'Suðurnes' Tag Archive

jún 20 2019

Bitcoinvirkjun á sílikonfótum


Viðar Hreinsson

HVALÁ.IS

Nú hefur Skipulagsstofnun gefið grænt ljós á deiliskipulag sem leyfir rannsóknir vegna fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar. Þessum rannsóknum fylgir gríðarlegt jarðrask á Ófeigsfjarðarheiði vegna vegalagningar og byggingar vinnubúða. Verði það gert er skaðinn skeður að nokkru leyti, víðernum heiðarinnar svo illa spillt að mörgum þyki ástæðulaust að hætta við. Hvalárvirkjun er óheillaverkefni byggt á hagnaðarvon, mistökum og rangfærslum og því er full ástæða til að rekja sögu þess í samhengi umhverfis og samfélags. Þessi grein er nokkuð löng, en skiptist í eftirtalda hluta:

• Skipulagður samdráttur er nauðsyn
• Opinbert stefnuleysi
• „Top gun“
• Raforka fyrir Vestfirðinga?
• Veikburða sveitarfélag og björgunin mikla
• Vönduð stjórnsýsla?
• Víðernin sem hverfa
• Arion banki og lífeyrissjóðir gegn víðernum?
• „Top Gun“ gegn Drangajökulsvíðernum
Read More

apr 29 2012

Ályktun Náttúruverndarþings 2012 um þingsályktunartillögu að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða


Náttúruverndarþing 2012 tekur eindregið undir umsögn þrettán náttúruverndarfélaga um drög að tillögu um rammaáætlun sem send var iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra 11. nóvember 2011. Þingið fagnar því að allmörg verðmæt svæði, sem löngu var tímabært að friðlýsa, hafa samkvæmt fyrirliggjandi þingsályktunartillögu verið sett í verndarflokk. Nokkur önnur svæði, þar á meðal tengd Neðri-Þjórsá, Skrokköldu og Hágöngum hafa réttilega verið færð úr nýtingu í biðflokk. Náttúruverndarþing leggur ríka áherslu á að miðhálendi Íslands í heild verði um alla framtíð friðlýst samkvæmt náttúruverndarlögum eins og ríkur stuðningur er við hjá stórum hluta landsmanna. Þá er því fagnað að tillagan gerir ráð fyrir eflingu á starfsemi á verksviði friðlýsinga.

Þrátt fyrir jákvæða þætti í þingsályktunartillögunni um rammaáætlun gerir Náttúruverndarþing 2012  alvarlegar athugasemdir við eftirtalið:

  • Náttúruverndarþing gagnrýnir harðlega fyrirliggjandi tillögur um Reykjanesskaga þar sem flest jarðhitasvæði frá Krísuvík og vestur úr eru sett í nýtingarflokk. Þingið telur virkjanir í Reykjanesfólkvangi óásættanlegar. Með því er m.a. gengið gegn áformum um að vernda fólkvanginn og stofna þar eldfjallaþjóðgarð, en náttúruverndarhreyfingin og Samtök ferðaþjónustunnar hafa áður bent á þau ríku tækifæri sem í því felast. Jarðfræði Reykjanesskagans er einstök á heimsvísu og upplifunargildi lítt snortinnar náttúru á stórum svæðum í næsta nágrenni höfuðborgarinnar er hátt. Samkvæmt ábendingum faghóps II um rammaáætlun hafa verðmæti lítt snortinna svæða í nágrenni höfuðborgarinnar að öllum líkindum verið vanmetin fyrir útivist og ferðaþjónustu. Náttúruverndarþing 2012 krefst þess að Alþingi endurskoði þennan þátt áætlunarinnar og færi hið minnsta Sveifluháls í Krísuvík, Sandfell sunnan Keilis, Stóru-Sandvík og Eldvörp í bið- eða verndarflokk.
  • Óvissa ríkir um endingu jarðvarmans sem auðlindar og um marga þætti sem tengjast beislun hans, auk umhverfis- og heilsufarsáhrifa, eins og vísindamenn hafa ítrekað bent á. Því ber að gæta varúðar í jarðvarmanýtingu, sérstaklega til raforkuframleiðslu. Fjölga ætti til muna jarðhitasvæðum í biðflokki á meðan frekari upplýsinga er aflað. Þetta á m.a. við um fyrirhugaða jarðhitanýtingu á Hengilssvæðinu og á Norðausturlandi, t.d. í Bjarnarflagi. Hafa ber í huga að þegar hefur 9 af 19 sýnilegum háhitasvæðum verið raskað með nýtingu eða rannsóknaborunum.
  • Þingið telur að svæði með afar hátt náttúruverndargildi eins og vatnasvið Jökulsánna í Skagafirði og vatnasvið Hólmsár og Skaftár í Skaftárhreppi ættu að færast úr biðflokki í verndarflokk og vísa til rökstuðnings í niðurstöður verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
  • Náttúruverndarþing beinir því til Alþingis að það færi forræði yfir efnislegri meðferð þingsályktunartillögu um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða frá atvinnuveganefnd Alþingis til umhverfis- og samgöngunefndar.

des 20 2011

Er HS Orka á heljarþröm?


Sigmundur Einarsson jarðfræðingur

Þann 23. apríl 2007 samdi HS Orka við Norðurál um sölu á 150 MW af raforku til álbræðslu í Helguvík. Samkvæmt forstjóra HS Orku eru ýmsir fyrirvarar í samningnum m.a. um arðsemi virkjana, umhverfismat, árangur af borunum, samkomulag við viðkomandi sveitarfélög og samninga við Landsnet um flutning orkunnar. Þegar ekkert bólaði á orkunni tveimur árum eftir undirritun var fyrirvörunum aflétt (30. júní 2009) og ári síðar (júlí 2010) stefndi Norðurál HS Orku fyrir vanefndir á samningum. Þá var kominn júlí 2010, þrjú ár liðin frá undirritun og ekkert hafði gerst í orkuöflun. Af einhverjum ástæðum sem mér eru ókunnar endaði málið hjá sænskum gerðardómi sem nú hefur fellt þann úrskurð að HS Orku sé skylt að afhenda Norðuráli þessi 150 MW.

Og nú gleðjast Suðurnesjamenn væntanlega því forstjóri Norðuráls segir að bræðslan geti tekið til starfa árið 2014. Þetta er loksins alveg að koma en það hefur reyndar heyrst oft áður. Ætli einhver vandamál hafi verið leyst? Hver skyldi vera orsökin fyrir þeim töfum sem orðið hafa?

Lengi framan af var umhverfisráðherra talinn sá erkióvinur sem gerði allt sem hægt var til að tefja verkið. Seinna var ríkisstjórnin í heild orðin að höfuðóvini. Um tíma féllu þung orð í garð Orkustofnunar vegna „bábilju og forsjárhyggju“ en síðustu misserin hefur m.a. staðið á skipulagsvinnu af hálfu sveitarfélaganna Grindavíkur og Hafnarfjarðar. Nú allra síðast hefur dregist að fá niðurstöðu frá gerðardómi í Svíþjóð vegna ágreinings um orkuverð. En nú er niðurstaðan komin. Ágreiningurinn reyndist vera annað og meira en orkuverðið. HS Orka vildi greinilega losna undan samningum í heild vegna þess að fyrirtækið getur alls ekki útvegað orkuna. Þetta hefur í reynd legið fyrir frá upphafi og samningurinn við Norðurál er með slíkum ólíkindum að vinnubrögðin hljóta að teljast í meira lagi ámælisverð ef samningurinn stendur. Read More

des 16 2010

Rangfærsluruna Ragnars


Bergur Sigurðsson og Einar Þorleifsson

Það er lengra mál en svo að rúmist í einni grein að fjalla um allar rangfærslurnar sem áliðnaðurinn teflir fram til þess að fegra verkefni sín og ginna samfélög til þess að kosta þau.

Áróðursmaskínurnar ganga svo langt að halda því fram að ál sé á einhvern hátt jákvætt fyrirbæri í umhverfislegu tilliti. Sannleikurinn er sá að áliðnaðurinn er námuiðnaður sem veldur verulegu umhverfisálagi, eyðir regnskógum og samfélögum frumbyggja og spillir vatnalífi og vistkerfum. Hvort heldur sem álið er notað í farartæki, umbúðir eða byggingarefni er í flestum tilvikum hægt að nota vistvænni efni.

Af nógu er að taka þegar kemur að rangfærslum iðnaðarins en í þessari grein verður látið duga að rekja helstu rangfærslur Ragnars Guðmundssonar, forstjóra Norðuráls, í Fréttablaðinu 2. des. Read More

nóv 03 2010

Nægja 80 MW til að bjarga Helguvík?


Sigmundur Einarsson

Í fréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi var sagt frá því að nú væri búið að tryggja orku til álbræðslunnar í Helguvík. Bjargvætturinn var sagður vera Landsvirkjun sem ætlar að leggja til umframafl sem til er „í kerfinu“ og ku það nema 60-80 MW.

Samkvæmt fréttinni þarf álbræðslan alls um 450 MW sem er um 150 MW minna en áður var áætlað. HS Orka er sögð munu útvega 250 MW, Orkuveita Reykjavíkur 120-140 MW og Landsvirkun bjargar því sem á vantar, 60-80 MW.

Þetta virðist einfalt. All sýnist klappað og klárt og ekki eftir neinu að bíða. Framkvæmdir ættu að geta hafist strax í dag. Eða hvað? Var þetta orkan sem vantaði til að unnt væri að halda áfram? Fyrir ári síðan var fullyrt að nóg orka væri fyrirliggjandi til að reisa álbræðslu sem þyrfti um 600 MW. Hvað skyldi hafa breyst? Read More

ágú 31 2010

Fyrir og eftir Miðkvísl


Guðmundur Páll Ólafsson

… og svo sprakk dýnamítið og grjót og mold þyrlaðist yfir alla en áin söng á ný. Laxá var frjáls.

Einhvern veginn svona hljómaði lýsing af sprengingunni í Miðkvísl við Mývatnsósa þegar ólögleg stífla Laxárvirkjunar var rofin. Ég vildi að ég væri sekur og hefði átt virkan þátt í verknaðinum. En jafnvel þótt fyrrum formaður stjórnar Laxárvirkjunar lýsti því í ævisögu sinni, Sól ég sá, að ég hefði aðstoðað sprengjumenn þá var ég því miður erlendis þegar lýðræðissprengjan sprakk. Read More

mar 10 2010

Einkaher og einkavæðing: Suðurnes í ljósi áfallakenningarinnar


Blóði stokkin bílrúða eftir skotárás ástralsks einkahers í Írak 2007. Tvær íraskar konur létu lífið í þessum leigubíl.Töluvert hefur verið vísað í áfallakenningu Naomi Klein á þessari síðu, jafnvel svo mjög að Svartsokku sjálfri þyki nóg um, því engum er hollt að miða alla sína samfélagsgreiningu við eina bók. Þó er svo að þegar í bígerð eru tilkoma einkahers, einkavæðing háhitans og bygging álvers sem ekki er til nóg orka fyrir, allt á sama landsvæðinu, þá hringja óhjákvæmilega viðvörunarbjöllur undir tónfalli áfallakenningarinnar. Þegar líðandi stund er greind í ljósi hennar kemur í ljós kunnuglegt mynstur; verið er að spila með okkur eins og peð á taflborði. Það sem verra er: við spilum með undir styrkri stjórn „vinstrimanna“.

Hvað er áfallakenningin?

Fyrir þá sem ekki vita þá snýst áfallakenningin í stuttu máli um það að í kjölfar stórra áfalla, á borð við flóðbylgjur, jarðskjálfta, stríð eða efnahagshrun, þá sé auðveldara en ella að koma á óvinsælum efnahagsstefnum og einkavæða það sem áður var í sameign, í þeim tilgangi að afla skjótfengins gróða (og gjarnan til að hampa vinum og félögum). Kenningin felur í sér að vegna þess að almenningur sé í sjokki yfir áfallinu eigi hann erfiðara með að berjast á móti þessum breytingum.

Hér á landi virðist sem Suðurnesin ætli sér að verða fyrsta fórnarlamb áfallakenningarinnar. Read More

nóv 27 2009

Er HS-Orka í krísu í Krýsuvík?


Sigmundur Einarsson

Í október birtist grein eftir mig undir fyrirsögninni Hinar miklu orkulindir Íslands.

Megininntak greinarinnar er ábending til íslensku þjóðarinnar og ráðamanna þess efnis að orkulindir Íslands séu ekki eins miklar og af er látið. Jafnframt er ítrekað það sem ýmsir höfðu áður bent á að tvö 360 þús. tonna álver myndu soga til sín alla jarðhitaorku á Suðvesturlandi og Norðausturlandi og reyndar gott betur. Viðbrögð hafa verið á ýmsa lund. Athyglisvert er að viðkomandi stjórnvöld, þ.e. iðnaðarráðuneyti og Orkustofnun hafa engin viðbrögð sýnt en þagað þunnu hljóði.

Þann 30. október sl. rituðu tveir starfsmenn HS-Orku, þeir Guðmundur Ómar Friðleifsson yfirjarðfræðingur og Ómar Sigurðsson forðafræðingur, eins konar varnarræður í Morgunblaðið og Fréttablaðið. Yfirjarðfræðingurinn er stóryrtur og fer með himinskautum en forðafræðingurinn er öllu jarðbundnari og heldur sig við efnið í megindráttum. Það sem einkum hefur raskað ró þeirra eru annars vegar efasemdir mínar um áformaða stækkun Reykjanesvirkjunar og hins vegar sú skoðun mín að fyrirliggjandi mat á orkugetu jarðhitasvæðisins í Krýsuvík og nágrenni sé allt of hátt. Ekki ætla ég að elta ólar við stóryrðin. Efasemdir mínar um áformaða stækkun Reykjanesvirkjunar eru hvorki frumlegar né mín uppfinning heldur fengnar beint úr umsögn Orkustofnunar um matsskýrslu vegna fyrirhugaðrar stækknunar (VSÓ Ráðgjöf 2009) en þar segir: „Að öllu samanlögðu er þetta vinnslusvæði fjarri því að standa undir fyrirhugaðri tvöföldun Reykjanesvirkjunar í 200 MWe til lengri tíma“. Starfsmenn HS-Orku eru sýnilega allt annað en ánægðir með álit Orkustofnunar en þar er ekki við mig að sakast. Af einhverjum ástæðum virðist þetta vera viðkvæmt mál. Ég ætla ekki að ræða Reykjanesvirkjun frekar en gera nánari grein fyrir mati mínu á orkugetu Krýsuvíkursvæðisins. Read More

sep 25 2009

MAGMA drepur!


Perú er eitt mikilvægasta málmefna framleiðsluland heims. Ríkur jarðvegurinn í Andesfjöllunum inniheldur mikið magn af kopar, silfri, blýi, gulli, sinki og öðrum náttúruauðlindum. Í stað þess að nýtast sem tól til að byggja upp samfélag Perú búa þá hefur námugröfturinn verið hrein martröð fyrir milljónir verkamanna og bænda vegna þeirrar nauðungarvinnu sem komið er upp á íbúa landsins. Árið 2008 var arður námufyrirtækja um 2500 milljarðar króna en lítið af því hefur borist til þeirra samfélaga sem eru staðsett við námurnar en í staðinn til þeirra erlendu fyrirtækja sem þar grafa og hluthafa þeirra. Fyrir utan að vera algjörlega ósjálfbær, þá hefur námugröftur mikla eyðileggingu og mengun í fjör með sér og hefur drepið þúsundir verkamanna og fjölskyldur þeirra vegna gróðahyggju kapítalsins eingöngu.

Read More

jún 20 2005

Svör við algengum spurningum um skyraðgerðina á Hotel Nordica 14. júní 2005


the messenger 

Hvers vegna þessi ráðstefna?
* Þetta var ráðstefna leiðandi manna í áliðnaði og tengdri framleiðslu hvaðanæva að úr heiminum.
* Þeir voru hér vegna þess að þeir telja að Ísland sé rétti staðurinn til að þróa þungaiðnað. Það er kaldhæðnislegt að þetta er vegna þess að Ísland er talið hreint land í umhverfismálum.
* Þeir sem söfnuðust saman á ráðstefnunni voru lykilpersónur í ákvarðanatöku, fjármögnun og stefnumótun á bak við Kárahnjúkavirkjun og aðrar þungaiðnaðarframkvæmdir víðar á Íslandi sem við erum eindregið á móti.
* Málstofa sem kölluð var „Aðferð við sjálfbærni fyrir iðjagræna álbræðslu“ hófst kl. 11:45 þennan dag. Málstofuna kynntu Joe Wahba frá Bechtel Corporation og Tómas M. Sigurdsson frá Alcoa, og svívirðileg hræsni málstofunnar var grófasta ögrun við þá sem raunverulega hallast að vistfræðilegu gildi sjálfbærni. Read More

Náttúruvaktin