflsvirkjanir reistar í einni eða fleiri jökulám. Read More

júl 28 2009

Saving Iceland lokar skrifstofum náttúruböðla


Aðgerðahópur Saving Iceland lokaði í nótt skrifstofum fyrirtækja og stofnana sem hafa gerst hafa meðsek um stórfell náttúruspjöll. Lími var komið fyrir inn í lásum og skilti sett upp með áletruninni: ,,Lokað vegna náttúruspjalla!“ Kalla þurfti til lásasmiða til að opna dyr skrifstofanna í morgun þegar starfsfólk mætti til vinnu.

Fyrirtækin og stofnanirnar sem urðu fyrir þessum lokunum hafa öll sýnt fram á einbeittan brotavilja gagnvart íslenskri náttúru og svífast einskis í leit sinni að auðsóttum gróða og hagkvæmum samningum, jafnvel við fyrirtæki með svívirðilega forsögu. Því þótti löngu tímabært að loka þeim áður en frekari eyðilegging mun eiga sér stað. Read More

feb 19 2009

Gjaldþrota stóriðjustefna


Hjörleifur Guttormsson

Erlend stóriðja hérlendis hefur verið afar umdeild allt frá því að samningar um álbræðslu í Staumsvík voru í undirbúningi fyrir hartnær hálfri öld. Af andstæðingum þeirra samninga var dregið í efa að þjóðhagslegur hagnaður af álbræðslunni væri sá sem látið var í veðri vaka, teflt væri á tvær hættur um orkuverð og ekki gert ráð fyrir mengunarvörnum í verksmiðjunni. Viðreisnarstjórnin svonefnda hafði þó sitt fram og Alusuisse hóf rekstur dótturfélagsins ÍSALs sem enn starfar með breyttu eignarhaldi. Um 1980 komu í ljós stórfelldir meinbugir á rekstri fyrirtækisins vegna bókhaldsfalsana og skattaundandráttar. Fékk svikamyllan heitið „hækkun í hafi“. Jafnframt blasti við að raforkuverð til álbræðslunnar stóð ekki undir framleiðslukostnaði og að óbreyttu legðist mismunurinn af vaxandi þunga á almenna raforkunotendur innanlands. Auðhringurinn sá sitt óvænna, féllst á endurskoðun samninga og tvöföldun á raforkuverði sem bjargaði hag Landsvirkjunar þá um sinn.

Bundið fyrir bæði augu

Afhjúpun svikamyllunnar í Straumsvík dugði skammt og íslensk stjórnvöld kinokuðu sér við að fara í saumana á efnahagslegum áhrifum erlendu stóriðjustefnunnar. Einn ráðherrann af öðrum gerðist talsmaður fyrir álbræðslur sem notaðar voru sem pólitísk skiptimynt og fóru stækkandi stig af stigi með tilheyrandi kröfum um stórvirkjanir og línulagnir þvers og kruss um landið. Virkjanaiðnaðurinn hérlendis varð brátt ígildi hernaðariðnaðar í stærri löndum og hjúpaður leynd þar sem orkuverðið var lýst ríkisleyndarmál og herkostnaðurinn af náttúruspjöllum í engu metinn. Read More

nóv 15 2008

Náttúra.info vill breyta spítölum í ferðaþjónustu


NEI

Haukur Már Helgason

Náttúra.info er félagsskapur um náttúruvernd og náttúrufróðleik á Íslandi. Á vefsvæðinu sem hópurinn er kenndur við er snúið að komast að raun um hverjir stofnuðu hann, en mest áberandi fyrir hópsins hönd hafa verið Björk Guðmundsdóttir og Sigur-rós. Á vefsvæðinu má í fljótu bragði greina táknrænan stuðning við sprotafyrirtæki, einkum hátækni og hönnun, til viðbótar við einföld náttúruverndarsjónarmið. Vefurinn og hópurinn voru sett á laggirnar um svipað leyti og tónleikar með sömu yfirskrift og sömu grafísku umgjörð voru haldnir síðasta sumar. Tónleikarnir voru kolefnisjafnaðir „og buðust bændur á Þjórsársvæðinu og Sól á Suðurlandi til að gróðursetja 1001 björk og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur,“ sagði þá í tilkynningu.

Félagsskapurinn endurbirtir nú skýrsluna „Heilsulandið Ísland“ sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið veturinn 1999-2000, um heilbrigðiskerfi sem ferðamannaiðnað. Skýrslunni gömlu fylgir hópurinn eftir með eigin framsetningu á tíu tillögum um „Ísland sem land heilbrigðis“. Texta hópsins má líklega líta á sem áskorun, í öllu falli virðist smit vera á milli hans og „gullpakkans“ sem Björk Guðmundsdóttir færði forsætisráðherra sl. miðvikudag (12. nóv), en þeim pakka fylgdi bréf þar sem helstu „sprotahugmyndir“ voru reifaðar, meðal annars þessi: „að heilsutengd starfsemi tengist uppbyggingu á þekkingar- og fjármálasviðum.“

Í áskoruninni „Heilsa Íslands“ má finna nánari útlistun á þessari hugmynd. Þar segir meðal annars:

„6. Vekja þarf meðvitund um þau verðmæti sem við eigum og grundvöll þeirra til uppbyggingar arðbærs heilsugeira. Það er veruleg sóun í kerfinu í formi dýrra stofnana sem geta ekki breyst af því að sokkinn kostnaður er hugsaður sem verðmæti. Vinnuafl er oft óþarflega dýrt og möguleikar eru á að gera þjónustusamninga sem væru mun ódýrari í framkvæmd. Draga þarf úr þessari sóun og nýta frekar sokkinn kostnað með öðrum hætti en hingað til. Mikill hluti af sóuninni í heilbrigðisgeiranum felst í því að fenginn ávinningur af dvöl í heilsuumhverfi er ekki skilgreindur sem verðmæti og því hvorki metinn af verðleikum né settur í verð. Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Aðrar tillögur eru í sama dúr. Þessi verðmæti sem á að takmarka aðgengi að, til að auka virðingu fyrir þeim, er semsagt líf þitt og limir. Heilsa þín. Þessi viðskiptalegi orðaforði um heilsu fólks er framleiddur í viðskiptaháskólunum sem spruttu hér eins og gorkúlur, í fagi sem er nefnt heilsuhagfræði og þjónar þeim eina tilgangi að undirbúa aukinn einkarekstur í heilbrigðisgeiranum – að líf og dauði verði rekin á sömu forsendum og annar íslenskur, eða alþjóðlegur, bissness. Þá hlýtur fólk nú að fara að bera meiri virðingu fyrir lífi sínu og dauða, ef Hannes Smárason kemur að málinu.

Þessar hugmyndir voru raunar líka reifaðar í skýrslu framtíðarhóps Viðskiptaþings 2006 um þróun viðskiptalífs á landinu til ársins 2015. Þar eru þessar hugmyndir raunar settar efstar á lista í sóknarfærum viðskiptalífsins:

„3.10 AÐGERÐAÁÆTLUN TIL ÁRSINS 2015
— Einkaaðilum verði í auknum mæli treyst til að reka heilbrigðisstofnanir.
— Kynna Ísland sem land heilbrigðis.
— Einkaaðilar taki við fleiri þáttum almannatryggingakerfis.

— Einkaaðilar byggi, fjármagni og reki fleiri samgöngumannvirki.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við bankana um fjármögnun íbúðarhúsnæðis.
— Afnema tolla og landbúnaðarstyrki og aflétta höftum af bændum.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við einkaaðila.
— Fækka ráðuneytum.
— Fækka stofnunum án þess að það valdi auknum kostnaði.“

Í hópnum sem vann þá skýrslu má finna nokkra gamla góða: Bjarna Ármannsson, þáverandi forstjóra Íslandsbanka, Finn Ingólfsson, forstjóra VÍS, Gunnar Pál Pálsson, margfrægan formann VR, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, ásamt fastagestum í hugmyndaheimi viðskiptalífsins, sem veita hugmyndunum vottun barna og listafólks: Magnúsi Scheving, Hjálmari H. Ragnarssyni, Þorvaldi Þorsteinssyni og síðast en ekki síst Svöfu Grönfeldt, sem er nú landskunn fyrir skýrslugerð.

Með öðrum orðum: það er ekki bara þegar íslenskt viðskiptalíf og kapítalísk hagskipan hafa unnið sér rækilega inn fyrir algeru vantrausti, heldur einmitt í sömu viku og stærsta einkafyrirtækið á heilbrigðissviði, sem rekið var í hagnaðarskyni, lagði upp laupana, þrátt fyrir töluverða fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera, sem einkavæðing og gróðarekstur á sviði lífs og dauða er boðaður eins og ekkert hefði í skorist, með fulltingi fólks sem á að vilja og vita miklu, miklu betur.

„Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Oj bara! Nei. hrækir á þessar hugmyndir og skorar á nattura.is að draga stuðning sinn við þær til baka hið snarasta. Það er einmitt þetta sem nú þarf að varast. Náttúran skiptir máli. Amma skiptir meira máli.

Hér að neðan má sjá þau firmamerki sem fylgdu skýrslu Viðskiptaþings um hugmyndirnar úr hlaði, 2006.

styrkt

Hér fylgja nokkuð áhugverð samskipti um innihald ofanverðrar greinar á NEI: Read More

ágú 11 2008
1 Comment

Fjöll sprengd í loft upp, eiturlyf og bleikt klósett


Jaap Krater, Iceland ReviewSem einstaklingur sem hefur nú verið virkur með Saving Iceland í nokkur ár, las ég grein grein James Weston um umfjöllun fjölmiðla um baráttu okkar og hafði gaman af. Margt af því sem hann skrifar er ekki bara fyndið, heldur einnig satt.
Fyrir mér, bendir greinin þó einnig á nokkrar sorglegar staðreyndir. Fólk situr og horfir á sjónvarpið þar sem það sér annað fólk læsa sig við vinnuvélar (samkvæmt skoðanakönnunum lítur út fyrir að flestir séu jafn vel sammála okkur um stóriðjuvæðingu landsins) og leiðist.
Read More

ágú 10 2008

Ergelsi talskonu


Miriam Rose, Morgunblaðið

Miram Rose skrifar um hugsjónir og aðgerðir Saving Iceland: „Aðferðir okkar eru eflaust ekki alltaf réttar og mega vel sæta gagnrýni. En hvað ætla Íslendingar að gera til að koma í veg fyrir tortímingu landsins?

Saving Iceland – rétt eða rangt?
Bara nafnið á hópnum er nóg til að gefa Íslendingum ærlegan hroll (stundum mér líka) því það kann að hljóma eins og hrokafullur trúboðahópur, kominn til að hjálpa vanþróuðum víkingunum upp úr fátækt og heimsku. En fæstir gera sér grein fyrir því að nafnið varð til þegar hópur íslenskra umhverfissinna sem var orðinn þreyttur á aðgerðaleysi samlanda sinna, kallaði eftir alþjóðlegri hjálp við að stöðva eyðileggingu íslenskra öræfa vegna orkuframleiðslu fyrir stóriðju.
Read More

ágú 01 2008

Saving Iceland stöðvar umferð að álveri Rio Tinto-Alcan í Straumsvík


,,STÖÐVUM VIRKJUN ÞJÓRSÁR FYRIR HERGAGNAFRAMLEIÐANDA!”

HAFNARFJÖRÐUR – Aðgerðasinnar frá Saving Iceland hafa nú stöðvað umferð að álveri Rio Tinto-Alcan í Straumsvík með því að hlekkja sig við hlið sem hleypa umferð til og frá álverslóðinni. Saving Iceland mótmælir fyrirhugaðri framleiðsluaukningu, nýjum álverum og samhliða eyðileggingu íslenskri náttúru fyrir raforkuframleiðslu. Samstarf Rio Tinto-Alcan við fjölmarga hergagnaframleiðendur er einnig fordæmt.

Rio Tinto-Alcan hyggst nú auka framleiðslu álversins í Straumsvík um 40 þúsund tonn á ári án þess að stækka álverið sjálft. Einnig vinnur fyrirtækið að undirbúningi nýs álvers á Keilisnesi eða í Þorlákshöfn (1). Read More

júl 16 2008

Að ryðja brautina


Birgitta Jónsdóttir
Morgunblaðið, 16. Júlí 2008
Svar við Staksteininum Morgunblaðsins: Aðgerðahópar og sellur?

,,Fyrir nokkrum árum síðan hefðu tónleikarnir „Náttúra“ þar sem höfuðáhersla og þema er sú vá sem að náttúru landsins steðjar álitnir róttækir og pólitískir. Hvað varð til þess að þeir voru það ekki?“

Þegar um allt þrýtur og ekkert gengur að vekja athygli á mikilli vá sem steðjar að náttúru og umhverfi er brugðið á það ráð að framkvæma aðgerðir sem í eðli sínu eru fremur saklausar en kalla yfirleitt á hörð viðbrögð lögreglu og þeirra stórfyrirtækja sem verið er að vekja athygli á fyrir spillingu eða stjórnleysi. Oft eru þessar aðgerðir tengdar við ofbeldi, en það á sér litla stoð í veruleikanum. Ofbeldið á sér ekki stað af hendi aðgerðasinna, heldur er það lögreglan sem missir sig og ræðst til atlögu við aðgerðasinna sem t.d. neita að færa sig. Þegar verið er að handtaka fólk með offorsi er alveg sama hvort um munk í bænastellingu eða umhverfisverndarsinna varnarstellingu að ræða, það lítur út eins og ofbeldi. Þessar myndir rata oft á forsíður eða í fréttatíma sjónvarpsstöðvana.

Read More

júl 15 2008

Róttækar aðgerðir og atvinnumótmælendur


Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson
Morgunblaðið, 15. Júlí 2008

Sl. sunnudag fjallaði staksteinahöfundur Morgunblaðsins um Saving Iceland-hópinn, undir titlinum „Aðgerðahópar og sellur“. Hann sagði frá aðgerðabúðum hópsins á Hellisheiði og setti fram lista yfir hegðun sem búast mætti við af þeim sem taka þátt í aðgerðum hópsins í sumar, þ.e. ,,reyna að mana lögregluna í slag, hlekkja sig við það sem hendi er næst, vinna minni háttar skemmdarverk, trufla löglega starfsemi fyrirtækja eða almenna umferð“. Samkvæmt honum er þetta hegðun sem einkennt hefur starfsemi hópsins síðustu árin.

Við hjá Saving Iceland beitum beinum aðgerðum og borgaralegri óhlýðni í aðgerðum okkar gegn kapítalisma í formi stóriðjuvæðingar Íslands – því neitum við ekki. Við hlekkjum okkur hins vegar ekki við það sem hendi er næst, heldur vinnuvélar sem notaðar eru við eyðileggingu náttúrunnar. Þannig stöðvum við eyðilegginguna tímabundið. Það dettur engum í hug að læsa líkama sinn við stærðarinnar vinnuvél ,,af því bara,“ – baráttuvilji og hugsjónir eru þar að verki.

Read More

apr 20 2008
3 Comments

Stofnandi Saving Iceland ákærður af íslenskri lögreglu


Mánudaginn 21. apríl 2008 kemur stofnandi Saving Iceland, Ólafur Pall Sigurðsson fyrir héraðsdóm Austurlands ákærður fyrir eignaspjöll. Ákæran er til komin vegna atburða í mótmælabúðunum við Snæfell í júlílok 2006.

Öll borgaraleg vitni segja að fjórhjóladrifsjeppa lögreglunnar hafi viljandi verið ekið á Ólaf Pál á hraða sem gat haft lífshættu í för með sér. Ökumaðurinn, Arinbjörn Snorrason, lögregluþjónn nr. 8716 og háttsettur við stjórn aðgerðanna við Kárahnjúka, reyndi einnig að aka yfir aðra mótmælendur við mörg önnur tækifæri þetta sumar sem og við Lindur (nú undir vatni en þar voru mótmælabúðir Saving Iceland) og við mótmælaaðgerðir á byggingarsvæði Desjarárstíflu.
Read More

Náttúruvaktin