Author Archive

apr 21 2013
1 Comment

Getur þú staðið í vegi fyrir framförum? — Ferðasaga úr kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi


Grein þessi, eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega í 1. hefti Tímarits Máls og Menningar 2013. Hún er unnin út frá sýningu Angeli Novi (Ólafs Páls Sigurðssonar og Steinunnar Gunnlaugsdóttur), Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum, sem fram fór í Nýlistasafninu í Reykjavík frá september til desember 2012. Sýningin var tilnefnd til menningarverðlauna DV í flokki myndlistar og sagði dómnefndin meðal annars að Angeli Novi hefði tekist „það sem engum öðrum á myndlistarsviðinu hefur tekist, að búa til verk sem á íhugulan hátt taka á því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér varð árið 2008.“ Myndirnar sem fylgja með greininni eru annars vegar stillur úr samnefndri kvikmynd sem var hluti af sýningunni; hins vegar ljósmyndir Guðna Gunnarssonar og Ingvars Högna Ragnarssonar.

Til er ljósmynd, tekin af Richard Peter, sem sýnir styttu af engli er horfir yfir rústir Dresden. Þrjár nætur í febrúar 1945 var þýska borgin — sem á mynd Peters er sem hrunin spilaborg — lögð í rúst af herjum bandamanna sem beittu þeirri hernaðarnýjung að varpa samtímis sprengjum og íkveikjubúnaði á borgina.1 Enn er deilt um hvort Dresden hafi haft nokkuð strategískt vægi sem hernaðarlegt skotmark, en bent hefur verið á að borgin hafi verið hálfgert menningarhreiður landsins. Það á að ýta undir þá söguskoðun að eyðilegging hennar, sem og fall þúsunda óbreyttra borgara, hafi fyrst og fremst verið til þess gerð að sýna fram á tortímingarmátt bandamanna og nýrrar tækni þeirra — framfarir þeirra í stríðsrekstri.2

Hver svo sem skýringin er kallast ljósmynd Peters beint á við níundu tesu ritgerðarinnar Um söguhugtakið, þar sem þýski heimspekingurinn Walter Benjamin hleður merkingu á málverk Paul Klee sem hann hafði nokkru áður eignast:

Til er mynd eftir Klee, sem heitir Angelus Novus. Á henni getur að líta engil, sem virðist í þann veginn að fara burt frá einhverju sem hann starir á. Augun eru glennt upp, munnurinn opinn og vængirnir þandir. Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fram fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur, sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki lengur dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann allt til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur.3

Orð Benjamins eru tæpitungulaust svar við spurningu sem öll pólitísk umræða fer fram í skugganum af: Hvað eru framfarir? Hvað raunverulega þýðir þetta allt að því heilaga orð, þessi undirstöðurök allra helstu pólitísku, efnahagslegu og félagslegu stórframkvæmda sem keyrðar eru í gegn í nafni aukinna lífsgæða og velmegunar fjöldans? Þetta orð sem horft er til, oft með trúarlegum hætti, sem leiðarinnar að fullkomnun, stígsins til fyrirheitna landsins — jafnvel fullkomnunarinnar sjálfrar.

Tuggur hinna kviksettu

„Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Þessi margtuggna klisja gnæfði síðastliðið haust stórum stöfum yfir inngangi Nýlistasafnsins í Reykjavík. Formuð líkt og hið illræmda skilti, sem kaldhæðnislega boðaði íbúum Auswitzch fangabúðanna frelsunarmátt vinnunnar, vörðuðu orðin innganginn að samnefndri sýningu Angeli Novi — samstarfsverkefnis Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar — sem stóð yfir í safninu frá lokum september til byrjunar desember síðasta árs.

Kjarni sýningarinnar var samnefnd kvikmynd sem að hluta var tekin upp í Grikklandi og á Íslandi á síðasta ári, að öðrum hluta samansett úr myndefni frá ýmsum ljósmynda- og kvikmyndasöfnum. Í forgrunni myndarinnar eru tveir til þrír einstaklingar í senn, kviksettir í sandi svo höfuðin ein standa upp úr. Ófærir um sjálfstæða hreyfingu tyggja þeir á milli sín eða skiptast á að gleypa ofan í sig og gubba út úr sér hvítum silkiborðum sem á eru ritaðar ýmsar klisjur og kreddur vestræns samfélags: Read More

apr 04 2013

Krýsuvík — Náttúrufórnir í fólkvangi


Saving Iceland bendir lesendum sínum á nýja heimildamynd Ellerts Grétarssonar, Krýsuvík — Náttúrufórnir í fólkvangi, sem forsýnd var í byrjun þessa árs og hefur nú verið gerð öllum aðgengileg á netinu.

Um myndina segir:

Krýsuvík er innan Reykjanesfólkvangs og er eitt vinsælasta útivistarsvæðið í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Til stendur að fórna þessu svæði undir orkuvinnslu sem hafa mun gríðarleg áhrif á ásýnd þessarar náttúruperlu og um leið eyðileggja gildi hennar fyrir útivist og ferðamennsku.

Í þessari heimildamynd Ellerts Grétarssonar, náttúruljósmyndara, er fjallað um Krýsuvíkursvæðið, sögu þess og jarðfræði. Varpað er ljósi á þau virkjanaáform sem uppi eru á svæðinu og hvaða áhrif þau munu hafa.

Ellert hefur ljósmyndað svæðið á ótal gönguferðum sínum undanfarin ár og kynnt sér vel náttúru þess. Í myndinni er brugðið upp fjölda mynda Ellerts af náttúruperlum svæðisins, sagt frá vinsælum gönguleiðum og fleiru áhugaverðu.

Sjá einnig ítarlega úttekt Saving Iceland á áhrifum fyrirhugaðra virkjanaframkvæmda á Reykjanesinu hér og umfjöllun um umhverfis- og heilsufarsáhrif jarðhitavirkjunarinnar á Hellisheiði hér.

mar 23 2013

Skandallinn, ropið og ríkið


Eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega á Smugunni.

Í leikriti sínu, Stjórnleysingi ferst af slysförum, dregur ítalski absúrdistinn Dario Fo upp alltragíkómíska mynd af stöðu skandalsins og dæmigerðum eftirmálum hans í lýðræðisríkjum. Aðalpersóna verksins — vitfirringurinn svonefndi, dulbúinn sem hæstaréttardómari — bendir á að sé skandalnum einfaldlega leyft að koma upp á yfirborðið og velkjast dálítið um milli tannanna á fólki, gefist því færi á að „fá útrás, reiðast, hrylla við tilhugsunina… ,Hverjir halda þessir stjórnmálamenn eiginlega að þeir séu?‘ ,Úrþvætti!‘ ,Morðingjar!‘ Og svo verður fólk ennþá reiðara og svo, rop! Örlítið, frelsandi rop til að létta undir félagslegri meltingartruflun þess.“ Read More

júl 15 2012
2 Comments

Ísland innan Evrópuvirkisins? — Leynilegar lögregluaðgerðir, takmörkun óvelkominna innflytjenda og eftirlit í netheimum


Saving Iceland kynnir erindi þýska blaðamannsins og aktívistans Matthias Monroy í Reykjavíkur Akademíunni, mánudaginn 23. júlí kl. 20:00.

Mál breska lögreglunjósnarans Mark Kennedy sýndi og sannaði hversu viðriðið Ísland er þau leynilegu lögreglunet sem síðan á seinni hluta tíunda áratugsins hafa laumast inn í og njósnað um andófshreyfingar umhverfissinna, anarkista og annara vinstrisinna. Á sama tíma hefur afhjúpun breska lögreglumannsins leitt í ljós að nánast ómögulegt er að stefna yfirvöldum fyrir dómstóla vegna ólöglegra, þverlandamæralegra lögregluaðgerða: Erfitt er að fá úr því skorið hvaða lögregluembætti í hvaða ríkjum eru ábyrg fyrir slíkum aðgerðum. Frá árinu 2005 og frameftir njósnaði Kennedy um Saving Iceland hreyfinguna sem barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og nýtti sér síðar tengsl sín og reynslu frá Íslandi til njósna um andófshreyfingar um gjörvalla Evrópu. Read More

maí 27 2012

Endurnýjanlegir orkugjafar en ósjálfbær nýting


Í apríl sl. kynntu umhverfis- og iðnaðarráðherra þingsályktunartillögu fyrir Rammaáætlun um vernd og virkjun jarðhita og vatnsafls á Íslandi. Í tillögunni er gert ráð fyrir því að hinar umdeildu áætlanir Landsvirkjunar um byggingu þriggja virkjana í neðri Þjórsá verði settar í bið, en aftur á móti að hin einstöku jarðhitasvæði Reykjanesskagans verði virkjuð nánast öll sem eitt og svæðinu þar með breytt í samfellt iðnaðarsvæði. Síðustu vikur hefur tillagan verið í höndum Atvinnuvegarnefndar Alþingis, í ferli sem innihélt umsagnarferli þar sem meira en 300 umsagnir voru sendar inn af einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og fyrirtækjum.

Umsögnunum má í grófum dráttum skipta í tvennt eftir þeim sem þær senda og þau viðhorf sem í þeim birtast: Annars vegar er um að ræða einstaklinga og náttúruverndarsamtök sem fyrst og fremst mótmæla fyrrgreindum áætlunum um gjöreyðileggingu Reykjanesskagans; hins vegar er um að ræða fyrirtæki og stofnanir sem hafa beina hagsmuni af frekari stóriðjuvæðingu Íslands og krefjast þess að Rammaáætlun gangi í gegnum þingið óbreytt frá því að 2. áfangi starfshópa áætlunarinnar var kynntur á síðasta ári, en í honum var gert ráð fyrir virkjunum í Þjórsá sem og fleiri vatnsaflsvirkjunum sem ekki eru í þingsályktunartillögunni.

Ein af umsögnunum sker sig þó frá þessum hópum þar sem í henni er fjallað um orkuframleiðslu og náttúruvernd í stærra og lengri tíma samhengi. Saving Iceland birtir hér umsögnina sem skrifuð var af og send inn af Helgu Katrínu Tryggvadóttur, þróunarfræðingi og íbúa í Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Ég, undirrituð, finn mig knúna til að gera nokkrar athugasemdir í tilefni af umræðu Atvinnuveganefndar um rammaáætlun. Athugasemdir mínar snúa ekki að einstökum svæðum heldur af heildarhugmyndum um umfang og eðli verndar og nýtingar náttúrusvæða. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan fyrst var farið af stað með rammaáætlun og fer þekkingu og rannsóknum á orkunýtingu og náttúruvernd sífellt fram. Breytingar á samfélagsmynstri og viðhorfi fólks til náttúruverndar hafa einnig verið miklar síðan fyrstu drög að rammáætlun voru sett fram, þar sem áherslan á verndun náttúrusvæða verður sífellt háværari. Með þetta í huga er nauðsynlegt að taka tillit til þess að áhersla á náttúruvernd sé líkleg til að aukast enn fremur á komandi árum, og því er nauðsynlegt fyrir Atvinnumálanefnd að huga að því að þó einhver svæði séu sett í biðflokk, þá útilokar það ekki nýtingu síðar. Verði svæði hins vegar nýtt nú þegar er ekki hægt að vernda þau eftir á. Read More

maí 22 2012
1 Comment

Sakaður um svik vegna skoðanna sinna


Í helgarblaði DV 18.-20. maí sl. birtist drottningarviðtal við Janne Sigurðsson, nýjan forstjóra Alcoa Fjarðaáls. Í viðtalinu lýsir Janne meðal annars hópeflisfundum sem haldnir voru vegna mótmælanna gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðafirði, í bland við tilfinningaklám þar sem hún líkir samfélaginu fyrir austan við dauðvona ömmu sína, hverrar lækningu mótmælendurnir börðust gegn. Einnig fullyrti Janne — og var ekki beðin um rökstyðja mál sitt nánar — að einungis fimm manns frá Austurlandi hafi verið andsnúnir virkjana- og álversframkvæmdunum.

Þann 21. maí birti DV hins vegar viðtal við Þórhall Þorsteinsson, einn þeirra Austfirðinga sem höfðu kjark og þor til að mótmæla framkvæmdunum. Í viðtalinu, sem snýr fullyrðingum Janne gjörsamlega á hvolf, kemur skýrt í ljóst hversu hörð kúgunin var á Austurlandi á þessum tíma — fólk var „kúgað til hlýðni“ eins og Þórhallur orðar það. Hann segir hér frá reynslu sinni, vinslitum, morðhótunum, tilraunum áhrifamanna til að hrekja hann úr vinnu og afskiptum Biskupsstofu og lögreglunnar af mótmælabúðum Saving Iceland — aðgerðum sem fengu hann til íhuga hvort hann byggi í lögregluríki.

Þórhallur Þorsteinsson er einn þeirra Austfirðinga sem mótmæltu aðgerðum á hálendi Austurlands vegna Kárahnjúkavirkjunar. Fyrir vikið var hann úthrópaður umhverfissinni og svikari, sakaður um að standa í vegi fyrir framþróun í samfélaginu. Áhrifamenn reyndu að hrekja hann úr starfi, hann þurfti að svara til saka gagnvart vinnuveitanda sínum og vinir hans snerust gegn honum. Undirbúningur vegna virkjunarinnar hófst árið 1999 en framkvæmdir hófust árið 2002. Virkjunin var síðan gangsett árið 2007 en þrátt fyrir að nú séu nokkur ár liðin frá því að baráttan stóð sem hæst hafa sárin ekki gróið.

„Það eru heimili hér á Egilsstöðum sem ég kem ekki inn á út af þessum deilum. Heimili þar sem ég var gestur kannski einu sinni til tvisvar í viku áður. Ég veit ekki hvort ég væri velkominn þangað í dag. Kannski. En þarna var ég að ósekju særður þeim sárum að ég hef ekkert þar inn að gera. Ég heilsa þessu fólki en ég hef ekkert inn á heimili þeirra að gera. Ég varð nánast fyrir einelti,“ segir Þórallur þar sem hann situr í hægindastól á heimili sínu á Egilsstöðum. Read More

maí 01 2012

Íslensk stjórnvöld og umhverfisverndarsamtök – frá Ríó til Ríó


Eftir Árna Finnsson. Upphaflega birt í Tímariti Máls og Menningar, 2. hefti 2012.

Dagana 20.–22. júní verður haldin ráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna, Ríó +20, en þá verða liðin 20 ár frá Ríó-ráðstefnunni um umhverfi og þróun. Enn er óljóst hvort þjóðarleiðtogar sæki ráðstefnuna, enda forðast þeir alþjóðlegar ráðstefnur er gætu leitt til niðurstöðu sem væri langt undir væntingum, sbr. Kaupmannahafnarráðstefnuna í desember 2009. Ekki bætir úr skák að þemu Ríó +20 hafa þótt heldur óspennandi fyrir stjórnmálamenn sem vilja láta til sín taka í sviðsljósi alþjóðlegra fjölmiðla.

Til þess að auka aðsókn þjóðarleiðtoga – og þar með pólitískt vægi Ríó +20 – hafa augu manna beinst að lífríki hafsins – hinu bláa hagkerfi – sem er ógnað vegna rányrkju, eyðingu kórala og annarra mikilvægra uppeldisstöðva fyrir fisk, að viðbættri eyðileggingu strandsvæða og súrnun sjávar í kjölfar hnattrænnar hlýnunar.1 Read More

apr 04 2012

„Alþjóðlegir aðgerðasinnar gerðir að glæpamönnum“


Jón Bjarki Magnússon, DV

Þýski þingmaðurinn Andrej Hunko segir evrópsk lögregluyfirvöld stefna leynt og ljóst að auknu eftirliti með aðgerðasinnum

Þetta er kannski ekki lengur á allra vitorði en það er samt staðreynd, og skjalfest, að svona hafa lögregluyfirvöld á Vesturlöndum starfað alla 20. öldina.

„Þó okkur hafi ekki ennþá tekist að breyta lögunum þá hefur okkur tekist að vekja athygli á málefninu, sem er mjög mikilvægt.“ Þetta segir þingmaðurinn Andrej Hunko sem hefur undanfarið barist gegn njósnum evrópskra lögregluyfirvalda um meðlimi í frjálsum félagasamtökum [e. social movements]. Hunko, sem er þingmaður Die Linke, systurflokks VG í Þýskalandi, hefur áhyggjur af því að slíkar njósnir séu að færast í aukana. Þá sérstaklega vegna þess að pólitískar hreyfingar á vinstrivæng stjórnmálanna virðast sífellt oftar vera settar í flokk „vinstrisinnaðra öfgahópa og hryðjuverkasamtaka“ sem „þurfi“ að fylgjast grannt með.

„Ég hef áhyggjur af þróun þessara mála. Ég er algjörlega á móti því hvernig alþjóðlegir aðgerðasinnar eru kerfisbundið gerðir að glæpamönnum.“ Hunko sem situr í nefnd Evrópuþingsins um efnahags- og peningamál, bendir meðal annars á að verið sé að vinna að því að samræma lög aðildarríkja Evrópusambandsins þannig að lögreglunjósnarar eins aðildarríkis geti starfað í öðru án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi eins og verið hefur til þessa. Telur hann þetta grafa undan starfi frjálsra félagasamtaka í álfunni. „Allt er þetta að gerast mjög hratt og án þess að nokkur upplýst umræða fari fram um málið, hvorki á meðal þingmanna þjóðþinganna né heldur Evrópuþingsins, og hvað þá almennings þessara landa.“ Blaðamaður DV hitti Hunko á skrifstofu hans í þýska þinginu í upphafi marsmánaðar.

Heimilt að njósna á Íslandi

Blaðamanni var í fyrstu neitað um inngöngu í þýska þingið þar sem hann gleymdi vegabréfinu. Í móttökunni sat kona sem hristi höfuðið ströng á svip og sagðist ekkert geta gert til þess að hjálpa. Þar sem blaðamaður stóð áttavilltur í anddyri hússins mætti honum brosmildur, hávaxinn og síðhærður maður. Göngulag hans var lauflétt, hárið grátt en sítt, og fyrr en varði var búið að opna dyrnar og hann benti blaðamanni að ganga inn. Eftir viðkomu í gegnumlýsingartæki öryggisvarðanna var gengið af stað og Hunko sagði aðeins frá þinghúsinu, þessari víðu álmu sem gleypti hann sjálfan og blaðamann á meðan gengið var upp stigana í átt að skrifstofu hans. Read More

feb 25 2012

Vekjum ekki sofandi dreka – Loftslagsmál, pólitísk umræða og olíuleit á íslenska landgrunninu


Eftir Guðna Elísson. Birtist upphaflega í 4. tölublaði Tímarits Máls og Menningar árið 2011.

Í frétt sem birtist á vef Morgunblaðsins í september 2011 segir frá því að áður „óþekktar olíulindir, sem fundist hafa í norska landgrunninu í Norðursjó, gætu verið 1168 milljarða norskra króna virði en það svarar til 24 þúsund milljarða íslenskra króna“.1 Samkvæmt norskum sérfræðingi hjá Nordea Markets hefur fundurinn gríðarleg áhrif á norskan efnahag ef lindirnar eru nýttar og lengir „til muna þann tíma, sem Norðmenn geta vænt [svo] þess að fá tekjur af olíuvinnslu“ Í bloggi um fréttina hugleiðir íslensk kona hvaða áhrif samskonar fundur hefði fyrir efnahag landsmanna: „Mikið rosalega væri það gaman fyrir íslenska þjóð ef það fyndust olíulindir á hafsbotni á svæði sem við eigum. Ég er svosem ekkert að biðja um það fyrir mig, en framtíðinni [svo] mætti vera bjartari fyrir unga fólkið og barnabörnin okkar.“ Konan vonar jafnframt að farið verði að „leita að olíu á markvissan hátt og að það finnist eitthvað“ og spyr hvort nokkuð sé að því að „biðja Norðmenn um hjálp?“ Í athugasemdakerfinu er tekið undir orð konunnar og áréttað að „ef olía finnst á Drekasvæðinu“ sé „glæpur að leggja stein í götu þess að hún verði unnin“.2

En er málið svona einfalt? Í pistli um olíu- og gasfundinn í Norðursjónum bendir Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur á að erfitt geti verið fyrir Norðmenn að nýta þessa auðlind af þeirri einföldu ástæðu að óhreyfðar olíulindir menga ekki og auka þar með ekki á gróðurhúsaáhrifin:

Fyrir loftslagsfund Sþ. í Kaupmannahöfn rétt fyrir jólin 2009 sýndi Potsdamloftslagsstofnunin með Stefan Rahmsdorf í fararbroddi fram á það að til að ná halda sig undir 2°C markinu mætti ekki brenna meira en innan við helming nýtanlegra birgða jarðefnaeldsneytis sem þá voru þekktar. Í raun eru þetta tiltölulega einfaldir útreikningar þar sem menn vita upp á hár hve [svo] hvert tonn af olíu, kolum og jarðgasi gefur af CO2 út í lofthjúpinn við bruna. Í framhaldinu spáðu menn hvernig sú aukning koltvísýrings á breytt geislunarálag lofthjúps hefði áhrif á meðalhitastig jarðar og er sú spá byggð á bestu vitneskju og þekkingu eins sagt er.3

Read More

nóv 09 2011
1 Comment

Frá Síberíu til Íslands: Century Aluminum, Glencore International og skuggaveröld námuvinnslu


Sérstök samantekt fyrir Saving Iceland, eftir Dónal O’Driscoll

Formáli

Fyrirtækið Glencore er aðaleigandi Century Aluminum sem á eitt starfandi álver á Íslandi og annað hálfbyggt. Ísland er þannig aðalframleiðsluland áls fyrir Century. Hverjir standa að baki Glencore og hvaða þýðingu hefur það fyrir Ísland? Í þessari grein er fjallað um þennan stærsta hrávörumiðlara heims síðan Enron var og hét. Myndin sem dregin er upp sýnir bæði umfang og eðli áhrifa Glencore á heimsmörkuðum fyrir málma, korn, kol og olíu – fyrirtækið getur stjórnað verðmyndun svo að fáir útvaldir hagnast gríðarlega meðan almenningur tapar. Greinin varpar ljósi á þéttriðið tengslanet milli Glencore og nokkurra stærstu námufyrirtækja heims, tengsl sem felast í sameiginlegu eignarhaldi á öðrum fyrirtækjum og því að sömu aðilar eiga sæti í stjórnum fyrirtækjanna. Sagt er frá helstu hluthöfum í Glencore, sem sumir hverjir eiga stærri hlut persónulega en stofnanafjárfestar. Meðal þessara hluthafa má nefna fjárfestinn Nathaniel Rothschild sem á rúmar 40 milljónir dala í Glencore og er auk þess persónulegur vinur þeirra Peter Mandelson (breskur stjórnmálamaður og fyrrverandi viðskiptafulltrúi Evrópusambandsins) og George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Bretlands.

Í greininni er ennfremur lýst mannréttindabrotum og umhverfisspjöllum sem skrifa má á reikning Glencore. Þar má fremst telja morðið á leiðtoga Maya indíána í Guatemala, Adolfo Ich Chamán, árið 2009. Adolfo hafði mótmælt framkvæmdum Glencore í Guatemala meðan Peter Jones var framkvæmdastjóri fyrirtækisins (Jones situr enn í stjórn Glencore). Færð eru rök fyrir því að Glencore hafi fleiri umhverfisspjöll og mannréttindabrot á samviskunni en flest önnur námafyrirtæki, enda hikar fyrirtækið ekki við að eiga í viðskiptum þar sem aðrir halda sig fjarri, t.d. í Kongó og Mið-Asíu ríkjum. Sem dæmi má nefna að Glencore stundaði viðskipti við Írak í tíð Saddam Hussein og við Suður-Afríku aðskilnaðarstefnunnar – bæði löndin voru undir alþjóðlegu viðskiptabanni. Marc Rich, stofnandi Glencore, átti í viðskiptum með íranska olíu þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjamanna á landið. Þessi viðskipti urðu til þess að Rich var ásakaður um innherjaviðskipti og skattsvik og flúði hann því Bandaríkin árið 1983. Hann var fyrir vikið eftirlýstur af FBI og var á tímabili einn af 10 mest eftirsóttum glæpamönnum Bandaríkjanna, eða þar til Bill Clinton náðaði hann. Glencore er enn rekið af tveimur helstu samstarfsmönnum Richs.

Read More

Síður: 1 2

Náttúruvaktin