mar 07 2017
2 Comments

Flugumaður njósnaði um mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar

Atli Þór Fanndal

Lundúnarlögregla hefur fallist á að greiða sjö konum skaðabætur vegna framferðis flugumannsins Mark Kennedy sem árum saman njósnaði um anarkista og umhverfissinna víðsvegar í Evrópu. Þar líkur kafla í langri sögu þessa furðulega máls. Mark Kennedy njósnaði meðal annars um aðgerðarsinna á Íslandi í tengslum við byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Íslensk lögregluyfirvöld hafa opinberlega haldið því fram að þau hafi enga vitneskju haft um veru hans hér á landi. Þær yfirlýsingar standast ekki skoðun. Ljóst er að lögregla vissi ekki aðeins af Kennedy hér á landi heldur hafði af honum afskipti. Þá kom ítrekað fram í tengslum við Kárahnjúkavirkjun að lögreglu bærust upplýsingar um mótmælendur frá erlendum lögregluyfirvöldum.

Fjallað var um Mark Kennedy í tímaritinu Man magasín í maíhefti árið 2015. Þar var ítarlega farið yfir málið og sýnt fram á hve lítið haldbært er að finna í fjarstæðukenndum yfirlýsingum íslenskra lögregluyfirvalda um málið. Umfjöllun Man er hér endurbirt í heild sinni.

Mark Stone kom hingað til lands árið 2005 í hópi umhverfisverndarsinna. Ætlunin var að taka þátt í mótmælum vegna byggingu Kárahnjúkavirkjunar. Hér á landi tók Stone þátt í tveimur beinum mótmælaaðgerðum við Kárahnjúka, í júlí 2005, en fór skömmu síðar af landi brott. Örfáum árum seinna, árið 2010, var Stone afhjúpaður sem Mark Kennedy. Flugumaður á launum hjá Lundúnarlögreglu sem hafði það hlutverk að villa á sér heimildir og njósna um umhverfisverndarhreyfingar og anarkista víða um Evrópu.

Kennedy eyddi sjö árum í leynum meðal umhverfisverndarsinna og anarkista víða um Evrópu, þar á meðal í Danmörku, Þýskalandi og Íslandi en mest á Bretlandseyjum. Áður en upp um hann komst hafði hann ferðast til allavega 22 Evrópulanda, átti í kynferðissambandi við fjölda kvenna og lögregla hafði meðal annars afskipti af honum í Þýskalandi, Bretlandi, Danmörku og Íslandi. Þau afskipti hafa íslensk löggæsluyfirvöld ekki viðurkennt. Hins vegar benda gögn málsins til að það sé ekki sannleikanum samkvæmt. Þar á meðal eru ljósmyndir af aðgerðum Saving Iceland sem sýna afskipti lögreglu.

Aðgerðir lögreglu

Árið 2008 lét Björn Bjarnason, þáverandi dómsmálaráðherra, taka saman skýrslu um framgöngu lögreglu gagnvart mótmælendum, að beiðni þingmanna VG. Í henni er sleppt að minnast á mál sem staðfest er að áttu sér stað og voru skráð í málaskrá. Það sem þó kemur fram gefur mynd af þeim aðgerðum sem lögregla stóð fyrir á tímabilinu. 19 mál eru sögð finnast í málaskrá lögreglu. 219 lögreglumenn tóku þátt í þeim aðgerðum sem nefndar eru í skýrslunni. Það skal tekið fram að aðgerðirnar eru yfir þrjú sumur og ekki er átt við einstaka lögreglumenn. 83 einstaklingar höfðu réttarstöðu grunaðra. 104 voru handteknir og 14 sviptir frelsi. Leitað var í tjaldbúðum mótmælenda og þær rýmdar. Skýrslan minnist raunar ekki á þetta utan eins atviks þar sem sagt er að fíkniefni hafi fundist. Hið rétta er að pípa fannst og aðgerðirnar voru fleiri en ein. Lögregla neitar fyrir húsleitir og leit í bifreiðum en greinir frá því að hafa fundið búnað til að mótmæla í bílum ferðalanga. Myndbandsupptaka er til af lögreglurassíu í tjaldbúðum mótmælenda þar sem ítrekað var neitað að sýna leitarheimild. Tilraun var gerð til að vísa fjölda fólks úr landi og ferðamenn spurðir út í stjórnmálaskoðanir þeirra við komuna hingað til lands. Það er viðurkennt í skýrslunni.

Gleneagles

Í júlí 2005 var fundur G8 ríkjanna haldinn í Gleneagles í Skotlandi. Staðfest er að Mark Kennedy var þar en kom til Íslands skömmu síðar vegna fyrirhugaðra mótmæla. Þá þegar hafði Kennedy starfað í leynum meðal umhverfissinna í um tvö ár. Til Íslands kom hann í hópi aðgerðarsinna sem komu til Íslands til að taka þátt í mótmælum Saving Iceland gegn byggingu Kárahnjúka.
„Á þessum tíma er stóriðjustefnan í einskonar helreið um allt hálendi Íslands,“ segir Ólafur Páll Sigurðsson, hvatamaður að tjaldbúðum Saving Iceland. „Andstaða náttúruverndarsinna á Íslandi hafði hálfpartinn verið brotin á bak. “ – Hvernig þá? „Flestir voru örmagna eftir baráttuna um björgun Eyjabakka,“ segir Ólafur. „Kárahnjúkavirkjun var greinilega orðin óstöðvandi þannig að fólk var orðið vonlítið. Út frá mínum bæjardyrum séð var samt alls ekki hægt að gefast upp. Það varð að berjast gegn þessari virkjun þó ekki væri nema út af síðari tímum, öllum hinum virkjununum sem voru áformaðar. Það var einfaldlega ekki hægt að leggja bara skottið aftur á milli lappanna. Ég kallaði því út lið frá útlöndum, þannig að meirihlutinn voru útlendingar í þessum fyrstu mótmælabúðum. Það hljóp auðvitað dálítið fyrir hjartað á þjóðernissinnuðum Íslendingum,“ segir Ólafur. Hann segir lögreglu hafa sýnt mótmælendum einstaka vanvirðingu. Þau hafi verið áreitt og meðferð hafi almennt verið slæm og mótuð af fyrirlitningu lögreglu. „Það fór samt auðvitað eftir einstaklingum hvað heiftin gagnvart okkur var mikil. Hún var kannski mest meðal þeirra sem voru hæst settir í lögreglunni.“

Fátt um svör

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG og þáverandi innanríkisráðherra, óskaði árið 2011 eftir upplýsingum lögreglu um málefni Kennedy. Í skýrslunni [sjá greiningu Saving Iceland á skýrslunni og viðbrögðum ráðherra hér] kemur fram að samstarf hefur verið á milli íslensku lögreglunnar og erlendra lögregluliða um miðlun upplýsinga varðandi aðgerðir mótmælenda við Kárahnjúka. Þannig hafi verið fengnir hingað til lands lögreglumenn til að upplýsa íslensku lögregluna um þekktar baráttuaðferðir og upplýsingum miðlað landa í millum um einstaklinga sem handteknir voru vegna mótmælanna. Þá segir í túlkun ráðherra á skýrslunni að: „Athugun embættis ríkislögreglustjóra hefur leitt í ljós að engin gögn eða upplýsingar fyrirfinnist sem bendi til að vitneskja hafi verið um að Mark Kennedy hafi verið hér á landi sem flugumaður á vegum bresku lögreglunnar. Embættið leggur jafnframt áherslu á að samstarf við erlend lögreglulið byggist iðulega á miðlun upplýsinga sem viðtakandi er ekki upplýstur um hvaðan komi. Þess vegna sé vafasamt að fullyrða hvaðan upplýsingar séu runnar og kunni það að eiga við um mótmælin við Kárahnjúka.“

Upplýsingar erlendis frá

Morgunblaðið fjallaði í apríl árið 2005 um „ráðstefnu herskárra anarkista í Skotlandi.“ Vitnað er til fréttar Sunday Times þar sem vitnað var til tveggja Íslendinga, þar á meðal Ólaf, sem blaðamaðurinn hitti aldrei, auk Rúnars Guðbrandsson, leikstjóra, sem var á fundinum. „Tveir Íslendingar voru meðal hóps herskárra anarkista í Skotlandi sem héldu nokkurra daga ráðstefnu um síðustu helgi til þess að skipuleggja mótmælaaðgerðir sem eiga að skapa glundroða á fundi átta helstu iðnríkja heims (G8) í júlí [2005],“ segir í frétt Morgunblaðsins. Fundurinn var liður í skipulagningu G8 mótmælanna í Gleaneagle. Í frétt Times segir að á fundinum hafi Íslendingarnir verið til að skipuleggja mótmælaaðgerðir gegn vatnsaflsvirkjun næsta sumar af fullri alvöru, og sagði að þeir hefðu mætt á þennan fund til þess að læra hvað hægt væri að gera í þeim efnum. Greinin vakti töluverða athygli í Bretlandi líka enda fjallaði hún að mestu um væntanleg mótmæli vegna G8 fundarins í Skotlandi. „Þetta er bara einhver della,“ sagði Rúnar í samtali við Morgunblaðið og bætti því við að þetta hafi fyrst og fremst verið forvitni og fræðilegur áhugi sem hafi hvatt hann til þess að sækja ráðstefnuna.
Að auki virðist lögreglan hér á landi hafa fengið uplýsingar í gegnum samstarf sitt við lögregluna í Bretlandi. Í grein sinni Spellvirkjar og mótmælendur, sem birtist árið 2006 í Lögreglublaðinu, ári eftir veru Kennedy hér á landi, skýrir Gísli Jökull Gíslason, þáverandi ritstjóri blaðsins, frá þessum tengslum: „Vegna reynslu frá því í fyrra þá var samstarf á milli íslensku og bresku lögreglunnar en starfsbræður okkar í Englandi hafa mikla reynslu af slíkum aðgerðum og hafa þróað með sér skilvirkar starfsaðferðir. Höfðu þeir líka haft fréttir af því í Englandi að framkvæmdir á Íslandi höfðu vakið athygli á meðal herskárra hópa spellvirkja.“
MAN óskaði upplýsinga hjá lögreglu um málefni Mark Kennedy hér á landi. Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn endaði símtal við blaðamann skyndilega er Mark Kennedy bar á góma og óskaði fyrirspurnar í tölvupósti. Rúmri viku síðar var fyrirspurn blaðsins svarað með hlekk í nýlegt svar lögreglu við fyrirspurn Össurar Skarphéðinssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, frá árinu 2014. Efnislega er svarið hið sama og Ögmundur fékk árið 2011.

Nýjar upplýsingar

Ýmislegt hefur þó verið upplýst um starfsemi Mark Kennedy síðan 2011. Breskir græningjar hafa staðið í ströngu á vettvangi breska þingsins og í borgarstjórn London við að falast eftir upplýsingum frá lögreglu vegna njósna um aðgerðarsinna. Upplýst hefur verið að lögregludeildin sem Mark Kennedy tilheyrði njósnaði meðal annars um þingmenn og kjörna fulltrúa græningja. Þá hefur Andrej Hunko, þingmaður Die Linke í Þýskalandi, lagt mikla vinnu í að upplýsa mál Kennedy í heimalandinu. Árið 2013 kom út bókin Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem fjallar um málefni breskra leynilögreglumanna og þá sérstaklega Mark Kennedy. Í bókinni má finna upplýsingar um aðgerðir Kennedy hér á landi. Þá kemur fram að hann kom hingað til lands með ‘Megan’ sem var kærasta hans til lengri tíma. Megan taldi ávallt að hún væri í sambandi með aðgerðarsinnanum Mark Stone. Í sömu bók kemur fram að hann hafi átt í samskiptum við aðrar konur, þar á meðal á Íslandi. Þetta var staðfest af fjölda viðmælenda blaðsins. Ögmundur Jónasson sagði í samtali við MAN að hann hefði sem ráðherra heyrt sögur af kynferðissambandi Kennedy við aðra mótmælendur á Íslandi. Enginn hafi hins vegar gefið sig fram eða kært slíkt atvik á Íslandi. Í desember árið 2011 hófu átta konur málaferli gegn breskum yfirvöldum vegna þessa. Kennedy er ekki eini breski leyniþjónustumaðurinn sem um ræðir. Dæmi er um konur sem ólu mönnunum börn og áttu í löngu sambandi við flugumenn áður en þeir hurfu. Mikilvægt er þó að bresk yfirvöld hafa viðurkennt að Mark Kennedy var njósnari á þeirra vegum. Íslenska lögreglan ætti því að geta aflétt eigin trúnaði.

Höfðu afskipti af Kennedy

Þrátt fyrir loðin svör íslenskra lögregluyfirvalda er ljóst að lögreglan hafði afskipti af Kennedy hér á landi. Nokkur fjöldi mynda (smellið á myndirnar til að stækka þær) er til af Kennedy hér á landi. Sumar eru úr hans eigin fórum en hann deildi þeim með öðrum aðgerðarsinnum. Þar á meðal mynd sem tekin var 14. júlí árið 2005, skömmu eftir að hann kom til landsins. Um tveimur vikum síðar tók Kennedy þátt í aðgerðum við Kárahnjúka þar sem aðgerðarsinnar hlekkjuðu sig við vinnuvélar. Stafrænar myndavélar skrá svokallað ‘metadata’ á allar myndaskrár. Meðal þeirra upplýsinga sem finna má í ljósmyndaskrám eru upplýsingar um tegund myndavélar, ljósopsstillingu ásamt dagsetningu og tíma þegar mynd var tekin. Tvær ljósmyndir vekja sérstaka athygli séu þessar upplýsingar skoðaðar. Annars vegar mynd þar Kennedy sést hlaupa að stjórnklefa vinnutækis og svo mynd þar sem Mark Kennedy er ásamt tveimur lögreglumönnum. Tímastimpill myndanna sýnir að þær eru teknar með aðeins nokkurra mínútna millibili, þann 26. júlí 2005. Það er sami dagur og seinni aðgerðir Saving Iceland voru á Kárahnjúkum.

Kennedy gaf lögreglunni falleinkun

Ítarlega lýsingu er að finna á aðgerðum Saving Iceland þennan dag í bókinni, Undercover: The True Story of Britain’s Secret Police, sem og í bækling sem gefinn var út af Saving Iceland samtökunum. Þar skrifar meðal annars Mark Kennedy sjálfur um eigin reynslu.

Hann segir minnstu hafa munað að alvarlegt slys hefði orðið vegna gáleysis lögreglumanna sem hvatt hafi starfsmann til að ræsa risavaxið vinnutæki sem hópur aðgerðarsinna var tjóðraður við. „Lögreglan skipaði verkstjóra að segja bílstjóra að ræsa vél vinnuvélar sem mótmælendur höfðu tjóðrað sig við,“ skrifar hann og bætir við að vélin sem um er að ræða sé Volvo A35D, risavaxið tæki. Hann lýsir því hvernig hann óttaðist að tækið myndi hrökkva í gír og taka rikk með hóp fólks tjóðrað við vélina. „Aðgerðir lögreglu á tímabilinu voru reknar áfram af vanþekkingu og algjöru sinnuleysi gagnvart öryggi fólks.“ Fjöldi vitna sem blaðið ræddi við staðfesta að Kennedy sjálfur hljóp upp að stjórnklefa vinnuvélarinnar, reif lykla úr startara og kastaði út, frá vélinni. Það er í samræmi við ljósmyndir af atvikun. Í bókinni Undercover segir frá því að Kennedy hafi orðið viti sínu fjær af hræðslu vegna þess að Megan, kona sem hann átti í löngu kynferðissambandi við, var tjóðruð við vinnuvélina og hann óttaðist að hrykki vélin í gírinn lifði hún það ekki af. Kennedy brást ókvæða við. Til ryskinga kom á milli hans og lögreglu sem leiddi til afskipta lögreglu af honum. Kennedy var leiddur á brott af tveimur lögreglumönnum með hendur fyrir aftan bak. Þetta staðfestir önnur ljósmynd.

Lögreglan sem ekkert veit

Í skýrslu lögreglu til dómsmálaráðherra er fjallað um mál 026-2005-000712, 26. júlí árið 2005, sama dag og myndirnar af Kennedy eru teknar. Ein frelsisvipting og þrjár handtökur eru sagðar hafa átt sér stað í tengslum við aðgerðirnar. Annarsstaðar er því haldið fram að erlendir ríkisborgarar hafi alla jafna verið beðnir um vegabréf og þau ljósrituð. Það vekur því furðu að maðurinn sem þekktur var sem Mark Stone, hafi alla tíð sloppið við þessa skráningu. Árið 2007 ferðaðist Kennedy til Berlínar og heimsótti umhverfisverndarsinna þar í borg. Komið hefur fram, í svörum við fyrirspurnum Hunko, í þýska þinginu að til landsins hafi Kennedy, í einhverjum tilfellum, komið með samþykki þýskra lögregluyfirvalda. Í Berlín var Mark Stone handtekinn fyrir að kveikja í gámi. Stone samdi um að greiða sekt og fór því ekki fyrir dómstóla. Málið hefur vakið athygli í Þýskalandi sökum þess að málareksturinn fór allur fram gegn Mark Stone, ekki Kennedy. Þýsk yfirvöld kannast þó ekki við að hafa heimilað allar ferðir Kennedy til landsins.

Annar maður á myndinni

Samtökin Saving Iceland héldu því fram strax árið 2011 að maðurinn sem sést á myndunum sé Mark Kennedy. Því hefur lögreglan hins vegar alfarið neitað. „Eftir skoðun hjá embættinu á myndinni er ljóst að hér er ekki um Mark Kennedy (Stone) að ræða heldur annan mann. Lögreglunni er ljóst hver sá maður er og þurfti að hafa afskipti af honum nokkrum sinnum meðan á framkvæmdum stóð við Kárahnjúka,“ hafði Morgunblaðið eftir lögreglunni. Sú skýring er satt best að segja ekki mjög trúverðug. Líkindi mannsins eru augljós. Þá hafa myndir úr fórum hans birst í erlendum miðlum þar sem hann er í sömu fötum. Vert er að benda á að Kennedy var að meðal annars á Íslandi við það sem kallast ‘legend building’, það er að byggja upp ímynd sína og skapa tengsl. Þátttöku sína í aðgerðum á Kárahnjúkum notaði hann svo til að komast í samband við aðrar hreyfingar í Evrópu.

Þjóðaröryggisdeild lögreglu

Kennedy starfaði á vegum leynilegrar deildar sem ber heitið National Public Order Intelligence Unit. Þótt opinber vitneskja sé um deildina er mikil leynd yfir störfum hennar. Í febrúar árið 2013 skrifaði Andrej Hunko bréf til Damian Green, ráðherra lögreglu og dómsmála í innanríkisráðuneyti Bretlands, Home office. Þá hafði þegar verið greint frá Mark Kennedy ásamt fleirum leynilögreglumönnum NPOI. Þrátt fyrir það viðurkenndu bresk yfirvöld aðeins hluta af ásökunum sem borin eru á þau. Þar á meðal er þó sú staðreynd að Kennedy var á þeirra vegum og ferðaðist víða erlendis. Nú hefur Ólöf Nordal, innanríkisráðherra, kallað eftir umræðu um stofnun íslenskrar öryggisdeildar sem hefði forvirkar rannsóknarheimildir. Í þeirri umræðu er meðal annars byggt á skýrslu sem unnin var fyrir Björn Bjarnason, árið 2006, það er á þeim tíma sem aðgerðir lögreglu vegna mótmæla við Kárahnjúka átti sér stað. Sú skýrsla kveður á um forvirkar rannsóknarheimildir til handa lögreglu. Það vekur um leið spurnir hvaða heimildir lögregla taldi sig vinna eftir þegar almennir ferðamenn voru spurðir út í stjórnmálaskoðanir sínar á byggingarárum Kárahnjúkavirkjunar.

Náið samstarf við Breta

Í svari lögreglu við fyrirspurn Ögmundar um starfsaðferðir lögreglu og samstarf við erlendar löggæslustofnanir kemur fram að lögreglan eigi í samstarfi við Lundúnalögregluna, Metropolitan Police, sem haldi úti formlegum tengslafulltrúum við lögregludeildir á Norðurlöndum. Mark Kennedy starfaði fyrir Lundúnarlögregluna sem NPOI fulltrúi. Náttúruverndarsamtök hafa gagnrýnt að svo virðist sem þau séu af hálfu lögreglu flokkuð með alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum. „Sá sem les skýrslu ríkislögreglustjóra velkist ekki í neinum vafa um að náttúruverndarsamtök eru þar flokkuð með skipulagðri glæpastarfsemi,“ skrifaði Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, árið 2011 eftir að skýrslan kom út. „Það er líka í anda þess þegar ráðist var í heræfingar á miðhálendi Íslands gegn hinum ímyndaði óvini: Umhverfisverndarsamtökum.“ Þar vitnar Árni til þess að á árunum fyrir byggingu Kárahnjúkavirkjunar voru haldnar heræfingarnar Norður-Víkingur hér á landi. Árið 1999 birtist hryðjuverkaváin í formi umhverfisverndarsinna.

Alltaf neitað

Lögreglan hefur alltaf neitað að hafa átt í samskiptum við Mark Kennedy eða gefið í skyn að þeir hafi ekki gögn til að meta hvort, og þá hvernig, Kennedy var hér með vitund lögreglu. Þá hefur trúnaður verið borinn fyrir þegar kemur að samstarfinu við erlendar lögreglustofnanir. Í skýrslu lögreglu til innanríkisráðherra um Mark Kennedy árið 2011 segir: „Gerðar eru strangar kröfur hvað varðar miðlun, vörslu og notkun slíkra upplýsinga. Algjört lykilatriði er að traust og trúnaður ríki í þeim samskiptum.“ Þetta virðist þó aðeins eiga við um Ísland en bæði írsk og þýsk lögregluyfirvöld hafa af beiðni þingsins viðurkennt, að hluta, vitneskju um Kennedy. Þá hafa jafnvel bresk yfirvöld viðurkennt tilvist Kennedy á þeirra vegum.

Á ferð um Evrópu

Árið eftir nýtti því Kennedy sér þátttöku sína til að komast í tengsl við fólk víða um Evrópu. Ólafur Páll Sigurðsson kynnti málstaðinn víða í Evrópu og var Kennedy einn bílstjóra í slíkri ferð. Fjallað er um ferðalagið í bókinni Undercover þar sem segir að aðgerðasinnarnir hafi almennt haft lítið milli handa og tjaldað eða gist í yfirgefnum byggingum. Það átti hins vegar ekki við um Mark Kennedy sem borðaði á fínum veitingahúsum og lifði almennt í lúxus samanborið við aðra í hópnum. Þetta vakti að sögn Ólafs athygli fólks í hópnum. Ólafur var beðinn um að skrifa grein um aðgerðirnar við Kárahnjúka en Kennedy bauðst til að skrifa þá grein. Það gerði hann undir nafninu ‘Lumsk.’ Kennedy sagði að Lumsk vera nafn norskrar hljómsveitar sem væri í uppáhaldi hjá honum. Ólafur segist hafa bent honum á að orðið þýddi lúmskur á íslensku eða ‘duplicitous’ á ensku. Í bókinni kemur fram að Kennedy hafi verið brugðið. Þegar til Spánar var komið var Ólafur, samkvæmt lýsingum í bókinni, orðinn óþolinmóður gagnvart Kennedy. Þá þegar var Ólafur álitinn stórhættulegur róttæklingur á Íslandi. Aðgerðir Saving Iceland við Kárahnjúka eru róttækar á íslenskan mælikvarða. Kennedy hóf að tala upp harkalegri og öfgafyllri aðgerðir.

Agent provocateur

Ólafur telur að Kennedy hafi verið að reyna að planta hugmyndum um harðari aðgerðir í koll umhverfisverndarsinna. Hann lýsir því hvernig Kennedy hefði í raun hvatt Ólaf til hryðjuverka og bauðst til að útvega honum ‘very heavy people’ sem væru til í slíkar aðgerðir. Í bókinni segir Ólafur: „Það er flott að þú þekkir þetta fólk Mark en ekki koma með þau til mín. Hvað íslensku lögregluna varðar þá er ég nú þegar Bin Laden.“ Ásakanir um að Mark Kennedy hafi starfað sem ‘agent provocateur’ og þrýst á harðari og rótttækari aðgerðir hafa ítrekað komið fram. Alvarlegast er þó ef til vill mál Ratcliffe-hópsins. Umhverfisverndarsinnar voru handteknir og dregnir fyrir dóm vegna gruns um að hafa skipulagt yfirtöku á raforkuveri. Kennedy var meðal aðgerðarsinna á Ratcliffe-mótmælunum en málinu var vísað frá dómi. Þáttur Kennedy í skipulagningu málsins var svo mikill að málinu var vísað frá. „Við erum ekki að tala um mann sem sat aftarlega á fundum og tók glósur,“ sagði Danny Chivers, einn sakborninga, við breska blaðið Guardian, skömmu eftir að málinu var vísað frá.

Góður vinur Stone

Jason Kirkpatrick taldi Mark Stone til vina sinna og átti þátt í að kynna hann fyrir vinstrisinnuðum aðgerðarsinnum í Berlín. Áður en Kirkpatrick settist að í Berlín sat hann í bæjarstjórn smábæjarins Arcata í Kaliforníu og var um tíma aðstoðarbæjarstjóri. Hann hefur því alltaf tekið þátt í stjórnmálum og grasrótarstarfi. Kennedy gisti oft hjá Kirkpatrick og hann taldi þá góða vini. „Ég áleit hann góðan vin minn og hann sagði það sjálfur. Núna geri ég mér grein fyrir því að þetta er það sem hann sagði við alla. Ég skil núna að þetta er aðferð sem leynilögreglumönnum er kennt að nota. Aðferðin heitir að spegla [e. Mirroring]. Hún virkar þannig að ef þú segist elska kántrýtónlist, þá elskar hann kántrýtónlist.“ Kirkpatrick er enn með samviskubit yfir að hafa kynnt Kennedy fyrir fjölda fólks ómeðvitaður um hvaða mann hann hafði að geyma. Hann segist þó aðeins hægt og rólega vera að átta sig á afleiðingunum. „Það eru núna fjögur á hálft ár síðan ég komst að þessu. Fyrst var ég reiður, fannst ég svikinn, en mest var ég reiður. Ég vissi nefnilega að hann hefði farið verr með vinkonu mína en mig. Ég einbeitti mér að því að sýna henni stuðning.“ Mál Mark Kennedy var til umfjöllunar í þýska þinginu nýlega. Þar er enn leitað svara um hvers vegna hann var á svæðinu, í umboði hvers og hvaða leiðir fólk sem brotið er á geti nýtt til að leita réttar síns. „Satt að segja þá hafði ég ekki tíma til að gúggla þig eftir að þú hafðir samband,“ segir Kirkpatrick við blaðamann MAN. „Þetta er dæmi um afleiðingar málsins en ég er hægt og rólega að leyfa mér að hugsa um afleiðingarnar. Ég treysti engum. Einhver gaur frá Íslandi hefur samband og segist vilja tala við um um málið. Fyrsta sem ég hugsa er hvort þú sért í alvörunni blaðamaður eða ertu kannski bara lögga að njósna um mig,“ segir hann.

Vænissýki þeirra sem njósnað er um

Kirkpatrick segist óttast að íbúðin hans verði hleruð eða að fólk sé að nálgast hann til að afla upplýsinga. Hann bendir á að Kennedy hafi verið undir fölsku flaggi í sjö ár. Það sé ótrúlega langur tími. „Sumir myndu eflaust kalla mig vænissjúkan en það hefur verið njósnað um mig. Vænissýki er órökstudd hræðsla en mín lögregluskrá sýnir svart á hvítu að um mig er njósnað.“ Hann sýnir mér möppu með upplýsingum um hann. Mappan er fengin með beiðni til þýskra yfirvalda. Fullan aðgang fékk hann ekki, aðeins útdrátt. Athygli vekur að í skýrslunni eru ferðir hans skráðar jafnvel eftir að ljóstrað var upp um Kennedy. Í möppunni er að finna upplýsingar um að hann hafi mætt á opinbera stjórnmálafundi, rætt við blaðamenn og flutt ræður. Ekkert ólöglegt er að finna. Allt er innan ramma réttarins til stjórnmálaþátttöku.

Til hvers?

Í Bretlandi hefur það vakið undrun að enginn virðist hafa verið dæmdur sökum upplýsinga frá Kennedy. Þrátt fyrir sjö ár í felum og ferðalög þvert á álfuna eru engin merki þess að glæpir hafi verið stöðvaðir eða upprættir, aðeins að stjórnmálaskoðanir fjölda fólks hafi verið ítarlega skráðar. Þrátt fyrir gríðarlegar aðgerðir íslenskra lögregluyfirvalda, langvarandi eftirlit og fjölda sakfellinga er málarekstur gegn mótmælendum iðulega vegna óhlýðni við lögreglu. Það virðist því aldrei hafa vaknað sú spurning hvort aðgerðirnar séu á ásættanlegum skala miðað við þau brot sem óttast var að yrðu framkvæmd. Meðalhófsreglan á að tryggja almenningi að aðgerðir lögreglu fari ekki langt út fyrir hófsemd og séu í samræmi við meint brot.

Efast ekki um vitneskju lögreglu

„Ég hafði grunsemdir um að það hefðu verið lögreglumenn sem hefðu farið inn í raðir mótmælenda við Kárahnjúka,“ segir Ögmundur Jónasson aðspurður hvers vegna hann hafi sem innanríkisráðherra kallað eftir skýrslu um aðgerðir lögreglu og samskipti við Mark Kennedy. Ögmundur telur að markmið þess að senda leynilögreglumenn í raðir aðgerðarsinna hafi verið að trufla og sverta þá sem stóðu í mótmælum. Auk þess myndu þeir gefa upplýsingar til lögreglu. „Ég vildi fá það frá lögreglunni hvernig þessu samstarfi hefði verið háttað,“ segir Ögmundur. Hafa ber í huga að breska lögreglan og sú þýska og eflaust fleiri stunduðu það að elta hópa sem létu til sín taka í mótmælum víðs vegar um Evrópu og víðar, koma flugumönnum inn í raðir þeirra til að njósna um þá og ekki síður hitt að hvetja til aðgerða sem væru ólöglegar og lítt til vinsælda fallnar. Frumkvæði í þessu efni og hugsanlega öll framkvæmd gæti einvörðungu hafa verið erlendis frá. Hins vegar var lögreglan á Íslandi hugsanlega með í vitorði og fékk í öllu falli, líkt og kom fram í skýrslunni, upplýsingar sem voru fengnar með þessum hætti. Ögmundur var á þessum tíma harðlega gagnrýndur fyrir að vilja rýmka forvirkar rannsóknarheimildir og jafnframt var hann gagnrýndur fyrir að ganga ekki harðar fram til að knýja fram nákvæmlega hvað lögreglan hefði aðhafst og nafngreina hlutaðeigandi. Á þessum tíma voru til staðar leiðbeinandi reglur ríkissaksóknara um notkun slíkra aðgerða. Fjallað er um notkun flugumanna við sakamálarannsóknir hér á landi í skýrslu dómsmálaráðuneytisins frá árinu 1999. Skilyrði notkunar flugumanna samkvæmt reglugerðinni sem sett var árið 2011 í kjölfar Kennedy málsins er að rannsaka verði brot sem varðar meira en átta ára fangelsi með nokkrum undantekningum sem sérstaklega eru teknar fram. Þar á meðal eru kynferðisbrot á borð við vændi og nettælingu sem beinist að börnum, auðgunarbrot og fíkniefnabrot. Þá er sérstaklega kveðið á um að rannsóknarúrræðunum megi beita gegn skipulagðri glæpastarfsemi en við henni sem slíkri liggur fjögurra ára fangelsi. Ögmundur var gagnrýndur fyrir að rýmka heimildir lögreglu með reglugerðinni. Þessu andmælir hann. „Það er grundvallarmisskilningur. Reglugerðin byggir á sakamálalögum sem sett voru árið 2008, en þar er sérstaklega lagt til að setja reglur um notkun flugumanna, að tillögu ríkissaksóknara. Drögin sem ég fékk upphaflega í hendur voru mun rýmri og hefðu ekki tekið á því sem átti sér stað við Kárahnjúka. Ég taldi að draga þyrfti lærdóm af þessu máli og gerði viðeigandi breytingar, til dæmis að miða við átta ára fangelsi en ekki sex ára fangelsi og að kveða á um sérstakt samþykki ríkissaksóknara. Ennfremur kveður reglugerðin á um að lögreglumenn megi ekki stofna til kynferðislegra eða tilfinningalegra sambanda í samskiptum eins og þessum, en breska lögreglan hafði sent lögreglumenn inn í svefnherbergi mótmælenda til að safna upplýsingum. Hvað varðar opnun á forvirkar rannsóknir þá vísa ég í frumvarp sem ég lagði fram haustið 2012 en náðu því miður ekki fram að ganga. Þar voru stórlega þrengdar heimildir til rannsókna og kom fram hörð gagnrýni frá ýmsum innan lögreglunnar og á Alþingi sem vildu hafa sem rýmstar heimildir. Hvað skýrsluna sem ég lét gera um Kárahnjúka áhrærir þá var hún mjög mikilvæg því hún staðfesti að íslenska lögreglan hafði fengið upplýsingar frá erlendum lögregluliðum og þar með upplýsingar sem safnað var með notkun flugumanna.“

Staðfesta hvorki né neita

Jenny Jones, fulltrúi í borgarráði London fyrir Græningjaflokkinn er meðal breskra stjórnmálamanna sem leitað hafa svara frá lögregluyfirvöldum yfir eftirlit með umhverfisverndarsinnum. Um tíma var Jenny á eftirlitsskrá Lundúnarlögreglu en hún hefur ekki vitneskju um að fylgst hafi verið með henni af hálfu leynilögreglumanna. „Okkur, í flokki Græningja, grunar að lögreglan stundi enn eftirlit með fólki, sérstaklega kjörnum fulltrúum eins og mér,“ segir Jones. „Þrátt fyrir niðurlæginguna sem lögreglan hefur mátt þola undanfarið þá virðast þeir ekki hafa hætt. Það er um leið ótrúlega erfitt að fá nokkur svör. Alltaf kemur lögreglan aftur með svar um að allt sé þetta í þágu þjóðaröryggis og það virðist engin leið að komast framhjá því.“ Eftirlit lögreglu með Jones hófst eftir að hún tók sæti í stjórnsýslunefnd sem sinna á eftirliti með störfum lögreglu. „Satt best að segja þá var eftirlitið með mér frekar aumkunarvert. Þeir tóku saman einhverjar upplýsingar um mín störf en ekkert sérstaklega viðkvæmt. Vandinn er sá að ég veit bara það sem þeir segja mér. Hugsanlega er meira í gangi.“ Hún segir fáar hömlur virðast á lögregluyfirvöldum í Bretlandi. „Við vitum satt að segja ekki skala njósnaaðgerða lögreglu,“ segir Jones. „Þær eru mögulega tröllauknar og lögreglan virðist alltaf halda þeim áfram þrátt fyrir að upp um þá komist.“

Fátæk, útlensk og illa lyktandi

Í greininni Spellvirkjar og mótmælendur, sem fjallað er um að ofan, sést líklega furðulegasta birtingarmynd andúðar lögreglu á mótmælendunum. Í greininni er því lýst hve illa lyktandi mótmælendur eru, skrýtin og illa til fara. Þau eigi litla peninga og veki almennt ónæði. “Ætli maður græði mikið á því að vera atvinnumótmælandi” spurði ungur Reyðfirðingur okkur. “Nei, þú hefur að minnsta kosti ekki efni á sápu, svaraði félagi minn,“ segir í greininni. „Þá einkenndi það hópinn að þau höfðu litla peninga handanna á milli og önnur háttsemi þeirra svo ekki sé minnst á spellvirkin vöktu litla hrifningu heimamanna. Þau sáust gramsa í rusli fólks til að leita að einhverju ætilegu, stálu afgöngum af borðum í söluskálum og við það bættist að þau voru skítug, illa lyktandi og illa til höfð. Sennilega passaði það inn í þeirra lífstíl og hugsjónir en það má segja að flestir aðrir hafi viljað sjá þau fara eitthvert sem lengst í burtu.“ Gísli er ósáttur við þá tilhneigingu fjölmiðla að tala um mótmælendur í sömu andrá og Saving Iceland hópinn. „Fjölmiðlar hafa kallað það fólk mótmælendur en það er sorglegt að nota sama orð yfir alla sem eru á móti framkvæmdunum. Þeir sem mótmæla í sátt við lög eru mótmælendur en þeir sem einsetja sér með ásetningi að raska starfsemi eru ekki mótmælendur í þeim skilning. Hér eftir kýs ég að kalla þá spellvirkja.“ Þá fer það mikið fyrir brjóstið á honum að erlendir aðilar komi hingað til að mótmæla. „Venjulegt fólk fer ekki í tjaldferðalag og þyngir sig með rörum, reiðhjólalásum (sérstaklega ef það er ekki með reiðhjól), rörhólkum og keðjum. Best þótti mér þó þegar hópur manna minntist Jóns forseta og að við værum þjóð hans sem sagði “Vér mótmælum”. Sömu menn kusu að gleyma að hann var að mótmæla íhlutun útlendinga í íslensk málefni og það var nákvæmlega það sem var að gerast.“ Við lestur greinarinnar er ekki annað hægt en að velta fyrir sér hvort lögreglumenn deili almennt þessari sýn Gísla á fólki sem talið er skrýtið eða utan meginstrauma. Um leið er eðlilegt að spyrja hvort slík þröngsýni sé til þess fallin að skekkja dómgreind lögreglunnar til að bregðast við í hlutfalli við meint brot.

Við vinnslu umfjöllunarinnar var blaðamanni veittur aðgangur að fjölda ljósmynda, myndbandsupptaka og skjala í fórum aðgerðarsinna auk þess að hafa rætt við aðgerðarsinna á Íslandi, Bretlandi og Þýskalandi sem og kjörna fulltrúa í löndunum þremur. Lögregla sýndi litla samvinnu en byggt er á skýrslum og svörum lögreglu sem þegar hafa verið birtar. Upplýsingar í þeim eru ófullnægjandi og stangast á við önnur gögn. Lögreglan gaf ekki færi á sér til að svara spurningum um misræmi á gögnum lögreglu og mótmælendana.

Greinar um Mark Kennedy á íslensku.

Greinar um Mark Kennedy á ensku.

2 Responses to “Flugumaður njósnaði um mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar”

 1. Pétur skrifar:

  Góð samantekt.

  Svona í þessu samhengi þá er ég búinn að vera hugsi yfir þessu máli upp á síðkastið;

  ,,Frumvarp til laga um handtöku og afhendingu manna til og frá Íslandi vegna
  refsiverðra verknaða á grundvelli handtökuskipunar“.

  http://www.althingi.is/thingstorf/thingmalalistar-eftir-thingum/ferill/?ltg=145&mnr=617

  http://www.althingi.is/altext/145/s/1019.html

 2. Pétur skrifar:

  Svo eru það frekar ískyggilegt einhvernvegin hvernig árskýrslur Landsvirkjunar frá 2012-2016 eru settar fram.

  ,,Low energy prices“ stemmning þar á ferðinni sýnist mér.

  http://www.landsvirkjun.is/fjarmal/arsskyrslur

  Sjón er sögu ríkari fyrir þá sem hafa ekki séð þessi undarlegheit.

  Öllin árin þar á undan eru, eins og öllu eðlilegra er, bara á pdf formi.

  Það er sótt hart af fólki sem aðhyllist hugsanaæfingar sl daga, mánuðina og ár,

  Í eymdinni og vanmættinum gagnvart öllu þessu rugli er ég búinn að semja þá samsæriskenningu að þessir erlendu auðhringir, sem Sjálfstæðisflokkurinn heldur greinilega að hann hafi yfirhöndina í samskiptum við, séu að fara að fá Landsvirkjun. Fyrr en seinna.

Náttúruvaktin