'Kúgun' Tag Archive

May 10 2014

Hvernig Gálgahraun gerði mig að aðgerðasinna


stifla_sprengd Erindi flutt á málstofu um aðgerðahyggju og aðkomu lögreglu að aðgerðum náttúruverndarsinna á Náttúruverndarþingi 10. maí 2014.

Lárus Vilhjálmsson, leikhússtjóri

Ég ætla að fara aðeins yfir atburðarásina í Gálgahrauni haustið 2013 þegar hópur fólks reyndi að mótmæla vegalagningu nýs Álftanesvegar og sérstaklega þann 21 október þegar ég ásamt fjölda annara vorum handtekin fyrir að sitja í veg fyrir jarðýtunni.

Ég hef um margra ára skeið látið mig umhverfismál varða. Tekið þátt í fundum og starfi umhverfissamtaka og stjórnmálaflokka, skrifað greinar, skrifað undir undirskriftalista,  gengið niður Laugaveginn með Ómari og stofnað með honum náttúruverndarflokk.

En ég hafði aldrei litið á mig sem aðgerðasinna. Mér fannst ég vera sófa-mótmælandi. Aðgerðasinnarnir voru fólk eins og Guðmundur Páll í Þjórsárverum og þeir sem mótmæltu á Kárahnjúkum eins og Saving Iceland og vinir mínir Ósk, Lillý og Ómar. Og svo var fullt af aðgerðasinnum í útlöndum sem maður dáðist að. Og meira að segja þegar búsáhaldabyltingin stóð sem hæst lá ég veikur í sófanum og horfði á.

Og þegar ég og Ragnhildur konan mín fórum að hraunjaðrinum í Gálgahrauni í morgunsárið þann 17. september á síðasta ári leit ég ekki á mig sem aðgerðasinna. Við virtum fyrir okkur skemmdirnar sem grafa hafði valdið á hraunjaðrinum og ræddum málin við  Reyni, Gunnstein, Harald og Gunnar sem höfðu ásamt okkur gengið áformaða veglínu Álftanesvegar nokkrum dögum áður ásamt tugum annarra. Við fórum svo að skoða athafnasvæði Íslenskra Aðalverktaka og ég varð alveg hissa þegar starfsmaður ógnaði hópnum með gröfuskóflu eins og við værum einhverjir aðgerðasinnar.

Það var ákveðið að mæta eldsnemma næstu daga við hraunið, fylgjast með verktökunum og ef þeir reyndu að fara í hraunið að stöðva þá á friðsaman hátt.  Næsti morgun byrjaði með því að stór hópur af fólki var komið á staðinn sem við áttum eftir að kynnast vel næstu vikurnar.  Gröfurnar komu síðan og stöðvuðu þegar fólkið settist fyrir framan þær. Lögreglumaður mætti á staðinn og ræddi góðlátlega við okkur en fór þegar við sættumst ekki á að færa okkur. Fulltrúi verktakans sættist þá á að fresta vinnu við hraunið þar til aðilar hefðu rætt saman. Hópurinn fór síðan á fund Vegamálastjóra. Hann var ekki viðlátinn en sendi á okkar fund hóp bergþursa sem sögðu Vegagerðina vera ríki í ríkinu og sinn eigin dómstóll og þeir vildu ekkert vera að bíða eftir öðrum dómstólum. Þannig fór sá fundur og við fórum út með samanbitnar tennur og staðráðin í því að mæta í hraunið morguninn eftir. Sest var á rökstóla og ákveðið að hvetja náttúruvini til að koma okkur til aðstoðar á vaktina. Enn þrátt fyrir þetta allt leið mér samt ekki alveg eins og aðgerðasinna.

Síðan hófst biðin. Næsta mánuð mætti galvaskur hópur fólks eldsnemma á hverjum virkum degi í hraunjaðarinn. Vaktin stóð frá sjö á morgnanna til fimm á daginn. Fljótlega risu tjöld við Garðastekkinn, útileguborð og stólar og kaffibrúsar og kræsingar spruttu fram. Stöðug umferð var á svæðið af fólki sem vildi ræða málin og það voru fjörugar umræður við tjöldin.  Rætt var um sáttanefndina sem innanríkisráðherra ætlaði að kalla til verka en aldrei var kölluð til. Hneykslast var yfir ósannsögli Vegagerðar og bæjarstjóra Garðabæjar um umferðaröryggi á gamla Álftanesveginum og hlegið dátt af sögunum og vísunum hans Ómars. Það var stundum pælt í því hvað við tæki ef að gröfurnar kæmu og þeir myndu kalla til lögreglu og allir voru sammála um Gandhi-aðferðina hans Ómars. Bara sitja og ekki sýna neinn mótþróa.

Þetta var góður tími og góður hópur. Og það var rólegt og fallegt við hraunjaðarinn og sérstaklega í ljósaskiptunum í haustblíðunni. Stundum fór maður einn í gönguferð í hraunið og naut kyrrðarinnar, fallegra hraunklettanna og hlustaði eftir röddum náttúrunnar.  Kannski var það þessvegna sem mér leið ekki eins og aðgerðasinna. Mér leið frekar eins og miðaldra körlunum á 19. öldinni sem þorðu að elska landið sitt og ortu ljóð um það, svo ég vitni í Andra Snæ.

En svo kom að því.  Við tókum eftir því  18. október að stærsta jarðýta landsins var flutt á vinnusvæði verktakanna. Og þótt að okkur þætti skrítið að það ætti að nota jarðýtu þegar þeir færu að pilla úr hraunjaðrinum þá reiknuðum við með því að það færi að draga til tíðinda.

21. október rann upp. Þegar við Ragnhildur, konan mín,  gengum með kaffibrúsana og tjaldið niður að Garðastekk þá var sólin farin að gægjast upp í austrinu og það var útlit fyrir fallegan dag í hrauninu. Það var komin hópur af fólki og við settum upp tjaldið eins og vanalega. Sest var niður, kaffi hellt í bolla og byrjað að skrafa saman um landsins gagn og nauðsynjar. Það var svalt en engin fann fyrir því, við vorum öll vön að vera vel klædd. Einhver spurði „ætli þeir fari af stað í dag?“, en engin svaraði því þetta hafði verið spurning dagsins í mánuð.

Stuttu seinna kallaði einhver sem hafði farið á útkík, „hún er farin af stað!“  Og þá vissu allir um hverja var verið að tala og allt fór í gang. „Allir á staðinn!“ kallaði einhver og meinti staðinn þar sem við ætluðum að sitja. „Er búið að hringja?“ kallaði annar. Og svo fór maður og settist á stein eins og hinir í hópnum. Við biðum smástund og þá heyrðist hljóðið.

Ýskur sem fór í gegnum bein og merg … ýskur sem varð hærra og hærra og eftir smástund fylgdi ýskrinu dimmur skruðningur. Ég mundi allt í einu hvar ég hafði heyrt þetta hljóð áður. Þetta var skriðdrekahljóðið sem maður hafði heyrt í fjölda stríðsmynda. Og svo birtist hún og það voru fullt af hermönnum með henni … een nei svo fattaði maður allt í einu að þetta voru  dökkklæddir lögreglumenn með kylfur og gasbrúsa.

Á þessu augnabliki varð ég aðgerðasinni. Í stað þess að standa upp og hlaupa í burtu ákvað þessi skíthræddi miðaldra karl að sitja áfram á steininum sínum og víkja ekki fyrir skriðdrekanum. Ég leit í kringum mig og sá að með mér var hópur fólks sem hafði tekið sömu ákvörðun og allt í einu var ég ekki hræddur, heldur stoltur yfir því að vera þarna á þessu augnabliki.

Svo byrjaði ballið … lögregluballið. Um leið og ýtan stöðvaði nokkra metra frá okkur vorum við umkringd lögreglumönnum. Seinna var okkur sagt að þeir hefðu verið um 60, en mér fannst þeir vera óteljandi.  Okkur var skipað að færa okkur en við sögðumst ekki geta það vegna þess að við værum að vernda hraunið fyrir ólöglegum aðgerðum. Þá vorum við dregin eða borin burt. Sex lögreglumenn drösluðu mér við illan leik upp úr vegstæðinu og húrruðu mér niður á grasflöt hjá mörgum félaga minna. Ég leit í kringum mig gleraugnalaus og sá Ragnar son minn handjárnaðan og settan inn í fangabíl. Heyrði líka Gunnstein kórstjóra biðja lögregluna um handjárna hann ekki því að hendurnar væru hans lifibrauð. Þeir hlustu ekki á það, handjárnuðu hann og settu hann inni í fangabíl. Það var algert kaos.

Við hlupum nokkur upp í hraunið og settumst fyrir ofan vinnusvæðið. Það leið ekki á löngu þar til að lögreglan og starfsmenn verktakans hófu að girða í kringum okkur. Við kræktum þá saman höndum og vorum staðráðin í að verja hraunið eins og sannir aðgerðasinnar. Enn var okkur skipað að færa okkur og við svöruðum eins og áður. Þá vorum við handtekin. Eins og áður var okkur dröslað í burtu en nú inn í fangabíla og keyrð á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem við vorum látin dúsa um stund.

Þegar hópnum var sleppt frá Hverfisgötunni var farið aftur á Álftanesið. Lögreglan hafði þá lokað öllum aðkeyrslum út á Álftanes þannig að við gengum frá Garðaholti. En héldum við út í hraunið og sáum ýtuna stóru spæna upp hraunkletta og lyngbolla. Það fannst mér sorgleg sjón. Samkvæmt þeim sem voru á svæðinu var búið að handtaka fjölda manns og það virtist hafa bæst í lögregluhópinn. Við settumst enn einu sinni nokkurn spöl frá vinnusvæðinu en sama sagan endurtók sig. Lögregla og verktakar girtu í kringum hópinn og lögreglan hóf síðan handtökur á okkur þegar fólk sagðist ekki geta fært sig. Ein af þeim fyrstu sem var tekin var Ragnhildur sem var síðan ásamt hinum níumenningunum látin dúsa í einangrunarklefum á Hverfisgötunni í marga tíma.

Það var ekki létt hljóðið  í lögregluþjónunum sem byrjuðu að drösla mér niður hraunið og eftir um hundrað metra brölt gáfust þeir upp og sögðu mér að hypja mig. Ég hysjaði upp um mig buxurnar og reyndi að fara í áttina að vegstæðinu en var hindraður af hópi lögreglumanna.  Þá gafst ég upp og fór niður að Garðastekk þar sem fangabílar og lögreglubílar voru út um allt. Ég settist í hraunið, horfði yfir vígvöllinn og hugleiddi atburði dagsins.

Ég var miður mín. Mánuðinn góða í hraunvörslunni hafði mér aldrei komið til hugar að Ísland gæti breyst á einu vettvangi úr því að vera land þar sem maður treysti því að lögreglan væri að vinna í þágu almennings  í land þar sem lögreglan vann aðeins fyrir stjórnvöld og einkafyrirtæki. Ég hafði haldið í einfeldni minni að Ísland væri land þar sem menn leituðu sátta áður en vopnin væru notuð.

Það hafði aldrei hvarflað að mér að ég ætti eftir að lifa dag á Íslandi þar sem ungt, miðaldra og eldra fólk væri borið í fangabíla eins og kartöflusekkir og lokað inni í einangrunarklefum. Og ég hélt að ég myndi aldrei lifa þann dag á Íslandi að stjórnvöld leyfðu ekki fólkinu í landinu að klára að leita réttar síns fyrir dómstólum. Og ég hélt að sá dagur myndi ekki rísa aftur að skömm stjórnvalda myndi rísa eins hátt og þegar hverflar Kárahnjúkavirkjunar voru ræstir.

Það er út af þessum atburðum þann 21 október árið 2013 sem ég varð og verð alltaf  aðgerðasinni fyrir náttúru Íslands.

Takk fyrir

 

Apr 21 2013
1 Comment

Getur þú staðið í vegi fyrir framförum? — Ferðasaga úr kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi


SURVIVAL OF THE FITTEST Grein þessi, eftir Snorra Pál Jónsson Úlfhildarson, birtist upphaflega í 1. hefti Tímarits Máls og Menningar 2013. Hún er unnin út frá sýningu Angeli Novi (Ólafs Páls Sigurðssonar og Steinunnar Gunnlaugsdóttur), Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum, sem fram fór í Nýlistasafninu í Reykjavík frá september til desember 2012. Sýningin var tilnefnd til menningarverðlauna DV í flokki myndlistar og sagði dómnefndin meðal annars að Angeli Novi hefði tekist „það sem engum öðrum á myndlistarsviðinu hefur tekist, að búa til verk sem á íhugulan hátt taka á því efnahagslega og pólitíska hruni sem hér varð árið 2008.“ Myndirnar sem fylgja með greininni eru annars vegar stillur úr samnefndri kvikmynd sem var hluti af sýningunni; hins vegar ljósmyndir Guðna Gunnarssonar og Ingvars Högna Ragnarssonar.

Til er ljósmynd, tekin af Richard Peter, sem sýnir styttu af engli er horfir yfir rústir Dresden. Þrjár nætur í febrúar 1945 var þýska borgin — sem á mynd Peters er sem hrunin spilaborg — lögð í rúst af herjum bandamanna sem beittu þeirri hernaðarnýjung að varpa samtímis sprengjum og íkveikjubúnaði á borgina.1 Enn er deilt um hvort Dresden hafi haft nokkuð strategískt vægi sem hernaðarlegt skotmark, en bent hefur verið á að borgin hafi verið hálfgert menningarhreiður landsins. Það á að ýta undir þá söguskoðun að eyðilegging hennar, sem og fall þúsunda óbreyttra borgara, hafi fyrst og fremst verið til þess gerð að sýna fram á tortímingarmátt bandamanna og nýrrar tækni þeirra — framfarir þeirra í stríðsrekstri.2

Hver svo sem skýringin er kallast ljósmynd Peters beint á við níundu tesu ritgerðarinnar Um söguhugtakið, þar sem þýski heimspekingurinn Walter Benjamin hleður merkingu á málverk Paul Klee sem hann hafði nokkru áður eignast:

Til er mynd eftir Klee, sem heitir Angelus Novus. Á henni getur að líta engil, sem virðist í þann veginn að fara burt frá einhverju sem hann starir á. Augun eru glennt upp, munnurinn opinn og vængirnir þandir. Þannig hlýtur engill sögunnar að líta út. Hann snýr andliti sínu að fortíðinni. Þar sem okkur birtist keðja atburða sér hann eitt allsherjar hörmungarslys sem hleður án afláts rústum á rústir ofan og slengir þeim fram fyrir fætur honum. Helst vildi hann staldra við, vekja hina dauðu og setja saman það sem sundrast hefur. En frá Paradís berst stormur, sem tekur í vængi hans af þvílíkum krafti að engillinn getur ekki lengur dregið þá að sér. Þessi stormur hrekur hann viðstöðulaust inn í framtíðina, sem hann snýr baki í, meðan rústirnar hrannast upp fyrir framan hann allt til himins. Það sem við nefnum framfarir er þessi stormur.3

ÞÚ GETUR EKKI STAÐIÐ Í VEGI FYRIR FRAMFÖRUM Orð Benjamins eru tæpitungulaust svar við spurningu sem öll pólitísk umræða fer fram í skugganum af: Hvað eru framfarir? Hvað raunverulega þýðir þetta allt að því heilaga orð, þessi undirstöðurök allra helstu pólitísku, efnahagslegu og félagslegu stórframkvæmda sem keyrðar eru í gegn í nafni aukinna lífsgæða og velmegunar fjöldans? Þetta orð sem horft er til, oft með trúarlegum hætti, sem leiðarinnar að fullkomnun, stígsins til fyrirheitna landsins — jafnvel fullkomnunarinnar sjálfrar.

Tuggur hinna kviksettu

„Þú getur ekki staðið í vegi fyrir framförum.“ Þessi margtuggna klisja gnæfði síðastliðið haust stórum stöfum yfir inngangi Nýlistasafnsins í Reykjavík. Formuð líkt og hið illræmda skilti, sem kaldhæðnislega boðaði íbúum Auswitzch fangabúðanna frelsunarmátt vinnunnar, vörðuðu orðin innganginn að samnefndri sýningu Angeli Novi — samstarfsverkefnis Steinunnar Gunnlaugsdóttur og Ólafs Páls Sigurðssonar — sem stóð yfir í safninu frá lokum september til byrjunar desember síðasta árs.

Kjarni sýningarinnar var samnefnd kvikmynd sem að hluta var tekin upp í Grikklandi og á Íslandi á síðasta ári, að öðrum hluta samansett úr myndefni frá ýmsum ljósmynda- og kvikmyndasöfnum. Í forgrunni myndarinnar eru tveir til þrír einstaklingar í senn, kviksettir í sandi svo höfuðin ein standa upp úr. Ófærir um sjálfstæða hreyfingu tyggja þeir á milli sín eða skiptast á að gleypa ofan í sig og gubba út úr sér hvítum silkiborðum sem á eru ritaðar ýmsar klisjur og kreddur vestræns samfélags:

Betra er illt yfirvald en ekkert. Anarkí er æðsta syndin. Hinir hæfustu lifa af. Vinnan göfgar manninn. Lengi tekur sjórinn við. Ég elska þig. Stétt með stétt. Öll í sama báti. Allir menn eru fæddir jafnir. Allir eru jafnir fyrir lögum. Með lögum skal land byggja.

RIGHTS Einnig tyggja þeir orð og hugtök sem álitin eru grunngildi og leiðarstef þessa sama samfélags: tjáningarfrelsi, réttindi, lög og regla, svo nokkur séu nefnd. Loks halda þeir á milli sín nokkrum pörum tvíhyggjunnar sem stöðugt leitast við að einfalda heiminn og tilveru mannsins — skipta flækjum og átökum hans við sjálfan sig og aðra upp í andstæðar fylkingar góðs og ills, líkama og sálar, hins rétta og hins ranga, orsaka og afleiðinga. Annaðhvort eða.

Að baki hinna kviksettu flæða myndir sem, í bland við slurk af svörtum húmor, sýna dökka mynd af vestrænni siðmenningu. Margbreytilegar birtingarmyndir kapítalisma, stríðsreksturs, nýlendustefnu, iðnvæðingar, þjóðerniskenndar, trúarbragða, tvíhyggju og línulegrar hugsunar vestrænnar menningar, kallast á við frasana og afhjúpa merkingu þeirra og hlutverk. Saman varpa myndirnar, frasarnir og kviksettir líkamarnir þannig upp mynd af ófrjálsri og (bókstaflega) kviksettri stöðu einstaklingsins í samfélaginu — „varpa ljósi á persónulega upplifun á lífi undir kapítalisma,“ svo orð Jóns Proppé séu fengin að láni.4

Í grafhvelfingu í anddyri safnsins héngu silkiborðarnir úr myndinni, nú vafðir á jarðarfararkrans sem gnæfði yfir lítilli vöggulaga líkkistu sem út úr stóð snuð. Upp úr svörtum sandi sem kistan stóð á gægðust höfuð tveggja barna sem á milli munna sinna héldu uppi enn einum frasanum: Frá vöggu til grafar. Heyrðist hvar mold var mokað yfir gröf og gerilsneydd rödd konu ávarpaði gesti sýningarinnar: „Hjartanlega velkomin í veröldina okkar.“ Í afmörkuðu rými innar í safninu stóð færiband hlaðið afskornum fuglsvængjum í þúsundatali og úr heyrnatólum sem héngu á færibandinu mátti heyra annan hafsjó af klisjum sem hlaðast hvert ofan á annað og mynda auglýsingakennda frasamartröð.

GRAFHVELFING Þótt frasarnir séu margir og að einhverju leyti innbyrðis ólíkir gnæfir titilfrasinn yfir. Ekki einungis vegna stöðu hans yfir inngangi safnsins, heldur má einnig sjá hann sem gríðarstórt tannhjól í enn stærri vél, en hina frasana sem smærri tannhjól sem snúast þurfa stöðugt og óhindrað svo uppistöðutannhjólið og þar með sjálf vélin haldist gangandi. Andspænis tvennum dyrum sem hvor um sig gengur að sitthvorri vélinni — fyrrgreindri vél ríkjandi hugmynda- og efnahagskerfis og tungumáls þess annars vegar; kaleidóskópískri tímavél Angeli Novi hins vegar — stígum við upp í þá síðarnefndu er tekur okkur í ferðalag um eðli og hlutverk þeirrar fyrrnefndu.

Framfaragoðsögnin

Bökkum fyrst sem snöggvast og víkjum aftur að spurningunni sem Benjamin svarar: Hvað eru framfarir? „Framfarir er augljóslega gildishlaðið orð,“ segir finnski heimspekingurinn Georg Henrik von Wright, sem í bók sinni, Framfaragoðsögnin, tekst á við hugtakið og notkun þess — orðið bakvið hugmyndina, merkinguna handan goðsagnarinnar. Þar sem framfarir eru augljóslega háðar gildismati, segir von Wright, og eru því ómælanlegt fyrirbæri, verður framfaragoðsögnin — kenningin um að „manninum og samfélagi hans muni vegna betur ef þau eru frjáls að fylgja þeirri meginreglu Kants að treysta á skynsemina í stað kennivaldsins“ — merkingarlaus. Skynsemi eins er nefnilega óskynsemi annars og „engar staðreyndir í mynd aukinnar lestrarkunnáttu, bætts heilbrigðisástands eða hærri tekna á hvern íbúa“ geta nokkurn tíma falið í sér merki um óumdeilanlegar framfarir, ekki frekar en framleiðslugeta þjóðar eða orkunotkun á hvern íbúa:

Þar með skilur það sig frá skyldum hugtökum á borð við breyting og vaxtaraukning — og einnig þróun, hugtök sem grundvölluð eru eða má grundvalla á staðreyndum einum. Það er hins vegar ekki hægt að ákvarða með vísindalegri sönnunarfærslu né á annan hátt út frá staðreyndum hvort tiltekið ástand felur í sér framfarir miðað við eitthvað annað.5

ARBEIT MACHT FREI „Auðvitað getur verið óumdeild staðreynd að eitthvað sé einhverju öðru betra sem leið að settu marki,“ segir von Wright. Þar er hins vegar um að ræða tækisgildi en mat á því „byggist á staðreyndum og er því ekki hreinræktað gildismat“.6 Upp getur komið ný aðferð, ný tækni sem gerir tiltekna framleiðslu hagkvæmari framleiðandanum. Ný aðferð við að framleiða meiri orku með lægri tilkostnaði en áður eru þannig augljóslega til marks um tæknilegar framfarir í orkuframleiðslu. En hún segir ekkert um framfaragildi orkuvinnslunnar sjálfrar — ekki frekar en árásin á Dresden sem vissulega bar vitni um framfarir í hernaðartækni en sagði ekkert um framfaragildi hernaðar. Slíkt er og verður alltaf háð gildismati og þar sem gildi er huglægt fyrirbæri, ákvarðað og metið af einhverjum eins og von Wright bendir á, er hlutlægt mat á framfaragildi fyrirbæris alltaf ómögulegt.

Á skjön við þá algengu hugmynd að í kjölfar margítrekaðs dauða Guðs — þegar hið jarðneska eða mennska tók við af hinu yfirjarðneska eða guðlega — hafi kennivald trúarbragða liðið undir lok, bendir flest til þess að prestskraganum hafi einfaldlega verið komið fyrir á framfaragoðsögninni. Í nafni framfara er haldið í krossferðir; árásarstríð eru háð undir því yfirskini að innleiða pólitískar framfarir sem nefndar eru lýðræði, frjáls markaður og kvenfrelsi7; og þeir sem ekki fallast á að kyngja bragðvondri oblátunni eru álitnir grunsamlegir, óvinveittir og mega því vara sig.

FÆRIBAND Rétt eins og trúarbrögðin krefst framfaragoðsögnin hugmynda- og tungumálalegrar einföldunar sem kristallast í tvíhyggjunni — sama handriti og gerir dómskerfinu kleift að setja upp leikrit um skýrar línur, dregnar á milli hins rétta og ranga í hlutverkum sakleysis og sektar. Systir tvíhyggjunnar heitir pragmatismi og boðar hún hástöfum skynsamlegar ákvarðanir, öfgalaus sjónarmið, vitsmunaleg stjórnmál og raunsæjar væntingar. Aftur skortir hér spurningamerkið og efann í tungumálið. Hver skilgreinir gagnsemi? Hver útlistar raunsæi? Á forsendum hvaða hugmyndafræði er þetta skilgreint? Því þvert á það sem boðberar hans halda oft fram, er pragmatisminn grundvallaður á hreinræktaðri hugmyndafræði — ekkert er óhjákvæmilegt eða sjálfgefið við hina pragmatísku stefnu hverju sinni.

Berháttaðar sinni guðlegu ásýnd, og sviptar ímynd pragmatismans sem hins sjálfgefna, eru framfarir þannig svo gott sem marklausar sem pólitískt vopn. Á bakvið orðin liggur alltaf hugmyndafræði skreytt gulli goðsagnarinnar.

Kröfur um betra líf?

Fljótt á litið birtist öll umræða um framfarir líkt og mannkyninu hafi verið refsað fyrir að byggja Babelsturn. Þannig eru ólíkar fylkingar sem standa hvor andspænis annarri í átökum um tilteknar áætlanir, sem keyrðar eru áfram í nafni framfara, ekki einungis ósammála um tilgang framkvæmdanna, áhrif þeirra og afleiðingar — þær tala einfaldlega ekki sama tungumálið. Orð takast á, en ekki orð við orð heldur liggur togstreitan innan hvers einasta orðs og í notkun þess. Merking orða er ólík eftir því hverjir mæla þau, sem leiðir til þess að vilji andstæðingar framkvæmdanna beita orðum í baráttu sinni — að því gefnu, sem ekki er sjálfgefið, að félagsleg staða þeirri geri þeim það kleift — ganga þeir undantekningalaust inn á stríðssvæði þar sem barist er um hvert orð.

KÁRAHNJÚKAVIRKJUN Þar mæta þeir ofurefli viðtekinnar hugsunar og standa þannig í sporum mótmælenda vopnuðum tjáningarfrelsinu andspænis lögvörðu vopnabúri ríkisvaldsins. Og rétt eins og ofbeldi yfirvaldsins — ólíkt valdbeitingu einstaklingsins, sem ekki er einungis ólögleg heldur einnig álitin siðferðislega röng — hefur orðskilningur hins efnahagslega og pólitíska yfirvalds stöðu hins sjálfgefna. Samræða verður þannig að draumsýn og baráttan um orðið og merkingu þess verður í eðli sínu byltingarkennd. Hún snýst um að afkóða tungumálið, afhjúpa og gildisfella ráðandi merkingu orðanna, og loks steypa þeim af stalli.

Ferðumst áratug aftur í tímann og hlýðum á framfarapostulann Alain Belda, forstjóra bandaríska álfyrirtækisins Alcoa. „Það er til fólk sem er á móti framförum,“ sagði hann í viðtali við Morgunblaðið, aðspurður um rök andstæðinga Kárahnjúkavirkjunar og álversins á Reyðarfirði, en bætti svo við: „En til allrar hamingju vex umheimurinn og fólk gerir kröfur um betra líf. Okkar verkefni er að finna gott jafnvægi þarna á milli.“8

Orðanotkun sem þessi leggur að jöfnu velmegun og hagvöxt, sem samkvæmt Belda er til marks um framfarir, þvert á greiningu von Wright sem bendir á að „eini mælikvarðinn á framfarir í lífskjörum manns er það hvernig hann sjálfur metur ástand sitt.“9 Hún gefur þá mynd af andstæðingum virkjunarinnar að þeir séu óvinir framfara og þar með andstæðingar velmegunar. En óvini framfara er einungis hægt að sigta út og benda á séu framfarir séðar og skildar sem óhreyfanlegur fasti — órjúfanlegur sannleikur; „gott jafnvægi“. Og þó þær séu það vissulega að mati Belda og hugmyndasystkina hans, þá tala þau ekki eina tungumál heimsins. Þau tala takmarkað tungumál framfaragoðsagnarinnar, en í orðaforða þess er ekkert pláss fyrir eyðileggjandi, kúgandi og ofbeldisfullt eðli framfaranna sem það boðar.

LÍKAMI / SÁL Í „betra lífi“ Belda er ekki pláss fyrir staðreyndir — og munum að ólíkt gildum eru staðreyndir mælanlegar — á borð við það að álið sem fyrirtæki hans framleiðir og bætir núllum á bankareikninga eigenda þess og æðstu yfirmanna, er og hefur lengi verið meginuppistaða stríðsvopna. „Ál er orðið að nauðsynlegasta hráefni nútíma hernaðar,“ sagði hernaðarsérfræðingurinn Dewey Anderson árið 1951 og bætti svo við: „Enginn hernaður er mögulegur, ekkert stríð er hægt að heyja með góðu móti í dag, án þess að nota og eyða gífurlegu magni af áli.“10 Og þó meira en hálf öld sé liðin síðan Anderson mælti þessi orð hefur samband áls og stríðs ekkert breyst. „Stríð var gott fyrir Alcoa,“ segir í sögubókum fyrirtækisins, en þátíðin er bæði óþörf og villandi því stríð er gott fyrir Alcoa og aðra álframleiðendur.11 Mulið ál er aðal innihald vopna á borð við Daisy Cutter sprengjuna og „græni málmurinn,“ eins og almannatenglarnir kalla álið í dag, gegnir meginhlutverki við smíði léttra og hraðskreiðra farartækja á borð við F18 orrustuflugvélina, sem — til að troða kirsuberi ofan á jarðaberið á rjómakökunni — gengur fyrir lífrænu eldsneyti og ber því „hið viðeigandi heiti Græna vespan,“ eins og Barack Obama komst að orði þegar hann tilkynnti að þotunni yrði flogið í fyrsta sinn á alþjóðlegum degi jarðarinnar.12

Og til að svekkja þá sem nú standa æstir upp og halda því fram að staða framleiðandans sé hlutlaus, óháð notkun kaupandans, eru eyðileggjandi áhrif álframleiðslunnar miklu dýpri og víðtækari. Þau ná langt út fyrir vængjaþyt orrustuflugvélanna og hefjast löngu áður en sprengjan lendir á skotmarki sínu.

Menningarlegt þjóðarmorð

Það flytur okkur til Indlands þar sem tröllaukin iðnvæðing á sér nú stað í nafni framfara. Og þó hún færi vissulega byr undir báða hagvaxtarvængi indverska ríkisins og þyngi um leið fjársekki yfirþjóðlegra málmafyrirtækja, hefur hún á sama tíma slík áhrif á samfélög frumbyggja að fölsun væri að kalla það annað en menningarlegt þjóðarmorð. Í þágu námugraftar og byggingar hverrar verksmiðjunnar á fætur annarrar, er fólk flutt með valdi af búsvæðum sínum og þar með kippt úr félagslegu samhengi sínu — láréttum samfélagsstrúktúrum reistum á hugmyndum sem ekki rúmast innan hins lóðrétt skipulagða, iðnvædda, vestræna kapítalisma. Það er rekið burt úr lífi sínu og flutt nauðungarflutningum inn í stórborgir þar sem hlutskipti þess umsnýst á svipstundu. Skyndilega er það statt á botni stigveldis sem stuttu áður átti hvorki sæti í hugsun þess né efnislegum veruleika.

„Þjóðarmorð þýðir að drepa (caedo á latínu) fólk, kynstofn eða þjóðflokk (genus),“ útskýra Felix Padel og Samarendra Das:

Við athugun á því sem fólst í þjóðarmorðunum á ættbálkum Ameríku, er augljóst að morðin voru á tveimur stigum: útrýming á einstaklingum og menningu. Frásagnir frá þessum tímum herma að innfæddiríbúar Ameríku vildu margir frekar deyja en að lifa af án lands og menningar. Stefna Bandaríkjanna frá og með síðari hluta nítjándu aldar var að taka yfir umráðasvæði ættbálkanna og koma eftirlifandi meðlimum þeirra fyrir á verndarsvæðum þar sem þeir gátu ekki lengur framfleytt sér sjálfir.13

FUGLSVÆNGIR Til viðbótar við uppbrot og eyðingu samfélagsstrúktúra felst menningarlegt þjóðarmorð í því hvernig skaðleg umhverfisáhrif verkefna sem framkvæmd eru í nafni framfara — báxítgröftur og álvinnsla í tilfelli Kond ættbálkanna sem Padel og Das starfa með og fjalla um í skrifum sínum — eru af slíkri stærðargráðu að heilu landssvæðin þurrkast upp og verða fullkomlega óræktanleg í komandi framtíð. Fótunum er þannig gjörsamlega kippt undan frumbyggjunum sem þýðir að:

Frá sjónarhóli frumbyggja ættu öll þessi verkefni líklega að heita nauðungarflutningar — orðið framfarir virkar sem yfirvarp og stangast á við reynslu þeirra. Stærstur hluti hins ritaða máls [um verkefnin] bætir gráu ofan í svart með því að smækka fólk niður í „þá sem bolað hefur verið í burtu“ og sársauka þess niður í greiningu sem sviptir þá mennskunni. Afar fáir byggja á orðum og skilningi þeirra sem sviptir hafa verið rétti sínum til að skilja raunveruleikann bak við nauðungarflutningana.14

Stöðugt eru raddir efasemdamanna þaggaðar í kaf með lofsöngvum framfaragoðsögninni til dýrðar, og þeir ekki eingöngu sakaðir um að vera bæði andstæðingar framfara og talsmenn eilífs viðhalds á hefðum15, heldur einnig um viðhorf sem óvinveitt séu samfélaginu — jafnvel hættuleg mannkyninu. Gríðarstór skóglendi á Indlandi hafa til að mynda verið opinberlega skilgreind af yfirvöldum sem „ásótt af maóistum,“ en á umræddum svæðum hafast við Naxalítarnir svokölluðu — vopnaðir hópar frumbyggja og maóista sem hafa árum saman varið landsvæði sín, fólk og menningu fyrir árásum yfirvalda. Eins og indverski rithöfundurinn Arundhati Roy bendir á, en fyrir tveimur árum dvaldi hún með Naxalítunum og ferðaðist með þeim um skógana svo vikum skipti, er þetta síst af öllu ónákvæmt eða hirðuleysislegt orðalag. Það er bæði lúmskt og úthugsað auk þess sem það felur í sér sjúkdómsgreiningu. „Lækna þarf sjúkdóma. Útrýma þarf pestum. Maóistana þarf að þurrka út,“ segir Roy og dregur þannig saman hvernig orðaforða menningarlegs þjóðarmorðs hefur verið laumað inn í tungumálið.16

Bökkum þá tvær aldir aftur til Englands þar sem lúddítarnir svokölluðu, skipulagðir hópar breskra vefara, risu upp gegn aukinni vélvæðingu iðnar sinnar á fyrstu áratugum nítjándu aldar. Saga þeirra og arfleið hefur verið beygð og sveigð í þágu framfaragoðsagnarinnar, eins og birtist til að mynda skýrt í fremur nýlegum skrifum Finns Oddssonar, þá framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands. Hann sagðist hafa litið í sögubækurnar og rekist þar á lúddítana, og sagði að „þó hreyfing Luddita hafi verið skammlíf í Bretlandi virðist nú 200 árum síðar örla á svipuðum hugmyndum í íslenskum stjórnmálum.“17

Angeli Novi: You Can't Stand in the Way of Progress Finnur fullyrðir að lúddítarnir hafi barist „gegn almennum lífskjörum í samfélaginu sem byggðu á hagkvæmari framleiðslu,“ en þegar nánar er að gætt voru þeir síst af öllu andstæðingar bættra lífskjara — hvorki eigin né annarra. Glæpur þeirra var að setja spurningarmerki við orðræðu framfarastjórnmála; sjá í gegnum þá merkingu sem orðunum var gefin svo knýja mætti fram þær breytingar á iðn þeirra sem verksmiðjueigendunum hentaði; finna á eigin skinni hvernig innleiðing nýrrar tækni leiddi til verri gæða handverksins, einhæfrar og sligandi vinnu, verri afkomu og lífskjara. Þegar þeim varð ljóst að fyrir yfirvöld og verksmiðjueigendur hafði málstaður þeirra ekkert vægi, fylktu þeir liði undir formerkjum hins goðsagnakennda Ned Ludd og rústuðu í skjóli nætur þeim vélum sem ógnuðu starfsháttum þeirra og lífum. Og til að gera nokkuð langa sögu stutta, voru þeir í kjölfarið ofsóttir af yfirvöldum sem komu fyrir flugumönnum í félagsskap þeirra (kunnuglegt), handtóku þá og fangelsuðu, og leyfðu loks vel völdum lúddítum að kynnast göfugu réttlæti snörunnar.

Þegar söguspekingar á borð við framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs fullyrða að þó „tæknivæðing hafi gert afmarkaða stétt óþarfa“ hafi það samt sem áður verið „samfélagslega hagkvæmt að auka afköst,“ og því hafi andstaða lúddítanna verið óréttlætanleg, þá tala þeir tungumál menningarlegs þjóðarmorðs. Frekja framfaragoðsagnarinnar krefst þess að lifnaðar- og starfshættir allra færist í einsleitt form, hagkvæmt framleiðslukerfinu. Standi einhverjir í vegi fyrir þeirri þróun má byrja á að lofa þeim kaupauka, bættum lífsgæðum í formi menntunar, lesskilnings, rafmagnstækja, íþróttahúsa og heilbrigðisþjónustu — gæðum sem eru öll háð gildismati, eins og von Wright bendir á, og geta því með engu móti talist til framfara. Hafni þetta sama fólk hins vegar mútunum, neiti að láta neyða upp á sig „nútímanum“ og taki jafnvel upp siðferðislega fordæmda valdbeitingu hina valdalausu — þá má einfaldlega troða því í skó og þaðan í fótspor lúddítanna og gera þannig úr því, eins og rithöfundurinn Kirckpatrick Sale tekur til orða, „táknrænan andstæðing, sem afgreiða má sem bæði árangurslausan og óraunsæjan, hlutverk sem lúddítarnir voru þvingaðir til að þjóna.“18

Endalok sögunnar og samþykki Bernays

Upp úr ösku kalda stríðsins reis enn ein útgáfa kenningarinnar um endalok sögunnar — kenningar sem Hegel, Marx og Alexander Kojève höfðu áður sett fram, hver með sínum hætti.19 Í samhljómi við framfaragoðsögnina gerir eftirkaldastríðsútgáfan, sem runnin er undan rifjum bandaríska hagfræðingsins Francis Fukuyama, út á þá hugmynd að einungis ein leið standi mannkyninu til boða — ein leið byggð á einu tilteknu gildismati og einhliða skilningi á hinu pragmatíska. Lýsti Fukuyama því yfir að í ljósi hruns Sovétríkjanna væri samblanda hins svonefnda frjálslynda lýðræðis Vesturlanda annars vegar og frjálsa markaðar kapítalismans hins vegar, eina pólitíska og efnahagslega hugmyndakerfið sem enn stæði föstum fótum í heiminum. Engin önnur hugmyndakerfi ógni þessum kokteil né komi til með að ógna honum og standa í vegi fyrir útbreiðslu hans um bróðurpart heimsins. Hugmyndafræðilegum átökum sé þar með lokið, engin þörf sé á þeim eftir útför ríkiskommúnismans, en í staðinn taki fyrst og fremst við deilur um ólíkar, tæknilegar útfærslur á framkvæmd þessa eina eftirstandandi hugmyndakerfis.20 Undirstöðum hins frjálslynda lýðræðis hefur Fukuyama lýst í örfáum orðum:

Ástand það sem kemur upp við endalok sögunnar er frjálslynt að því leyti að í gegnum lagakerfi viðurkennir það og verndar alhliða rétt mannsins til frelsis, og lýðræðislegt að því leyti að það er einungis til fyrir tilstilli samþykkis þeirra sem er stjórnað.21

FÆRIBAND OG INNRA RÝMI Gleymum meintu einstaklingsfrelsi vestrænna samfélaga og horfum á samþykkið sem Fukuyama er hugleikið og er í raun límið sem heldur saman kenningu hans og annarra meðvitaðra eða ómeðvitaðra hugmyndafræðinga endaloka sögunnar. Ríkjandi ástand er samkvæmt þessu til komið vegna almenns samþykkis hinna valdalausu, sem það og stendur eða fellur með. Minna er fjallað um hvernig sjálft samþykkið er til komið, í besta falli gert ráð fyrir því svo lengi sem hinir valdalausu hafni ekki beint þessu fyrirkomulagi — sem þeir gætu auðvitað einungis gert með áðurnefndri valdbeitingu hinna valdalausu, ekki er kosið um raunverulega ólík hugmyndakerfi í kjörklefanum — samþykki þeir það í grundvallaratriðum.

Raunveruleikinn er auðvitað flóknari en svo og kallar fram mynd hinna kviksettu, tyggjandi þegna. Margkrýndur faðir almannatengslaiðnaðarins, hinn bandaríski Edward Bernays — sem á afrekaskrá sinni hefur meðal annars að hafa peppað upp almannastuðning við þátttöku Bandaríkjanna í Fyrri heimsstyrjöldinni, leikstýrt upphafinu af félagslega samþykktum reykingum kvenna, og gert mögulegt valdaránið í Gvatemala árið 1954 sem stutt var af Bandaríkjastjórn og CIA22 — setti fram nokkuð góða útskýringu á tilurð og viðhaldi slíks samþykkis strax í fyrstu málsgrein bókar sinnar, Propaganda, sem birtist fyrst á prenti árið 1928 og hefur enn þann dag í dag sess heilagrar ritningar almannatenglanna:

Meðvituð og skynsamleg hagræðing á skipulögðum venjum og skoðunum fjöldans er nauðsynlegur þáttur í lýðræðissamfélagi. Þeir sem stjórna þessu óséða gangverki samfélagsins mynda hið ósýnilega stjórnvald sem er hið raunverulega stjórnvald lands okkar.23

Almennt er auðvitað litið svo á að hver og einn samfélagsþegn taki upplýsta ákvörðun um pólitískar skoðanir sínar og neysluvenjur, ákvörðun sem tekur helst á sig mynd í kjörklefanum og versluninni. En Bernays segir að þar sem við núverandi samfélagsskipulag sé ómögulegt fyrir nokkurn mann að mynda sér upplýsta afstöðu til allra þeirra mála sem honum eru viðkomandi, hafi samfélagið „samþykkt að takmarka valkosti sína við hugmyndir og hluti sem athyglin beinist að með hjálp áróðurs af öllum gerðum.“24

Angeli Novi: You Can't Stand in the Way of Progress Og hvers vegna er þá ákvarðanatakan ekki færð í hendur örfárra gáfumanna sem valið gætu þau kerfi, hugmyndir og vörur sem móta eigi samfélagið og stjórna þróun þess? Hvers vegna ekki frekar að búa við menntað einveldi? Því samkvæmt Bernays hefur frjáls samkeppni orðið fyrir valinu og því hafi „samfélagið samþykkt að leyfa frjálsri samkeppni að vera skipulögð með forystu og áróðri“. Með öðrum orðum hefur samfélagið samþykkt að láta hið ósýnilega stjórnvald skapa samþykki sitt á hugmyndum, kerfum og vörum. Samþykkt að gangast undir hulið kennivald þeirra sem skapa áróðurinn. Og sé greining Bernays ekki gloppótt hefur fyrrgreinda samþykkið orðið til líkt og hið síðarnefnda, í gegnum hugmynd sem komið er fyrir með áróðri og samfélagið sjálft japlar svo á henni til sigurs og viðhalds.

Þegar pólitíkusar og álitsgjafar umorða Altúngu Voltaires og fullyrða að þó kerfið sem við búum við í dag — fukuyamískar bólfarir hins svonefnda frjálslynda lýðræðis og frjálsa markaðar, drifnar áfram á eldsneyti framfaranna — sé vissulega ekki fullkomið, sé það þrátt fyrir allt besta mögulega hugmyndakerfið sem í boði er; þá er um að ræða skólabókadæmi um samþykki að hætti Bernays. Enn einn frasinn tugginn manna á milli, til þess gerður að festa í sessi þá kreddu að hver einasta hugmynd um ólíka lifnaðarhætti og öðruvísi samfélagsskipulag en ríkir hér og nú, sé þeim ókosti búin að standa ekki jafnfætis hinu ófullkomna en þó besta fyrirkomulagi sem í boði er og alltaf verður. Amen og útgöngusálminn syngur Margaret Thatcher: „Það er ekkert alternatíf.“

Koffínlausar lausnir

Í skugga sálmsins stendur hin þversagnakennda lausnarkrafa. Gagnrýni krefst alltaf lausna og kallar á valkosti, og í viðleitni sinni við að bregðast við þeirri kröfu er sá sem gagnrýnir framfarastjórnmálin þjakaður af bernaysísku samþykki samfélagsins á því að raunverulegar lausnir séu ekki einungis óvelkomnar heldur einnig ástæðulausar. Og þar sem samþykkið þenur út vængi engilsins og stendur í vegi fyrir raunverulegum lausnum á hryllingnum sem hann sér, upplifir hann sig oft tilneyddan að koma í staðinn upp með sniðugar lausnir til að selja samfélaginu. Þær skulu vera einfaldar svo samfélagið skilji þær og kaupi um leið; jákvæðar, því skorin hefur verið upp herör gegn neikvæðni; neyslumiðaðar svo hægt sé að framkvæma þær í gegnum hversdagsleg verk þegnanna; einstaklingsmiðaðar, því þú þarft sjálfur að „vera breytingin sem þú vilt sjá í heiminum,“ eins og Gandhi sagði (reyndar aldrei25) svo spaklega; og loks friðsamar, því valdbeiting hinna valdalausu er fordæmd og síst af öllu sjálfgefin.

Í slíkum viðbrögðum við lausnakröfunni kristallast það sem slóvenski heimspekingurinn Slavoj Žižek kallar koffínlausan raunveruleika. Í dag býður markaðurinn upp á ógrynni varnings sem sviptur hefur verið illræmdum eiginleika sínum, segirŽižek og tekur sem dæmi koffínlaust kaffi, áfengislausan bjór og fituskertan rjóma:

Og listinn heldur áfram: Hvað um sýndarkynlíf sem kynlíf án kynlífs, kenningu Colins Powell um hernað án mannfalls (á okkar hlið, að sjálfsögðu) sem hernað án hernaðar, endurskilgreiningu samtímans á stjórnmálum sem stjórnkænsku sérfræðinga sem stjórnmál án stjórnmála?26

ANARCHY IS THE GREATEST SIN Og getum við þá ekki bætt við grænni orku, umbótum innan kirkjunnar, samfélagslegri ábyrgð stórfyrirtækja — hverri einustu hugmynd sem framkvæmd hefur verið í kjölfar ákalls um lausnir á vandamálum sem upp koma og skekkja ímynd stöðugleikans? Í andrúmslofti endaloka hugmyndafræðilegra átaka dafnar ekki ólíkur gróður og gagnrýni hneigist því gjarnan til koffínlausra lausna. Spurningin um vernd eða vinnslu náttúruauðlinda snýr þannig ekki að því hvort og þá hvers vegna — eða hvers vegna ekki — ætti að viðhalda þeim lífsháttum og menningu sem háð eru stórkostlegri ágengni mannsins gagnvart náttúru, „óæðra“ fólki og „frumstæðri“ menningu; heldur einfaldlega hvar og hvernig best er að halda vélinni gangandi, séð frá pólitísku, efnahagslegu, eða ímyndarlegu sjónarhorni. Með sama hætti hefur baráttan gegn kúgun kvenna að miklu leyti snúist upp í það markmið að koma konum á hæsta þyrlupall þess valdastrúktúrs og efnahagskerfis sem viðheldur þessari sömu kúgun — fullkomlega til marks um þá þversögn sem Žižek eignar koffínlausa veruleikanum, þar sem „fyrirbærið sem olli skaðanum ætti um leið að vera lyfið við honum.“27

Afkóðun tímaskyns, söguskilnings og tungumáls

Aftur á Nýlistasafnið þar sem útsýnið úr tímavél Angeli Novi er ekki einungis flókið og margslungið, heldur einnig pólaríserað af aldalangri sögu uppbyggingar og eyðileggingar, kúgunar og andófs — svo að hvorki smiðir hennar né farþegar gætu nokkurn tíma kallað eftir einföldu(ðu)m, koffínlausum viðbrögðum og lausnum við hamförunum sem þeir sjá, skynja og takast á við. Vekur það óhjákvæmilega upp vangaveltur um hvort einhverjar útgönguleiðir séu í raun til staðar. Eða er mannkynið dæmt til eilífrar kviksetningar? Dæmt til að verja tilveru sinni japlandi á frösum um leið og óstöðvandi katastrófan sem engill sögunnar horfir upp á — óréttlætishaugurinn eins og Žižek kallar hana — stækkar áfram inn í eilífðina?

Jáyrði við slíku væri auðvitað aum undirgefni við boðbera framfaragoðsagnarinnar. Nauðbeygð viðurkenning á þeim kjarna hugmyndafræði endaloka sögunnar að aðeins ein og óhjákvæmileg leið standi manninum til boða.

KÁRAHNJÚKAVIRKJUN SPRENGD Sprenging Kárahnjúkavirkjunar — sem í mynd Angeli Novi er framkölluð með sömu sprengingu og rústaði Dimmugljúfrum vorið 2003 og lék lykilhlutverk í áróðursherferð forkólfa framkvæmdanna — kallast ekki einungis á við sprengingu Miðkvíslarstíflunnar í Laxá haustið 1970, heldur gengur einnig beint inn í andófshefð sem rússneski anarkistinn Michail Bakunin hvatti til með þeim orðum að ástríðan fyrir eyðileggingu sé líka ástríða fyrir sköpun. Ólíkt eyðileggingarmætti framfaragoðsagnarinnar, sem hefur þann megin tilgang að vaða óhindruð áfram og ýta úr vegi þeim sem leggja stein í götu hennar, gerir slík eyðilegging ráð fyrir algjörri núllstillingu — úr ösku virkjunarinnar rísi því hvorki vindmyllur, gagnaver né aðrar koffínlausar lausnir.

Með myndum af skemmdum og óvirkum klukkum vísa Angeli Novi jafnframt til Júlíbyltingarinnar í Frakklandi árið 1830 og kalla þannig eftir vitund sem náskyld er skapandi eyðileggingu Bakunins og Walter Benjamin skýrði í fimmtándu tesu fyrrnefndrar ritgerðar, Um söguhugtakið:

Vitundin um að brjóta upp samfellu sögunnar er byltingarstéttum eiginleg á því augnabliki sem þær láta til skarar skríða. Franska byltingin tók nýtt tímatal í notkun. Fyrsti dagurinn í hverju dagatali gegnir því hlutverki að draga saman tíma sögunnar. Og að grunni til er það alltaf sami dagurinn sem snýr aftur í formi hátíðisdaga, sem eru minningardagar. Dagatölin telja sem sagt tímann ekki á sama hátt og klukkur gera. Þau bera vitni söguvitund sem virðist hafa horfið sporlaust úr Evrópu fyrir um hundrað árum. Strax í Júlíbyltingunni átti sér stað atvik þar sem þessi vitund fékk að njóta sín. Þegar fyrsti dagur átakanna var að kvöldi kominn, kom í ljós að skotið hafði verið á turnklukkur víða um París á sama tíma án þess að nein tengsl hafi verið þar á milli.28

DRULLA Þetta uppbrot á samfellu sögunnar „fangar tímann,“ eins og þýski heimspekingurinn Herbert Marcuse komst að orði29, lýsir um leið yfir algjöru gjaldþroti ríkjandi hugmyndafræði og strúktúra samfélagsins, og bindur þannig táknrænan endi á tíma kúgaranna. Í anda föngunar tímans og þess sem rithöfundurinn William Burroughs kallaði að „sprengja gat á tímann,“ ráðast Angeli Novi gegn línulegu tímaskyni og hugsun með því að afnema á köflum tímakóða myndefnisins sem þau meðhöndla. Þannig afmást mörk ólíkra mynda. Þannig hverfa gjár sem áður héldu tveimur eða fleiri ólíkum hugmyndum og sögulegum atburðum aðskildum. Og úr verður lífrænt upplausnarástand sem getur af sér ófyrirsjáanlega, kaótíska, stafræna mynddrullu — með öðrum orðum: anarkí, hina æðstu synd. Með afkóðun söguskilnings, tímaskynjunar og hugsunar er okkur ekki einungis fært að brjóta upp bilið milli hugmynda og atburða sem samkvæmt línulegri söguskoðun framfaragoðsagnarinnar eru til marks um krómatískt skref fyrir skref í ferðalaginu til fyrirheitna landsins; heldur reisa á sama tíma brýr milli andófs og uppreisna á ólíkum stöðum heimsins og sögulega fjarlægum tímabilum.

Það sama gildir um tungumálið, því ekki síður en klukkan — vítahringur vinnunnar, líf mannsins í gangverki vélarinnar — er ráðandi merking orðanna undir framfaragoðsögninni, einungis enn eitt tannhjólið. Rétt eins og tölur klukkunnar eru tákn um tiltekin skref í viðhaldi gangverksins, felur merking hvers orðs — hvers frasa, hverrar klisju — í sér niðurnegldar venjur og hugmyndafræðilega fasta. Árásirnar á klukkurnar haldast þannig augljóslega í hendur við árás á orðin — afkóðun tungumálsins. Eins og sprettunál rekur hún upp orðspor og merkingarþræði framfaragoðsagnarinnar. Líkt og hnífur sker hún í sundur silkiborða frasanna. Eins og gríðarstór skófla mokar hún upp hina kviksettu. Sem óvelkominn skrúflykill laumast hún milli tannhjóla vélarinnar og stendur þannig í vegi fyrir snúningi þeirra. Þannig opnast dyr, en ekki að vélum heldur að hugsun, skynjun og tilveru handan goðsagnarinnar — að ófyrirsjáanlegum og takmarkalausum möguleikum lífs án vélarinnar.30

________________________________________________________

Sjá einnig

Þóroddur Bjarnason: Jafnvægislist
Jón Proppé: Standing in the way of progress
Snorri Páll Jónsson Úlfhildarson: Angeli Novi’s Time Bomb Ticking in the Continuum of History

Angelinovi.com

________________________________________________________

Tilvísanir

1 Sama tækni hafði reyndar nokkrum mánuðum áður verið prófuð á annarri þýskri borg, Darmstadt.

2 Vert er að hafa í huga að tölur um mannfall vegna eyðileggingar Dresden voru lengi vel ekki á hreinu og hafa nýnasistar nýtt sér atburðinn og ýktar tölur um mannfall til þess að reyna að afla fylgis við hugmyndir sínar. Sjá t.d. ‘Post-War Myths’: The Logic Behind the Destruction of Dresden, Spiegel Online, 13. febrúar 2009.

3 Walter Benjamin: Um söguhugtakið. Greinar um söguspeki, þýð. Guðsteinn Bjarnason. Hugur, 2005, s. 27-36.

4 Jón Proppé: Standing in the way of progress, Kunstkritik, 19. nóvember 2012.

5 Georg Henrik von Wright: Framfaragoðsögnin, Reykjavík 2003, þýð. Þorleifur Hauksson, Hið íslenska bókmenntafélag, s. 83. Reyndar verður að teljast hæpið að segja orðið þróun, ólíkt framförum, vera hugtak sem mæla má með staðreyndum. Hin algenga skipting heimsins í þróuð lönd og þróunarlönd (eða vanþróuð lönd) er eitt skýrasta dæmið um það hvernig orðinu er gefin gildishlaðin merking og þannig ýtt undir þá skoðun að þróunarlöndin séu ekki nægilega langt á veg komin í þeirri sjálfgefnu vinnu að koma upp því efnahagslega og pólitíska kerfi sem þróuðu ríkin hafa komið upp.

6 Georg Henrik von Wright: Framfaragoðsögnin, 2003. Bls. 83.

7 Innrásarstríðið í Afganistan og áframhaldandi vera herja Atlantshafsbandalagsins þar í landi hefur til að mynda verið réttlætt af Amnesty International í nafni baráttunnar fyrir fyrir kvenfrelsi. Sjá t.d. Jodie Evans: Why I Had to Challenge Amnesty International-USA’s Claim That NATO’s Presence Benefits Afghan Women, 12. júli 2012, AlterNet.

8 Stríð stöðvar ekki áform Alcoa á Íslandi, Morgunblaðið, 17. mars 2003.

9 Georg Henrik von Wright: Framfaragoðsögnin. 2003, s. 84.

10 Felix Padel og Samarendra Das: Out of this Earth — East India Adivasis and the Aluminium Cartel, Orient Black Swan, Indlandi 2010, s. 276.

11 Fyrir ítarlega umfjöllun um tengsl ál- og hernaðariðnaðarins sjá t.d. „Aluminium for Defence and Prosperity“ í Felix Padel og Samarendra Das: Out of this Earth — East India Adivasis and the Aluminium Cartel, 2010, s. 265-395.

13 Felix Padel og Samarendra Das: Out of this Earth — East India Adivasis and the Aluminium Cartel, 2010, s. 366.

14 Felix Padel og Samarendra Das: Out of this Earth — East India Adivasis and the Aluminium Cartel, 2010s. 353.

15 Sjá t.d. David Barsamian: Interview with Arundhati Roy, The Progressive, apríl 2001. Roy segir til að mynda:„Hvernig get ég verið það [talsmaður eilífs viðhalds á venjum og hefðum]? Ég er kona sem ólst upp í þorpi á Indlandi og hef varið allri ævi minni í að berjast gegn hefðum. Ég vildi með engu móti vera hefðbundin indversk húsmóðir. Ég er ekki andstæð framförum. Viðfangsefni mitt er stjórnmál framfara.“

16 Arundhati Roy: Walking with the Comrades, 2010, upphaflega birt í Outlook Magazine, Delhi, Indlandi, síðar gefið út af Kasama Project, Indlandi.

17 Finnur Oddsson: Ludditar og gamlar hugmyndir, Morgunblaðið, 20. maí 2011.

18 Kirkpatrick Sale: Rebels Against the Future, 1996, Addison-Wesley Publishing Co., Bandaríkjunum, bls. 206.

19 Í stuttu máli varðaði Hegel endalok sögunnar við orrustuna um Jenu árið 1806. Sigur herja Napóleons þar á herjum Prússlands var, samkvæmt Hegel, til marks um sigur hugsjóna Frönsku byltingarinnar 1789 um frelsi, jafnrétti og bræðralag. Kojève hélt þessu sama fram eftir lok Síðari heimsstyrjaldarinnar og sagði átök síðustu einnar og hálfu aldar, síðan Hegel lagði fram sína kenningu, einungis hafa styrkt hugsjónir Frönsku byltingarinnar og stuðlað að enn frekari útbreiðslu þeirra. Marx skilgreindi endalok sögunnar sem kommúnískt samfélag eftir alræði öreiganna, hugmynd sem, ólíkt kenningu Kojève, felur ekki í sér að raunverulega sé komið að endalokum sögunnar.

20 Francis Fukuyama: The End of History?, 1989, The National Interest. Sjá einnig Francis Fukyama: The End of History and the Last Man, 1992, Free Press. Fukuyama hefur þó síðar sagt kenningu sína um endalok sögunnar hafa verið ófullkomna, en þá helst vegna þeirrar ógnar sem hann telur steðja að frjálslyndu lýðræði vegna vaxandi þróunar líftækni. Þetta breytir þó litlu um endalok-sögunnar-legt andrúmsloft dagsins í dag.

21 Francis Fukuyama: „The End of History?“, 1989.

Sjá t.d. Don Bates: “Mini-Me History” — Public Relations from the Dawn of Civilization, Institute for Public Relations, 2006, og Adam Curtis: The Century of the Self, 2002, BBC Four, Bretlandi. Valdaránið í Gvatemala er ekki síst þekkt fyrir aðkomu ávaxtafyrirtækisins United Fruit Company að því, en upp úr því varð útbreitt hugtakið „bananalýðveldi“— þökkum Bernays fyrir framlag hans til hugtakasmíði.

23 Edward Bernays: Propaganda, 1928, s. 9, Horace Liveright, New York.

24 Edward Bernays: Propaganda, 1928, s 10-11.

25 Sjá t.d. Brian Morton: Falser Words Were Never Spoken, New York Times 29. ágúst 2011.

26 Slavoj Žižek: A Cup of Decaf Reality, 2004, Lacan.com.

27 Slavoj Žižek: „A Cup of Decaf Reality“, 2004.

28 Walter Benjamin: „Um söguhugtakið. Greinar um söguspeki“, þýð. Guðsteinn Bjarnason, 2005.

29 Herbert Marcuse: „Liberation from the Affluent Society“, í David Cooper (ritst.): The Dialectics of Liberation, Penguin, Harmondsworth/Baltimore 1968, bls. 175-192. Ólafur Páll Sigurðsson hefur vakið athygli á því að Marcuse ruglast reyndar á Parísarkommúninni 1871 og Júlíbyltingunni 1830 og eignar hinni fyrrnefndu ranglega árásirnar á klukkurnar.

30 Bestu þakkir til Benedikts Hjartarsonar, Bryndísar Hrannar Ragnarsdóttur, Gunnhildar Hauksdóttur, Ólafs Páls Sigurðssonar, Steinars Braga, Steinunnar Gunnlaugsdóttur, Teits Magnússonar og Viðars Hreinssonar.

Jul 15 2012
2 Comments

Ísland innan Evrópuvirkisins? — Leynilegar lögregluaðgerðir, takmörkun óvelkominna innflytjenda og eftirlit í netheimum


Saving Iceland kynnir erindi þýska blaðamannsins og aktívistans Matthias Monroy í Reykjavíkur Akademíunni, mánudaginn 23. júlí kl. 20:00.

Fortress Europe Mál breska lögreglunjósnarans Mark Kennedy sýndi og sannaði hversu viðriðið Ísland er þau leynilegu lögreglunet sem síðan á seinni hluta tíunda áratugsins hafa laumast inn í og njósnað um andófshreyfingar umhverfissinna, anarkista og annara vinstrisinna. Á sama tíma hefur afhjúpun breska lögreglumannsins leitt í ljós að nánast ómögulegt er að stefna yfirvöldum fyrir dómstóla vegna ólöglegra, þverlandamæralegra lögregluaðgerða: Erfitt er að fá úr því skorið hvaða lögregluembætti í hvaða ríkjum eru ábyrg fyrir slíkum aðgerðum. Frá árinu 2005 og frameftir njósnaði Kennedy um Saving Iceland hreyfinguna sem barðist gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og nýtti sér síðar tengsl sín og reynslu frá Íslandi til njósna um andófshreyfingar um gjörvalla Evrópu.

Ísland er einnig viðriðið innflytjendastefnu Evrópusambandsins sem innan tveggja ára mun setja í gang gríðarstórt gervihnattaeftirlitskerfi, EUROSUR. Kerfið felur meðal annars í sér notkun loftfara og vinnur saman með „Smart Border“ kerfinu svokallaða sem fylgist með ferðum fólks yfir landamæri með greiningu líffræðilegra sérkenna og annarri svipaðri tækni. Á sama tíma hefur Evrópusambandið gert breytingar á Schengen landamærasamstarfinu sem Ísland á sömuleiðis þátt í, en samkomulagið var eitt af mikilvægustu skrefunum í átt af frjálsum ferðum fólks innan Evrópusambandsins. Nú hafa hins vegar Frakkland og Þýskaland aukið landamæraeftirlit á ný, meðal annars til að hindra ferðir alþjóðlegra andófshópa og til að halda löndum á borð við Grikkland undanskildum samkomulaginu. Ísland notar einnig slíkar aðferðir, til dæmis við að stjórna ferðum mótorhjólaklúbba.

Til að hindra komu óvelkominna innflytjenda yfir Evros ánna milli Grikklands og Tyrklands er nú í gangi rannsóknarverkefni á vegum Evrópusambandsins í tengslum við notkun vélmenna við landamæraeftirlit. Landamærastofnun Evrópusambandsins, FRONTEX, sem íslenska landhelgisgæslan hefur starfað fyrir í Miðjarðahafi, aðstoðar nú tyrknesk stjórnvöld við að koma fyrir lögreglu- og tollgæslustöð við landamæri Tyrklands, Búlgaríu og Grikklands. Í fyrsta sinn kemur evrópska lögreglustofnunin EUROPOL að slíku starfi en venjulega tekur stofnunin ekki þátt í baráttunni gegn innflytjendum.

Á hinn bóginn verður helsta verkefni EUROPOL nú eftirlit með svokölluðum „netglæpum“ og „nethryðjverkum“. Stofnunin býr yfir gríðarstórum gagnagrunnum og miklu magni stafrænnar rannsóknartækni sem notuð eru til að styðja við þverlandamæralegar aðgerðir lögregluembætta allra meðlimaríkja Evrópusambandsins. EUROPOL fylgist nú í auknu mæli með meintri „grunsamlegri“ hegðun á vefnum — þróun sem krefst aukins öryggis internet-aktívista sem og almennra borgara.

Í erindi sínu mun Monroy greina frá þróun þessara mála innan Evrópusambandsins, leynilegum lögregluaðgerðum gegn andófshópum, baráttunnni gegn óvelkomnum innflytjendum og auknu eftirliti í netheimum. Monroy mun einnig skýra frá því hvernig Ísland er viðriðið yfirstandandi aðgerðir og framtíðaráætlanir Evrópusambandsins í þeim efnum, sem og hvaða áhrif þær hafa nú þegar haft eða koma til með hafa hér á landi.

Erindið fer fram mánudaginn 23. júlí kl. 20:00 í Reykjavíkur Akademíunni sem er til húsa í JL Húsinu, Hringbraut 121, 107 Reykjavík. Erindið fer fram á ensku og aðgangur er ókeypis.

Fyrir frekari upplýsingar hafið samband við Saving Iceland: savingiceland [at] riseup.net

Safn frétta og greina Saving Iceland um mál Mark Kennedy

Greinasafn Matthias Monroy

May 22 2012
1 Comment

Sakaður um svik vegna skoðanna sinna


Crane Action at the Alcoa construction site Í helgarblaði DV 18.-20. maí sl. birtist drottningarviðtal við Janne Sigurðsson, nýjan forstjóra Alcoa Fjarðaáls. Í viðtalinu lýsir Janne meðal annars hópeflisfundum sem haldnir voru vegna mótmælanna gegn byggingu Kárahnjúkavirkjunar og álversins í Reyðafirði, í bland við tilfinningaklám þar sem hún líkir samfélaginu fyrir austan við dauðvona ömmu sína, hverrar lækningu mótmælendurnir börðust gegn. Einnig fullyrti Janne — og var ekki beðin um rökstyðja mál sitt nánar — að einungis fimm manns frá Austurlandi hafi verið andsnúnir virkjana- og álversframkvæmdunum.

Þann 21. maí birti DV hins vegar viðtal við Þórhall Þorsteinsson, einn þeirra Austfirðinga sem höfðu kjark og þor til að mótmæla framkvæmdunum. Í viðtalinu, sem snýr fullyrðingum Janne gjörsamlega á hvolf, kemur skýrt í ljóst hversu hörð kúgunin var á Austurlandi á þessum tíma — fólk var „kúgað til hlýðni“ eins og Þórhallur orðar það. Hann segir hér frá reynslu sinni, vinslitum, morðhótunum, tilraunum áhrifamanna til að hrekja hann úr vinnu og afskiptum Biskupsstofu og lögreglunnar af mótmælabúðum Saving Iceland — aðgerðum sem fengu hann til íhuga hvort hann byggi í lögregluríki.

Þórhallur Þorsteinsson Þórhallur Þorsteinsson er einn þeirra Austfirðinga sem mótmæltu aðgerðum á hálendi Austurlands vegna Kárahnjúkavirkjunar. Fyrir vikið var hann úthrópaður umhverfissinni og svikari, sakaður um að standa í vegi fyrir framþróun í samfélaginu. Áhrifamenn reyndu að hrekja hann úr starfi, hann þurfti að svara til saka gagnvart vinnuveitanda sínum og vinir hans snerust gegn honum. Undirbúningur vegna virkjunarinnar hófst árið 1999 en framkvæmdir hófust árið 2002. Virkjunin var síðan gangsett árið 2007 en þrátt fyrir að nú séu nokkur ár liðin frá því að baráttan stóð sem hæst hafa sárin ekki gróið.

„Það eru heimili hér á Egilsstöðum sem ég kem ekki inn á út af þessum deilum. Heimili þar sem ég var gestur kannski einu sinni til tvisvar í viku áður. Ég veit ekki hvort ég væri velkominn þangað í dag. Kannski. En þarna var ég að ósekju særður þeim sárum að ég hef ekkert þar inn að gera. Ég heilsa þessu fólki en ég hef ekkert inn á heimili þeirra að gera. Ég varð nánast fyrir einelti,“ segir Þórallur þar sem hann situr í hægindastól á heimili sínu á Egilsstöðum. Read More

Apr 04 2012

„Alþjóðlegir aðgerðasinnar gerðir að glæpamönnum“


Andrej Hunko and Jón Bjarki Magnússon Jón Bjarki Magnússon, DV

Þýski þingmaðurinn Andrej Hunko segir evrópsk lögregluyfirvöld stefna leynt og ljóst að auknu eftirliti með aðgerðasinnum

Þetta er kannski ekki lengur á allra vitorði en það er samt staðreynd, og skjalfest, að svona hafa lögregluyfirvöld á Vesturlöndum starfað alla 20. öldina.

„Þó okkur hafi ekki ennþá tekist að breyta lögunum þá hefur okkur tekist að vekja athygli á málefninu, sem er mjög mikilvægt.“ Þetta segir þingmaðurinn Andrej Hunko sem hefur undanfarið barist gegn njósnum evrópskra lögregluyfirvalda um meðlimi í frjálsum félagasamtökum [e. social movements]. Hunko, sem er þingmaður Die Linke, systurflokks VG í Þýskalandi, hefur áhyggjur af því að slíkar njósnir séu að færast í aukana. Þá sérstaklega vegna þess að pólitískar hreyfingar á vinstrivæng stjórnmálanna virðast sífellt oftar vera settar í flokk „vinstrisinnaðra öfgahópa og hryðjuverkasamtaka“ sem „þurfi“ að fylgjast grannt með.

„Ég hef áhyggjur af þróun þessara mála. Ég er algjörlega á móti því hvernig alþjóðlegir aðgerðasinnar eru kerfisbundið gerðir að glæpamönnum.“ Hunko sem situr í nefnd Evrópuþingsins um efnahags- og peningamál, bendir meðal annars á að verið sé að vinna að því að samræma lög aðildarríkja Evrópusambandsins þannig að lögreglunjósnarar eins aðildarríkis geti starfað í öðru án þess að þurfa til þess sérstakt leyfi eins og verið hefur til þessa. Telur hann þetta grafa undan starfi frjálsra félagasamtaka í álfunni. „Allt er þetta að gerast mjög hratt og án þess að nokkur upplýst umræða fari fram um málið, hvorki á meðal þingmanna þjóðþinganna né heldur Evrópuþingsins, og hvað þá almennings þessara landa.“ Blaðamaður DV hitti Hunko á skrifstofu hans í þýska þinginu í upphafi marsmánaðar.

Heimilt að njósna á Íslandi

Blaðamanni var í fyrstu neitað um inngöngu í þýska þingið þar sem hann gleymdi vegabréfinu. Í móttökunni sat kona sem hristi höfuðið ströng á svip og sagðist ekkert geta gert til þess að hjálpa. Þar sem blaðamaður stóð áttavilltur í anddyri hússins mætti honum brosmildur, hávaxinn og síðhærður maður. Göngulag hans var lauflétt, hárið grátt en sítt, og fyrr en varði var búið að opna dyrnar og hann benti blaðamanni að ganga inn. Eftir viðkomu í gegnumlýsingartæki öryggisvarðanna var gengið af stað og Hunko sagði aðeins frá þinghúsinu, þessari víðu álmu sem gleypti hann sjálfan og blaðamann á meðan gengið var upp stigana í átt að skrifstofu hans. Read More

Dec 18 2011

Búsáhaldauppreisnin byrjaði á Vaði í Skriðdal í ágúst 2005


Saving Iceland flaggar Bónussvíninu haustið 2008 Fáum dylst sú staðreynd að Búsáhaldauppreisnin sem felldi ríkistjórn Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í janúar 2009 á aðdraganda sinn og rætur í baráttu Saving Iceland. Saving Iceland endurhóf baráttuaðferðir svokallaðrar borgaralegrar óhlýðni í íslensku þjóðfélagi með fjölsóttum námskeiðum í beinum aðgerðum sumrin 2004 og 2005, og síðan með ótal mótmælaaðgerðum í gegnum árin, bæði hérlendis og erlendis. Þetta var á tíma sem einkenndist af algjöru andvaraleysi íslensks almennings og sögulegu máttleysi pólitísks andófs um leið og nýfrjálshyggjan tröllreið húsum á Íslandi.

Saving Iceland sáði ekki einungis nýjum andófsfræjum og baráttuaðferðum í íslenska grasrót heldur voru liðsmenn okkar ávallt í fremstu víglínu Búsáhaldauppþotanna, auk þess að eiga sífellt frumkvæðið í þeim mótmælum. Það er því ekki ofsagt að án Saving Iceland hefðu mótmælin veturinn 2008-2009 aldrei náð því sögulega hámarki sem þau gerðu. Þessi söguskoðun hefur verið staðfest bæði af álitsgjöfum úr háskólasamfélaginu og talsmönnum lögreglunnar, meira að segja á forsíðu Bónusmoggans.

Eftirfarandi viðtal við Guðmund Ármannsson bónda á Vaði í Skriðdal er tekið upp úr áróðursbæklingi Landsvirkjunar, útgefnum í október 2009 í tilefni formlegra verkloka við Kárahnjúkaódæðin. Um útgáfu sá m.a. Athygli ehf., hið illræmda almannatengsla fyrirtæki Landsvirkjunar.

Í samblandi við yfirgengilegt sjálfshól tæknikratanna og sæg sögufalsana er stungið inn í hátíðarbæklinginn, sem einskonar málamynda jafnvægi við allan áróðurinn, nokkrum viðtalsbútum við Guðmund Ármannsson og Örn Þorleifsson í Húsey.

Guðmundur á Vaði talar um að lögreglan hafi haft „undirtökin“ í viðureign sinni við mótmælendur Saving Iceland sumarið 2005. Í þessu sambandi viljum við benda á að þrátt fyrir einbeittan brotavilja sinn á lýðræðisbundnum rétti til mótmæla og allan viðbúnað, erlenda flugumenn og ofbeldi hefur íslensku lögreglunni aldrei tekist að koma í veg fyrir eina einustu aðgerð Saving Iceland.

Eftir að lögreglan hrakti Saving Iceland frá Kárahnjúkum sumarið 2005, með hótunum um að ganga í skrokk á okkur með Víkingasveitinni, fluttum við okkur um set á bújörð Grétu Óskar Sigurðardóttur og Guðmundar á Vaði. Okkur dylst að vísu hvernig Guðmundur fór að því að draga þá ályktun að sumir af erlendu aðgerðasinnunum hafi haft þrönga sýn, því sökum tungumálaörðuleika var fátt um samræður milli hans og þeirra. Þrátt fyrir stöðugt umsátur og áreitni lögreglunnar framkvæmdum við öflug mótmæli frá Vaði, bæði á Kárahnjúkum sjálfum og á byggingarlóð ALCOA í Reyðarfirði, þar sem við stöðvuðum enn á ný alla vinnu í margar klukkustundir.

Atburðirnir á Vaði sem Guðmundur vísar í, þegar við hröktum burt ringlað og ráðþrota handtökulið lögreglunnar með háværu pottaglamri og flautum, eru vissulega táknrænt upphaf Búsáhaldauppreisnarinnar.

radhus-rvk-sept-2005 Eftir að við síðan, í ágúst 2005, færðum okkur til Reykjavíkur héldum við áfram að mótmæla stóriðjustefnunni m.a. með því að berja potta og pönnur fyrir framan Ráðhús Reykjavíkur, álráðstefnu á Hótel Nordica og við álver Alcan í Straumsvík.

Þann öfluga takt námu eyru þjóðarinnar og hann endurómaði í þjóðfélagsátökunum veturinn 2008-2009. Read More

Dec 18 2011

Þýskur þingmaður krefst óháðrar alþjóðlegrar rannsóknar á störfum Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara


Íslenskir lögreglumenn hafa afskipti af eigin flugumanni (M.Kennedy) Breska dagblaðið The Guardian greindi nú um helgina frá málsókn átta kvenna á hendur bresku lögreglunni í ljósi þess að þær voru gabbaðar í ástarsambönd við flugumenn lögreglunnar allt frá miðjum 9. áratug síðustu aldar til ársins 2010. Einn þessara flugumanna er Mark Kennedy en eins og margoft hefur verið fjallað um í fjölmiðlum síðasta árið ferðaðist Mark Kennedy til 22 Evrópulanda, Íslands þar á meðal, á því sjö ára tímabili sem hann starfaði sem flugumaður bresku lögreglunnar, safnaði þar upplýsingum um andófshreyfingar og notaði meðal annars ástar- og kynlífssambönd sem tæki til að nálgast upplýsingar.

Andrej Hunko, þingmaður Der Linke í Þýskalandi, sendi í gær frá sér yfirlýsingu þar sem hann fagnar málsókn kvennana. Segir hann störf flugumannanna brjóta í bága við 8. grein Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt til einka- og fjölskyldulífs. Þýsk og írsk yfirvöld hafa fyrir löngu viðurkennt að hafa haft vitneskju um störf Kennedy og átt í samstarfi við hann á meðan hann starfði sem flugumaður. Kennedy sagði sjálfur eftirfarandi í viðtali við breska blaðið Daily Mail: „Ég fór aldrei til útlanda nema með leyfi frá yfirmönnum mínum og lögreglunni á staðnum.“

Í yfirlýsingu Hunko, sem meðal annars hefur verið birt á vefsíðu Saving Iceland, segir að nauðsynlegt sé að setja á fót óháða og alþjóðlega rannsókn á máli Mark Kennedy og annara lögreglunjósnara sem plantað hefur verið í andófshópa um víða veröld. Þannig megi komast að hinu sanna um störf flugumanna í löndum á borð við Ísland, Ítalíu, Frakkland, Írland, Bandaríkin og Þýskaland. Áður en slík rannsókn fari fram þurfi hins vegar ítarlegar rannsóknir að eiga sér stað í þeim löndum sem Kennedy og aðrir flugumenn hafa starfað. Það þurfi bresk stjórnvöld að samþykkja.

Eins og kunnugt er óskaði Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, eftir rannsókn á vitneskju og samstarfi íslenskra lögregluyfirvalda við Mark Kennedy í tengslum við njósnir hans á Saving Iceland hreyfingunni, meðal annars í mótmælabúðum á Kárahnjúkum sumarið 2005. Fátt var um efnisleg svör hjá Ríkislögreglustjóra og var því til stuðnings helst vitnað til þagnarskyldu íslensku lögreglunnar gagnvart þeirri bresku. Tók Ögmundur undir þann útúrsnúning. Eins og Hunko bendir á þarf að aflétta þeirri þagnarskyldu svo sannleikurinn megi koma í ljós. Read More

Nov 09 2011
1 Comment

Frá Síberíu til Íslands: Century Aluminum, Glencore International og skuggaveröld námuvinnslu


Ivan Glasenberg, Glencore International Sérstök samantekt fyrir Saving Iceland, eftir Dónal O’Driscoll

Formáli

Fyrirtækið Glencore er aðaleigandi Century Aluminum sem á eitt starfandi álver á Íslandi og annað hálfbyggt. Ísland er þannig aðalframleiðsluland áls fyrir Century. Hverjir standa að baki Glencore og hvaða þýðingu hefur það fyrir Ísland? Í þessari grein er fjallað um þennan stærsta hrávörumiðlara heims síðan Enron var og hét. Myndin sem dregin er upp sýnir bæði umfang og eðli áhrifa Glencore á heimsmörkuðum fyrir málma, korn, kol og olíu – fyrirtækið getur stjórnað verðmyndun svo að fáir útvaldir hagnast gríðarlega meðan almenningur tapar. Greinin varpar ljósi á þéttriðið tengslanet milli Glencore og nokkurra stærstu námufyrirtækja heims, tengsl sem felast í sameiginlegu eignarhaldi á öðrum fyrirtækjum og því að sömu aðilar eiga sæti í stjórnum fyrirtækjanna. Sagt er frá helstu hluthöfum í Glencore, sem sumir hverjir eiga stærri hlut persónulega en stofnanafjárfestar. Meðal þessara hluthafa má nefna fjárfestinn Nathaniel Rothschild sem á rúmar 40 milljónir dala í Glencore og er auk þess persónulegur vinur þeirra Peter Mandelson (breskur stjórnmálamaður og fyrrverandi viðskiptafulltrúi Evrópusambandsins) og George Osborne, núverandi fjármálaráðherra Bretlands.

Demonstration outside Glencore’s Switzerland headquarters. Í greininni er ennfremur lýst mannréttindabrotum og umhverfisspjöllum sem skrifa má á reikning Glencore. Þar má fremst telja morðið á leiðtoga Maya indíána í Guatemala, Adolfo Ich Chamán, árið 2009. Adolfo hafði mótmælt framkvæmdum Glencore í Guatemala meðan Peter Jones var framkvæmdastjóri fyrirtækisins (Jones situr enn í stjórn Glencore). Færð eru rök fyrir því að Glencore hafi fleiri umhverfisspjöll og mannréttindabrot á samviskunni en flest önnur námafyrirtæki, enda hikar fyrirtækið ekki við að eiga í viðskiptum þar sem aðrir halda sig fjarri, t.d. í Kongó og Mið-Asíu ríkjum. Sem dæmi má nefna að Glencore stundaði viðskipti við Írak í tíð Saddam Hussein og við Suður-Afríku aðskilnaðarstefnunnar – bæði löndin voru undir alþjóðlegu viðskiptabanni. Marc Rich, stofnandi Glencore, átti í viðskiptum með íranska olíu þrátt fyrir viðskiptabann Bandaríkjamanna á landið. Þessi viðskipti urðu til þess að Rich var ásakaður um innherjaviðskipti og skattsvik og flúði hann því Bandaríkin árið 1983. Hann var fyrir vikið eftirlýstur af FBI og var á tímabili einn af 10 mest eftirsóttum glæpamönnum Bandaríkjanna, eða þar til Bill Clinton náðaði hann. Glencore er enn rekið af tveimur helstu samstarfsmönnum Richs.

Read More

Pages: 1 2

May 26 2011

Súrálsslys á Indlandi: Vedanta enn á ferð


Women sit on the tracks, with the factory behind. Greinin birtist upphaflega á vefsíðunni Róstur sem því miður er ekki aðgengileg í dag.

Þann 16. maí sl. lak eitruð rauð leðja – efni sem verður til við súrálsframleiðslu – úr einum af leðjulónum breska námufyrirtækisins Vedanta í Odisha, Indlandi, og yfir í þorp sem stendur fyrir neðan lónið í hæðum Niyamgiri fjallsins. Leðjan, sem lak út í kjölfar mikils og þungs regns, slapp út um sprungu á veggjunum sem eiga að halda henni í lóninu og er þetta í annað sinn sem slíkt gerist á rúmum mánuði, í fyrra skiptið mengaði leðjan ár og tjarnir í nágrenninu. Þetta kemur sér illa fyrir Vedanta nú þegar einungis tveir mánuðir eru þangað til árlegur aðalfundur fyrirtækisins fer fram í London.

Frá þessu greinir breski jarðfræðingurinn Miriam Rose, sem nú er stödd á Indlandi og kom að staðnum sem um ræðir daginn eftir slysið, þann 17. maí. Í grein hennar, sem birtist á vefsíðu náttúruverndarhreyfingarinnar Saving Iceland, segir hún meðal annars að þrátt fyrir tilraunir starfsmanna Vedanta til að fjarlægja öll ummerki um slysið, hafi leðjan legið á víð og dreif þegar hún kom til þorpsins, auk þess sem tjörn í miðju þorpinu var eldrauð á lit. Vísað er í umfjöllum viðskiptablaðsins Wall Street Journal þann 18. maí um slysið þar sem vitnað er í heimamanninn Sunendra Nag. Hann segir mengunina, sem lekið hefur í Vansadhara ána, hafa leitt til þess að ómögulegt sé að drekka vatn árinnar lengur en fólk baði sig ennþá í henni vegna þess eins að því standi ekkert annað til boða. Afleiðingarnar séu augna- og húðsjúkdómar. Read More

May 20 2011
5 Comments

Undanbrögð og yfirhylmingar með blessun ráðherra


Hans Ömurleiki Yfirlýsing frá Saving Iceland vegna nýútkomnar skýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra

Saving Iceland hreyfingin hefur skoðað nýbirta skýrslu ríkislögreglustjóra og hefur í fyrstu atrennu fram að færa nokkurn fjölda athugasemda þar að lútandi. Það er mikilvægt að það komi strax fram að okkur þykir miklum undrum sæta ef Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, ætlar að sætta sig við þá illa rökstuddu yfirhylmingu sem viðhöfð er með skýrslu ríkislögreglustjóra. Það sætir einnig furðu hversu yfirborðsleg og hreinlega röng greining ráðherrans, og um leið sumra helstu fjölmiðla landsins, hefur verið á skýrslunni.

Alvarlegasti meinbugur skýrslunnar er auðvitað sú staðreynd að algjörlega er vikið undan þeirri ábyrgð sem henni er formlega ætlað að axla. Einu upplýsingarnar sem raunverulega snerta á umfjöllunarefni skýrslunnar eru á bls. 12 þar sem segir að „trúnaðarupplýsingar“ hafi borist lögreglu um fyrirhuguð mótmæli frá bæði innlendum og erlendum „upplýsingagjöfum“ sem nýttar hafi verið til að skipuleggja viðbrögð lögreglu. Read More