'Kapítalismi' Tag Archive

ágú 26 2018
3 Comments

Að lifa og deyja fyrir betri heim


Það er með djúpum sökknuði sem Saving Iceland kveður Helgu Katrínu Tryggvadóttur, doktorsnema í mannfræði, sem féll frá 26. júlí. Í virðingarskyni birtum við hér grein hennar um baráttumanninn Hauk Hilmarsson.

Helga Katrín Tryggvadóttir

Fyrir nokkrum árum hreyfst ég svo mjög af hugmyndafræði kúrdískra hópa í Rojava og baráttusveitum kvenna meðal þeirra, að mér fannst um tíma sem það eina verkefni sem væri þess virði að vinna væri að leggja þeim lið, jafnvel ganga til liðs við þær. Ég fylgdi þessu þó ekki eftir með meira en öðru auga á samfélagsmiðlum. Þar var lýst bæði baráttunni gegn ISIS og því óréttlæti sem Kúrdar væru beittir innan landamæra Tyrklands. Brátt fór ég þó að missa trúna á þessu, það stafaði af því að ég vissi ekki hvort lýsingar hópanna væru í raun og veru réttar og það var engin leið fyrir mig að komast að raun um það nema fara sjálf á svæðið. Þaðan berast engar „hlutlausar“ fréttir. 

En það er ekki til neitt sem heitir hlutleysi í stríði, ekki einu sinni með því að dveljast á fjarlægri eyju í Atlantshafi getum við talist hlutlaus. Við erum meðlimir í hernaðarbandalagi og borgum í það gjöld. Þau gjöld eru notuð til kaupa á vopnum, meðal annars af NATO ríkinu Tyrklandi, sem notar þau til að ráðast inn í sjálfstætt ríki og drepa saklaust fólk. Við erum með Sjálfstæðisflokk í ríkisstjórn sem er í bandalagi með flokki Erdogans Tyrklandsforseta. Í stríði þar sem nánast öll stórveldi heims eru með puttana og rík hagsmunatengsl allra stríðsaðila liggja þvers og kruss er enginn hlutlaus. Það að ég hafi stungið hausnum í sandinn segir meira um minn eigin aumingjaskap en hlutleysi. Ég meikaði ekki að horfa með augun opin.

En nú er ég búin að frétta það að Haukur vinur minn hafi verið á svæðinu, að berjast fyrir hugsjónum sínum um anarkisma og réttlæti. Hugsjónum mínum líka. Hann barðist fyrir okkur öll. Og enn einu sinni hefur Hauki tekist að rífa mig upp úr hægindastól hugsana minna. Á meðan trommusláttur fasismans er að hækka alls staðar í heiminum flutum við um sofandi og kusum yfir okkur enn eina ríkisstjórnina í enn einu hernaðarbröltinu, jafnvel þó hún hafi herstöðvarandstæðinga innanborðs. Þau hafa ekki enn sagt neitt um innrásina í Afrin. Að vilja frið er ekki það sama og að taka ekki afstöðu. Haukur var drepinn af NATO ríki með vopnum sem við borgum fyrir. Read More

apr 21 2013
1 Comment

Getur þú staðið í vegi fyrir framförum? — Ferðasaga úr kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi


Grein þessi, eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega í 1. hefti Tímarits Máls og Menningar 2013. Hún er unnin út frá sýningu Angeli Novi (Ólafs Páls Sigurðssonar og Steinunnar Gunnlaugsdóttur), Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum, sem fram fór í Nýlistasafninu í Reykjavík frá september til desember 2012. Sýningin var tilnefnd til menningarverðlauna DV í flokki myndlistar og sagði dómnefndin meðal annars að Angeli Novi hefði tekist „það sem engum öðrum á myndlistarsviðinu hefur tekist, að búa til verk sem á íhugulan hátt taka á því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér varð árið 2008.“ Myndirnar sem fylgja með greininni eru annars vegar stillur úr samnefndri kvikmynd sem var hluti af sýningunni; hins vegar ljósmyndir Guðna Gunnarssonar og Ingvars Högna Ragnarssonar.

Til er ljósmynd, tekin af Richard Peter, sem sýnir styttu af engli er horfir yfir rústir Dresden. Þrjár nætur í febrúar 1945 var þýska borgin — sem á mynd Peters er sem hrunin spilaborg — lögð í rúst af herjum bandamanna sem beittu þeirri hernaðarnýjung að varpa samtímis sprengjum og íkveikjubúnaði á borgina.1 Enn er deilt um hvort Dresden hafi haft nokkuð strategískt vægi sem hernaðarlegt skotmark, en bent hefur verið á að borgin hafi verið hálfgert menningarhreiður landsins. Það á að ýta undir þá söguskoðun að eyðilegging hennar, sem og fall þúsunda óbreyttra borgara, hafi fyrst og fremst verið til þess gerð að sýna fram á tortímingarmátt bandamanna og nýrrar tækni þeirra — framfarir þeirra í stríðsrekstri.2

Hver svo sem skýringin er kallast ljósmynd Peters beint á við níundu tesu ritgerðarinnar Um söguhugtakið, þar sem þýski heimspekingurinn Walter Benjamin hleður merkingu á málverk Paul Klee sem hann hafði nokkru áður eignast:

Til er mynd eftir Klee, sem heitir Angelus Novus. Á henni getur að líta engil, sem virðist í þann veginn að fara burt frá einhverju sem hann starir á. Augun eru glennt upp, munnurinn opinn og vængirnir þandir. Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fram fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur, sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki lengur dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann allt til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur.3

Orð Benjamins eru tæpitungulaust svar við spurningu sem öll pólitísk umræða fer fram í skugganum af: Hvað eru framfarir? Hvað raunverulega þýðir þetta allt að því heilaga orð, þessi undirstöðurök allra helstu pólitísku, efnahagslegu og félagslegu stórframkvæmda sem keyrðar eru í gegn í nafni aukinna lífsgæða og velmegunar fjöldans? Þetta orð sem horft er til, oft með trúarlegum hætti, sem leiðarinnar að fullkomnun, stígsins til fyrirheitna landsins — jafnvel fullkomnunarinnar sjálfrar.

Tuggur hinna kviksettu

„Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Þessi margtuggna klisja gnæfði síðastliðið haust stórum stöfum yfir inngangi Nýlistasafnsins í Reykjavík. Formuð líkt og hið illræmda skilti, sem kaldhæðnislega boðaði íbúum Auswitzch fangabúðanna frelsunarmátt vinnunnar, vörðuðu orðin innganginn að samnefndri sýningu Angeli Novi — samstarfsverkefnis Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar — sem stóð yfir í safninu frá lokum september til byrjunar desember síðasta árs.

Kjarni sýningarinnar var samnefnd kvikmynd sem að hluta var tekin upp í Grikklandi og á Íslandi á síðasta ári, að öðrum hluta samansett úr myndefni frá ýmsum ljósmynda- og kvikmyndasöfnum. Í forgrunni myndarinnar eru tveir til þrír einstaklingar í senn, kviksettir í sandi svo höfuðin ein standa upp úr. Ófærir um sjálfstæða hreyfingu tyggja þeir á milli sín eða skiptast á að gleypa ofan í sig og gubba út úr sér hvítum silkiborðum sem á eru ritaðar ýmsar klisjur og kreddur vestræns samfélags: Read More

feb 25 2012

Vekjum ekki sofandi dreka – Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu


Eftir Guðna Elísson. Birtist upphaflega í 4. tölublaði Tímarits Máls og Menningar árið 2011.

Í frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“.1 Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“.2

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er.3

Read More

nóv 09 2011
1 Comment

Frá Síberíu til Íslands: Century Aluminum, Glencore International og skuggaveröld námuvinnslu


Sérstök samantekt fyrir Saving Iceland, eftir Dónal O’Driscoll

Formáli

Fyrirtækið Glencore er aðaleigandi Century Aluminum sem á eitt starfandi álver á Íslandi og annað hálfbyggt. Ísland er þannig aðalframleiðsluland áls fyrir Century. Hverjir standa að baki Glencore og hvaða þýðingu hefur það fyrir Ísland? Í þessari grein er fjallað um þennan stærsta hrávörumiðlara heims síðan Enron var og hét. Myndin sem dregin er upp sýnir bæði umfang og eðli áhrifa Glencore á heimsmörkuðum fyrir málma, korn, kol og olíu – fyrirtækið getur stjórnað verðmyndun svo að fáir útvaldir hagnast gríðarlega meðan almenningur tapar. Greinin varpar ljósi á þéttriðið tengslanet milli Glencore og nokkurra stærstu námufyrirtækja heims, tengsl sem felast í sameiginlegu eignarhaldi á öðrum fyrirtækjum og því að sömu aðilar eiga sæti í stjórnum fyrirtækjanna. Sagt er frá helstu hluthöfum í Glencore, sem sumir hverjir eiga stærri hlut persónulega en stofnanafjárfestar. Meðal þessara hluthafa má nefna fjárfestinn Nathaniel Rothschild sem á rúmar 40 milljónir dala í Glencore og er auk þess persónulegur vinur þeirra Peter Mandelson (breskur stjórnmálamaður og fyrrverandi viðskiptafulltrúi Evrópusambandsins) og George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Bretlands.

Í greininni er ennfremur lýst mannréttindabrotum og umhverfisspjöllum sem skrifa má á reikning Glencore. Þar má fremst telja morðið á leiðtoga Maya indíána í Guatemala, Adolfo Ich Chamán, árið 2009. Adolfo hafði mótmælt framkvæmdum Glencore í Guatemala meðan Peter Jones var framkvæmdastjóri fyrirtækisins (Jones situr enn í stjórn Glencore). Færð eru rök fyrir því að Glencore hafi fleiri umhverfisspjöll og mannréttindabrot á samviskunni en flest önnur námafyrirtæki, enda hikar fyrirtækið ekki við að eiga í viðskiptum þar sem aðrir halda sig fjarri, t.d. í Kongó og Mið-Asíu ríkjum. Sem dæmi má nefna að Glencore stundaði viðskipti við Írak í tíð Saddam Hussein og við Suður-Afríku aðskilnaðarstefnunnar – bæði löndin voru undir alþjóðlegu viðskiptabanni. Marc Rich, stofnandi Glencore, átti í viðskiptum með íranska olíu þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjamanna á landið. Þessi viðskipti urðu til þess að Rich var ásakaður um innherjaviðskipti og skattsvik og flúði hann því Bandaríkin árið 1983. Hann var fyrir vikið eftirlýstur af FBI og var á tímabili einn af 10 mest eftirsóttum glæpamönnum Bandaríkjanna, eða þar til Bill Clinton náðaði hann. Glencore er enn rekið af tveimur helstu samstarfsmönnum Richs.

Read More

Síður: 1 2

jún 28 2011

Opið bréf til iðnaðarráðherra


Guðmundur Páll Ólafsson

Ágæta Katrín

Gamansemi er mér síst í huga þegar ég sest niður til að senda þér nokkar línur er varða Rammaáætlun, stefnu í orkunýtingu og nýjustu útgáfu þína af skipan nefndar sem má ekki kalla nefnd – þar sem fulltrúum náttúruverndarfélaga á Íslandi hefur verið úthýst. Í útvarpsfréttum 24. júní sagðir þú náttúruverndina „misskilja“ málið og gafst skýringar sem duga lítt til að draga úr áhyggjum um alvarlega aðför að íslenskri náttúru hvað þá til að efla traust á stjónvöldum og stjórnmálamönnum.

Til þessa hefur fátt bent til þess – annað en barátta og vilji Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra – að stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms Sigfússonar um að náttúruvernd skuli hafin til vegs og virðingar á Íslandi verði annað en fagurgali. Ef Rammaáætlun undir þinni stjórn fer eins hörmulega og margt bendir til verður virkjunarkostum forgangsraðað af lögfræðingum eftir ósk orkugeirans og athafnafíklanna sem enn leika lausum þrátt fyrir Hellisheiðar- og Kárahnjúkavirkjun en verndun dýrmætra svæða sniðgengin. Finnst þér virkilega að síðasti skollaleikur í iðnaðarráðuneytinu bendi til þess að vegur náttúruverndar hafi aukist? Read More

apr 11 2011

Þakið saur og blóði annarra


Guðbergur Bergsson

El Pais

Það er ekkert annað en tákn okkar tíma og eðli hungraðra, og stundum staðnaðra og leiðinlegra, fjölmiðla okkar að vilja veita ítarlegar upplýsingar um atburði sem skipta engu máli fyrir mannkynið, að þefa uppi tíðindi frá fjarlægustu afkimum jarðarinnar, eins og Íslandi, og missa svo áhugann á þeim um leið og eitthvað fréttnæmt gerist annars staðar. Ísland var þar til nýlega land sem var þorra manna nokkurn veginn óþekkt. En nú er sagt um landið að bylting „fólksins“ hafi fellt íslensku ríkisstjórnina og að þetta gæti orðið að fordæmi fyrir önnur stærri lönd þar sem spilling ríkir. Read More

feb 13 2009

Úlfur í gjaldeyrissjóðsgæru


Hvað er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn?

World Bank (WB) og International Monetary Fund (IMF), eða Heimsbankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, eru fjármálastofnanir sem voru stofnaðar árið 1944 með mjög skýrt markmið: að standa saman að uppbyggingu og endurbyggingu eftir seinni heimsstyrjöld og að lána reiðufé til landa í fjárhagserfiðleikum.

Fljótega byrjuðu þessar stofnanir að sníða skilyrðin fyrir aðstoð, að aðstæðum í lántökulöndunum. Yfirleitt snerust þessi skilyrði um einkasamninga við erlend fyrirtæki, oftast bandarísk, um framkvæmd uppbyggingar, ásamt brunaútsölu ríkisfyrirtækja, sem voru þá keypt upp af erlendum aðilum með hagvöxt að leiðarljósi en ekki hag fólksins. Yfirleitt hefur þetta leitt til lækkunnar launa, hækkaðs verðs á vörum og þjónustu, yfirtöku auðlinda og gereyðingu lífsgæða í viðkomandi landi.

Skilyrðin eru að meðaltali 114 og eru í megindráttum eins fyrir öll lönd, en þó alltaf sveigð aðeins til eftir aðstæðum og auðlindum hvers lands. Nokkur atriði eru þó eins í öllum tilfellum. Viðskiptahömlur og verndartollar eru fjarlægðir, þjóðarbúið selt í hendur erlendra fjárfesta, velferðarkerfið skorið verulega niður og vinnumarkaðurinn gerður sveigjanlegur (sem í reynd þýðir að leggja niður stéttarfélög). Read More

nóv 15 2008

Náttúra.info vill breyta spítölum í ferðaþjónustu


NEI

Haukur Már Helgason

Náttúra.info er félagsskapur um náttúruvernd og náttúrufróðleik á Íslandi. Á vefsvæðinu sem hópurinn er kenndur við er snúið að komast að raun um hverjir stofnuðu hann, en mest áberandi fyrir hópsins hönd hafa verið Björk Guðmundsdóttir og Sigur-rós. Á vefsvæðinu má í fljótu bragði greina táknrænan stuðning við sprotafyrirtæki, einkum hátækni og hönnun, til viðbótar við einföld náttúruverndarsjónarmið. Vefurinn og hópurinn voru sett á laggirnar um svipað leyti og tónleikar með sömu yfirskrift og sömu grafísku umgjörð voru haldnir síðasta sumar. Tónleikarnir voru kolefnisjafnaðir „og buðust bændur á Þjórsársvæðinu og Sól á Suðurlandi til að gróðursetja 1001 björk og hefur garðurinn fengið nafnið Sigur Rósarlundur,“ sagði þá í tilkynningu.

Félagsskapurinn endurbirtir nú skýrsluna „Heilsulandið Ísland“ sem unnin var fyrir Samgönguráðuneytið veturinn 1999-2000, um heilbrigðiskerfi sem ferðamannaiðnað. Skýrslunni gömlu fylgir hópurinn eftir með eigin framsetningu á tíu tillögum um „Ísland sem land heilbrigðis“. Texta hópsins má líklega líta á sem áskorun, í öllu falli virðist smit vera á milli hans og „gullpakkans“ sem Björk Guðmundsdóttir færði forsætisráðherra sl. miðvikudag (12. nóv), en þeim pakka fylgdi bréf þar sem helstu „sprotahugmyndir“ voru reifaðar, meðal annars þessi: „að heilsutengd starfsemi tengist uppbyggingu á þekkingar- og fjármálasviðum.“

Í áskoruninni „Heilsa Íslands“ má finna nánari útlistun á þessari hugmynd. Þar segir meðal annars:

„6. Vekja þarf meðvitund um þau verðmæti sem við eigum og grundvöll þeirra til uppbyggingar arðbærs heilsugeira. Það er veruleg sóun í kerfinu í formi dýrra stofnana sem geta ekki breyst af því að sokkinn kostnaður er hugsaður sem verðmæti. Vinnuafl er oft óþarflega dýrt og möguleikar eru á að gera þjónustusamninga sem væru mun ódýrari í framkvæmd. Draga þarf úr þessari sóun og nýta frekar sokkinn kostnað með öðrum hætti en hingað til. Mikill hluti af sóuninni í heilbrigðisgeiranum felst í því að fenginn ávinningur af dvöl í heilsuumhverfi er ekki skilgreindur sem verðmæti og því hvorki metinn af verðleikum né settur í verð. Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Aðrar tillögur eru í sama dúr. Þessi verðmæti sem á að takmarka aðgengi að, til að auka virðingu fyrir þeim, er semsagt líf þitt og limir. Heilsa þín. Þessi viðskiptalegi orðaforði um heilsu fólks er framleiddur í viðskiptaháskólunum sem spruttu hér eins og gorkúlur, í fagi sem er nefnt heilsuhagfræði og þjónar þeim eina tilgangi að undirbúa aukinn einkarekstur í heilbrigðisgeiranum – að líf og dauði verði rekin á sömu forsendum og annar íslenskur, eða alþjóðlegur, bissness. Þá hlýtur fólk nú að fara að bera meiri virðingu fyrir lífi sínu og dauða, ef Hannes Smárason kemur að málinu.

Þessar hugmyndir voru raunar líka reifaðar í skýrslu framtíðarhóps Viðskiptaþings 2006 um þróun viðskiptalífs á landinu til ársins 2015. Þar eru þessar hugmyndir raunar settar efstar á lista í sóknarfærum viðskiptalífsins:

„3.10 AÐGERÐAÁÆTLUN TIL ÁRSINS 2015
— Einkaaðilum verði í auknum mæli treyst til að reka heilbrigðisstofnanir.
— Kynna Ísland sem land heilbrigðis.
— Einkaaðilar taki við fleiri þáttum almannatryggingakerfis.

— Einkaaðilar byggi, fjármagni og reki fleiri samgöngumannvirki.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við bankana um fjármögnun íbúðarhúsnæðis.
— Afnema tolla og landbúnaðarstyrki og aflétta höftum af bændum.
— Ríkið hætti að stunda samkeppni við einkaaðila.
— Fækka ráðuneytum.
— Fækka stofnunum án þess að það valdi auknum kostnaði.“

Í hópnum sem vann þá skýrslu má finna nokkra gamla góða: Bjarna Ármannsson, þáverandi forstjóra Íslandsbanka, Finn Ingólfsson, forstjóra VÍS, Gunnar Pál Pálsson, margfrægan formann VR, Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóra Kaupþings, ásamt fastagestum í hugmyndaheimi viðskiptalífsins, sem veita hugmyndunum vottun barna og listafólks: Magnúsi Scheving, Hjálmari H. Ragnarssyni, Þorvaldi Þorsteinssyni og síðast en ekki síst Svöfu Grönfeldt, sem er nú landskunn fyrir skýrslugerð.

Með öðrum orðum: það er ekki bara þegar íslenskt viðskiptalíf og kapítalísk hagskipan hafa unnið sér rækilega inn fyrir algeru vantrausti, heldur einmitt í sömu viku og stærsta einkafyrirtækið á heilbrigðissviði, sem rekið var í hagnaðarskyni, lagði upp laupana, þrátt fyrir töluverða fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera, sem einkavæðing og gróðarekstur á sviði lífs og dauða er boðaður eins og ekkert hefði í skorist, með fulltingi fólks sem á að vilja og vita miklu, miklu betur.

„Það er þess vegna mikilvægt að gera fólk betur meðvitað um hvaða verðmæti það er að fá og hugsanlega takmarka einhvern veginn aðgengi að þessum verðmætum þannig að fólk beri virðingu fyrir þeim.“

Oj bara! Nei. hrækir á þessar hugmyndir og skorar á nattura.is að draga stuðning sinn við þær til baka hið snarasta. Það er einmitt þetta sem nú þarf að varast. Náttúran skiptir máli. Amma skiptir meira máli.

Hér að neðan má sjá þau firmamerki sem fylgdu skýrslu Viðskiptaþings um hugmyndirnar úr hlaði, 2006.

styrkt

Hér fylgja nokkuð áhugverð samskipti um innihald ofanverðrar greinar á NEI: Read More

okt 13 2008

Kapítalismi þrífst á ójöfnuði


Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, upphaflega birt í Morgunblaðinu

Í grein sinni „Er nóg komið af áli í heiminum?“ bendir Jakob Björnsson á að „langsamlega stærstur hluti álnotkunar í heiminum í dag er í núverandi iðnríkjum þar sem 25% jarðarbúa eiga heima.“ Og að þegar Kína og Indland hafa iðnvæðst munu 62% mannkyns búa í iðnríkjum og að hin 38% séu á sömu leið; vilji njóta lífskjara iðnvæddu ríkjanna, dreymi jafnvel um bíla og bjórdósir. Þetta eru mjög nauðsynlegar staðreyndir.

Það er tvennt sérstaklega áhugavert við grein Jakobs. Hann segir það raunhæfan möguleika að allir jarðarbúar geti náð þeim lífsgæðum og -háttum sem vesturlandabúar búa við. Og að jöfnuður milli mannfólks sé mögulegur innan þess kerfis sem við búum í.

Vestrænt samfélag hefur verið kennt við velmegun sem er sögð af hinu góða. Hún er sögð vera merki um velgengni og framsækni. En hverju byggist velmegunin á? Hverju er fórnað fyrir lífsgæðin svokölluðu?

20% jarðarbúa nota um 80% af nýttum auðlindum jarðarinnar. Vistfræðilegt fótspor vesturlandabúa er svo stórt að til þess að allir jarðarbúar gætu lifað á sama hátt þyrfti nokkrar plánetur í viðbót. Með það fyrir augum að óiðnvædd lönd séu að nálgast okkur hvað varðar iðnvæðingu, framleiðslu og neyslu, er breytinga sannarlega þörf. Read More

des 16 2007

Ólafur Páll Sigurðsson í ‘Upp og ofan’ (Viðtal)


Jón Ólafsson (JÓ) ræðir við Ólaf Pál Sigurðsson (ÓPS) umhverfisverndarsinna og stofnanda samtakanna Saving Iceland í þættinum Upp og ofan á Rás 1. 16. desember, 2007.

Jón Ólafsson:
Góðir hlustendur, ég hef í haust fengið til mín fagfólk sem oftast hefur verið tengt einhverjum háskóla landsins og verið að fást við hluti sem að mér hafa fundist að tengdust bæði háskólasamfélaginu og líka pólitík. Í dag, í þessum síðasta þætti mínum, hef ég fengið hingað mann sem er ekkert tengdur háskólasamfélaginu en hins vegar mjög tengdur pólitík eða pólitískum aðgerðum en það er Ólafur Páll Sigurðsson, menntaður bókmenntafræðingur og kvikmyndagerðarmaður en nú aðallega þekktur aktífisti og margir tengja hann væntanlega við samtökin Saving Iceland.
Read More

Náttúruvaktin