Archive for 2010

des 29 2010

Áliðnaðurinn: Umhverfismál á heimsvísu


Bergur Sigurðsson og Einar Þorleifsson

Álframleiðsla byggir á námavinnslu á stöðum þar sem er að finna sérstaklega álríkan rauðan jarðveg sem nefnist báxít og verður til á löngum tíma við mikla útskolun efna á úrkomusvæðum sitt hvorum megin miðbaugs. Námavinnslan fer vanalega þannig fram að flett er burt gróðurþekju til þess að komast að báxítlögunum sem eru misþykk og oft ekki nema 2-4 metrar.bergureinar Báxítið er numið brott og flutt í landfrekar súrálsverksmiðjur þar sem jarðvegurinn er leystur upp með vítissóda og kalki og síðan er súrálið (Al2O3) einangrað frá eðjunni.Vinnslunni fylgir mikil og skaðleg rykmengun og gríðarleg myndun eitraðra úrgangsefna, þ.e. rauðeðju sem hefur hátt sýrustig og í sumum tilfellum þungmálma. Slys þar sem stíflugarðar um eðjulón bresta komast sjaldan í hámæli ef frá er talið slysið í Ungverjalandi fyrr í vetur. Þar var hætta á að eitraður leirinn myndi flæða óhindrað út í Dóná og spilla vistkerfi hennar allt til Svartahafsins, m.a. Dónárdeltunni, einu merkilegasta votlendissvæði jarðar þar sem milljónir fugla hafast við. Read More

des 16 2010

Rangfærsluruna Ragnars


Bergur Sigurðsson og Einar Þorleifsson

Það er lengra mál en svo að rúmist í einni grein að fjalla um allar rangfærslurnar sem áliðnaðurinn teflir fram til þess að fegra verkefni sín og ginna samfélög til þess að kosta þau.

Áróðursmaskínurnar ganga svo langt að halda því fram að ál sé á einhvern hátt jákvætt fyrirbæri í umhverfislegu tilliti. Sannleikurinn er sá að áliðnaðurinn er námuiðnaður sem veldur verulegu umhverfisálagi, eyðir regnskógum og samfélögum frumbyggja og spillir vatnalífi og vistkerfum. Hvort heldur sem álið er notað í farartæki, umbúðir eða byggingarefni er í flestum tilvikum hægt að nota vistvænni efni.

Af nógu er að taka þegar kemur að rangfærslum iðnaðarins en í þessari grein verður látið duga að rekja helstu rangfærslur Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls, í Fréttablaðinu 2. des. Read More

nóv 03 2010

Nægja 80 MW til að bjarga Helguvík?


Sigmundur Einarsson

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá því að nú væri búið að tryggja orku til álbræðslunnar í Helguvík. Bjargvætturinn var sagður vera Landsvirkjun sem ætlar að leggja til umframafl sem til er „í kerfinu“ og ku það nema 60-80 MW.

Samkvæmt fréttinni þarf álbræðslan alls um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað. HS Orka er sögð munu útvega 250 MW, Orkuveita Reykjavíkur 120-140 MW og Landsvirkun bjargar því sem á vantar, 60-80 MW.

Þetta virðist einfalt. All sýnist klappað og klárt og ekki eftir neinu að bíða. Framkvæmdir ættu að geta hafist strax í dag. Eða hvað? Var þetta orkan sem vantaði til að unnt væri að halda áfram? Fyrir ári síðan var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW. Hvað skyldi hafa breyst? Read More

nóv 01 2010

„Saga kapítalismans er vörðuð með ofbeldi“ – viðtal við Samarendra Das


Róstur.org

Í lok ágúst kom rithöfundurinn og kvikmyndagerðarmaðurinn Samarendra Das hingað til lands til að kynna nýjustu bók sína og mannfræðingsins Felix Padel, Out of this Earth: The East India Adivasis and the Aluminium Cartel. Bókin er afrakstur tíu ára rannsóknarvinnu á áliðnaðinum, allt frá báxítvinnslu í fátækum héruðum Indlands til kaupsýsluhverfa London þar sem milljarðamæringar sópa til sín gróða af álvinnslunni. Róstur hittu Samarendra að máli á meðan á Íslandsdvöl hans stóð.

Samarendra kom fyrst hingað árið 2008 á vegum náttúruverndarhreyfingarinnar Saving Iceland en hann hafði áður komist í kynni við samtökin erlendis. Hann kvaðst feginn þegar hann hitti mann á vegum Saving Iceland á ráðstefnu í London því þar hafi hann fyrst fengið að heyra frá öðrum en erlendum hagfræðingum hvað ætti sér stað hér á landi. Samarendra er mjög gagnrýninn á marga fræðimenn en hann segir það allt of algengt að þeir setji ekki spurningarmerki við hvað rekur þá áfram og að oft geri þeir of lítið af því að finna og greina raunveruleg vandamál. Read More

okt 26 2010

Upplýsingabæklingur til stuðnings hinna ákærðu níumenninga


Stuðningsmenn níumenninganna sem ákærðir eru fyrir árás á Alþingi vegna mótmælaaðgerðar sem átti sér stað þann 8. desember árið 2008, hafa útbúið upplýsingabækling um málið á ensku. Ríkisvaldið hefur gengið svo langt að kalla aðgerðina ógn við sjálfræði þingsins og heldur því uppi ákærum byggðum á 100. grein hegningarlaga, sem hefur í för með sér eins til sextán ára fangelsisdóm verði þau fundin sek um brot á henni, ásamt ákærum um húsbrot og ofbeldi, sem framburður þingvarða og upptökur úr öryggismyndavélum sanna að eru hrein lygi. Lesið nánar um málið og sögusvið þess í bæklingnum.

Smellið hér, eða á forsíðumynd bæklingsins, til að sækja bæklinginn sem pdf-skrá.

Dreifið sem víðast.

Heimsækið stuðningssíðu níumenninganna til að fylgjast með framvindu málsins.

okt 25 2010

RVK-9 í DV


Í helgarblaði DV helgina 1.-3. október birtist ýtarleg umfjöllun við níumenningana sem eru ákærð fyrir árás á Alþingi. Er þetta eitt af þeim örfáu skiptum þar sem stærri hérlendur fjölmiðill hefur gefið níumenningunum færi á að koma skoðunum sínum varðandi málið á framfæri.

Smellið á myndina eða hér til að hala greininni niður sem pdf-skrá.

Einnig minnum við á stuðningssíðu níumenninganna, rvk9.org.

okt 13 2010
1 Comment

Frumvinnsla áls – Lýsing á hinni mengandi og orkufreku framleiðslu álbarra


PDF skjali með þessari þýðingu má hala niður hér

Afar sterk efnatengi milli súrefnis og áls í súráli eru ástæða þess að frumframleiðsla á hreinu áli er orkufrekari en frumframleiðsla nokkurs annars málms og raunar orkufrekasti iðnaður sem til er. Framleiðsluferlið, nefnt Hall-Heroult ferlið, hefst á því að súrál er sett í rafgreiningarker sem innihalda bráðið kríólít (Na3AlF6). Rafstraumur er leiddur gegnum kerin með aðstoð kolefnisanóðu og við það rís hitastigið yfir 1200°C. Súrefnið leitar í kolefnis-anóðuna og bráðnu álinu er hellt úr kerinu.

Frumvinnslan er sá hluti framleiðsluferlis áls sem veldur mestri mengun. Bæði er þar um að ræða mengun af völdum loftborinna efna og fasts úrgangs. Í útstreymi frá kerjum í álbræðslum er að finna flúor, bæði sem lofttegundir og ryk, einnig súrál, kolefnismónoxíð (CO), rokgjörn lífræn efni og brennisteins-díoxíð (SO2). Auk þessa inniheldur útstreymið frá ofnunum sem rafskaut eru framleidd í bæði flúoríð, rokgjörn lífræn efni og SO2. Ýmis konar aðferðir eru notaðar til að draga úr þessari mengun, t.d. lokuð ferli og vothreinsun. Vatn mengast einnig við hreinsun báxíts en stór hluti vatnsins er endurnýttur.

Read More

sep 24 2010

Komið að skuldadögum í Helguvík


Sigmundur Einarsson

Álbræðsla í Helguvík hefur verið töluvert til umræðu undanfarið vegna fyrirsjáanlegra tafa á afhendingu orkunnar. Skýringar hagsmunahópa eru allar á sama veg. Stjórnvöld bregða fæti fyrir atvinnuuppbyggingu! HS Orka fær ekki leyfi til að stækka Reykjanesvirkjun! Seinagangur við afgreiðslu skipulagsáætlana! Bæjarstjórinn í Reykjanesbæ lagður í pólitískt einelti! – O.s.frv.

Umfjöllun fjölmiðla er hefðbundin. Hvorki er vilji né geta til að fjalla um kjarna málsins og stjórnmálamenn óttast óvinsældir. Þeir eru hræddir um að verða kallaðir til ábyrgðar og þora ekki að viðurkenna að verkefnið hafi verið tálsýn frá upphafi.

Aðdragandinn

Þegar áform um dularfulla stálpípuverksmiðju í Helguvík gufuðu upp um miðjan þennan áratug var Norðuráli boðin þar aðstaða fyrir álbræðslu. Norðurál sló til og samdi um kaup á raforku. Skipulag og umhverfismat voru unnin fyrir álbræðslu, orkuver og háspennulínur. Svo kom kreppan og eyðilagði allt. Eða hvað?

Read More

sep 16 2010

Í landi hinna klikkuðu karlmanna


Andri Snær Magnason

Það er einsdæmi í veröldinni að þjóð drekki fyrirtækjum sínum í skuldir til þess að tvöfalda orkuframleiðslu og tvöfalda hana aftur með tilheyrandi raski, segir Andri Snær Magnason í grein um græðgi og geðveiki. Það eru til mælikvarðar á alla hluti. Yfirleitt skynjum við í okkar daglega lífi hvað er eðlilegt og hvað er yfirgengilegt.

Það eru til mælikvarðar á alla hluti. Yfirleitt skynjum við í okkar daglega lífi hvað er eðlilegt og hvað er yfirgengilegt. Stundum blindar umræðan okkur og þá getur verið ágætt að prófa að tala um hlutina á útlensku til að sjá þá í nýju ljósi. Prófið til dæmis að segja einhverjum að hér hafi einn ríkisbanki verið seldur með láni frá hinum ríkisbankanum og öfugt. Þannig hafi þeir verið afhentir mönnum nátengdum ríkjandi stjórnmálaflokkum. Framkvæmdastjóri annars flokksins varð formaður bankaráðs í öðrum bankanum á meðan fyrrverandi viðskiptaráðherra hins flokksins var einn þeirra sem fékk hinn bankann. Sá maður hafði aðgang að öllum upplýsingum um stöðu bankans. Í millitíðinni varð þessi fyrrverandi viðskiptaráðherra hins vegar seðlabankastjóri. Hann flaug til Ameríku og gerði Alcoa tilboð sem fyrirtækið gat ekki hafnað. Þannig var hann búinn að tryggja mestu stórframkvæmdir Íslandssögunnar og stóraukin umsvif bankans sem hann var að enda við að selja sjálfum sér. Read More

ágú 31 2010

Fyrir og eftir Miðkvísl


Guðmundur Páll Ólafsson

… og svo sprakk dýnamítið og grjót og mold þyrlaðist yfir alla en áin söng á ný. Laxá var frjáls.

Einhvern veginn svona hljómaði lýsing af sprengingunni í Miðkvísl við Mývatnsósa þegar ólögleg stífla Laxárvirkjunar var rofin. Ég vildi að ég væri sekur og hefði átt virkan þátt í verknaðinum. En jafnvel þótt fyrrum formaður stjórnar Laxárvirkjunar lýsti því í ævisögu sinni, Sól ég sá, að ég hefði aðstoðað sprengjumenn þá var ég því miður erlendis þegar lýðræðissprengjan sprakk. Read More

Náttúruvaktin